Fjölmiðlar hafa brugðist

Mér finnst fjölmiðlar hafa brugðist í því að upplýsa fólk og útskýra fyrir því þau úrræði sem skuldurum bjóðast sem aðstoð í greiðsluvanda. Það er furðulegt að fjölmiðlar skuli eyða meira púðri í að ýta undir þá falsvon hjá örvingluðu fólki að það geti bara hætt að borga skuldir sínar - að greiðsluverkfall sé valkostur - heldur en að greina frá þeirri aðstoð sem fólki stendur til boða.

Greiðsluverkfall gagnast engum nema kannski innheimtulögfræðingunum, eins og Gylfi Magnússon bendir á. Það gæti hinsvegar leitt af sér annað hrun. Hver er bættari með því?

Nú þegar stendur fólki til boða margvísleg aðstoð í greiðsluvanda, eins og sjá má á listanum hér neðar. Margt mætti auðvitað gera betur og meira af. Til dæmis mætti stórauka frá því sem nú er ráðgjöf til fólks í skuldavanda. Er ekki landið fullt af atvinnulausum bankastarfsmönnum sem  ráða mætti til þeirra starfa að hlusta á fólk í greiðsluvanda, setja sig inn í stöðu þess og aðstoða það við að ráða fram úr honum? Ég veit að það er verið að vinna að heilmikilli ráðgjöf nú þegar - en  slíka ráðgjöf tel ég að mætti margfalda að umfangi. (Þetta er nú svona vinsamleg ábending).

Já, svo mætti auðvitað laga löggjöfina þannig að lántakandinn sitji ekki einn uppi (ásamt ábyrgðarmönnum úr hópi fjölskyldu eða vina) með alla áhættu og ábyrgð af því að hafa þegið lán - heldur beri lánveitendur líka einhvern hluta ábyrgðarinnar og áhættunnar.

Margt fleira mætti auðvitað betur fara. En lítum nánar á þau úrræði sem í boði eru nú þegar:

  1. Skuldajöfnun verðtryggðra lána sem þýða 10-20% lægri greiðslubyrði en ella.
  2. Frysting og í framhaldi skuldajöfnun gengisbundinna lána sem þýðir 40-50% lægri greiðslubyrði.
  3. 66% hækkun vaxtabóta.
  4. Útgreiðsla séreignasparnaðar sem nemur 1 mkr á einstakling og 2 mkr á hjón.
  5. Greiðsluvandaúrræði Íbúðalánasjóðs hafa verið stórefld og samið við aðrar fjármálastofnanir um að sömu úrræði gildi þar einnig, þ.e: a)Skuldbreytingalán og lánalengingar um 30 ár í stað 15 áður. b)Heimild til að greiða bara vexti og verðbætur af vöxtum og frysta höfuðstól í allt að 3 ár. c) Heimild til að frysta afborganir í allt að 3 ár.  d) Ýmsar mildari innheimtuaðgerðir.
  6. Greiðsluaðlögun samningskrafna - skuldir aðlagaðar greiðslugetu, jafnvel felldar niður ef þarf.
  7. Lögum breytt um ábyrgðarmenn þannig að ekki má lengur ganga að húseign ábyrgðarmanns.
  8. Ekki má lengur skuldfæra barnabætur upp í skattaskuldir
  9. Ekki má lengur skuldfæra hvers konar inneignir hjá ríkinu upp í afborganir Íbúðalánasjóðs.
  10. Frestun nauðungaruppboða fram í ágúst, sé þess óskað.
  11. Aðfararfrestur lengdur úr 15 dögum í 40.
  12. Aukinn stuðningur aðstoðarmanns og leiðbeiningaskylda vegna gjaldþrota.
  13. Greiðsluaðlögun fasteignaveðlána.
  14. Heimild til Íbúðalánasjóðs til að leigja fyrri eigendum húsnæði sem sjóðurinn eignast á uppboðum.

Nú er mér ljóst að þessi úrræði eru engin töfralausn sem leysir hvers manns vanda. En þau létta álagið mjög og skapa skuldaranum svigrúm til þess að láta enda ná saman og komast af í kreppunni, þar til eðlilegri forsendur skapast í efnahagslífinu.

Fjölmiðlum væri nær að kynna þessi úrræði betur en gert hefur verið heldur en að ýta undir að örvinglað fólk hætti að borga. Þeim væri nær að skýra fyrir fólki hvaða lög gilda í landinu um afleiðingar slíkra aðgerða, heldur en að elta hasarinn og skemmta skrattanum.

Nóg er nú samt í  okkar hrjáða landi. Angry


mbl.is Varar við örþrifaráðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Hvar eru reglugerðirnar sem áttu að fylgja lögunum? Eiga fjölmiðlar að semja þær? Þessi stjórn er fallin á tíma við að gera það sem átti að vera til búið fyrir kosningar. Það er trúlegt að hún fái engan frið til að vinna vegna þessa seinagangs við stjórnarmyndun, á stjórn sem er starfandi, og tekur allan þennan tíma í að skipta með sér verkum.  

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 4.5.2009 kl. 21:57

2 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Sæl Ólína og til hamingju með þingsætið, Það kemur hér fram í pistli þínum að þér finnist að fjölmiðlar hafi brugðist þeirri skyldu sinni að upplýsa fólk um úrræðin í greiðsluvanda.

  • Ég verð að segja eins og er, að það finnst mér alls ekki nóg. 
  • Nú er að far af stað ríkisstjórn sem stendur frammi fyrir  mesta vanda sem nokkur ríkisstjórn hefur staðið frammi fyrir áður.
  • Bara til þess að hin góðu verk þessarar góðu ríkisstjórnar sem ég bind miklar vonir, verður að hafa í gangi upplýs-ingateymi sem hefur það verkefni að upplýsa þjóðina jafnóðum hvað er að gerast. 
  • Hafi einnig það verkefni að matreiða upplýsingarnar svo þær komist til skila til réttra aðila.
  •  Fólk er enganveginn upplýst
  • upplýsingar eru einnig misvísandi
  • Þá eru ráðherrar ekki allir jafn góðir fjölmiðlamenn og eða upplýsingagjafar
  • þa´vantar ýmsar vinnureglur

 

Kristbjörn Árnason, 4.5.2009 kl. 22:08

3 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Varðandi atriði 14 þá er heimild Íbúðalánasjóðs til þess að leigja íbúum (hvort sem þeir eru eigendur eða ekki) í allt að 12 mánuði.

Axel Þór Kolbeinsson, 4.5.2009 kl. 22:13

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Jón - ég hef spurst fyrir um þetta með reglugerðirnar, og sannleikurinn er sá að þetta er flökkusaga eftir því sem ég kemst næst. Það vantar engar reglugerðir svo vitað sé og greiðsluvandaúrræðunum er verið að beita nú þegar.

Kristbjörn - við erum sammála um að upplýsingaflæðið verður að vera gott. En þar bera fleiri ábyrgð en stjórnvöldin ein.  Það er ekki bara rikisstjórnin sem stendur frammi fyrir vanda. Þjóðin  öll er í miklum vanda og við verðum að hjálpast að, stjórnvöld, fjölmiðlar, atvinnulífið og almenningur.

Axel - ég hef ekki skoðað sérstaklega þessa heimild sem þú talar um, en ímynda mér að hana megi framlengja ef aðstæður krefjast. Ætla að kynna mér þetta betur.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 4.5.2009 kl. 22:22

5 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ólína þetta er spurning um áróður eða rökræður. Þessi listi yfir aðgerðir er langur, en rýr. Greiðsluaðlögun er t.d. nokkuð sem aðeins einn aðili er kominn á stað með og flestir þeir sem hafa kynnt sér hrista höfuðið yfir. Fjölmiðlar eiga ekki að taka þennan lista heldur skoða aðgerðirnar í heild og meta þær. Hagsmunasamtök heimilanna er væntanlega ekki stofnuð til höðus Samfylkingunni. Umboðsmaður neytenda er væntanlega ekki í starfi sínu gegn Samfylkingunni. Þetta mál eins og öll önnur eigum við að geta rökrætt og náð sátt um. Margir upplfiðu að tillögur Framsóknarflokksins hafi verið ýtt út af borðinu án eðlilegar umræðu og af hroka. Búsáhaldabyltingin kallaði fram kröfu um vandari vinnubögð. Rökræðu í stað áróðurs.  

Sigurður Þorsteinsson, 4.5.2009 kl. 22:41

6 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Þetta sem ég nefni Ólína eru núverandi starfsreglur.  Í lögum 138/2008 er ekki kveðið á um nein tímamörk heldur að ráðherra skuli hveða á um þau í reglugerð.  Engin reglugerð hefur enn verið birt í Stjórnartíðindum að ég best veit.

Ég nefni þetta því ég lenti í þessu ferli sjálfur nýlega sem leigjandi, og hef þessar upplýsingar beint frá starfsmanni Íbúðalánasjóðs.

Axel Þór Kolbeinsson, 4.5.2009 kl. 22:43

7 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Ég þakka þér svarið Ólína.

En frumskyldan er stjórnvalda. Það er alveg ljóst að upplýsingar eru alls ekki nógu skýrar. Fólk er ekki nægilega upplýst. Hjá almenningi eru í gangi allskonar misskilningar að ég vona sem stjórnvöld verða að laga hið snarasta.

Kristbjörn Árnason, 4.5.2009 kl. 22:43

8 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sigurður - Ég tek undir það að þegar jafn alvarlega mál eru uppi eins og staða skuldsettra heimila þá er það skylda okkar að rökræða í stað þess að vera með áróður. Það er minn vilji a.m.k. "Fjölmiðlar eiga ekki að taka þennan lista heldur skoða aðgerðirnar í heild og meta þær" segir þú - ég get tekið undir það, en hvorugt hefur verið gert. Það gagnrýni ég. Það skortir á upplýsingarnar.

Axel - takk fyrir ábendinguna. Það er auðvitað ekki nógu gott af brýnar aðgerðir stranda á reglugerð.

Kristbjörn - vitanlega liggur frumskyldan hjá stjórnvöldum að koma upplýsingum á framfæri. En það er bara ekki nóg ef þeir sem hafa það hlutverk að miðla þeim áleiðis gera það ekki skammlaust. Fjölmiðlar bera hér ríka ábyrgð.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 4.5.2009 kl. 22:58

9 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Kynningu á neyðarúrræðum er mjög áfátt

Ég er einn þeirra sem hefur lengi fjallað um ofbeldi bankakerfisis gegn öllum almenningi. Er lýsir sér í lánskjörunum almennings, þar sem löggjafinn tryggir bönkunum miklu betri stöðu en lántakendur hafa með lögum. M.ö.o. það er lögfest að í viðskiptum sem þessum skuli annar aðilinn (sem er bankinn) hafa miklu sterkari stöðu en hinn.

  • Ég hef verið með svipaða skoðun nú stundir og Lilja Mósesdóttir sem hefur verið talsmaður réttlátra hugmynda þar sem væri farin niðurfærsluleið er kæmi venjulegu launafólki vel. Eitt er víst að það enn verulegur fjöldi af fólki sem er enn að vinna úr áfallinu sem kom 1983.
  • Þá vantar úrræði fyrir fólk sem er komið í gjörsamlega vonlausa stöðu eins fjölskyldufaðirinn er, sem sjónvarpsviðtalið var við í kvöld. Þar er á ferðinni tilfelli þar sem fjölskyldan á heima í félagslegri leiguíbúð og sveitarfélag þessa manns á að bera ábyrgð á þessari fjölskyldu. Næsta skrefið gæti verið félagsleg Búsetaíbúð. Félagslegar kaupleiguíbúðir (Búseti) gætu hentað mörgum fjölskyldum sem komnar eru í slíkt þrot sem þessi maður. Slík úrræði virðast skorta í þennan pakka.
  • Þá finnst mér öll kynning á þessum úræðum sem ríkisstjórnin hefur samþykkt afar illa kynnt. Bara vegna þess hve kynningin öll er í miklu skötulíki, er mikill misskilningur í gangi og fólk er mjög örvinglað og veit ekki sitt rjúkandi ráð. Ríkisvaldið verður að vera með í gangi a.m.k. nú á meðan ástandið eins og það er,  kynningarteymi í gangi sem matreiðir upplýsingar um neyðarúrræðin  sem í boði eru, með því málsniði sem fólk skilur.

Kristbjörn Árnason, 4.5.2009 kl. 23:19

10 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Já, Kristbjörn - ég held það væri vel til fundið að ráða mörg kynningarteymi og gera þau út af örkinni, helst í öllum hverfum borgarinnar og öllum þéttbýlisstöðum landsins.

Fólk þarf einhvern til að ræða við um vanda sinn í rólegheitum, einhvern sem sýnir skilning og aðstoðar við úrlausnina.

Þetta er nokkuð sem ekki má vanmeta.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 4.5.2009 kl. 23:29

11 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Það sæmir þér ekki að vera með út úr snúninga Ólína,  þú ert e.t.v. með Hlíðarnar í huga.

Svo öllu gamni sé sleppt, að þá er þetta alvörumál sem verður að taka alvarlega. Ekki vil ég að óábyrgir augnaþjónar úti í samfélaginu skaði fjölskyldur með málflutningi sínum ef hann er rangur.

Kristbjörn Árnason, 4.5.2009 kl. 23:46

12 identicon

Íslenska fjölmiðla er búið að eyðileggja, þeir eru getulausir.

Sjötta greinin "Greiðsluaðlögun samningskrafna - skuldir aðlagaðar greiðslugetu, jafnvel felldar niður ef þarf." er sú eina sem gefur í skin að einhvers réttlætis verði gætt. Gallinn er bara sá að henni verður ekki beitt fyrr en fólk er orðið gjaldþrota.

Aðrar eru duglitlar og restin snýst um að lengja og stækka skuldahalann.

Fjármagnseigendur fjármálafyrirtæki og braskarar hafa fengið gríðarlega há framlög frá skattgreiðendum og gert kleift að fara leiðir sem almenningi stóð aldrei til boða.

Nú dugar ekkert minna en eignartilfærslur í hina áttina, frá auðvaldinu til almúgans, að öðrum kosti skapast hér áður óþekkt upplausnarástand.

Viðar Ingvason (IP-tala skráð) 4.5.2009 kl. 23:51

13 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Kristbjörn - mér er full alvara þó ég orði þetta svona, og því fer fjarri að ég sé með útúrsnúninga.

Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að gera út ráðgjafa (þú talar um kynningarteymi) til þess að ræða við fólk, ekki bara hjá Ráðgjafastöð heimilanna heldur víðar um allt samfélagið. Fólk þarf upplýsingar og ráðgjöf.

Þú skalt sofa á þessu. Góða nótt.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 5.5.2009 kl. 00:18

14 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Fjölmiðlarnir enduróma samfélagið. Þeir standa sem betur fer með fólkinu en ekki duglausri ríkisstjórn.  Í seinni fréttum Sjónvarps í kvöld var þó talsverðu púðri eytt í fyrsta tilvik eða mál greiðsluaðlögunar Steingríms og Jóhönnu. Ekki þótti mér sú lýsing þar sérlega fögur eða uppbyggileg með tilsjónarmann skuldarans en hans býður ekkert annað en alger niðurlæging í flestu tilliti.

Nei það fer að verða spurning um hver sé að bregðast hverjum og ekki nema 9 dagar frá kosningum.  Ef aðgerðir og svör ríkisstjórnarinnar fara ekki að koma fram í dagsljósið fjarar undan henni hratt og örugglega á örfáum vikum. Henni verður ekki sætt lengi með almenning á móti sér. 

Við skulum líka átta okkur á því að þessar svokölluðu "stjórnarmyndarviðræður" eru eitt stórt skuespill.  Ríkisstjórnin situr áfram eftir kosningar. Engar breytingar í raun, en staðreyndin er sú að hún og liðsmenn hennar eru hrædd irvið að horfast í augu við grafalvarlegar staðreyndir. Ríkisstjórn felur sig á bak við þessar ímynduðu "viðræður" í Norræna húsinu.  Svo halda menn að almenningur sjái ekki í gegn um sjónarspilið. Lausnirnar eru enn bæði fátæklegar og gagnslitlar samanbert listann hennar Ólínu og það stoðar lítt að kenna öðrum um eigið dáðleysi.  Kalla þarf Alþingi saman sem fyrst og kanna raunverulegan þingstyrk stjórnarinnar. 

ESv 

Einar Sveinbjörnsson, 5.5.2009 kl. 00:29

15 Smámynd: Gunnar Jóhannsson

Sæl Ólína og til hamingju með þingsætið.

Það er nú frekar ódýrt að kenna fjölmiðlum um þá stöðu sem uppi er.  Að mínu viti eru það stjórnmálamennirnir sem brugðust með því að telja fólki trú um að hér væri allt í fínasta lagi, fólki sem í góðri trú tók jafnvel lán í trausti þess að sú gagnrýni sem dundi á íslenska hagkerfinu væri öll byggð á misskilningi og öfund og ætti ekki við nein rök að styðjast.  Og það sem er sorglegast í þessu öllu er að stjórnmálamennirnir vissu betur og voru beinlínis að skrökva að fólkinu.

Það er því ekkert skrítið þó fólk spyrni við fótum og íhugi allar mögulegar leiðir út úr þessum vanda á sama tíma og það horfir uppá milljónatugi og jafnvel milljarða niðurfellingar lána til handa stórskuldugum fyrirtækjum eins og t.d. Morgunblaðsins.  

Úrræðin sem þú telur upp eru vissulega hjálpleg fólki sem ræður ekki við skuldir sínar en við megum ekki gleyma því að stór hluti þessara skulda er tilkominn vegna óábyrgra bankamanna sem vísvitandi tóku stöðu gegn eigin gjaldmiðli og einnig sofandi stjórnvalda sem lokuðu augunum fyrir vandanum, m.ö.o. fólkið stofnaði ekki til þessara skulda nema að hluta til.

Það er þess vegna svolítið erfitt að hlusta á þessa sömu stjórnmálamenn segja manni bara að bíta á jaxlinn og lengja lánið um 30 ár sem þýðir fyrir marga skuldafangelsi út fyrir gröf og dauða.

Gunnar Jóhannsson, 5.5.2009 kl. 01:54

16 Smámynd: Páll Blöndal

"Greiðsluverkfall gagnast engum nema kannski innheimtulögfræðingunum, eins og Gylfi Magnússon bendir á."

Atvinnuskapandi
þarna eru kannski nýju störfin sem er verið a lofa oss. Nú geta bankamennirnir sem misstu atvinnuna kannski fengið nóg að gera við að skrifa innheimtukröfur, sleikja frímerki og póstleggja. Svo vantar mannskap til að henda liðinu út úr húsunum og setja aðra inn. Halda uppboð á lausamunum osfr.
Svo þarf að mennta fleiri í þessi störf. Hellings vinna við það.

Páll Blöndal, 5.5.2009 kl. 01:55

17 Smámynd: Garún

Takk fyrir Ólína.  Ég er svona meðalgreind (vona ég).  Og ég vissi ekki af þessu.  Takk fyrir þetta hjálpar.  Það er alveg rétt, ég hafði bara heyrt af hinum möguleikanum.  Reyndi það við tvo greiðsluseðla sem ég hef ekki náð að borga síðan í janúar og viti menn!  Intrum og Lögheimtan eru blómstrandi sem aldrei fyrr.  Nú er ég búin að copy paste þessum lista og ætla að fá mér aðstoð við að takast á við þetta með ábyrgð. 

Þessi færsla hjálpaði mér.  Takk

Garún, 5.5.2009 kl. 10:25

18 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Það sem stjórnin virðis ekki átta sig á er að meintar lausnir ýta bara undir vonleysið. Skilaboðin eru: það er engin von. Sjá:

http://thorsteinnhelgi.blog.is/blog/thorsteinnhelgi/entry/870617/

Einnig má benda á óréttlætið í björgunaraðgerðum ríkisvaldsins og því hvernig þegnum er mismunað eftir því hvort það átti pening inni í banka (og tapaði því öllu en fékk það strax allt bætt án tillits til þarfar), eða varð fyrir óbeinum áhrifum kreppunnar vegna skuldastöðu og þarf að bera þann bagga að fullu.

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 5.5.2009 kl. 10:59

19 Smámynd: ThoR-E

Skuldbreytingalán og lánalengingar um 30 ár í stað 15 áður.

Þetta er bara skuldafangelsi.

Ef einhver tók lán til 30 ára .. og að breyta því í 60 ár .. búið að hækka lánið hjá fólki um milljónir .. vegna verðbólgu og verðtryggingar og annan þjófnað.

Þetta eru bara skammtímalausnir. Það þarf að leiðrétta lán fólks.

Þetta greiðsluverkfall .. ég lít frekar á það sem mótmæli við því að lán fólks hafa hækkað um milljónir ... á meðan fasteignin hefur á móti lækkað.

Ríkisstjórnin verður að setja lánin aftur á það sem þau voru fyrir hrun.. eða í kringum það var mitt ár 08. 

Það þýðir ekki að setja skjaldborg um lánveitendur ... og leyfa þeim að hækka lán fólks svona .. án þess að lántakandi hafi fengið neina peninga í viðbót út á lánið. Þetta eru tölur á blaði .. og þær þarf að leiðrétta.

Annars verður önnur búsáhaldabylting, ég er handviss um það. Fólk lætur ekki bjóða sér að ævisparnaður þeirra sem það t.d átti í formi fasteignar .. sé tekinn af þeim fyrir framan nefið á því .. með samþykki ríkisstjórnarinnar ... ef ekki aðstoð.

Vona að þú beitir þér í því að hjálpa fjölskyldunum í landinu Ólína .. og veit ég að þú gerir það.

Kær kveðja

ThoR-E, 5.5.2009 kl. 16:21

20 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

Það er ljóst að réttarstaða skuldara er miklu verri á Íslandi en öðrum vestrænum ríkjum. Löggjafin hefur kerfisbundið dregið úr réttindum almennings undanfarin ár, t.d. með eyðileggingu gjafsóknarlaga, engin lög til um hópmálsókn, fyrningalög virka ekki, lög um innheimtukostnað virka ekki heldur.

nú vil ég spyrja þig Ólína, hvernig eiga skuldarar að berjast fyrir réttindum sínum þegar það er greinilegt að öll löggjöf er skrifuð skuldaeigendum í vil ?

Axel Pétur Axelsson, 8.5.2009 kl. 02:01

21 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ef þú lest rauða letrið í færslunni minni Axel, þá sérð þú svar mitt við spurningu þinni, þ.e.: Ég tel að það þurfi að breyta lögum  þannig að lántakandinn sitji ekki einn uppi (ásamt ábyrgðarmönnum úr hópi fjölskyldu eða vina) með alla áhættu og ábyrgð af því að hafa þegið lán - heldur beri lánveitendur líka einhvern hluta ábyrgðarinnar og áhættunnar.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.5.2009 kl. 10:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband