Boltum léttum blaka rjóð ...

solheimajokull07Í vetur hef ég verið að upplifa alveg nýja hluti í lífi mínu – atburði, félagstengsl og athafnir sem mig hefði aldrei órað fyrir að ég ætti eftir að verða þátttakandi í. Ég er orðin meðlimur í björgunarsveit Vestfjarða, farin að spila blak með Skellunum á Ísafirði, hef verið að syngja í tveimur kórum, Sunnukórnum og nýstofnuðum kvennakór sem nefnist Valkyrjurnar.

Dæmigerð vikan hjá mér gæti sumsé byrjað með fræðslufundi á mánudagskvöldi, þá er blakæfing og kór á þriðjudegi, síðan kóræfing og leitaræfing á miðvikudegi, blak á fimmtudegi og svo leitaræfing á sunnudegi. Þessu verður eiginlega best lýst svona: 

  • Boltum léttum blaka rjóð, 
  • brölti milli fundanna. 
  • Í kórum frem ég fögur hljóð
  •  og fer svo beint "í hundana"!

 snjoleit

Fyrst langar mig að segja ykkur frá Björgunarhundasveitinni á Ísafirði.

Í haust fór ég að æfa tíkina mína hana Blíðu með björgunarhundasveitinni. Blíða er 18 mánaða dalmatíu-hundur, orkumikill og sterkur. Alla sunnudaga höfum við æft með sveitinni ásamt sex öðrum unghundum og eigendum þeirra, allt að fjóra klukkutíma á dag. Það kom mér á óvart hve öflug þessi leitarsveit er hér á Ísafirði – en þarna fer fram öflugt starf af miklum dugnaði og áhuga, eins og sjá má á heimasíðu sveitarinnar http://www.simnet.is/bjorgunarhundar, en þar er að finna bæði frásagnir og myndir af starfinu. Við höfum til dæmis haft æfingar á Mýrdalsjökli í janúar og Snæfellsjökli í febrúar. Um miðjan mars verður svo farið í fimm daga æfingabúðir upp á öræfi, og haldið til við Kröflu. Þetta stjákl í snjó og kulda reynir talsvert á okkur vinkonurnar, en við erum býsna stæltar orðnar báðar tvær.

Fundabröltið 

Nokkru áður en ég gekk til liðs við leitarsveitina tók ég að mér formennsku í Vestfjarða-akademíunni, en það er félagsskapur fræðimanna á Vestfjörðum sem ég átti þátt í að stofna fyrir rúmu ári. Félagið beitir sér fyrir umræðu og fyrirlestrum í samstarfi við ýmsa aðila, einkum Háskólasetur Vestfjarða. Það er gaman að taka þátt í þessu starfi. Nú erum við komin með vísi að heimasíðu sem Háskólasetur Vestfjarða hefur verið svo elskulegt að vista fyrir okkur http://www.hsvest.is/vak .  

Blakið 

Jæja, svo skellti ég mér til liðs við blak-liðið Skellurnar, en það er hópur kjarnakvenna sem æfa tvisvar í viku. Ég hef svosem aldrei verið mikil íþróttakona (nema þá helst í hestamennskunni) svo ég var eiginlega algjör byrjandi. Þær hafa hinsvegar sýnt mér mikla þolinmæði á meðan ég hef verið að komast upp á lag með blak-listina, smöss og fingurslög með meiru. Um næstu helgi er stefnan tekin á  Akranes til þess að taka þátt í blakmóti á laugardeginum. Þetta verður mitt fyrsta keppnismót í þessari íþrótt. Ég reikna með að verða mest á varamannabekknum, enda “yngst” í liðinu (þó ég sé líklega elst í árum) – en ég mun ekki draga af mér á bekknum við að hvetja.

Svo er það kórastarfið

Já, því fylgir nú ýmislegt. Hver hefði t.d. trúað því fyrir fáum mánuðum að Ólína Þorvarðardóttir stæði upp fyrir haus að baka ofan í togaráhafnir í fjáröflunarskyni fyrir kvennakór. En það er svo mikill hugur í Valkyrjunum að nú eru allar klær hafðar úti við að afla aura til að fjármagna þátttöku í kóramótum og fleiru. Í fyrradag komum við saman sex konur heima hjá mér og bökuðum einhver ósköp fyrir áhöfnina á Júlíusi Geirmundssyni. Næst á dagskrá er svo “hatta-ballið”, en það verður árshátíð kórsins sem jafnframt verður fjáröflunardansleikur þann 24. mars. Það verður fjör! 

Jamm, enginn veit sína ævina ... og dag skal að kveldi lofa!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég mun keppa við þig á laugardag í blaki. Það verður gaman að sjá þig smassa

Kristín Sævarsdóttir (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 13:03

2 identicon

Jamm, við sjáum nú til með smössin - en ég hlakka allavega til að mæta á svæðið

Ólína (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 16:04

3 identicon

Flott síða hjá þér Ólína, það verður gaman að fylgjast með annað slagið :-) Kveðja, Fanney

Fanney Pálsdóttir (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 20:31

4 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Sæl Ólína, skemmtilegur pistill, sá að þú varst á Sólheimajökli í Janúar með Björk (bróðurdóttur minni) og Krumma. takk fyrir mig ;)

Ester Sveinbjarnardóttir, 2.3.2007 kl. 13:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband