Grænland næst á dagskrá
3.8.2009 | 23:21
Á morgun held ég af stað til Grænlands til að sitja þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin verður í Grønnedal á suðvesturströndinni og stendur í fjóra daga. Fyrst verður flogið til Narsarsuaq og þaðan siglt með dönsku herskipi til Gr ønnedal. Ráðstefnan er undirbúningur fyrir ársfund ráðsins í lok ágúst.
Það eru Ísland, Færeyjar og Grænland sem mynda vestnorræna ráðið (sjá www.vestnordisk.is). Löndin þrjú eru ekki aðeins tengd vináttuböndum, heldur eiga þjóðirnar margt sameiginlegt í samfélagslegum, pólitískum og sögulegum skilningi. Allar hafa þær lotið yfirráðum Dana til dæmis, og Grænland gerir að það ákveðnu leyti enn, þó landið hafi nú stigið mikilvæg skref í sjálfstæðisátt. Allt eru þetta strjálbýl lönd og tiltölulega fámenn þar sem sjávarútvegur í einni eða annarri mynd er drýgstur hluti atvinnulífs ásamt þjónustu og vaxandi ferðamannaiðnaði. Öll gætu löndin talist jaðarsvæði í einhverjum skilningi.
Vestnorræna ráðið beitir sér fyrir samstarfi milli landanna þriggja á þeim sviðum þar sem hagsmunir fara saman. Ráðið hefur t.d. ályktað um og hvatt til skipulegs samstarfs varðandi björgunar- og öryggismál á norðurslóð - nokkuð sem hefði þurft að vera komið á fyrir löngu, en hefur vaxandi þýðingu með aukinni umferð skipa og ferðafólks á þessu svæði.
Á þessari þemaráðstefnu verða menntamálin í brennidepli, líkt og oft áður, enda hefur ráðið beitt sér fyrir samstarfi milli landanna í þeim efnum - jafnt varðandi menntunarkosti sem og rannsóknir.
Ég fer í þessa ferð í embættiserindum, sem formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins. Hef ekki komið á þessar slóðir áður, og hlakka til ferðarinnar.
PS: Við undirbúning minn rakst ég á ágæta bloggfærslu Sivjar Friðleifsdóttur frá því í fyrra þar sem hún tínir saman nokkrar tölulegar staðreyndir um lífs- og samfélagshætti á Grænlandi (sjá hér).
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 23:27 | Facebook
Athugasemdir
Góða ferð og gangi ykkur vel.
Ásdís Sigurðardóttir, 3.8.2009 kl. 23:23
Ég segi auðvitað góða ferð og gangi ykkur vel og ekki síst njótið þess að vera utann skarkalans.
En nú verðurðu að útskýra fyrir bjánum eins og mér, hvernig er það hægt að þingmenn séu að flandrast út og suður á meðan mál eins og Icesave er í þinginu.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 4.8.2009 kl. 20:18
velkomin hingad sudur, matt alveg taka sma rigningu med ter ef tu getur... og sma skyr
mundu ad kikja vid hja Eddu i Brattahlid..!
med kvedju fra Qaqortoq, Sudur Grænlandi
Baldvin Kristjánsson, 4.8.2009 kl. 20:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.