Valtýr er vanhæfur - ekki óhæfur

 Umræðan um vanhæfi Valtýs Sigurðssonar ríkissaksóknara er að sjálfsögðu enginn áfellisdómur yfir honum sem einstaklingi. Vanhæfi snýst ekki um það hvernig menn eru innréttaðir eða hvað þeir kunna, heldur hitt hver tengsl þeirra eru úti í samfélaginu gagnvart málum sem koma inn á borð til ákvörðunar, dómsuppkvaðningar eða saksóknar. 

Við Íslendingar erum allt of uppteknir af því að afsagnir manna eða tilfærslur í starfi - hvort sem um er að ræða stjórnmálamenn eða embættismenn - sé einhverskonar persónulegt tap fyrir þá sjálfa. Auðvitað getur það haft óhagræði í för með sér að skipta skyndilega um starf, eða breyta stefnu á einhvern hátt. En afsögn er einfaldlega til vitnis um að menn viðurkenna aðstæður, skynja ábyrgð sína í þeim aðstæðum og taka henni.

Valtýr hefur fyrir löngu lýst sig vanhæfan varðandi rannsóknina á bankahruninu. Skiljanlega. En einmitt þess vegna verður hann að standa fjarri sem ríkissaksóknari á meðan sú rannsókn stendur yfir. Það er ekki nóg að hann standi einungis utan við þá tilteknu rannsókn. Meðan hann er við störf sem ríkissaksóknari má segja að allir hans starfsmenn séu vanhæfir til þess að koma að rannsókn málsins.

Annars var komið inn á þetta í Kastljósinu í gærkvöld þar sem við skiptumst á skoðunum hjá Sigmari, ég og Ólafur Arnarson. Þar var líka rætt um Ice-save málið (sjá hér).


mbl.is Valtýr vill ráða Evu Joly
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

Nú hefur komið í ljós að amk eitt mál sem varðar kæru á hendur Kaupþingi var kært til Umboðsmanns Alþingis vegna meints seinagangs hjá embætti Valtýs. Í skýringum Valtýs kemur fram að af mörgum málum sem send voru sérstökum saksóknara hafi verið gerð mistök hjá starfsmönnum hans í þessu eina máli.

Ef Valtýr sér ekki að svona hlutir eru til þess fallnir að valda grunsemdum og tortryggni vegna tengsla hans við eigendur Kaupþings þá leiðir það að sjálfsögðu til áfellisdóms yfir honum persónulega. Hann er því ekki bara vanhæfur að lögum heldur er hann að mínu mati einnig búinn að dæma sjálfan sig óhæfan.

Guðl. Gauti Jónsson, 13.6.2009 kl. 11:19

2 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Já Ólína, skrítið að svona  fluggáfaður maður sjái ekki það sem blasir við öllum?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 13.6.2009 kl. 11:48

3 identicon

Vantraust almennings á ríkissaksóknara auk ummæla hans gerir hann vanhæfan, í öllum málum. Eiginlega að embættismaður hafi mætt í Kastljós á móti stjórnmálamanni.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 12:23

4 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Það er mannlegt að sjá ekki stöðu sína í neikvæðu ljósi. Þetta hefur með sjálfsmyndina að gera. Við viljum að hún sé einsog við viljum sjálf hafa hana. Lagalega leyfir hann sér að túlka stöðu sína þannig að hann hafi sjálfdæmi í þessu máli. Bara það að hann þurfi að víkja vegna vanhæfis í stærsta málaflokki aldarinnar er afsagnarástæða. Hitt að enginn friður mun skapast um embættið á meðan hann situr þar er stórskaðlegt og í raun gerir allt sem að embættinu lýtur vafasamt.

Gísli Ingvarsson, 13.6.2009 kl. 13:30

5 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Jú, jú, auðvita á hann ekki að vera samstarfsmaður eða einu sinni í sama húsi og sérstakir ríkissaksóknarar í þessu máli.

Sérstakir ríkissaksóknarar fyrir þetta mál eiga að liggja liggja beint undir ráðuneytinu og vera algerlega sjálfstæðir, "untouchables".

Ég hef ekki enn séð nein rök fyrir því að Valtýr þurfi að víkja úr sínu starfi ef þessi leið verður valin?

Best væri ef sérstakir ríkissaksóknarar í þessu máli væri þrepinu hærri í valdastiganum en Valtýr, ef það er hægt að koma því í gegn með snöggum lagabreytingum? Varla er þetta Stjórnarskrármál?

Ásgeir Rúnar Helgason, 13.6.2009 kl. 14:31

6 identicon

Enda tók Eva Joly það skýrt fram að hann ætti að víkja einungis vegna tengsla hans við aðaleiganda Exista, segir ekkert um persónuna..

Nema auðvitað sá gjörningur að neita að fara.. sem er farið að minna óneitanlega á Davíð Nokkurn Oddson.

Réttlætið mun einungis sigra ef við reynun að verja það..

Sem er ástæðan fyrir því að við eigum að rísa upp og verja okkar þjóð og neita að skrifa undir nauðarsamninga sem á okkur eru lagðið..

En það er önnur saga. Sjáumst á Austurvelli ;)

Björg F (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 21:00

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mér sýnist nú bara allir íslenskir lögmenn og dómarar vera vanhæfir til að ganga hreint til verks í þessu umfangsmesta rannsóknarefni allrar sögu okkar.

Við megum reikna með að þeir einstaklingar sem tengjast rannsókn bankahrunsins og þeirra fyrirtækja, stórra og smárra sem þar koma við sögu skipti nokkrum hundruðum.

Og ef við hugsum okkur alla þá pósta þar sem þessir einstaklingar mætast með einum og öðrum hætti fyrir utan ætta-og sifjatengsl sýnist mér trúverðugt hlutleysi vera komið út í hafsauga hvað varðar þann hóp sem þarna þarf að virkja. 

Árni Gunnarsson, 13.6.2009 kl. 21:10

8 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

http://en.wikipedia.org/wiki/Icelandic_parliamentary_election,_2007

Var ekki Do forsætisráðherra árið 2006 þegar Icesave-reikningarnir voru stofnaðir i nafni almennra Hollendinga og almennra breta?

? er ég eða Wikipediða að rugla? 

http://en.wikipedia.org/wiki/Icelandic_parliamentary_election,_2003

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 14.6.2009 kl. 02:38

9 Smámynd: Einar Þór Strand

Miðað við orð ykkar eru allir Íslendingar vanhæfir í þessum málum og Eva Joli líka.

Einar Þór Strand, 15.6.2009 kl. 02:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband