Fangelsismál í ólestri

Hegningarhusid Sannarlega eru fangelsismál á Íslandi "sagan endalausa" eins og bent hefur verið á. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að enn skuli menn vera vistaðir í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Ég minnist þess þegar ég heimsótti þann stað fyrir um tveimur áratugum - þá ungur og ákafur fréttamaður að fjalla um ólestur fangelsismála. Þrengslin innandyra runnu mér til rifja, og ég hefði ekki trúað því þá að þessi húsakynni myndu enn verða í notkun sem fangelsi árið 2009. En þannig er það nú samt - þessi myrkrakompa við Skólavörðustíg er ennþá fangelsi, rekið á undanþágum frá ári til árs. 

Á wikipediu er húsakynnunum þannig lýst:

 Fangaklefarnir í hegningarhúsinu eru litlir og loftræsting ónóg, fangarkvarta gjarnan yfir bágri salernisaðstöðu, en ekkert herbergjanna 16 er svo vel búið að menn geti gengið þar örna sinna svo vel sé, því þar eru hvorki salernihandlaugar.

 Já, byggingarsaga fangelsismála hér á landi er mikil raunasaga og lýsingar á vandræðaganginum við þennan málaflokk eru orðnar ófagrar.  

Margar ríkisstjórnir hafa setið að völdum frá því ég fór að kynna mér fangelsismál. Þær hafa allar vandræðast með þennan málaflokk, og litlu þokað áleiðis. Á annan tug nefnda og starfshópa hafa unnið að lausnum í nær fimmtíu ár, án þess að nýtt fangelsi hafi risið. Áratugum saman hafa áætlanir og teikningar legið á borðinu sem ekkert hefur orðið úr. Eitt árið var meira að segja byggður húsgrunnur sem lá óhreyfður í jörðu árum saman og eyðilagðist loks.

Þetta er sagan af óhreinu börnunum hennar Evu sem enginn vill sjá eða vita um.

Vanræksla - er eina orðið sem mér kemur í hug um þennan málaflokk. Og sú vanræksla hefur varað áratugum saman. Því miður.

Nú leitar Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra leiða til að fjölga plássum (og væntanlega öðrum úrræðum) fyrir dæmda brotamenn, og til greina kemur að leigja húsnæði í því skyni. Ég vona að dómsmálaráðherra verði eitthvað ágengt að þessu sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband