Fréttafölsun um útstrikanir

Undanfarna daga hafa fjölmiðlar tuggið það hver upp eftir öðrum að Ólína Þorvarðardóttir hafi verið sá frambjóðandi sem fékk flestar útstrikanir á kjörseðlum í NV-kjördæmi. Ríkisútvarpið hefur flutt um þetta tvær fréttirMorgunblaðið sömuleiðis, að ekki sé talað um svæðisfjölmiðlana sem flestir gerðu nokkuð með þetta.  Látið var að því liggja að "talsvert" hafi verið um yfirstrikanir í kjördæminu, og hef ég verið krafin svara í framhaldi af þessu, t.d. í Morgunblaðinu s.l. mánudag.

Nú er komið í ljós að þessi frétt var allan tímann röng. Yfirstrikanir á kjörseðlum í NV- kjördæmi voru  í fyrsta lagi fremur fáar miðað við önnur kjördæmi. 

Samkvæmt Morgunblaðinu í gær skiptust þær sem hér segir:

248 strikuðu út nafn Einars Kristins Guðfinnssonar, Sjálfstæðisflokki (6,5%)
181 strikuðu út nafn Ólínu Þorvarðardóttur, Samfylkingu (4,3%)
158 strikuðu út nafn Jóna Bjarnasonar, VG (3,9%)
157 strikuðu út nafn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, VG (3,9%)

En vitleysan er ekki öll eins. Samkvæmt Fréttablaðinu í dag er allt annað uppi á tengingnum - og skiptingin svona:

248 strikuðu út Einar K. Guðfinnsson
160 strikuðu út Ásbjörn Óttarsson
159 strikuðu út Lilju Rafney Magnúsdóttur

Nú er mér spurn: Hvað veldur því mikla misræmi sem í gær og dag er orðið á tölunum frá yfirkjörstjórninni?

Hvernig má það vera að í fjóra heila daga gangi röng frétt eins og logi um akur í fjölmiðlum? Sjálf þóttist ég vita að upphaflega fréttin væri röng, þar sem ég hafði verið í sambandi við þann fulltrúa Samfylkingarinnar sem var viðstaddur talninguna. Ég reyndi að segja blaðamanni Morgunblaðsins strax á Sunnudagsmorgun að hans upplýsingar stönguðust á við mínar. Blaðamaðurinn vitnaði þá í formann yfirkjörstjórnar NV-kjördæmis og fullyrti að þaðan væru þessar upplýsingar komnar. Þetta væri óyggjandi. Aðrir fjölmiðlar hafa einnig vitnað til formanns yfirkjörstjórnar NV-kjördæmis.

Þarna er augljóslega eitthvað bogið við upplýsingagjöfina. Hvað veldur því? Sú spurning er afar áleitin.

Satt að segja veit ég veit ekki hvort er verra , tilhugsunin um að það hafi verið trúnaðarmaður almennings í yfirkjörstjórn sem brást eða fjölmiðlarnir.

Svo mikið er víst að málið þarfnast skýringa. Og ég mun kalla eftir þeim.

----------

PS: Og vitleysan heldur áfram - í hádegisfréttum RÚV var verið að þylja upp enn eina talnarununa, og nú er Einar Kristinn kominn með 183 útstrikanir en ég 140 Shocking 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Velkomin í pólitík Ólína. Hún hefur aldrei verið hrein né bein og mun ekki skána úr þessu.

Svanur Gísli Þorkelsson, 30.4.2009 kl. 03:19

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Gott hjá þér að koma þessu á framfæri og vonandi birta viðkomandi fjölmiðlar áberandi og viðeigandi leiðréttingar.

p.s.

Það gustar alltaf um fólk sem einhverjar töggur eru í.  Aðalatriðið er að þú stendur jafn keik í báða fætur.

Sigurður Þórðarson, 30.4.2009 kl. 06:34

3 identicon

Til hamingju Ólína og gangi þér allt í haginn.  Ég prófaði þingsetu eitt sinn sem varaþingmaður í hálfan mánuð og það var lærdómsríkt tímabil sem ég vildi alls ekki  vera án.

Bestu kveðjur

Samherji

Unnur Sólrún (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 07:32

4 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Góðan daginn Ólína og til lukku með frábæran árangur í kosningunum.

Þessar ósönnu fréttir eru í mínum huga að sjálfsögðu runnar undan rifjum Sjálfstæðismanna og ekki síst úr herbúðum Einars K. Guðfinnssonar.

Þarna getum við ákkúrat séð hvernig þetta lið misnotar fjölmiðlana sér í hag og hefur gert í áratugu.

Nærtækast er að benda á skoðanakannanir sem LÍÚ, Hafró og Sjávarútvegsráðuneytið (Sjallar og Samherji hf) hafa látið framkvæma undanfarin ár á brottkasti á fiski.

Allar niðurstöður úr skoðunarkönnunum þeirra stangast svo rosalega á við raunveruleikan og þær kannanir sem gerðar hafa verið óhlutdrægt að himinn og haf er á milli þeirra.

Þessa fölsun ástunda þeir til að fegra kvótakerfið og að auki  sem er kanski það alvarlegasta nota þeir Fiskistöfu sem (förðunarstofu kvótakerfisins) til að falsa enn frekar allt í kringum svínaríið.

Sjálfstæðismenn hafa notað Fiskistofu líkt og nazistarnir notuðu Gestapó í þriðja ríkinu.

Níels A. Ársælsson., 30.4.2009 kl. 07:55

5 Smámynd: ThoR-E

181 af mörg þúsund atkvæðum er nú ekki mikil útstrikun.

Það er þannig að stjórnmálamenn geta aldrei gert öllum til geðs .. þannig að þetta er bara mjög eðlilegt.

Furðulegar fréttir af þessu .. 

Kveðja

ThoR-E, 30.4.2009 kl. 08:28

6 identicon

Sammála að þetta er mjög skrýtið. Hefur engin skýring borist þér hvernig stendur á þessu?

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 09:51

7 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Það hefur nú verið erfitt að taka ekki eftir því að fréttastofa RÚV hefur verið afar hliðholl Sjálfstæðismönnum upp á síðkastið. Ég man í skjótu bragði eftir tveim hádegisfréttatímum þar sem fyrsta frétt hefur verið sjálfstæðismaður að ausa skít yfir pólitíska andstæðinga sína. Fréttastofan hefur algerlega misst grímu sína sem hlutlaus fjölmiðill.

Sóley Björk Stefánsdóttir, 30.4.2009 kl. 10:27

8 Smámynd: Ólafur Ingólfsson

Einhverntíma var haft fyrir satt að ríkisfjölmiðlunum væri ritstýrt úr Valhöll. Ólina, þegar upp er staðið eru stjórnmálamenn dæmdir af gjörðum sínum, og þeir fá það orðspor sem þeir eiga skilið. Ég er sannfærður um að þitt orðspor á þingi verður gott! 

Ólafur Ingólfsson, 30.4.2009 kl. 10:34

9 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Sæl Ólína og til hamingju með sigurinn!

Svona vinnur bara íhaldið, við hér í Suðurkjördæmi höfum kynnst því alveg ágætlega og Árni J. þeirra eigin frambjóðandi hefur staðfest það í fjölmiðlum að undanförnu (ekki lýgur hann).

Ég varð satt að segja hissa að Mbl. skuli segja frá snilli Bjarna Benidikts. varðandi rekstur N1 (H5?). Þeir greina frá þessu í dag, en meira um það síðar.

Ingimundur Bergmann, 30.4.2009 kl. 10:48

10 identicon

Er þetta runnið undan Rifjum Fannars?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 12:03

11 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Þetta vekur upp spurningar hvort almenningur geti yfir höfuð treyst fréttum þessara miðla ef þær eru ekki staðfestar af þriðja aðila? 

Axel Jóhann Hallgrímsson, 30.4.2009 kl. 14:21

12 Smámynd: Guðrún Helgadóttir

Já þetta er ansi undarlegt svo ekki sé meira sagt. En til hamingju með nýja starfið og megi þér farnast vel í því okkur öllum til heilla!

Guðrún Helgadóttir, 30.4.2009 kl. 17:20

13 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ólína á miklu fleiri og öflugri velvildarmenn en hælbíta og ég myndi ekki hafa neinar áhyggjur af þessu máli, þó það kunni að vera hvimleitt.  Ég er einn þeirra sem bind miklar vonir við hana ekki síst eftir að flokkurinn sem ég kaus datt út af þingi. Það þarf að koma á réttlatara fiskveiðistjórnarkerfi og standa vörð um sjávarbyggðirnar.  

Sigurður Þórðarson, 30.4.2009 kl. 20:30

14 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Heyrði beðist afsökunar á þessu "misræmi" í fréttum af útstrikunum í RÚV í hádegisfréttum.

Gott væri þó að fá nánari útskýringar á því hvers vegna svona lagað gerist, svo löngu eftir kjördag.

En það er nú svo margt sem þarfnast útskýringa þessa dagana.   Vona að þú verðir dugleg að leita eftir þeim Ólína -og til hamingju með árangurinn.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 30.4.2009 kl. 20:52

15 Smámynd: Einar H. Björnsson

Til hamingju með þingsætið Ólína!

Ég tók eftir því, að einn álitsgjafinn hérna nefnir Fannar frá Rifi sem hugsanlegan sökudólg í málinu!  Kosningastjóra Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi, formann kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi, stjórnarmann í Félagi ungs fólks í sjávarútvegi!!!  Er hann e.t.v. að launa þér fyrir bloggfærsluna um daginn?

Einar H. Björnsson, 30.4.2009 kl. 22:49

16 Smámynd: Garún

Þarf ekki bara að bæta menntakerfið og kenna þessu fólki að telja.   Til hamingju með sætið.  held mikið uppá rauðhært fólk með munninn fyrir neðan nefið....

Garún, 1.5.2009 kl. 01:08

17 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæl Ólína

Klúrasta skýringin sem heyrst hefur lengi;

Forritið sá ekki við innsláttarvillum!

Mér vitanlega hefur aldrei verið fundið upp forrit sem sér innsláttarvillur, en kannski er maður bara að staðna í þessum bransa.

Megi hamingja og viska fylgja nýju starfi hér eftir sem hingad til

Jenný Stefanía Jensdóttir, 1.5.2009 kl. 05:10

18 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Ég er þeirrar skoðunar að útstrikanir séu fyrst og fremst einelti gegn frambjóðendum og vanvirðing við lýðræðið. Í næstu kosningum er full ástæða til að banna þær.

Hilmar Gunnlaugsson, 1.5.2009 kl. 15:48

19 Smámynd: ThoR-E

Á meðan persónukjöri hefur ekki verið komið á, verða útstrikanir að vera möguleiki fyrir kjósendur til að hafna þeim sem þeir treysta ekki. Það að mínu mati á fullan rétt á sér.

Ef ég tek eitt dæmi .. að þá er Árni Johnsen lifandi sönnun fyrir því að útstrikanir eru nauðsynlegar.

Að hann sé á alþingi Íslendinga er enn eitt dæmið um spillingu Sjálfstæðisflokksins.

ThoR-E, 1.5.2009 kl. 15:57

20 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Í prófkjörum flokka er tekin lýðræðisleg kosning um það hvernig listum er raðað upp. Hvers vegna ætti ekki að virða þá niðurstöðu AceR?

Hilmar Gunnlaugsson, 1.5.2009 kl. 16:10

21 Smámynd: ThoR-E

Margt getur gerst milli prófkjörs og kosningadags.

Tökum sem dæmi styrkjamál Sjálfstæðisflokksins. Eflaust hefði Guðlaugur Þór fengið aðeins færri útstrikanir ef það mál hefði ekki komist upp.

Þetta er ekkert flókið Hilmar minn.

Kjósendur hafa rétt á því að hafna stjórnmálamönnum, en samt kjósa flokkinn sinn. Ekki viltu taka lýðræðislegan rétt þeirra til að kjósa, af þeim Hilmar ?

ThoR-E, 1.5.2009 kl. 17:20

22 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Auðvitað vil ég ekki taka kosningaréttinn af fólki en ég vil breyta reglunum þannig að útstrikanir verði bannaðar.

Guðlaugur Þór t.d. varð fórnarlamb rógs í styrkjamálinu. Þegar málið var rannsakað kom í ljós að bæði voru styrkirnir löglegir og ekkert að störfum hans sem stjórnarmaður Orkuveitunnar.

Með því að leyfa útstrikanir erum við fyrst og fremst að gera lítið úr prófkjörum og taka þátt í einelti gegn sárafáum mönnum. Þetta tel ég að verði að stöðva.

Hilmar Gunnlaugsson, 1.5.2009 kl. 17:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband