Klisjukennd mynd um undarlegt fólk undir jökli

snaefellsjokullFór að sjá tvær myndir á kvikmyndahátíðinni í Háskólabíói í kvöld. Stuttmyndina Melt (Bráðnun) sem er sannkallað listaverk, myndatakan, tónlistin og hugmyndin. Falleg og sterk upplifun.

Seinni myndin var ekki jafn heilsteypt: Dularmögn Snæfellsjökuls eftir franskan höfund - hvers nafn ég ekki man. 

Myndin er klisjukennt safn af frásögnum fólks um dularreynslu sína í námunda við jökulinn. Hún er tekin í þoku. Jökullinn sjálfur sést aldrei nema sem málverk, teikning eða ljósmynd, og því augljóst að kvikmyndagerðarmennirnir hafa ekki tafið lengi á Snæfellsnesinu - a.m.k. ekki nógu lengi til þess að jökullinn hreinsaði af sér.  Inn á milli frásagna af orku jökulsins og huldum vættum hans voru leikin undarlega uppstillt tónlistaratriði sem áttu að magna upp einhverja tilfinningu fyrir menningarrótum þessarar furðulegu þjóðar sem myndin sýndi - en stungu í stúf við allt annað. 

Útlendingar sem sjá þessa mynd sannfærast um að Íslendingar séu stórundarlegt fólk sem sjái huldar vættir í stokkum og steinum, trúi staðfastlega á geimverur, og syngi framandlega fimmundarsöngva í tíma og ótíma, gjarnan íklætt síðum kuflum með ennisband um höfuð, berjandi skinntrommur í flæðarmáli eða inni í helli, milli þess sem þeir undirbúa heimsóknir geimvera eða knýja á kletta og steina í von um að upp lokið verði fyrir þeim.  

Þið vitið ... klisjan sem Björk blessunin innleiddi hér um árið, án þess að ég vilji nú hnýta í þá ágætu konu ... klisjan sem fer í mínar fínust þjóðfræðitaugar, en ég átta mig líka á að þýðir lítið að rökræða við útlendinga, svo innprentuð er þessi ímynd orðin í hugarþel þeirra sem koma hingað til að leita að séríslenskum einkennum.
Blogga kannski meira um þessa brengluðu þjóðarímynd síðar .... og þá í öðru samhengi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: AK-72

Sá þessa mynd á Skjaldborgar-hátíðinni fyrir vestan og ekki get ég sagt að hún hafi vakið nokkra lukku þar. Skilst að höfundurinn hafi gert aðra í svipuðum dúr sem framkallaði jafnmikinn kjánahroll hjá meðal Íslendingi eins og þessi.

AK-72, 22.9.2009 kl. 23:23

2 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Skjaldborgarhátíðin?  Var það sama skjaldborg og átti að vera búið að slá um heimilin?

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 23.9.2009 kl. 00:19

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég er af "Vondu fólki"  kominn í báðar ættir og hefði gjarnan viljað sjá myndina.

Sigurður Þórðarson, 23.9.2009 kl. 06:57

4 Smámynd: AK-72

Nei, Gísli, það er heimildarmyndahátíð á Patreksfirði sem er haldin á hverju ári m hvítasunnu. Stundum er nú ágætt að skilja sig aðeins frá pólitíkinni í umræðu, sérstaklega þegar kemur að kvikmyndum:)

AK-72, 23.9.2009 kl. 09:02

5 Smámynd: Garún

haha nákvæmlega AK-72.  Það var mín fyrsta hugsun þegar ég las kommentið.  Er bara hægt að tala um politík? 

Garún, 23.9.2009 kl. 09:19

6 Smámynd: Villi Asgeirsson

Skemmtilegt hvernig verri myndin fær meira umtal og verður þannig áhugaverðari.

Villi Asgeirsson, 23.9.2009 kl. 19:53

7 Smámynd: AK-72

Það er alltaf þannig, Villi. Sjáðu t.d. Anti-Christ hans Triers, hún fær meira umtal út á það hversu sjokkerandi og ógeðsleg hún á að vera en hvort hún sé góð, hvernig sagan er eða aðrir þættir.

AK-72, 23.9.2009 kl. 20:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband