Þeim væri nær að koma að borðinu
21.5.2009 | 13:07
Innköllun aflaheimilda í áföngum á 20 árum í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta er ekki umbylting á þessu kerfi og mun ekki leiða hrun yfir sjávarútveginn. Þvert á móti er hún sanngjörn og hófsöm leiðrétting á þessu óréttláta kerfi.
Málið snýst um löngu tímabæra leiðréttingu á ranglátu framsalskerfi fiskveiðiheimilda - kerfi sem hefur í sér innbyggða meinsemd og mismunun. Við erum hér að tala um kerfi sem samkvæmt úrskurði Mannréttindanefndar SÞ brýtur mannréttindi og hindrar eðlilega nýliðun, þar sem menn eru tilneyddir að gerast leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna. Kerfi þar sem aflaheimildirnar voru upphaflega færðar útgerðunum endurgjaldslaust í hendur - og eru nú meðhöndlaðar sem hvert annað erfða- og skiptagóss. Ranglátt kerfi sem felur í sér samskonar meinsemd skuldasöfnunar og yfirveðsetningar og þá sem olli efnahagshruninu í haust.
Þetta frjálsa framsalskerfi fiskveiðiheimilda - kvótakerfið - er eins og hver önnur mannasetning: Það var illa ígrundað í upphafi, og leiddi af sér alvarlega röskun og atvinnubrest í heilum byggðarlögum. Atvinnubrest sem risti mun dýpra en það atvinnuleysi sem nú ógnar almenningi á suðvesturhorninu.
Nú loksins, stendur til að leiðrétta þetta ranglæti. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er algjörlega skýr í þessu efni: Ríkisstjórnin hefur lýst yfir vilja til þess að gera nauðsynlegar, og löngu tímabærar breytingar á kvótakerfinu. Nú er lag - og nú er nauðsyn, því að óbreyttu eigum við það á hættu að fiskveiðiauðlíndir þjóðarinnar verði einfaldlega teknar upp í erlendar skuldir og hverfi þar með úr höndum okkar Íslendinga. Svo vel hefur útgerðinni tekist til - eða hitt þó heldur - við að höndla þá miklu gjöf sem henni var færð á kostnað byggðarlaganna fyrir tæpum aldarfjórðungi.
Og nú er gamli grátkórinn, sem svo var kallaður hér á árum áður, aftur tekinn að hljóma, í háværu harmakveini. Nú hrópa menn um yfirvofandi hrun, tala eins og að hér eigi að umbylta kerfinu á einni nóttu.
Málflutningur þeirra sem harðast hafa talað gegn hinni svokölluðu fyrningarleið er í litlu samræmi við tilefnið og á meira skylt við sérhagsmunagæslu undir yfirskini stjórnmála.
Hagsmunaaðilum í sjávarútvegi væri nær að ganga til samstarfs við íslensku stjórnvöld um nauðsynlegar breytingar á þessu kerfi. Þiggja þá útréttu hönd sem þeim hefur verið rétt, koma að borðinu og vera hluti af þeim sáttum sem þarf að ná við sjálfa þjóðina (ekki bara útgerðina) um þetta mál.
--------------
Utandagskrárumræðuna í heild sinni má sjá hér á vef Alþingis (fyrst er hálftíma umræða um störf þingsins (það má hraðspóla yfir hana) - svo taka sjávarútvegsmálin við ).
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Umhverfismál | Breytt 22.5.2009 kl. 22:55 | Facebook
Athugasemdir
Ég setti þetta sama innlegg við síðustu færslu þína. En engin viðbrögð voru við henni þá , vonandi vegna þess að ég sé að bulla.
"Ég verð að viðurkenna að ákveðnar efasemdir eru uppkomnar hjá mér um lífslíkur þessarar stjórnar. "Á móti öllu" liðið er of sterkt í Vinstri Grænum.
Ómurinn af stefnuræðu forsætisráðherra er ekki þagnaður þegar menn þar fara að tala um að stefnuskrá Ríkisstjórnarinnar sé ekki endilega stefnumarkandi.
Það vekur t.d. spurningar hvernig í ósköpunum stóð á því að í jafn erfiðan málaflokk og sjávarútvegsmálin verða á komandi misserum, skuli hafa valist Jón Bjarnason, sem er engu sammála og þá síst sjálfum sér.
Þó margt hafi mátt um Kolbrúnu Halldórsdóttur segja, þá var hún þó í það minnsta samkvæm sjálfri sér.
Það er alveg ljóst hvar sú hugmyndafræði sem gerði Alþýðubandalagið sáluga að ósamstarfshæfum flokki hefur búið um sig. Sumir í VG eiga sér glögglega þann draum að komast aftur í notalegt stjórnarandstöðu hlutverkið, þaðan sem hægt er ábyrgðalaust að gagnrýna allt sem hreyfist.
Þetta lítur ekki vel út, því miður."
Axel Jóhann Hallgrímsson, 21.5.2009 kl. 13:36
Þakkir fyrir allar þessar upplýsingar um 1. þingmálið þitt. "Veiðiheimildrnar í landhelgi Íslands"
Loksins eru nýjir tímar runnir upp.
Ranglátasta og skaðlegasta stjórnkerfi á Íslandi. um áratugaskeið- er að renna skeið sitt á enda.
Ég er algörlega sammála öllu innihaldi þingræðu þinnar. Takk.
Sævar Helgason, 21.5.2009 kl. 14:10
Fín grein hjá þér og nú er aðeins ein leið í þessu máli - afnám kvótabrasksins - og ekkert annað kemur til greina.
Kvótakerfið hefur kosti líka en framsalið var ekki illa ígrundað í upphafi, "braskararnir" vissu nákvæmlega eftir hverju þeir sóttust þegar þeim tókst að koma því í gegn. Földu sig á bak við hagræðingu og annað sem hljómaði vel í eyrum fólks. Ég vann við sjávarútveg í fjölda mörg ár (Ú.A.) og það fyrirtæki er "varla fyrirtæki" í dag miðað við árin fyrir framsalið.
Burt með framsalið og færum kvótann í hendur þjóðarinnar með "endurskipulagða verndun" á fiskistofnum í huga. Stefnum að meiri fullvinnslu hér heima. Drögum úr bræðslu á uppsjávarstofnum sem enda að mestu á "borðum" laxeldis í Noregi. Aukum nýtingu á afla frystitogara auk þess sem auka skal smábátaútgerð til muna. Endalaust væri hægt að telja upp möguleika sem núverandi "braskarar" hafa ekki haft áhuga á nema í orðum og aldrei reynt að koma í framkvæmd enda eina takmarkið hjá þeim að fá aura í vasann áður en fiskurinn kemur úr sjó. Þeir sem veiða og vinna fiskinn í dag þurfa hins vegar margir hverjir að greiða stórfé til "braskara kvótakerfisins" og eiga litla möguleika á því að efla framleiðsluna að einhverju viti. Hlustum ekki á grátkóra útgerðarmanna. Mér finnst með ólíkindum að forsvarsmenn sveitarfélaga skuli taka undir vælið, nær væri að skoða tengingu útgerðarmanna við "pólitíkusa" í sumum sveitarstjórnum landsins.
Að lokum vil ég minna þig á grein þína um lækkað leiguverð á íbúðarhúsnæði sem þú fagnaðir heil ósköp fyrir einhverjum dögum. Ég taldi að vandamálin væru aðeins að færast milli manna og fyrirtækja. Það virðist vera að koma í ljós Samfylkingin á ekki að falla í sömu gryfju og "nýfrjálshyggjupostularnir" í tíð G.W.B og halda að "markaðurinn" leysi öll mál sjálfur. Þarna eru verkefni fyrir ríkisstjórnina að taka á strax og áður en "illa fer", ella fær hún þau í hausinn með svo miklu afli að hún ræður ekki við eitt eða neitt.
Páll A. Þorgeirsson, 21.5.2009 kl. 14:34
Enn og aftur frábær ræða hjá þér Ólína. Ég hefði gjarnan viljað sjá róttækari stefnu hjá Samfylkingunni í þessum efnum, það er að segja,að kvótinn yrði allur innkallaður á einu bretti t.d. 1.sept. 2010. Það verður aldrei sátt við útvegsmenn um breytingar á kerfinu nema þeir haldi þeim rétti sínum, að selja sig út úr greininni og stinga auðæfunum í vasann. En það er einmitt sá réttur þeirra sem þarf að stöðva, í þágu sjávarbyggðanna og fiskverkafólks.
Baráttu kveðjur.
Bjarni Líndal Gestsson, 21.5.2009 kl. 18:10
Hlustaði á jómfrúræðuna þína og tek undir með Bjarna hún var frábær. Til hamingju með framgang þinn á þingi.
Guðrún Katrín Árnadóttir, 21.5.2009 kl. 20:32
Ég bloggaði um ræðuna þína sem mér finnst lofa góðu um framhaldið. En ég er búinn að vera dálítið hugsi vegna ummæla Jóns Bjarnasonar og ekki síður Atla Gíslasonar. Báðir hafa þeir sagt að engu verði breytt nema í þjóðarsátt og Atli hefur gengið sýnu lengra á bloggsíðum. Ég er að reyna að túlka þetta jákvætt en get ekki varist þeirri hugsun að þeir séu að draga í land.
Ef við hugsum okkur leikskóla þar sem þrjú börn sitja ein að öllu namminu dótakassanum, vegna þess að þau fengu leyfi misviturs forstöðumanns til að nýta,og leigja þessi gæði. Dettur einhverjum í hug að það væri hægt að koma á eðlilegu ástandi aftur á þessum leikskóla í fullri sátt við þessu þrjú börn?
Ef ný og skelegg leikskólastýra reynir að koma á málin eiga hvorki leikskólakennarar eða skólaliðar að flýja af hólmi ef einhver baldinn krakki fer að skæla. Vonandi tekst þér Ólína að leiða þeim þetta fyrir sjónir.
Sigurður Þórðarson, 21.5.2009 kl. 21:30
P.s.
Þið berið réttilega af ykkur að 5% fyrning sé einhver umbylting.
Reyndar þyrfti umbyltingu. Færeyingar sem voru með samskonar kvótakerfi og við fóru í gagngera umbyltingu og afnámu kvótakerfið í einu vetfangi þegar þeir fóru á einni nóttu í sóknarstýringu. Með því var öllu brottkasti sjálfhætt enda enginn hagur í því að henda fiski. Þetta varð til þess að þeir komust út úr kreppunni og geta nú lánað Íslendingum. Í Færeyjum dettur engum manni í hugað fara aftur í kvótakerfi. HHG hefur farið víða um heim til að prédika að íslenska kvótakerfið sé besta fiskveiðikerfi í heimi. Hann hefur af einhverjum ástæðum ekki lagt í að viðra þessar skoðanir sínar í Færeyjum þar sem menn hafa samanburðinn.
Sigurður Þórðarson, 21.5.2009 kl. 21:54
Kæri Sigurður.
Ég vil byrja á að þakka þér hlýleg orð í minn garð á bloggfærslu þinni í gær.
Varðandi orð Jóns Bjarnasonar, þá held ég að hann sé fyrst og fremst að reyna að taka af öll tvímæli um samráðið. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hann eða Atli Gíslason fari að heykjast á sjálfum stjórnarsáttmálanum í þessu efni, varðandi mál sem skýlaust á stefnuskrá beggja stjórnarflokkanna.
Sjálf hef ég oft hugsað um þetta ráð Færeyinga að afnema kvótakerfi og taka upp sóknardaga eingöngu. Þeir segja sjálfir að þetta hafi leyst sjávarútveginn þeirra úr álögum brasks, framhjálandana, brottkasts og spillingar. Þetta var djörf ákvörðun hjá þeim - en þeir sjá ekki eftir henni. Það er umhugsunarefni.
Loks vil ég þakka öllum sem hér hafa lagt orði í belg, um leið og ég þakka hólið vegna jómfrúarræðunnar.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 21.5.2009 kl. 22:16
Þessi ræða er ágæt sem ræða en hún er til þess fallin að gera þá sem ekki eru sömu skoðunar og þú að óvinum þínum. Ég er sáttur við innihald ræðunnar og það þarf að taka á þessu máli. Ef þér er hinsvegar alvara Ólína með að vilja hafa samstarf við útgerðirnar um þetta þá hefði verið farsælla að sleppa athugasemdinni um grátkór.
Guðmundur Jónsson, 22.5.2009 kl. 08:23
Þú ert kurteis maður Guðmundur en er það ekki full mikill tepruskapur að nýr þingmaður megi ekki svara tilhæfulausum dylgjum og árásum þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að hér sé verið að setja sjávarútveginn á hausinn? Sjálfstæðisflokkurinn hefur stýrt sjávarútvegsráðuneytinu í 18 eða 19 ár og undir hans stjórn var greinin skuldsett upp fyrir masturstoppa. Heldur þú að skuldsettir kvótagreifarnir neiti að ræða við ríkisstjórnina vegna jómfrúarræðu? Þarna togast á almannahagsmunir og sérhagsmunir. Tvennt liggur naglfast fyrir í málinu: 1. Kvótaþegar vilja ekki fyrna kvótann. 2. Ríkisstjórnin hefur lofað að fyrna kvótann um 5% á ári.
Sigurður Þórðarson, 22.5.2009 kl. 10:23
Þakka þér Ólína fyrir að verja hagsmuni Íslenska ríkisins. Synd hvað fáir þingmenn berjast fyrir þessu mikilvægasta hagsmunamáli þjóðarinnar.
Viðar Ingvason (IP-tala skráð) 22.5.2009 kl. 13:08
Sæl Ólína. Kærar þakkir fyrir góðan pistil. Ég hlakka til að fylgjast með þér á þingi og ég veit að ef í harðbakkann slær þá ert þú fullfær um að kveða í kútinn þau handbendi kvótagreifanna sem þar sitja. Minni svo á að í sveitum landsins var innleitt framsóknar- kvótasukkkerfi sem enn lifir góðu lífi og ekkert lát virðist á.
Ingimundur Bergmann, 24.5.2009 kl. 22:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.