Allt upp á borðið
9.7.2009 | 15:17
Almenningur tekur þessum tiltektum sérstaks saksóknara fagnandi, enda gætir vaxandi óþreyju eftir aðgerðum. Margir óttast þó að svo langur tími sé liðinn frá hruninu að þeir sem eitthvað höfðu að fela hafi nú þegar falið það - enda hafi þeim hinum sömu gefist til þess rúmur tími.
Sú töf sem varð á því að fyrsta húsleitin var gerð kann að skýrast af ýmsu. Vandasamur undirbúingur getur verið ein ástæða.
Vera kann einnig að stjórnkerfið sjálft sé svifaseint og illa "smurt" til þess að takast á við viðamiklar rannsóknir á borð við stórfelld auðgunar- og efnahagsbrot. Kannski erum við Íslendingar - í allri okkar ágóðasókn og fjármálaframhleypni - of miklir einfeldningar til þess að sjá í hendi, hvað þá að takast á við, brot af þeim toga sem hér er um vélað. Enda þarf ímyndunarafl til þess að gera sér í hugarlund hringavitleysuna sem átti sér stað í fjármálaþenslunni þar sem eigna- og krosseignatengslin voru óskiljanleg orðin. Fjármögnunarleiðirnar sömuleiðis eins og rakið var í Kastljósi nú á þriðjudaginn vegna bankana: Kaup á banka A fjármögnuð með því að taka lán í banka B, og til að greiða það lán var aftur farið í banka A og tekið lán ...
Tregðan í kerfinu á sér þó líklega enn djúpstæðari orsakir sem teygja sig inn í stjórnsýsluna og sjálf stjórnmálin. Það eru fjölskyldu- og hagsmunatengslin, þessir ósýnilegu þræðir sem ofist hafa um hvern kima samfélagsins: Inn í stjórnmálaflokkana, atvinnulífið, fjölskyldurnar, félagasamtökin, þar sem "maður þekkir mann" og kynnir þann mann (karl eða konu) fyrir öðrum, sem býður manni í veiðitúr, og maður veitir manni lán með veði í hlutabréfunum sjálfum og lánið má afskrifa ef illa fer, og maður er fyrr en varir kominn inn að stjórnarborði fyrirtækis .... og svo getur komið sér vel að laða þangað uppvaxandi stjórnmálamenn, bjóða þeim eignarhlut og stjórnarsetu, fá þá til að makka með ...
"Allt upp á borðið" segir stjórnmálamaður einn daginn, en neitar þann næsta að svara spurningu um 900 mkr lánafyrirgreiðslu til maka og hugsanleg innherjaviðskipti. Annar tekur hraustlega til máls um pólitísk tengsl en reiðist um leið og minnst er á hans eign fjölskyldu- og fjármálatengsl. Sá þriðji hefur setið í stjórn olíufyrirtækis, sá fjórði hefur stýrt fjárfestingabanka í þrot, sá fimmti nýtur góðs af fjölskyldu og venslatengslum inn í atvinnulífið, sá sjötti líka ...
Þannig liggja þræðirnir í okkar litla samfélagi - þeir eru þéttriðið hagsmunanet.
Sérstakur saksóknari á mikið verk fyrir höndum að fá það "allt upp á borðið".
---------------
PS: Þessi grein birtist í Viðskiptablaðinu í dag.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjármál, Löggæsla, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Fín grein og þörf. Ef menn segja "allt uppá borðið" þá viljum við líka fá allt upp á borðið!
Bestu kveðjur,
Hlynur Hallsson, 9.7.2009 kl. 16:56
Heyr, heyr.
Jenný Anna Baldursdóttir, 9.7.2009 kl. 17:15
Þú mátt ekki gleyma þér Ólína, nú um hábjargræðistímann, að vera að velta fyrir þér einhverju árans fjármálahruni.Ertu að verða búin með kvótann
Sigurgeir Jónsson, 9.7.2009 kl. 21:16
Nú verður þú væntanlega að fara til Evrópu Ólína, ef þú ætlar að fá þér einhverja fleytu til að skella þér á strandveiðarnar því kvótinn verður væntanlega búinn á þínu svæði fyrir næstu helgi. Þetta er kvótakerfi sem gengur upp.í Evrópu verður hægt að fá á næstunni, nóg af allskonar skipum fyrir lítið, því nú ætlar ESB að ráðast í að skera niður flotann.Á sama tíma fjölgum við skipum til að meiri hagnaður verði á útgerðinni.Það er ekki ofsagt að Íslendingar eru snillingar í sjávarútvegi Ólína, sér í lagi Samfylkingin og VG.Til hamingju með Strandkvótakerfið.
Sigurgeir Jónsson, 9.7.2009 kl. 21:27
Kemur ekki á óvart að þú finnir kjarnann. Óþol pirringur og gaspur eins og það sem einkennir málflutning sjálfst.- og framsóknar fólksins á þinginu þessa dagana stjórnast nær örugglega af því að þau óttast. Þau eru farin að finna til óöryggis vegna þess að farið er að klóra í undirstöður þeirra til margra ára. Það sem þú nefnir varðandi tengslin er ekkert nýtt: Einn fyrsti virðingarvotturinn og upphefðin mesta og ávísunin á það sem koma skyldi var þegar leiðtoginn mikli, sá sem allt veit og getur, var gerður að fundarstjóra á aðalfundi Eimskips.
Ingimundur Bergmann, 9.7.2009 kl. 21:29
Allir vegir liggja til Valhallar. Sjálfstæðisflokkurinn er skjól fyrir glæpamenn.
Valsól (IP-tala skráð) 10.7.2009 kl. 00:03
Ingimundur hittir naglann á höfuðið, það er einmitt það sem er að ske, Sjálfstæðis og Framsóknarflokkur eru að fara á taugum því spillingarkerfið sem þessir flokkar hafa stuðst við í áratugi er að riða til falls. Þeir vinna því að því öllum árum að fella þessa stjórn, skítt með áhrif þess á almenning og þjóðina þó hér verði stjórnarkreppa, þeir vilja í stólana. Núna liggur mikið við, að vera með stjórnina svo ekki komist upp um allan viðbjóðinn. Hugsið ykkur, bankaranir voru afhentir mönnum sem voru handvaldir, og Davíð kom fram og laug beint framan í þjóðina að nú væru menn komnir með fullt fangið af dollurum til að kaupa banka. Þvílíkt og annað eins einkavæðingarferli. Þetta hyski hagað sér eins og það ætti sjálft þessa banka og aðalatriðið var að koma þessum eignum úr höndum ríkisins og skipti þá engu máli hvort þjóðin fengi eitthvað að launum. Landráðamenn! Ég skil svo ekki hvernig heiðarlegt fólk getur lagt lag sitt við flokka eins og Sjálfstæðis og Framsóknarflokk. Eru 37% þjóðarinnar virkilega svona siðblind að þeim finnst allt í lagi með það hvernig þessir flokkar hafa hagað sér?
Valsól (IP-tala skráð) 10.7.2009 kl. 00:10
Vill þingmaðurinn kannski rifja upp fyrir okkur reiðilestur hennar yfir kúlulánatöku fyrrum þingmanns Samfylkingarinnar, Lúðvíks Bergvinssonar?? Var kannski enginn reiðilestur??
Vill þingmaðurinn rifja upp fyrir okkur reiðilestur hennar yfir skjalavöntun í því sem lagt var á borð fyrir Alþingi vegna Ice-Save samninganna?? Var kannski enginn slíkur reiðilestur??
Fyrir okkur hin væri hollt að rifja upp hvaða skólameistari hrökklaðist frá störfum sínum, en telur sig nú umkomna að tala til þjóðarinnar í umvöndunartón!
Halldór Halldórsson, 10.7.2009 kl. 09:13
En hvernig er með Icesave málið Ólína? Er allt upp á borðum þar? Er stunduð sú opna pólitík sem að Samfylkingin predikaði um fyrir kosningar í því máli? Er ekki enn hluti gagna um það mál enn ekki komið fram á sjónarsviðið og hluti gagnanna lesin í bakherbergjum fjármálaráðuneytisins? Var ekki talað um að ákvarðanir væru teknar í reykfylltum bakherbergjum og að Samfylkingin vildi koma í veg fyrir slíkt. Það eina sem að hefur þá breyst er að bakherbergin eru ekki reykfyllt lengur og Samfylkingin komst bara sjálf þangað.
Ekki vera að gagnrýna fólk ef að þú hefur ekki efni á því. Samfylkingin og þingmenn hennar hafa stundað meira leynimakk í kringum Icesave málið heldur Sjálfstæðisflokkurinn hefutr nokkurn tíma gert og kallar nú ekki allt ömmu sína í þeim efnum. Ég held að þú ættir að hafa sem fæst orð um að allt eigi að vera upp á borðum þegar þú getur ekki einu sinni staðið að því sjálf.
Nú í vikunni barst þér bréf þar sem að talsmaður hollenskra innistæðueigenda hvetur þig sem og aðra þingmenn til þess að fella ábyrgð um innistæður vegna Icesave. Röstuðningurinn er sá að samningurinn sé svo ósanngjarn og þvingandi fyrir þjóðina að hún mun ekki geta staðið undir honum og að því verði að semja að nýju. Segir þetta ekki eitthvað um ágæti þessa samnings. Mér þykir forvitnilegt að vita hvað mun fara í gegnum huga þinn þegar þú greiðir atkvæði með þessum samningi, skuldsetjur þjóðina um mörg hundruð milljarða á háum vöxtum og með engu hámarki né hámarksgreiðslum á ári. Hvað fer í gegnum huga þingmanna þegar að þeir gereyðileggja efnahagslega framtíð Íslands og það í máli þar sem að öll gögn eru ekki einu sinni upp á borðum.
Jóhann Pétur Pétursson, 10.7.2009 kl. 09:41
Kvartað var yfir því að ráðherra hefði notað orðið akkúrat of oft. Mér finnst það sístofnotað enda gott rímorð.
Elsku karlinn Arafat
í upphafi var rauður
En núna er hann akkúrat
ákaflega dauður.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 10.7.2009 kl. 13:03
<Sæl Ólína, þú verður ef til vill fúl við mig, en þetta er ekki svo lang, málið er, að ég tel þetta svo mikilvægar upplýsingar, að þær þurfi að fá þína athygli>
Ég hvet alla, til að lesa, nýjustu hagspá Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins:
http://ec.europa.eu/economy_finance/publications/publication15487_en.pdf
Spá Framkvæmdastjórnarinnar, er að:
Ég þarf ekki, að segja meira. Lesið þetta sjálf.
Hvað þýðir þetta fyrir Íslands? Augljóslega, gerir þetta það minna 'attractive' að ganga í ESB. Einnig, þ.s. ESB kaupir mest af því sem við flytjum út, þarf að reikna niður væntingar, um efnahagsþróun hérlendis.
Núgildandi spár, eru greinilega allt og bjartsýnar; sem gera ráð fyrir að hagvöxtur fari af stað af krafti, þegar á næsta ári.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 10.7.2009 kl. 14:35
Í augum allra annarra en Samfylkingarfólks myndi þessi spá ein og sér duga til þess að fólk myndi hugsa sig tvisvar um áður en það færi í ESB. En Samfylkingarfólk hugsar ekki eins og venjulegt fólk. Það er vegna þess að það eina sem að þessi sundurlausi lýður á sameiginlegt, það eina sem að bindur saman þessa sundurlausu hópa fólks er það að það vill ganga í ESB. Takist Samfylkingunni ekki að ganga í ESB þá er Samfylkingin úr sögunni. Hún var stofnuð til þess að ganga í ESB, hefur reynt að þagga niður allar gagnrýnisraddir á ESB síðan hún var stofnuð og sýn Samfylkingarfólks á ESB er mjög einföld, ESB hefur enga galla. Svo einfalt er það.
Þess vegna er það mjög mikið atriði að senda ekki svona einfalt fólk út til Brussel að reyna að semja fyrir okkar hönd. Það væri eins og strákur að ganga með grasið í skónum á eftir fallegustu stelpunni á ballinnu. Hann fórnar hverju sem er til þess að fá hana heim með sér. Svo er talað um að Icesave samningarnir hafi verið slæmir.
Jóhann Pétur Pétursson, 11.7.2009 kl. 16:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.