Nýja Ísland - kemur þú?

world_trade_center_epa Þegar tvítyrni  heimsviðskiptahallarinnar í New York hrundi til grunna þann 11. september 2001 gaus upp  kæfandi mökkur sem varð fjölda manns að fjörtjóni. Björgunarsveitir höfðu sumar hverjar orðið of skjótar á vettvang,  með þeim skelfilegu afleiðingum að fjöldi slökkviliðs- og björgunarmanna lét lífið þegar byggingarnar jöfnuðust við jörðu. Dágóður tími leið áður en rofaði til og menn gátu metið afleiðingar þess sem gerst hafði.

Við hrun íslensku bankanna í október 2008 þyrlaðist líka upp þykkur mökkur. Almenningur hafði enga grein gert sér fyrir því  hve hættulega háir turnar höfðu verið reistir á íslenskum fjármálamarkaði fram að því. En óbærilegur mökkurinn sem fylgdi hruninu segir sína sögu um skefjalausa viðskiptahætti, ábyrgðarleysi og hóflausa græðgi. Og sú saga varðar ekki einungis fjármálafíflin sem steyptu okkur því sem næst í glötun. Nei, hún fjallar líka um öll hin fíflin, sem eltu skinið af glópagullinu eins og vanvita börn. Fjölmiðlana sem góndu hrifnir upp í fjármálaspekúlantana, flöttu myndirnar af þeim á forsíður tímaritanna, kusu þá viðskiptasnillinga og frumkvöðla ársins á meðan þeir frömdu samsæri sitt gegn þjóðinni. Stjórnmálamenn okkar - jafnvel forsetinn - fylgdu þeim eins og skugginn í erlendar viðskipta- og kynningarferðir, studdu við „íslensku útrásina" og fluttu um hana loðmullulegar lofræður við glasaglaum og ljósleiftur á blaðamannafundum. Almenningur horfði á í aðdáun og hrifningu.

Þjóðarskömmin

Nú situr óbragðið eftir - skömmin.  Það er þjóðarskömm. Við finnum öll til hennar ... öll, nema kannski þeir sem enn neita að horfast í augu við ábyrgð sína á því sem gerðist. Það gæti til dæmis átt við um þá þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem flestir sátu hjá við afgreiðslu þingsins á ríkisábyrgð vegna Icesave samninganna. Flokkurinn sem ber höfuð ábyrgð á hugmyndafræði Hrunadansins, flokkurinn sem innleiddi þá taumlausu frjálshyggju sem dansað var eftir, hann „sat hjá" þegar tekist var á við afleiðingarnar. Skilaði auðu. Það var átakanlegt að sjá.

Verður Ísland nokkurn tíma samt aftur?  Vonandi ekki.  Sannleikurinn er sá, að það Ísland sem við kvöddum í október 2008 var ekki gott í gegn. Þó að allt liti vel út á yfirborðinu, hagtölur sýndu almenna velmegun, landið mældist meðal tíu efnuðustu þjóða heims (jafnvel ein hamingjusamasta þjóð í heimi) og ríkissjóður væri orðinn nokkurn veginn skuldlaus, þá voru innviðirnir ekki í lagi.

Fjármálakerfið var ofþanið,  neyslan óhófleg, skuldasöfnunin úr böndum - ekki síst í undirstöðuatvinnuvegi okkar, sjávarútveginum. En verst var þó að siðferðisþrek þjóðarinnar hafði látið undan síga. Um það vitna upplýsingar sem nú eru að koma í ljós um umfang skattsvika og svarta atvinnustarfsemi, hagsmunagæslu og krosseignatengsl í viðskiptalífinu, getuleysi eftirlitsstofnana og gáleysi stjórnvalda.

Já, stjórnvöld brugðust hlutverki sínu. Þau gleymdu sér við hrævareldana og uggðu ekki að sér. Í stað þess að safna í kornhlöðurnar til mögru áranna var slegið slöku við aðdrættina. Á góðæristímanum 1993-2007 var farið í skattalækkanir sem komu sér vel fyrir þá tekjuháu á meðan hlutfallslegar byrðar jukust á þá tekjulágu. Hinu mikilvæga jöfnunarhlutverki skattkerfisins var raskað og tekjulindin rýrð. Lætur nærri að ef skattalækkanir áranna 2003-2007 yrðu framreiknaðar á núvirði, hefðu þær náð langt með að greiða niður halla ríkissjóðs á þessu ári. En því er nú ekki að heilsa. Kornhlöðurnar eru galtómar, og fátt um aðföng.

Í hverju felast átökin?

Af þeirri óvægnu umræðu sem verið hefur í samfélaginu undanfarna mánuði mætti stundum ætla að þau stjórnvöld sem nú sitja hafi hætt sér of snemma inn á björgunarvettvanginn. Að minnsta kosti er enginn hörgull á fúkyrðum og úrtölum þeirra sem telja sig geta verið áhorfendur að björgunarstarfinu og hvorki þora né vilja leggja því lið. En endurreisn samfélags getur ekki orðið nema með þátttöku allra. Þá á ég annars vegar við atvinnuvegina, stéttarfélögin, stjórnvöld og almenning - hins vegar þá sem ráðandi eru í opinberri umræðu, þ.e. fjölmiðlana, fræðasamfélagið og stjórnmálamenn.

Okkar bíður mikið starf. Meinsemdir þær sem ollu bankahruninu eru margar hverjar enn til staðar í íslensku samfélagi, og það mun sjálfsagt taka ár og áratugi að vinna á þeim bug. Við sjáum þær

  • í ósanngjörnu kvótakerfi;
  • í þvermóðsku fjármálastofnana við að veita stjórnvöldum upplýsingar vegna rannsóknar á hruninu;
  • á fáránlegum kröfum stjórnenda fjármálafyrirtækja um svimandi háar bónus greiðslur;
  • í afskriftum hárra skulda gagnvart útvöldum á meðan fjölskyldur eru að bugast og menn að brotna undan skuldabyrði;
  • í upplýsingum um umfang skattsvika og misnotkun opinberra bóta.
  • Síðast en ekki síst sjáum við meinsemdirnar í afneitun og afstöðuleysi þeirra sem stærsta ábyrgð bera á hruninu og hugmyndastefnu þess.

Nei, gleymum ekki á hvaða vettvangi við erum, íslensk þjóð. Við erum stödd í þrotabúi  þeirrar skefjalausu frjálshyggju sem reið hér húsum. Og meinsemdirnar sem ollu hruninu eru flestar enn til staðar.

Átökin í íslenskum stjórnmálum næstu misserin munu m.a. snúast um það hvernig gert verður upp við fortíðina, og þá hugmyndafræði sem leiddi okkur í núverandi stöðu. Þau munu snúast um það

  • hvaða aðferðum verði beitt við uppgjörið vegna bankahrunsins;
  • hvaða aðferðum verði beitt við endurreisn efnahagskerfisins og hvort takast megi að verja grunnþætti velferðarkerfisins, mikilvæga almannahagsmuni, auðlindir o.s. frv.;
  • hvort gerðar verða nauðsynlegar leiðréttingar á óréttlátu kvótakerfi;
  • hvort leikreglur viðskiptalífsins verða endurhannaðar;
  • hvort komið verður hér á nauðsynlegum lýðræðisumbótum;
  • hvort siðbót muni eiga sér stað í íslenskum stjórnmálum og viðskiptalífi;
  • já, hvort spilin verða stokkuð upp og hvernig gefið verður upp á nýtt.

Átök komandi missera í íslenskum stjórnmálum munu snúast um það hvort eitthvert uppgjör muni eiga sér stað yfirleitt.

Gleymum því ekki að það eru sterk öfl að verki í íslensku samfélagi sem vilja ekkert við ábyrgð sína kannast, og vilja því ekkert endurmat og engin skuldaskil.

----------------------

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Ja hérna! Hvílík grein! Hafðu þökk fyrir. Í dag sannaðist, sem svo oft fyrr að það borgar sig að fara snemma á fætur! 

Ingimundur Bergmann, 19.9.2009 kl. 09:48

2 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Flott grein. Vona að sem flestir lesi hana.

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 19.9.2009 kl. 10:14

3 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Geir Haarde var í spjallþætti Skavlan á NRK í gær og sagði að íslensku bankarnir hefðu hrunið vegna ESB ákvæða um bankastarfsemi. ESB er sem sagt vandinn. Hann sá mest eftir því að hafa farið eftir ESB reglugerðunum. Slóttugur slöttólfur. Viðmælandi hans þóttist ekki heyra þetta.

Á alþjóða vettvangi þá lítum við út einsog aðrir en það sem kemur frá okkur skilst ekki einu sinni þó það sé textað. Sjálfstæðismenn hafa komið sér saman um 'línu' sem þeir ætla að fylgja í gegnum þykkt og þunnt. Kannski það sé hægt að tala svona á Íslandi en erlendis verður þetta ekki skilið öðruvísi en að við höfum ekkert lært og reynum að skjóta okkur undan ábyrgðinni.

Gísli Ingvarsson, 19.9.2009 kl. 10:39

4 Smámynd: Bjarni Líndal Gestsson

Góð grein. Hefði ekki viljað missa af henni. En eins og þú veist fáum við ekki Fréttablaðið hingað vestur.

Bjarni Líndal Gestsson, 19.9.2009 kl. 10:45

5 Smámynd: josira

Takk fyrir frábæra og vel orðaða grein...

josira, 19.9.2009 kl. 11:56

6 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Flottur pistill Ólína.... mjög flottur.

Heiða B. Heiðars, 19.9.2009 kl. 12:40

7 Smámynd: Offari

Flott grein hjá þér Ólína en það er eitt sem ég er ósáttur við hjá þér. Þú leyfir þér að kalla fólkið fífl. Þetta fólk sem þú kallar fífl eru þínir atvinnurekendur og þótt svo að fólk sé fífl þá er til máltæki sem segir að oft megi satt kjurt liggja.

 

Flestir vilja festast í þetta að þeir sem ekki séu sammála þeim séu fifl.  Þetta er stór misskilningur því þetta er bara fólk með aðra skoðun.  Ég er tildæmis mjög neikvæður gagnvart Esb og Icesave en ég tel mig ekki geta kallað þá fífl sem  samþykktu aðildarviðræður og Icsave samninginn. Því  ég tel að þar fylgi menn eigin sannfæringu og reynist sú sannfæring röng ætla ég heldur ekki að kalla þá fífl.

 

Mér finnst góð samlíking að líkja bankahrunið við árásina á tvíburaturnana því þjóðfélagið gjörbreyttist við bæði þessi ósköp þó held ég að íbúar Bandaríkjahrepps hafi fengið meiri samúð frá öðrum þjóðum meðan við erum að einangrast.

 

Frjálshyggjukerfið hrundi vegna oftöku sumra, græðgin er eðlislæg í flestum svo  hrunið stafar í raun af mannlegum galla sem ómögulegt virðist vera að losna við. Þrátt fyrir þennan galla tel ég gallagripina ekki vera nein fífl heldur hafi græðgin orðið yfirsýnini  sterkari.

 

Nýtt Ísland mun koma þegar skilningur kemst á vandann.  Þegar fíflin sjá að fólk er ekki fífl heldur grunnur að þjóðfélagi.  Meðan grunnurinn er ónýtur er vita vonlaust að endurreisa.

Offari, 19.9.2009 kl. 13:33

8 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Þakka þér greinina, Ólína. Ég er efins með líkinguna við tvítyrnið (sem annars er fínt orð) og þá held ég ekki að kaupkröfur íslenskra bankamanna verði til vandræða á næstunni.

Ef þú værir Samfylkingin og þetta væri boðskapurinn gæti ég alveg stutt þig, svona í meginatriðum. 

Vandinn er hins vegar sá að þú og flokkurinn þinn ætlið að flytja vænan skerf af fullveldinu til Brussel. Og kosningabaráttan ykkar gekk út á að ESB-aðild væri lausn á flestum vanda á Íslandi.

Sjáðu um að flokkurinn kippi umsókninni tilbaka og þá verður Samfylkingin umræðuhæf um framtíð Íslands. Fyrr ekki.

Páll Vilhjálmsson, 19.9.2009 kl. 14:22

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Offari - ég ráðlegg þér að lesa betur áður en þú leggur þannig út af orðum mínum að fólk sé fífl.  Því myndi ég ekki halda fram - og engin leið að lesa það út úr samhengi orða minna.

Hér verið að deila á tiltekna hegðun við tilteknar aðstæður - nokkuð sem jafnast ekki á við neitt annað en fíflsku.

Orðið "fífl" á m.a. við um þann sem lætur blekkjast og sést ekki fyrir sbr. "fíflinu skal á foraðið etja". Þetta er gott og lýsandi orð í þessu samhengi.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.9.2009 kl. 15:59

10 Smámynd: Offari

Og sú saga varðar ekki einungis fjármálafíflin sem steyptu okkur því sem næst í glötun. Nei, hún fjallar líka um öll hin fíflin, sem eltu skinið af glópagullinu eins og vanvita börn.

Ég túlka þessi orð þín þannig að þú teljir þá fífl sem tóku þátt í þessu gróðabulli. Ég tel frekar að hér hafi verið gráðugt fólk sem hafi séð tækifæri sem það vildi ekki missa af. Ég efast um að þáttakan hefði verið svona mikil ef þeir hefðu vita hvað framundan væri.

Þetta var bara spákaupmenska sem fór út í öfgar. Blekkingin byrjaði ekki fyrr en menn fóru að átta sig á því að farið var að halla undan. Ég held reyndar að ef strax hefði verið tekið á málinu þá, þá væri dæmið ekki eins slæmt.

Blekkingarnar voru tilraun til að fresta vandanum fram að betri tíð sem aldrei kom. Afleiðinginn varð hinsvegar verra þjóðfélag þar sem engum er treyst og öllu öfugsnúið á þann hátt að hér hafi menn viljandi verið að sygla skútuni í strand,

Endureysnin hófst hinsvega á öfugum enda. Stjórnvöld hafa einblínt á fyrirtækin Evrópusambanið og Icsave meða þegnarnir er drepnir með skuldaklöfum sem hækka jafnóðum og borgað er af þeim.

Endureisnin hefst ekki fyrr en þegnarnir fara að sjá tilganginn með því að borga. Bankakerfið virkar ekki án þegnana, Fyrirtækin geta heldur ekki starfað án þegnana. Þjóðinn þarf sterkan grunn til að standa á og þegar farið verður að byggja upp á réttum enda þá hefst endreisnin.

Offari, 19.9.2009 kl. 17:32

11 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

"Almenningur horfði á í aðdáun og hrifningu."

Þetta er ekki rétt.   Mjög margir sem horfðu á þetta með hryllingi og sáu í gegnum ruglið, því miður var það fólk ekki við stjórn landsins eða í stjórnarandstöðu.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 19.9.2009 kl. 17:38

12 Smámynd: Pétur Harðarson

Athyglisverð grein Ólina og það er gott að sjá að þingmenn séu farnir að gera sér grein fyrir því að eitthvað þurfi að fara að gera 11 mánuðum eftir bankahrun.

Það sem mér finnst fólk ekki vera taka eftir er að þú líkir núverandi ríkisstjórn við fallnar hetjur New York borgar. Þetta finnst mér afar ósmekklegt. Þessir menn og konur létust við skyldustörf, þau voru að reyna að bjarga fórnalömbum. Núverandi ríkistjórn er að drepa sjálfa sig með sjálfsvorkun og getuleysi. Hversu lengi ætliði að líta á ykkur sem fórnarlömb? Ef að ykkur líður eins og einhverjum píslarvottum sem eru að berjast vonlausri baráttu við aðgerðir fyrri ríkistjórnar farið þá einfaldlega frá. Íslenska þjóðin hefur ekkert við sjálfsvorkunarsama píslarvotta að gera. Af hverju heldurðu að fúkyrðum rigni yfir ríkisstjórnina? Í dag er ríkisstjórnin í ábyrgð og hún er ekki að standa undir henni. Því miður!!

Ef fólk vill vera að líkja bankahruninu við tvíturnana þá voru eldri stjórnarhættir fyrri flugvélin til að skella á turnana. Jóhanna og Steingrímur eru að svo stýra seinni flugvélinni til að klára verkið.

Þessi grein hefði verið góð í byrjun þessa árs en ég hefði vonað að íslenskir alþingismenn veru komnir lengra en þetta í baráttunni.

Pétur Harðarson, 19.9.2009 kl. 19:10

13 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Mergjuð grein, takk fyrir hana Ólína.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 19.9.2009 kl. 20:33

14 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Ég er í grundvallaratriðum sammála þér Ólína. Þetta er góð grein og skynsamlega skrifuð.

Guðmundur Pálsson, 19.9.2009 kl. 23:15

15 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Bloggvinkona mín Margrét segir eftirfarandi sem er alveg kórrétt
 
"Þetta er ekki rétt.   Mjög margir sem horfðu á þetta með hryllingi og sáu í gegnum ruglið, því miður var það fólk ekki við stjórn landsins eða í stjórnarandstöðu"

Þetta er nú fólkið sem að þið ætlið að láta borga skellinn Ólína fólið sem engan þátt tók í þessu.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 20.9.2009 kl. 00:34

16 Smámynd: Fannar frá Rifi

og hvernig er afstaða þín Ólína til holdgervinga og handbendla nútíma nýlendustefnunar, AGS (alþjóða gjaldeyrissjóðsins)? ert hlynnt því að þeir verði hér áfram og muni stjórna efnahagsstefnu landsins, vöxtum og ríkisfjármálum? ef svo er þá hefuru engan áhuga á því að koma að uppbyggingu "nýja Íslands".

Fannar frá Rifi, 20.9.2009 kl. 08:29

17 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Fannar - ég er ekki hrifin af því frekar en þú að við skyldum þurfa að leita á náðir AGS, spor annarra þjóða til þeirrar stofnunar hræða vissulega. En við vorum einfaldlega í afleitri stöðu - og ef þú getur bent mér leið til þess að komast undan afskiptum AGS, þá væri það vel þegið.

Jón Aðalsteinn - það er vissulega rétt að ekki tóku allir þátt í hrunadansinum, en samfélagið í heild sinni gerði það óneitanlega. Það sýna einfaldlega hagtölur um neyslu og þenslu á góðæristímanum. Það er rangt hjá þér að stjórnvöld (sem þú kallar "þið") "ætli" að láta saklaust fók taka skellinn. Saklaust fólk mun verða fyrir skelli af því sem gerðist, en stjórnvöld eru að reyna allt sem hægt er til að mýkja þann.

Sjálf hef ég ekki setið á þingi nema í fjóra mánuði, og ég vil helst ekki láta tala til mín eins og ég sé byrg fyrir hruninu á nokkurn hátt, umfram það sem segja má um íslenskan almenning yfirleitt.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 20.9.2009 kl. 11:27

18 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þakka þér fyrir góðan pistil Ólína

Ég vil þó biðja þig um að útskýra betur eftirfarandi:

Tilheyrir það björgunaraðgerðum að afhenda íslenska skuldara leynilegum áhættufjárfestum með afhendingu 95% Íslandsbanka?

Tilheyrir það björgunaraðgerðum að "selja" náttúruauðlindir skúffufyrirtæki gegn kúluláni með veði í sjálfu sér (ríkisstjórnin hreyfði ekki hönd gegn þessu)?

Tilheyrir það björgunaraðgerðum að "mæla" eigur af fólki með reiknimódelum sem spegla ekki réttilega breytur í fjármálakerfinu eða með ólöglegri gengistryggingu?

Tilheyrir það björgunaraðgerðum að þvinga ólögmætar skuldbindingar upp á þjóðina (1.000) milljarða með leyniaðgerðum og blekkingum?

Tilheyrir það björgunaraðgerðum að gera þjóðina ruglaða og taka af henni varnirnar með blekkingum um raunverulega atburði, stefnu og fyrirætlanir?

Að lokum vil ég spyrja: Hvernig taka þeir ráðherrar ábyrgð sem gengu fram með lygum, ekki eingöngu gagnvart þjóðinni heldur í sumum tilvikum víða um heim, ábyrgð sína. Einstaklingar sem sýnt hafa að þeir eru óhæfir í starfi taka að sér að sitja í leppstjórn AGS sem þeir seldu upphaflega völdin.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.9.2009 kl. 12:07

19 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

"Átökin í íslenskum stjórnmálum næstu misserin munu m.a. snúast um það hvernig gert verður upp við fortíðina, og þá hugmyndafræði sem leiddi okkur í núverandi stöðu."

Ég held að þetta sé mjög mikilvægur punktur og að þetta uppgjör eigi eftir að hafa afgerandi áhrif á íslensk stjórnmál næsta áratuginn eða svo. Mér sýnist að xD og xF telji að þeir hafi gert upp við fortíðina með því að endurnýja forystuna að hluta. Þeir ætli að standa fast við það að hjá þeim hafi mennirnir en ekki stefnan brugðist. Þetta er út í hött.

Það veldur mér vonbrigðum að Samfylkingin virðist ætla að gera slíkt hið sama. Í morgun hlustaðu ég á stuttan bút úr viðtali sem Sigurjón átti við Steinunni Valdísi og Ragnheiði Elínu á Sprengisandi í október s.l. Þar kom fram í hnotskurn hvernig Samfylkingin var innvikluð í ástandið sem ríkti hér fyrir Hrun. Dæmin um aðgerðir, aðgerðaleysi, yfirlýsingar og styrki sem þarfnast uppgjörs eru nokkurn vegin endalaus. Samfylkingin var algjörlega úti að aka þessa mánuði sem hún sat í stjórn með xD og hún mun liggja undir réttmætum (og óréttmætum) ákúrum þangað til þetta uppgjör hefur átt sér stað. Hálfvelgja hvað þetta varðar mun standa í vegi fyrir frekari þroska og velgengni hennar. Hún mun vera í stöðugri vörn næstu árin.

Sérhagsmunaflokkarnir geta e.t.v. sleppt hreingerningu en Samfylkingin getur það ekki.

Guðl. Gauti Jónsson, 20.9.2009 kl. 12:36

20 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

stjórnvöld eru að reyna allt sem hægt er til að mýkja þann.

Að samþykkja hundruði milljarða skuld á almenning er ekki það sem ég myndi kalla að mýkja þann skell, ef eitthvað þá kallast það að kippa dýnunni undan.

 og ég vil helst ekki láta tala til mín eins og ég sé byrg fyrir hruninu á nokkurn hátt,

Kannski ekki, en þú verandi í ríkisstjórn berð 100% ábyrgð á ríkisskuld vegna Icesave.

Stjórnvöld reyndu ekki allt sem í þeirra valdi stóð, sem gerir þessa fullyrðingu hjá honum Jóni rétta, "þið" ríkisstjórnin með samþykki ykkar á ríkisábyrgð Icesave eruð að skella skuldinni á fólkið sem engan þátt tók í þessu. 

Halldór Björgvin Jóhannsson, 20.9.2009 kl. 16:23

21 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Doddi (Halldór) - þú skalt ekki gleyma því hvers vegna við erum í þeim sporum sem við erum. Ekkert okkar sem nú sitjum í stjórnarmeirihluta á þingi óskuðum þess að vera sett í þessi spor.

Ice-save samningurinn er nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að koma hreyfingu á viðskiptalífið að nýju - þannig er það bara.

Þú vilt kannski heldur að við skorumst undan ábyrgð okkar og eyðileggjum þar með það litla álit sem við höfum meðal annarra þjóða?

Um þetta erum við augljóslega ósammála - þá verður bara að hafa það.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 20.9.2009 kl. 19:20

22 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Hvað eigum við að kalla þetta álit Ólína 1.000 milljarða álitið.

Með Icesavesamningnum er verið að samþykkja drápsklyfjar á komandi kynslóðir.

Lítilmótlegt að leysa vandamál á þann máta.

Ekkert í vandamálinu réttlætir þessa lausn

það eru aðrir valkostir en þeir eru rækilega hunsaðir

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.9.2009 kl. 19:31

23 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

þú skalt ekki gleyma því hvers vegna við erum í þeim sporum sem við erum.

Það eru margar mismunandi hugmyndir um hvers vegna við erum í þeim sporum sem við erum og ásamt flestum öðrum þá hef ég mínar skoðanir hversu réttar eða rangar sem þær eru.

En það þýðir ekkert alltaf að benda á undanfarann og kenna honum um hvers vegna þið "þurftuð" að gera eitthvað, hvaða ástæður sem það voru fyrir hruninu til að byrja með gefur ykkur ekki réttindi til að standa ykkur illa í ykkar starfi, það er ekki endalaust hægt að benda á einhvern annan og kenna honum um, ríkisábyrgð á Icesave er VG og Samfylkingunni að kenna.

Ekkert okkar sem nú sitjum í stjórnarmeirihluta á þingi óskuðum þess að vera sett í þessi spor.

Hví voruð þið þá að sækjast á þing, hví gáfuð þig færi á ykkur í kosningum seinast?

Ice-save samningurinn er nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að koma hreyfingu á viðskiptalífið að nýju - þannig er það bara.

Það eina sem icesave samningurinn mun gera er að koma okkur í skulda helvíti, að halda þessu fram sýnir að þið eruð ekki að vinna ykkar vinnu.

Þú vilt kannski heldur að við skorumst undan ábyrgð okkar

Hvar í ósköpunum lestu þetta úr nokkru sem ég segi??

Ég vil fá að vita fyrir víst hverjar þessar skuldbindingar eru áður en það er samþykkt mörg hundruð milljarða skuld fyrir mína hönd, er það ekki réttur okkar allra?

og eyðileggjum þar með það litla álit sem við höfum meðal annarra þjóða?

Ef ríkisstjórnin hefði gert eitthvað í því að kynna okkar málstað fyrir umheiminum þá væri þetta ekki til umræðu hér, einnig vænti ég þess að þú sért að tala um álit meðal ESB þjóða, einnig miðað við hvernig þessar þjóðir hafa komið fram við okkur þá er mér í raun alveg sama hvaða álit þær hafa á okkur.

Það væri rosalega gaman að fá hér í stjórn fólk sem er tilbúið að vinna og berjast fyrir land og þjóð því eitt er víst að svoleiðis fólk er ekki við völd akkúrat núna, það er sorglegt þegar stjórnvöld eru farin að predika skilaboð annara þjóða fyrir almenningi.

Þið þarna í SF þurfið að horfa aðeins út fyrir eigin garð, ESB er ekki allir aðrir.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 20.9.2009 kl. 20:58

24 Smámynd: Pétur Harðarson

"Doddi (Halldór) - þú skalt ekki gleyma því hvers vegna við erum í þeim sporum sem við erum. Ekkert okkar sem nú sitjum í stjórnarmeirihluta á þingi óskuðum þess að vera sett í þessi spor."

 Var ekki SF í stjórn í aðdraganda bankahrunsins? Hvað er það sem hvítþvær SF í öllum málum? Er það kannski orðin yfirlýst stefna hjá SF að sitja aðgerðalaus í stólunum og benda svo á sökudólga eftir á? Megum við eiga von á að þið bendið alsaklaus á VG þegar Icesave málið verður gert upp fyrir næstu kosningar?

Það bað engin um að vera í þessari stöðu sem Ísland er í nú og ég endurtek það sem ég skrifaði hérna fyrir ofan: Ef ykkur finnst vandamálin vera ykkur ofviða, finnið ykkur eitthvað annað að gera.

Pétur Harðarson, 21.9.2009 kl. 12:55

25 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Tek undir þetta Pétur. Fólk á ekki að vera að vasast í hlutum sem það ræður ekki við. Finna hæfari einstkalinga sem geta stjórnað landinu á þess að setja það á hausinn

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 21.9.2009 kl. 13:47

26 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Varðandi innlegg mitt aths. 11 og undirtektir Jóns Aðalsteins á því sem ég skrifaði, þá vil ég segja þetta, að mér finnst bara leiðinlegt eins og margir hafa gert að setja alla þjóðina undir einhvern græðgishatt og segja að við höfum öll tekið þátt í óráðsíunni. 

Það er fullt af fólki sem lét glepjast og fullt af fólki sem gerði það ekki.  Það fólk sem fór varlega í peningamálum, þarf líka að blæða núna.

Hvorki ég né Jón Aðalsteinn vorum að tala til þín eins og að þú bærir á einhvern hátt ábyrgð á hruninu og það væri fjarstæða að halda því fram.   Vonandi nærð þú að standa þig sem best fyrir fólkið sem er beitt órétti hér á landi. 

Sjálf styð ég Samfylkinguna og ætla að gera það áfram.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 23.9.2009 kl. 18:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband