Skortur á fjármálalæsi eða óhóf og eyðslusemi

fúlgurfjár Jæja, þá er búið að mæla fjármálalæsi okkar Íslendinga og er skemmst frá því að segja að við fáum falleinkunn. Jebb ... hér er sko ekki verið að mæla stjórnvöld eða fjármálaspekúlanta, heldur heimilin í landinu. Meðaljónana og miðlungsgunnurnar.

 Fjármálalæsi er skilgreint sem getan til að lesa, greina, stjórna og fjalla um fjármálalega þætti sem hafa áhrif á efnahagslega velferð einstaklingsins. Það greinist í þekkingu, hegðun og viðhorf og felur í sér getuna til að greina fjármálavalmöguleika, fjalla um peninga án vandkvæða (eða þrátt fyrir þau), gera framtíðaráætlanir og bregðast við breytingum sem hafa áhrif á fjármál einstaklingsins, þar með talið breytingum á efnahagslífinu í heild.

Með öðrum orðum: Íslendingar kunna ekki fótum sínum forráð í fjármálum. Nú hefur það verið skilgreint og skjalfest með vísindalegum hætti sem við vissum innst inni. Þjóðin hefur ekkert peningavit. Það var það fyrsta sem fuðraði út í buskann í góðærinu.

Í landi þar sem eðlilegt þykir að taka 120% lán fyrr raðhúsinu sínu og myntkörfulán fyrir 2 heimilisbílum (jeppa og fólksbíl) til viðbótar við fullan yfirdrátt og raðgreiðslur fyrir aðskiljanlegum heimilistækjum - allt á sama tíma - þar skortir svo sannarlega á fjármálalæsið.

Fjármálalæsi er kurteislegt orð. Skortur á fjármálalæsi er enn kurteislegri framsetning á  grafalvarlegu ástandi sem m.a. birtist í óhófi og veruleikafirringu og getur haft skelfilegar afleiðingar, eins og dæmin sanna.

Íslensk tunga á ýmis orð yfir slíkt, t.d. óráðsía, eyðslusemi og neysluæði. En slík orð eru allt of brútal fyrir virðulegar rannsóknaniðurstöður - enda allt of sönn.


mbl.is Íslendingar falla í fjármálalæsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta endalausa peningakjaftæði er orðið óþolandi. Heilbrigð skynsemi kann fótum sínum forráð í fjármálum eins og öðru og hefur alltaf gert ef græðgin er ekki með í spilunum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.5.2009 kl. 23:10

2 Smámynd: Kristinn Sigurjónsson

Þetta er skýringin á háum vöxtum á Íslandi.  Íslendingar hafa alltaf eytt um efni fram.   Og þegar harðnar á dalnum, þá eyða menn bara enn hærri skuldir en engan varasjóð.   Spurningin hvað er hægt að gera til að auka sparnað, m.ö.o hvetja til sparnaðar.  Það er ekki gert með því að

  1. Lækka vexti
  2. skattleggja vaxtartekjur
  3. endurgreiða hluta greitt vaxta
Því miður eru þetta það sem samfélagið vill og það mun ekki bæta fjármálalæsi þjóðarinnar og auka sparnað og ráðdeild

Kristinn Sigurjónsson, 7.5.2009 kl. 23:18

3 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæl Ólína,

Hef stundum sagt að mér sé illt í löngutöng, eftir að hafa stutt henni stöðugt á púlsinn á Íslandi s.l. 11 ár héðan frá annarri heimsálfu.

Fyrir ca 3 árum 2006 minnir mig, hafði ég vaxandi áhyggjur af fréttum af "yfirdrætti heimilanna", fannst þetta vera upphaf að vítahring dauðans, að draga lífið fram á rándýrum yfirdráttum.  Síðan skyndilega eins og hendi væri veifað, hurfu þessir yfirdrættir heimilanna, þeim var sem sé skuldajafnað, með loftbóluláni og loftbóluveði í húseignum, sem skyndilega höfu orðið fyrir loftbóluhækkun.  Gott og vel hugsaði ég, nú er tækifærið til að fara að lifa í samræmi við efni og ástæður.  Innan við 6 mánuðum seinna var allt komið í sama horf.  Yfirdrættir heimilanna komnir í svipað eða verra ástand en var fyrir "hreina borðið".

Því verð ég að taka undir þennan pistil hér, held að mjög margir hafi því miður lifað lífinu eins og enginn væri morgundagurinn.

Kveðja vestur.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 8.5.2009 kl. 04:21

4 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Má svo til að bæta við, þú nefnir mælingu á fjármálalæsi heimilina.

Mæling á fjármálalæsi bankastjóra, stjórnvalda, seðlabanka, er ónauðsynleg.  Sú mæling er auðvitað raunveruleg, gjaldþrot heillar þjóðar, og hvers eiga þá eplin að gæta, þegar eikin er svona fjandi fúin.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 8.5.2009 kl. 04:32

5 Smámynd: Hlédís

Sæl Ólína!

Ég ætlaði hér inn til að nefna að meðaleinkunn í fjármálalæsi sé síst hærri hjá stjórnmálamönnum en almenningi. Jenný, vinkona okkar, Stefanía, tók ómakið af mér ;)

Verst er að vankunnátta í fjármála-reikningi er alvarleg fötlun hjá nýju ríkisstjórninni. Er ég þar að tala um illa grundaðar aðgerðir til bjargar verst stöddu fórnarlömbum verðtryggðu okurlánanna - meðan hin sem rænd hafa verið og enn hanga uppi, eiga bara að sitja með rangt reiknaðar skuldir það sem eftir er ævinnar og vel það, eða allt að 70 - sjötíu - árum!

Hlédís, 8.5.2009 kl. 09:33

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Konur mínar - ég er ekki að gera lítið úr  skorti á fjármálalæsi stjórnmálamanna, embættismanna, forsvarsmanna fjármálastofnana eða stjórnsýslunnar almennt. Síður en svo  enda blasa afleiðingar þeirrar lesblindu við okkur nú þegar, eins og Jenný bendfir á.

En þeir sem harðast dæma fyrrnefnda aðila tilheyra þjóð sem lifði um efni fram.

Hlédís - þú talar eins og nýja ríkisstjórnin sitji ein og ákveði aðgerðir, eiginlega bara út í loftið. Það er sárt að sjá viti borið fólk tala með þessum hætti. Að vinnu og ákvörðunum ríkisstjórnarinnar koma færustu sérfræðingar, hver á sínu sviðið. Og ef þú heldur að búið sé að slá botninn í það sem gert verður þá er það líka misskilningur. Vinnan er í gangi  og öll úrræði til umræðu. En menn verða að vanda sig og þau úrræði sem gripið er til verða að standast bæði lög og stjórnarskrá. Það er ein ástæða þess að ekki hefur verið gengið lengra í almennum aðgerðum. En slíkar aðgerðir eru allar til gaumgæfilegrar athugunar, því viljinn til aðstoðar er ríkur og ósvikinn. Því get ég lofað.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.5.2009 kl. 10:07

7 Smámynd: Hlédís

Gott, Ólína!

Ég efaði aldrei að fólkið væri að gera sitt besta. Reiknirökin voru bara ekki nógu góð. Því þarf aðhald vitiborins fólks áfram, þótt sárt sé :)

Hlédís, 8.5.2009 kl. 11:15

8 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Það er rétt hvar hafa skólarnir verið í því að kenna ungu fólki? að lesa í fjármál og hvað kostar að taka lán ég hef haldið því fram að hin hagsýna húsmóðir sem lærið í Húsmæðraskólunum hafi verið sú eina sem fékk fræðslu í hagsýni.

 Það verður ekki framhjá því litið að þær eru fjármálaráðherrar á heimilunum í flestum tilfellum, nú reynir á að bjarga sér með gömlu húsráðunum að sauma og smíða og vera sjálfum sér nógur og kaupa sem minnst til rekstur á heimilinu. Nýta máttarafgang og allt í þeim dúr .

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 8.5.2009 kl. 11:17

9 Smámynd: Ellert Júlíusson

Það má samt alveg bæta því við Ólína að þeir einstaklingar sem enn geta borgað sitt, þar sem að ekki var farið fram úr greiðslugetu í fjárfestingum og neyslu eru samt búnir að fá nóg.

Og jafnframt má benda þér á að alhæfingar hæfa einvörðungu stjórnmálamönnum, ekki fengu allir að vera memm í góðærinu.

Ellert Júlíusson, 8.5.2009 kl. 17:36

10 Smámynd: Hlédís

Kæra Ólína!

Ríkisstjórnin ræður e t v engu um forgangsröðunina. Ef rétt er að Brown og IMF - og síðar EB séu þeir sem ráða, verður þetta allt saman skiljanlegra. Þeim er nefnilega alveg sama um þjóðerni láglaunaliðsins sem nýtir auðlindir Íslands fyrir eigendurna í framtíðinni.

Þú mátt trúa því að í þeim hópi verður ekki best menntaða unga fólkið okkar sem nú er á leið í - eða komið í  - silkifóðraðan  - verðtryggingargálgann!  - Það fólk er þegar á leið úr landi.  Hvað skuldar það líka landi sem lánað hefur því á okurkjörum fyrir námi og ætlar nú að rétta við fjárhagsstöðu sína með húsnæðis-okri?

Hlédís, 8.5.2009 kl. 19:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband