Hverjir eru þjóðin?

Nú sit ég hér á skrifstofu minni - er þó eiginlega stödd á þingfundi, því umræðan þar stendur yfir og ég er með kveikt á sjónvarpinu. Ég á þess þó ekki kost að vera í þingsalnum lengur þar sem ég verð að undirbúa ræðu fyrir utandagskrárumræðu á morgun.

Nú geri ég hlé á vinnu minni til að nefna þetta - vegna þess að rétt í þessu var Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, að hneykslast á því að ekki skuli fleiri sitja í þingsalnum að hlusta á umræðurnar sem hófust kl. 13.30. Hann talaði eins og allir væru farnir heim.

Það er eins og hann viti ekki að líkamleg viðvera er ekki skilyrði þess að vera viðstaddur umræðurnar. Þingmenn eru að störfum um allt þinghúsið og á skrifstofum sínum. Allstaðar eru sjónvörp og hátalarakerfi þannig að menn heyra umræðurnar, hvar sem þeir eru staddir. Satt að segja hefði ég haldið að Þór Saari væri farinn að kynnast því sjálfur hversu mikið annríki fylgir þingmennskunni - en hann virðist standa í þeirri trú að mannskapurinn sé farinn heim.

Og úr því ég er farin að hnýta í þetta, þá vil ég nefna annað.

Það stakk mig svolítið við eldhúsdagsumræðuna í gærkvöldi að heyra talsmenn Borgarahreyfingarinnar tala um sjálfa sig sem sérlega fulltrúa þjóðarinnar.

En sjáið nú til: Ég lít ekki svo á að ég sé þjóðkjörin á Alþingi Íslendinga - tilheyri ég þó flokki sem er stærsti stjórnmálaflokkur á Íslandi með um 56 þús atkvæði, eða 30% fylgi. Borgarhreyfinguna kusu ríflega 13 þúsund manns eða 7,2% kjósenda. Vissulega tilheyra þessir kjósendur þjóðinni - það gera líka, og ekki síður, hin 92,8% sem kusu eitthvað annað.

En ... nú er ég búin að semja ræðuna fyrir morgundaginn og ætla að trítla aftur út í þinghús þar sem ég mun sitja þar til þingfundi lýkur. Wink

----

PS: Ekki var ég fyrr sest í mitt sæti en Saari og félagar yfirgáfu salinn undir ræðu fjármálaráðherra og sást ekkert þeirra meir á þeim fundi (sem var reyndar langt kominn, svo þau misstu ekki af miklu). Svolítið fyndið samt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Á tvöþúsund manna og kvenna borgarafundi í Háskólabíó, ásamt því að fundinum var sjónvarpað beint- svaraði einn fulltrúi ríkisstjórnarinnar sem svo að þjóðin væri ekki viðstödd og engin talaði þar fyrir þjóðina. Eflaust rétt

En svarið situr ennþá afar djúpt í mörgum.

Tíminn var viðkvæmur og bylting innan seilingar.

Á þingvalla hátíðinni árið 1944 hefur verið talað um að þjóðin hafi komið þar saman til lýðveldisstofnunnar. Sennilega innan við 10 % samkvæmt þjóðskránni. Þannig að þjóðin mætti þar ekki

Þetta er vandmeðfarið hvenær við erum þjóð eða ekki þjóð þegar mannfjöldi kemur saman í þjóðmálaástandi.... eða þannig.

En kveðja til Alþingis.

Sævar Helgason, 19.5.2009 kl. 18:18

2 Smámynd: Páll A. Þorgeirsson

Það fer ekkert á milli mála að þingmenn Borgarahreyfingar hafa borið af til þessa bæði í rituðu máli og mæltu.  Þeir gera sér grein fyrir því að þeir eru þjónar þjóðarinnar. 

Páll A. Þorgeirsson, 19.5.2009 kl. 18:33

3 Smámynd: Einhver Ágúst

Ekki falla í Ingibjargartrans kæra Ólína.....og þið verðið því miður ekki lengi stærsti flokkurinn með ykkar vinnubrögð og að bjóða uppá sama ruglið og þið hafið gert undanfarin ár, nýjir tímar krefjast nýrrar hugsunar.

Er það ekki réttmæt krafa að þingmenn sitji fundi alþingis? Varst þú ekki skólameistari?  Hvaða rugl er þetta?

Ég skil vel að Samfylkingin óttist okkur í Borgarahreyfingunni en þú þarft ekkert endilega að taka allt persónulega, því að ef við myndum eða hefðum eytt helmingi þeirra peninga sem þið eydduð í kosningarnar (þrátt fyrir skuldir ykkar og vafasama fjárhagslega fortíð sem enn er ekki kominn upp á yfirborðið einhverra hluta vegna) værir þú að horfa önnur hlutföll en þarsem við erum ekki í þessu til að ná völdum heldur til að breyta þessu illa skemmda og úr sér gengna kerfi.

Góðar stundir

Einhver Ágúst, 19.5.2009 kl. 20:26

4 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

Auðvitað eruð þið öll fulltrúar þjóðarinnar. Útá það gengur þetta fulltrúalýðræði. Hitt er svo annað mál að mér finnst þið þingmenn gleyma þessu ærið oft og finnast þið vera fulltrúar flokkanna eingöngu. Þess vegna þarf að koma á miklu virkara eftirliti og aðhaldi með störfum ykkar.

Guðl. Gauti Jónsson, 19.5.2009 kl. 21:29

5 Smámynd: Gunnlaugur I.

Það er gott mál að þú sem nýkjörinn þingmaður skulir velta því alvarlega fyrir þér hver "þjóðin" er. 

Vonandi týnirðu henni ekki. 

Og vonandi verður þú á Alþingi fyir okkur þjóðina þína alla, en ekki bara suma.

Fyrrverandi formaður þinn afneitaði nefnilega þessari þjóð hvað eftir annað en einna eftirminnilegasta afneitunin kom fram fyrir framan tökuvélarnar á frægum fundi í Háskólabíói.

Gunnlaugur I., 19.5.2009 kl. 21:41

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Kæru vinir - ég er einfaldlega að benda á þá staðreynd að allir þingmenn eru þjónar þjóðar sinnar á Alþingi Íslendinga, þó enginn þeirra sé þjóðkjörinn. Það er kjarni míns máls - og þetta held ég að menn skilji mæta vel, þó sumir láti á annan veg hér í athugasemdum.

Ég tek undir það með Guðlaugi Gauta að Alþingi þarfnast aðhalds í störfum sínum. Það aðhald kemur fyrst og fremst frá kjósendum (almenningi) og fjölmiðlumn (ef þeir standa undir hlutverki sínu) og hlýtur að snúast um ákvarðanir og vinnuaðferðir.

Andlaust pex yfir því hvar í þínghúsinu þingmenn eru staddir við sína vinnu á meðan umræða fer fram í þingsal - er ekki raunverulegt aðhald.

Íslandi allt.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.5.2009 kl. 22:43

7 Smámynd: Einhver Ágúst

Þú varst nú lengi í fjölmiðlum meðan þeir stóðu sig ekki, vona að þer gangi betur sem þingmanni ásamt hinum gömlu vinnufélögum þínum sem skyndilega eru orðnir þingmenn.

Andlaust pex????

Þú hlýtur að vera að grínast,  en guð og lukkan fylgi þér í þínum þingstörfum, vona að fjölmiðlar fylgist betur með nú en þegar þú vannst þar.

Er ekki gert ráð fyrir að þið séuð í þingsal við umræður?

Einhver Ágúst, 20.5.2009 kl. 00:18

8 identicon

Þá vaknar nú spurningin um hvort líkamleg viðvera þarf að vera þegar ræða er flutt.

Borgarhreyfingin er afsprengi búsáhaldabyltingarinnar og því mun nær að segja að hún tali máli þjóðarinnar og til marks um það er að hún ætlar ekki að sitja þarna í 10 ár eða 100 ár og rífast svo um herbergi heldur ætlar hún ein flokka að leggja sig niður þegar hennar takmarki er náð en þér er vel kunnugt um hver þau eru.

Annars varðandi viðveru þá er það rétt að þingmenn þurfa að sinna ýmsu sem ekki er auðvelt að sinna í þingsal. En þá spyr maður sig: Hvernig var þetta áður en sjónvarp og tölvur komu til?

Það hefur þótt sýna virðingu að sitja og hlusta á þegar mætt er á fund hvort sem það er þingfundur eða borgarafundur.

Það er nefnilega þannig að þegar þingmaður er ekki í sal þá er hann ekki á þingfundi. Fundur er samkoma en ekki einkoma. Ef sjónvarpið nægði þá sé ég ekkert því til fyrirstöðu að ríkisstjórnin ásamt stjórnarandstöðu beiti sér fyrir milliliðalausu lýðræði og kalli landann saman við sjónvarpið og menn geta þá hringt inn til að flytja sínar ræður og kosningar um frumvörp geta farið fram í hraðbönkum eins og Ástþór vildi.

Svona í lokin langar mig að óska þér til hamingju með nýtt starf og vona að þú kjósir ávallt samkvæmt þinni eigin sannfæringu. Það er hálfdapurlegt þegar þingmenn þurfa að árétta að þeir ætli í þessu eða öðru máli að kjósa samkvæmt sinni eigin sannfæringu.

Og svona alveg í blálokin Ólína. Á hvern hátt sérðu fyrir þér að almenningur geti sýnt þingmönnum aðhald?

Hafþór Baldvinsson (IP-tala skráð) 20.5.2009 kl. 00:37

9 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Þú virðist nú geta dundað þér við blogg á fullu þingfararkaupi. Á tölvu og í húsnæði sem þjóðin greiðir fyrir. Gagnrýnir þingmenn Borgarhreyfingarinnar fyrir nákvæmlega það sama og þú gerir sjálf. Líttu þér nær kona.

Sigurður Sveinsson, 20.5.2009 kl. 07:24

10 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Stöðug og óslitin viðvera í sjálfum þingsalnum er ekki skilyrði við umræður sem þessar, enda er ekki hægt að sinna störfum í sjálfum þingsalnum. VIð megum ekki hafa þar tölvur, og farsímar eru illa liðnir sömuleiðis. Þingmenn mega að sjálfsögðu rísa úr sætum sínum, ganga fram, fara inn á sínar skrifstofur og sinna þar einhverju um tíma.

Þeir verða hinsvegar að fylgjast með umræðunum (þess vegna eru sjónvörp og  hátalarar um allar byggingar og inni á skrifstofum) - og mæta í atkvæðagreiðslur.

Þegar umræður hafa staðið lengi fer oft að verða þunnskipaður bekkurinn í sjálfum salnum. Sem skiljanlegt er.

Ég gagnrýni Borgarahreyfinguna fyrir það að láta í veðri vaka - nú þegar þeir vita betur - að þingmenn séu almennt ekki að vinna vinnuna sína; að þeir séu bara farnir heim á miðjum degi.  Þar held ég að þeir tali gegn betri vitund.

Sjálf er ég staðráðin í því að sitja þingfundi eftir fremsta megni - enda er það skylda mín.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 20.5.2009 kl. 08:36

11 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Smá viðbót, vegna orða Sigurðar.

Ég lít svo á að bloggið sé mín samræða við almenning og kjósendur í landinu. Fólk er að kalla á beinna lýðræði og beinni samskiptaleiðir. Samræða á þessum vettvangi er að mínu viti einn liður í slíku.

Loks vil ég geta þess að þingmaður hefur engan fastan vinnutíma, nema þann tíma sem störf þingsins standa hverju sinni, og það er breytilegt. Vinnutími okkar er því allur sólarhringurinn ef því er að skipta. Í okkar tilviki er nær að tala um hlutverk heldur en eiginlegt starf, því opinberir starfsmenn hafa niðurnjörvaðan vinnutíma sem alþingismenn hafa ekki.

Þannig er nú það  - og kannski fróðlegt fyrir suma að vita þetta.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 20.5.2009 kl. 08:48

12 Smámynd: Einhver Ágúst

Hlutverk, það hljómar voða vel, já þarna er líka eitt af fjölmörgu sem við í Borgarahreyfingunni viljum breyta.

Það er náttúrulega alveg út í hött að fólk sem kemst inná þing sem þingmenn þjóðarinnar hafi svo lítið aðhald sem raun ber vitni, og að þingið starfi eftir gömlum hugmyndum einsog td sauðburði og hvenær er reiðfært milli kjördæma er orðið frekar úrelt.

 Passaðu þig á að velja þér starfsheitið "hlutverk" það setur þig á stall og þú virkar snobbuð og góð með þig, þú ert ekkert sérstök þú potaðir þér fram í flokki í mætti þess að vera þekktur einstaklingur eftir áralöng störf í fjölmiðlum, ég trúi að þú sért þarna af einhversskonar vilja til að gagnast landi og þjóð en staðreyndin er sú að þú ert þingmaður fyrir næst spilltasta flokk landsins, það eitt sýnir mér að þú vilt nú litlar breytingar og frumvörp ykkar um "leiðbeinandi" stjórnlagaþing og veiklulegar tilraunir til að auka gagnsæi þegar þið vilji greinilega ekkert gagnsæi og felið fjármál flokksins og einstaklinga innan hanns sýna ekki mikinn vilja til að breyta hér einu né neinu. Flokk sem hefur gríðarsterk tengsl við stór og spillt fyrirtæki sem hér settu allt í kalda kol, flokk sem hefur innan sinna raða fyrverandi Bankamálaráðherrra sem hér laug(ítrekað) að þjóðinni blákalt í beinni útsendingu á meðann allt hrundi og í langann tíma í aðdraganda hrunsins skrifaði hann miklar og langar greinar gegn öllum sem voguðu sér að gagnrýna bankana eða benda á hætturnar, hann er algjörlega vanhæfur en er nú formaður þingflokksins ekki rétt? Dapurlegt og eina af þessum fínu venjum í okkar fallega landi að menn sæta aldrei ábyrgð og segja ekki af sér sama hvað á dynur.

En gott hjá þér að nenna að tala við okkur hér, það skal ég hrósa þér fyrir en ekki gagnrýna, samræðan er einmit einn liður í að tengja þingheim raunveruleikanum ef það verður ekki gert kyrfilega núna er afar stutt í næstu byltingu og hún verðu ekki tónuð niður af friðsömu aktivistum einsog okkur sem höfum stofnað Borgarhreyfinguna, því miður, þá mun reiður múgurinn rísa upp einsog svo oft áður í svipuðum aðstæðum í mannkynssögunni með ömurlegum afleiðingum.

Einsog afi minn sgði við mig stöðugt frá því ég var barn "Gústi minn byltingin kemur og byltingin verður blóðug, þið unga fólkið verðið að gera eitthvað!", afi dó í miðju hruninu og hafði af okkur áhyggjur.

Einhver Ágúst, 20.5.2009 kl. 10:27

13 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Ég get vel tekið undir að bloggið sé hluti af lýðræðisumræðunni. Kannski blogga margir í vinnutímanum. Hinsvegar hafa nú sumir kollegar þínir úr norðvesturkjördæmi þann háttinn á að skrifa einstefnublogg. Þ.e. þeir leyfa engar athugasemdir vegna skrifa sinna. Bendi á Einar Guðfinnsson og Jón Bjarnason. Það er þeirra lýðræði en sem betur fer notar þú ekki þær aðferðir og ég óska þér heilla í mikilvægu starfi.

Sigurður Sveinsson, 20.5.2009 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband