Suðurlandsvegur, Vaðlaheiði eða ...
30.6.2009 | 16:17
Nú takast menn á um það hvort samgönguráðherra eigi frekar að leggja áherslu á Sundabraut, breikkun Suðurlandsvegar eða Vaðlaheiðargöng. Já - þeir tala eins og þetta séu valkostirnir.
Nú sýður á mér.
Þeir sem þannig tala vita augljóslega ekki að til eru staðir á landinu þar sem fullnægjandi samgöngum hefur enn ekki verið komið á. Þar sem hið svokallaða "stofnkerfi" er einfaldlega ekki fullfrágengið. Dæmi um það er Vestfjarðavegur sem er eina leiðin út úr fjórðungnum fyrir íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum. Vegurinn um Dynjandisheiði og Hrafneyrarheiði er auk þess eina tengingin milli byggðarlaganna á norðan og sunnanverðum Vestfjörðum (Patreksfjarðar og Ísafjarðar). Sá vegur er ófær 9 mánuði ársins. Ef Patreksfirðingur á erindi til Ísafjarðar um hávetur, þarf hann að leggja á sig 10 klst. ferðalag um 700 km leið fyrir kjálkann - í stað 2 klst ferðalags yfir heiðarnar um sumartímann. Báðir þessir vegir teljast þó til þjóðvega.
Þegar skorið er niður skiptir miklu að forgangsraða verkefnum. Við forgangsröðun vegaframkvæmda er brýnt að gera greinarmun á því hvort um er að ræða
- Samgöngubætur (að bæta og viðhalda samgöngum sem eru þokkalegar fyrir líkt og víðast hvar á Suðvesturlandi) eða:
- Grunnkerfið sjálft (að koma á viðunandi samgöngum sem eru ekki til staðar að heitið geti (líkt og á Vestfjörðum).
Samfélagslegir þættir eiga að skipta máli við forgangsröðun verkefna á borð við vegaframkvæmdir. Ástand vega getur ráðið úrslitum um það hvort atvinnulíf fær þrifist á sumum stöðum, hvort þar er yfirleitt búandi. Samgöngurnar eru æðakerfið í byggðarlögunum. Ástand veganna getur þannig ráðið úrslitum um líf eða dauða byggðanna í landinu.
Þandi mig aðeins um þetta á Rúv í hádeginu (hlusta hér)
Meginflokkur: Samgöngur | Aukaflokkar: Ferðalög, Lífstíll, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:10 | Facebook
Athugasemdir
Amen!!!! Ég fór einmitt á Toyotu til Vestfjarða hérna fyrir tveimur árum síðan og svei mér þá ef að partur af mér dó ekki úr hræðslu á leiðinni. Bloggaði einmitt um þetta á sínum tíma og reyndar nokkrum sinnum síðan þá. Vegurinn til Vestfjarða er ekki fyrir hvern sem er! Þú getur skoðað þetta blogg hjá mér! Dagsetningarnar á færslunum eru 28.5.2008 og 24.07.2007.....
Garún, 30.6.2009 kl. 16:45
Það þarf bara að skekkja tönnina á vegheflinum og hefla kantana inn á og hefla holurnar niður. Síðan er hægt að sáldra lítilsháttar unnu efni yfir veginn. Þetta er gert með svokölluðum dreifurum sem eru settir aftast á vörubílspallinn og þá nýtist efnið 100%.
Þá er kominn þessi fíni vegur og frekar auðvelt og ódýrt. Það þýðir ekki bara að horfa á holurnar, það verður að gera eitthvað.
Það er hættulegt að vera með mikið af bundnu slitlagi á fjallvegum á Vestfjörðum vegna hættu á að ,,skrensa" niður heiðarnar vegna ísingar.
Eru ef til vill ekki til neinir heflar lengur á Vestfjörðum?
Þorsteinn H. Gunnarsson, 30.6.2009 kl. 17:51
Smá innskot Ólína. Ekki er gert ráð fyrir að Vaðlaheiðagöng séu á verkáætlun ríkisins enda einkaútgerð. Sá er munurinn. Móðurafi minn talaði mikið um vegakerfi vestfjarða. Get sannarlega tekið undir það. Líkt og menntamál þá eru samgöngumál byggðarmál. Á bloggi mínu gekk það svo langt að ég þurfti því miður að loka fyrir óþokkalega athugasemdir. Ótrúlegt hversu margir orðljótir eru á Netinu. Yfirleitt nafnlausir.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 30.6.2009 kl. 18:00
já auðvitað.. við frestum vaðlaheiði og suðurlandsvegi fyrir 7000 manns.. frábær hugmynd Ólína.. alveg einstök. .. en svona hugsa víst landsbyggðaþingmenn.. Gísli Bald er af svipuðu sauðahúsi ;) Eru ekki Vestfirðir að fá malbikaðan veg alla leið í sæluna ?
Óskar Þorkelsson, 30.6.2009 kl. 18:22
Ég minni á að Vestfirðingar greiða sömu skatta og aðrir landsmenn - og meira til. Þeir þurfa nefnilega líka að taka á sig aukinn flutningskostnað vegna þess hvernig samgöngurnar eru.
Annað hvort erum við ein þjóð í einu landi - og byggjum þá landið upp á grundvelli jafnréttis milli landshluta. Eða .... Vestfirðingar geta stofnað fríríki og heimtað á grundvelli frumbyggjaréttar fiskveiðiauðlindir sínar til baka (en þær eru nú í höndum annarra landshluta).
Ég segi nú svona.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 30.6.2009 kl. 18:29
ég minni á að fólk á sv horninu greiðir skatta og skyldur og hlutfallslega mun hærri skatta en vestfirðingar Ólína. Ég er vestfirðingur og mínar ættir eru báðar fyrir vestan.. en ég er ekki með lokuð augu fyrir því sem er best fyrir land og þjóð .
Óskar Þorkelsson, 30.6.2009 kl. 18:34
Vestfirðingar seldu frá sér kvótann.
Eftir að Inndjúpsáætlun í landbúnaði var hrint í framkvæmd upp úr 1970 og fínustu peningshús voru reyst af smiðinum úr Mjóafirði, þá fluttu bændur í burtu af jörðum sínum. Þetta er allt saman sorgleg þróun.
Ef til vill gengur þessi þróun til baka, hver veit? Menn lifa þar sem lífsbjörg er að fá. Þá þarf ekkert að vera garfa í þessum málum um atkvæðamisvægi.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 30.6.2009 kl. 18:51
Sæl Ólína
Vegir á Norðausturhorninu eru í stíl við vegi á Vestfjörðum.
Vona að við hér á Vopnafirði fáum bundið slitlag á vegi frá þjóðvegi 1 niður í Vopnafjörð sem fyrst.
Megi almáttugur Guð gefa þér visku og vísdóm í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur.
Ég er alfarið á móti ESB og ég vona að þú farir varlega í sambandi við þau mál.
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 30.6.2009 kl. 20:32
Alveg ótrúlegt að verið sé að ræða um ónýtt vegakerfi nú í kjölfar góðærisáranna.....
Góðæri framsóknar- og sjálfstæðismanna fannst ekki í heilbrigðiskerfinu, vegakerfinu eða menntakerfinu.....hvar var þetta blessað góðæri????
Láttu þetta blessaða fólk svara því í þinginu Ólína mín:=)
Sigrún Jónsdóttir, 30.6.2009 kl. 21:27
Hvað ég er sammála Sigrúnu.
Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 30.6.2009 kl. 21:40
Vegakerfi Vestfjarða virðist alltaf vera útundan. Þó er bóti í máli að verið sé að grafa göng á milli ísafjarðar og Bolungarvíkur. Þau göng losa ykkur við hættulegan veg. Sjálfur er ég búsettur á Stöðvarfirði og fljótlega get ég ekið þaðan til Reykjavíkur á malbiki.(það er verið að malbika síðasta ca 10km kflan á norðurleiðini)
Ég tel að Vestfirðingar eigi jafnan rétt og ég á að keyra á malbiki. Ég hef bara einu sinni lagt leið mína til vestfjarða en bíllinn minn þoldi ekki vegina svo ég hef ekki lagt í að fara þangað aftur þótt mig langi.
Hvað varðar Vaðlaheiðargöng þá er það sirka 10-15km stytting og ég tel að margt betra sé hægt að gera fyrir peninginn en mun samt eflaust fagna þeim ef þau koma.
Offari, 30.6.2009 kl. 22:01
Ólína, þú segir: Vestfirðingar geta þá bara stofnað fríríki og þá líklega þar með sagt sig úr lögum og skyldum gagnvart öðrum Íslendingum. Ok, EN ef allir landsfjórðungar gera það???? Ef höfuðborgarsvæðið t.d. lokar á Vestfirðinga? Þetta er auðvitað bara fáránleg umræða og reyndar skrítið að þingmaður skuli láta slíkt út úr sér. Auðvitað erum við ein þjóð í landinu og reynum að hugsa um hvort annað. EN, það má auðvitað ekki láta hagsmuni tugi þúsunda verða undir í umræðunni og láta hagsmuni örfárra vega meira. Svo veit ég nú ekki betur en Vestfirðingar keyri líka um vegi hér fyrir sunnan, sem er auðvitað hið besta mál.
Katrín Linda Óskarsdóttir, 30.6.2009 kl. 22:13
Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst ummæli þín um að líka vegabótum á suðurlandsvegi við lúxus vera þér til skammar.
Það að bjarga mannslífum getur aldrei verið lúxus í mínum huga.
Ég skal viðurkenna að ég er ekki hlutlaus aðili eftir það slys sem ég lenti í á Þessum vegi en því miður hafa farið allt of mörg mannslíf á þessari leið undan farin ár.
þó ég hafi fullan skilning á vegabótum á vestfjörðum tel ég að stofnæðar út úr höfuðborgini séu löngu sprungnar og ætti að vera búið að tvöfalda þessa vegi fyrir löngu.
Það væri mikill sparnaður í því fólgin það sem hvert svo slys eins og ég lenti í kostar samfélagið tugi milljóna fyrir utan sorgin sem fólk verður fyrir vegna látinna ástvina.
Mannlíf verða aldrei metin til peninga og guðs bænum vandaðu málflutning þinn betur svona málflutningur særir þá sem lent hafa í slysum á þessum vegum.
Ásgeir Ingvi Jónsson (IP-tala skráð) 30.6.2009 kl. 22:41
Sæl Ólína. Ég er sammála þér að það er til skammar hvernig vegir eru fyrir vestan og bara ótrúlegt að fólk skuli búa þar ennþá. Ég myndi telja það mikilvægara en jarðgöng við Akureyri og eins er með veginn um austursléttu alla leið til Vopnafjarðar. Ég er uppalin á þessu svæði og veit að Víkurskarð var gríðarleg vegabót á sínum tíma og held að sá vegur gangi í nokkur ár í viðbót meðan klárað er fyrir vestan og sunnan.
Gísli þú lokar nú á fleiri en þá sem eru orðljótir og það er bara skálkaskjól oft á tíðum þegar menn eru rökþrota og taka ekki við meiri gagnrýni. Það er auðvitað val sem við höfum á blogginu okkar og ekkert við því að segja. Kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 1.7.2009 kl. 00:09
Ég er sammála þér Ólína og finnst að oft sé þörf en nú sé vissulega nauðsyn orðin á að koma vestfirskum vegaholum inn í umræðuna, því þessir slóðar geta í mörgum tilfellum ekki borið það sæmdarheiti "vegur" hvað þá þjóðvegur - margar atugasemdirnar sem ég hef lesið og varða þessa umræðu þína, eru svo langt úti á túni að þær eru ekki svaraverðar og finnst mér gott að loksins er kominn þingmaður sem þorir að minnast á vestfirsku holurnar.
Eyþór Örn Óskarsson (IP-tala skráð) 1.7.2009 kl. 01:56
Takk fyrir þessar athugasemdir.
Ég nefni stundum þessa fríríkishugmynd til þess að vekja fólk til umhugsunar um að Vestfirðingar eru hluti af þjóðinni þó að ekki sé komið þannig fram við þennan landshluta á stundum - a.m.k. ekki í vegamálum. Það verður bara að hafa það ef þessi ummæli hneyksla einhvern - ég sjálf er orðin hneyksluð á þessu ástandi.
Ásgeir Ingvi - þú talar um björgun mannslífa. Það þarf líka að bjarga mannslífum vestur á fjörðum, og þá skiptir máli að hafa góðar samgöngur þegar flytja þarf björgunarsveitarmenn, lækna eða aðra aðstoð. Þá myndi það skipta miklu máli að komast 2 klst leið á hátæknisjúkrahús á Ísafirði, í stað þess að aka um hávetur alla leið til Reykjavíkur af því að leiðin milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar er lokuð, ef flug liggur niðri (sem gerist oft).
Og ekki tala við mig eins og mér sé sama um umferðaröryggi, það er mér ekki, enda þekki ég vel til þeirra hluta og á aðstandendur sem hafa lent í alvarlegum slysum.
Nei, þeir sem svona tala bera ekki virðingu fyrir grunnþörfum fólks.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 1.7.2009 kl. 08:32
Ég bý á SV-horninu og fer u.þ.b. 100 sinnum oftar Suðurlandsveg en til Vestfjarða en hef samt fullan skilning á brýnum þörfum fólksins sem vinnur að gjaldeyrisöflun fyrir okkur hin. Þar fyrir utan var það óráð að leggja af sjóflutninga til landsbyggðarinnar. Landflutningarnir eru mun dýrari fyrir samfélagið allt þegar upp er staðið.
Sigurður Þórðarson, 1.7.2009 kl. 08:50
Satt er það Sigurður.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 1.7.2009 kl. 09:45
Svar þitt til mín sínir mér að þú hefur ekki þann góða eiginleika sem þingmenn þurfa að hafa það er að hlusta og vera ekki bara á atkvæðaveiðum endalaust,
í mínum huga er athugasemd þín þér til háborinar skammar og ekkert annað.
Ég veit vel að það þarf að bjarga mannslífum allstaðar og það þarf vegi á Vestfjörðum en gleymum því ekki að það fara senilega fleiri bílar um Suðurlandsveg á dag en eru til á Vestfjörðum.
Síðan um aldamóta hafa frá 1 upp í 4 látist á suðurlandsveginum á hverju ári það hlítur að vera hægt að ætlast til að þingmenn bregðist við því.
Ásgeir Ingvi Jónsson (IP-tala skráð) 1.7.2009 kl. 09:56
Ólína... Þú mátt heldur ekki gleyma því að fólkið sem býr við Trékyllisvík á Ströndum borgar sömu skatta og þú og ég.
Í þínum huga virðist það þýða að þeir eigi að fá malbik upp að dyrum áður en annað er aðhafst þar sem vegurinn til Trékyllisvíkur er ómalbikaður að mestu.
Svo þarf náttúrulega að bora göng frá Trékyllisvík til vesturs inn í Hvannadal, því þar geta göngin mætt þjóðveginum sem liggur... jú til Ísafjarðar, því það gengur náttúrulega ekki að fólkið í Trékyllisvík þurfi að aka fleyri fleyri kílómetra í fleyri fleyri klukkustundir, sem annars tæki kannski ekki nema eina klukkustund með svona göngum sem yrðu aldrei meira en 38km löng. Oft er ófært til Trékyllisvíkur vegna snjóalaga á vetrin.
Það er nú ekki eins og Trékyllisvík sé eyðibýli. Nei aldeilis ekki. Þar er meira að segja bæði sundlaug og félagsheimili.
Nei Ólína. Þú verður að setja hlutina í stærra samhengi. Það væri til dæmis hægt að leigja bát sem myndi pikka fólkið upp sem vill skreppa til Ísafjarðar, nú eða fólkið getur kannski bara verið forsjált og sinnt sínum erindum í tíma. Nú á dögum notum við Internet, fax, póst og þessháttar til að sinna okkar erindum.
Ef þú ert að tala um læknisþjónustu, nú þá erum við með sömu stöðu og hvað varðar Trékyllisvík.
Ólína... Þetta var heimskuleg bloggfærsla að mínu mati hjá þér. Ég verð að segja það.
Baldur Sigurðarson, 1.7.2009 kl. 11:29
Skrifaðirðu þetta virkilega?
Eða .... Vestfirðingar geta stofnað fríríki og heimtað á grundvelli frumbyggjaréttar fiskveiðiauðlindir sínar til baka (en þær eru nú í höndum annarra landshluta).
Er ekki allt í lagi???
Baldur Sigurðarson, 1.7.2009 kl. 11:33
Það er fjarri mér að biðja um vegir verði malbikaðir upp að hvers manns dyrum eins og látið er í veðri vaka hér framar.
Við erum hér að tala um sjálfan þjóðveginn - stofnvegakerfið.
Undarleg er þessi óvirðing fyrir skoðunum annarra sem birtist hjá sumum hér. Loks minni ég á það sem ég segi í aths nr 16.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 1.7.2009 kl. 11:54
Alveg sammála þér Ólína, vegir á vestfjörðum eru eins og hjá vanþróuðum þjóðum. Sumsstaðar í djúpinu þar sem að er malbikað er það einbreitt og býður hættunni heim.
Að mínu viti ætti að leggja áherslu hjá okkur Íslendingum að byggja upp þjóðvegakerfið, í stað þess að reisa glæsihallir fyrir nokkra söngfugla sem við skattgreiðendur þurfum svo að halda uppi um aldur og ævi.
kveðja Rafn.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 1.7.2009 kl. 18:27
Þjóðin verður nú að geta sungið,, Áfram veginn, í vagninum ek ég", í sæmilegum hýbýlum.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 1.7.2009 kl. 22:04
Er ekki vegurinn um Ísafjarðardjúp fyrir Reykvíkinga líka?? Eða Hornfirðinga??
Ég verð að taka undir þetta með þér Ólína, að þarna þurfi allverulega að bæta vegakerfið.. Þetta ersvipuð barátta og við höfum oft háð hér fyrir Austan en við megum nel við una miðað við frændur okkar á Vestfjörðum.
Varðandi ummæli sumra, bæði hér og annarsstaðar á opinberum vettvangi varðandi umferðaröryggi, þá held ég að menn fari offari á stundum í því.
Suðurlandsvegur er oft nefndur og vissulega er hann varasamur á umferðarþungum dögum, en ég veit það á eigin skinni að það er ekki vegurinn sem veldur óhappinu, heldur mannleg mistök ökumanna, og það verður að tla um þá hluti líka þó að það sé sárt á köflum.
Menn höfnuðu þar afar hagkvæmri og góðri lausn sem mikil reynsla er af en það er 1+2 vegur, slíkur vegur myndi leysa þann vanda sem er þar og kosta mun minn a en tvöföldun..
Eiður Ragnarsson, 1.7.2009 kl. 22:30
Menn höfnuðu þar afar hagkvæmri og góðri lausn sem mikil reynsla er af en það er 1+2 vegur, slíkur vegur myndi leysa þann vanda sem er þar og kosta mun minn a en tvöföldun..
uff kemur þessi röksemd aftur.. það er einungis ein þjóð sem enn notar slíka vegi og það eru svíar og þetta er einungis notað þar sem umferð er lítil..
Óskar Þorkelsson, 1.7.2009 kl. 22:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.