Landbúnaðurinn og ESB
22.3.2009 | 23:07
Ég er ein þeirra sem lengi vel óttaðist inngöngu í ESB. Ég taldi að með henni yrði stoðum svipt undan íslenskum landbúnaði. Við myndum missa sjálfstæði okkar Íslendingar, ofurselja okkur miðstýrðu fjölþjóðlegu valdi. Já, ég var beinlínis hrædd við tilhugsunina. Ég ímynda mér að svipaða sögu sé að segja af þeim sem hvað harðast tala gegn ESB aðild. Þeir vita hvað þeir hafa en virðast ekki átta sig á því hvað þeir fá. Á þessu þarf að taka með opinni og upplýstri umræðu. Annars verður það óttinn sem ræður för - og hann er afleitur förunautur.
ESB hefur sett sér ákveðna byggðastefnu þar sem ríkt tillit er tekið til dreifðra byggða með stuðningi við vistvænar framleiðsluaðferðir, ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og vöruþróun. Gengið er út frá sjálfbærri landbúnaðarstefnu og styrkjakerfi sambandsins samþætt byggðastefnu þess. Í þessu felast ýmsir möguleikar fyrir íslenska bændur, hvort sem þeir sinna ferðaþjónustu eða sauðfjárrækt. Það er engin ástæða til að halda að stuðningskerfi ESB sem er aðlagað breytingum, nýsköpun og þróun í samstarfi og samskiptum þjóða í áranna rás sé neitt lakara en íslenska styrkjakerfið í landbúnaði.
Geta má nærri að gengissveiflur og ótryggt rekstrarumhverfi hljóta að reynast íslenskum bændum þung í skauti. Við inngöngu í Evrópusambandið og með upptöku Evrunnar má gera sér vonir um stöðugra efnahagsumhverfi með minni gengissveiflum, lægra vaxtastigi og bættum almennum lífskjörum. Í slíku umhverfi er auðveldara að gera langtímaáætlanir í rekstri - ekki síst búrekstri sem á mikið undir innfluttum aðföngum. Vissulega þyrftu íslenskir bændur að keppa við innflutta matvöru - en á móti kemur að samkeppnisstaða þeirra sem matvælaframleiðenda myndi batna til muna. Markaðir í Evrópu myndu opnast fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir og um leið margvíslegir möguleikar til nýsköpunar og vöruþróunar. Við erum hér að tala um 500 milljón manna tollfrjálsan markað sem Íslendinga fengju fullan og aðgang að.
Grundvallaratriðið er þó að vita eftir hverju er að slægjast. Íslendingar - ekki síst bændur - verða að skilgreina þarfir sínar og væntingar til fjölþjóðlegs samstarfs á borð við ESB. Sækja síðan um aðild, fara í viðræður og gefa loks þjóðinni kost á að taka afstöðu til þess sem í boði er með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er eina færa leiðin. Sem stendur höfum við allt að vinna - en ekkert að óttast.
(Efnislega samhljóða greinar um þetta mál hafa nýlega birst í Mbl og Bændablaðinu)
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Sæl Ólína.
Ein spurning. Eftir hve langan tíma telur þú mögulegt fyrir okkur íslendinga að taka upp Evru, sem öll þessi ævintýri um stöðugleika byggast á að mati Samfylkingarinnar?
Vinsamlegast
Sigurbjörn
Sigurbjörn Svavarsson, 22.3.2009 kl. 23:42
Sæl Sigurbjörn
Og svarið er?
Sigurbjörn Svavarsson, 23.3.2009 kl. 01:03
Flottur pistill/grein hjá Ólínu. Ég vildi kannski aðeins bæta við einum þætti sem ég hef verið að velta fyrir mér.
Vegna þessa og fleiru þá fá ég ekki séð annað en að byggðartengdir styrkir væru mun heppilegri en það kerfi sem er í gangi núna. Þá réðu bændur mun meira um hvað og hversu mikið þeir framleiða.
Einnig þessir sér styrkir sem Svíar og Finnar fá vegna byggða og landbúnaðar á norðlægum slóðum er akkúrat sniðnir að aðstæðum hér.
Varðandi evruna þá er ljóst að lengur sem við drögum að sækja um þeim mun lengur þurfum við að bíða. Og eins að þegar við erum búin að sækja um komumst við í myntsamstarf sem byggir á því að krónan verður bundin evru með smá vikmörkum þar til að við getum tekið upp evruna.
Magnús Helgi Björgvinsson, 23.3.2009 kl. 01:33
Svo er Ísland allt fyrir norðan við 62. breiddargráðu. Það þýðir að landið allt flokkast sem harðbýlt svæði. Norður Finnland og norður Svíþjóð hafa notið mjög góðs af þessu ákvæði. Vert er að skoða hvernig að þessu er staðið gagnvar nágrönnum okkar.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 23.3.2009 kl. 08:36
Þegar ég byrjaði að lesa greinina hélt ég að já loksins væri von til þess að einhver í forystusveit Samfylkingarinnar þyrði og ætlaði sér að hafa sjálfstæða skoðun á ESB málum.
En fljótlega brást sú von. Ólína greinilega búinn að meðtaka allan ESB rétttrúnaðinn, þannig að ESB kórinn í Samfylkingunni geti nú kyrjað einum rómi um dýrðir og dásemdir ESB aðildar.
Skrýtið er þetta. Nú er sterkur meirihluti þjóðarinnar andvígur aðild að ESB og í öllum flokkum nema Samfylkingunni er mikill meirihluti kjósenda andvígur ESB aðild.
Meira að segja í Samfylkingunni eru meira en fimmtungur kjósenda flokksins andvígir ESB aðild, en samt er það svo að allir þingmenn og þingmannsefni flokksins tala bara í sínum einróma réttterúnaðar ESB kór.
Gunnlaugur I., 23.3.2009 kl. 08:40
Ég hef nú ekkert sérstakt vit á ESB en þessi hræðsluáróður allur um að við missum yfirráðin yfir fiskimiðum og landbúnaðurinn hrynji vegna innflutnings, hann hefur stundum vakið hjá mér eina spurningu: Ef við látum allt þetta af hendi, fáum við þá ekki á sama hátt hlutdeild í auðlindum annarra þjóða? Hvað með allan þungaiðnaðinn í Þýskalandi til dæmis? Er það trúlegt að við látum allt af hendi en fáum ekkert í staðinn?
Margrét Birna Auðunsdóttir, 23.3.2009 kl. 10:05
Jí, þetta kemur auðvitað aldrei endanlega í ljós fyrr en í aðildarviðræðum hvernig nákvæmlega þessu verður varið með landbúnaðinn.
En málið er nefnilega að ekkert bendir til að hann fari illa útúr dæminu. Það er bara þjóðsaga sem hefur verið haldið að fólki að "ísl landbúnaður muni leggjast af" og ég veit ekki hvað.
Aðild að esb gæti jafnvel orðið mjög til góða fyrir landbúnaðinn. Tækifæri sem felast í aðild.
Það er alveg sama hvar gripið er niður. Allstaðar er esb aðild mjög jákvæð, jákvæð eða ekki til baga. Td. gæti aðild verið afar jákvæð fyrir sveitarfélögin.
Svo er stofnaður sérstakur flokkur til að berjast sérstaklega gegn þessu mikilvæga hagsmunamáli íslands. Alveg ótrúlegt.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 23.3.2009 kl. 10:09
Sæll Einar.
Þessi rök að við að sækja um aðild þá aukist traust á Íslandi eru haldlaus, því miður. Nú hefur Evrópa fullt í fangi með að bjarga eigin skinni og lönd í ESB sem eru mjög skuldug fá engan stuðning frá ESB. Það eru engir sjóðir til í ESB, né Seðlabanka Evrópu til að leysa vandamál ríkja í austur og suður Evrópu. ESB vísar þeim á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Þessi lævísi áróður ESB sinna um að allt verði í lagi ef við sækjum um aðild og getum tekið upp Evru er til þess fallinn að blekkja fólk. ESB sinnar verða vera hreinskilnir við fólk, því engar líkur eru á því að við getum tekið upp Evru fyrr en eftir 7-10 ár m.v. núverandi skilyrði um upptöku Evru.
Svo bið ég fólk að spyrja sig að því af hverju Bændasamtökin á Íslandi álykta á móti ESB, en fagna ekki hugsanlegum styrkjum?
Sigurbjörn Svavarsson, 23.3.2009 kl. 13:17
Sigurbjörn ESB er ekki hugsað til þess að bjarga þjóðum úr kreppu. Þetta er tollabandalaga ásamt því sem þau sameinast um ýmsa aðra þætti. Öll tíki ESB eru sjálfstæð og fullvalda og þurfa eðlilega að bjarga sér sjálf eins og allar aðrar.
Varðandi Bændasamtökin. Gæti það hugsast að þeim sé um og ó að missa nokkur hundruð milljónir sem þeim er lagt til við rekstur samtakana í samningum um framleiðslustyrki til bænda.
Og hvernig stendur á því að grænmetisbændur þurrkuðust ekki út þegar að tolla sem vernduðu þá voru feldir niður eða lækkaðir?
Sigurbjörn ef að kerfið fyrir landbúnað er svo gott hér af hverju hefur nær orðið helmingsfækkun í stétt bænda á nokkrum árum eða áratugum? Og af hverju mælast bændur í stórum stíl undir fátækramörkum?
Magnús Helgi Björgvinsson, 23.3.2009 kl. 14:11
Sigurbjörn - þú segir : "Þessi lævísi áróður ESB-sinna um að allt verði í lagi ef við sækjum um aðild og getum tekið upp Evru er til þess fallinn að blekkja fólk"
Hver hefur haldið því fram að allt verði í lagi ef við gengjum í ESB? Það er ekkert svo gott að engir séu gallarnir, ekki einu sinni aðild að ESB. ESB-sinnar hafa bent á kostina sem eru ótvíræðir en þeir sem eru mótfallnir aðild hafa aðallega alið þjóðina á hræðsluáróðri í stað málefnalegrar umræðu.
Hins vegar er það ljóst að gallarnir, við það að halda áfram með sömu gjaldeyrisstefnu og sama gjaldmiðil, eru ótvírætt fleiri en kostirnir.
Smári Jökull Jónsson, 23.3.2009 kl. 14:41
Ég held að ástæða þess að Bændasamtökin eru á móti sé sú, að í fyrsta lagi nenni þeir ekki að kynna sér málið og í annan stað innbyggð tregða gegn breytingum.
Þægilegra að hafa bara allt með svipuðu sniði, eitthvað sem menn þekkja. Breytingar og nýnæmi er bara vesen og þarf vinnu til að setja sig inní.
Ég held að það sé ástæðan.
Einnig vantar pressu frá bændum til að Bændasamtökin vakni. Ég er ekkert viss um að bændur almennt séu alfarið á móti. Allavega held ég að þeir séu tilbúnir til að skoða þetta almennilega.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 23.3.2009 kl. 17:20
Tek undir með H.Pétur.
Ég spyr enn sömu spurningarinnar: Hverjir eru kostirnir við að ganga inní ESB? Ég hef bent á ókostina (þar er ekki hræðsluáróður, heldur mat þeirra sem starfa í landbúnaði og sjávarútvegi).
Sigurbjörn Svavarsson, 23.3.2009 kl. 17:21
Hér er mikilvægast að skoða hvar hagsmunum okkar er best borgið til lengri tíma litið. Við megum ekki láta skammtíma sjónarmið glepja okkur.
Hvers konar ríki mun Evrópubandalagið vera eftir 50 ár - og hver verður staða okkar innan þess þá? Verður hún sterk - væri hún sterkari utan bandalagsins? Hver verður staðan eftir 100 ár?
Hver er styrkur Íslands - hverjir eru veikleikarnir. Hvernig getum við, þegar litið er til frambúðar, hagnýtt okkur styrk okkar og haldið veikleikunum í lágmarki.
gummih, 23.3.2009 kl. 17:28
Sigurbjörn. Þú segist ekki nota hræðsluáróður, heldur "mat þeirra sem starfa í landbúnaði og sjávarútvegi". Þarna ert þú að vísa til hagsmunaaðila, sem geta jú tæplega verið hlutlausir. T.d. hvað varðar sjávarútvegsfyrirtækin (kvótakóngana) þá vilja þeir fá að ríkja hér og drottna yfir öllu eins lengi og nokkur möguleiki er. Það er margt við ESB aðild sem þeim hugnast augljóslega ekki. Hins vegar eru þessir aðilar (kvótakóngarnir) innan við 1% þjóðarinnar. Hinum 99% landsmanna ætti vitaskuld ekki að hugnast að verja hagsmuni þessa þrönga eiginhagsmunahóps. Þar á meðal bændastéttin. En þeir hafa auðvitað aðrar ástæður til að setja sig upp á móti aðild, nokkuð sem Ólína ætti að geta útskýrt vel.
Þórður Már Jónsson, 23.3.2009 kl. 17:47
Sæll Þórður.
Þetta snýst ekki um kvótakónga. Þeir gætu horfið ef íslensk stjórnvöld vildu breyta fiskveiðikerfinu. Þetta snýst um að íslendingar sjálfir stjórni mikilvægustu auðlind sinni.
Íslenskur landbúnaður er mjög viðkvæmur og smár markaður og það er ekki hægt að bera hann saman við stærri markaði eins og í Svíþjóð. Ef hann hrinur þá er um að ræða m.a. fæðuöryggi þjóðarinnar. Við erum eyland og ýmislegt getur gerst sem hamlaði aðdrætti til landsins.
Ekki láta forystumennina ráða fyrir þig, kynntu þér málin betur og hafðu skoðun sjálfur.
Sigurbjörn Svavarsson, 23.3.2009 kl. 18:21
Endurreisn Alþingis.
Þetta hefur verið stefið í mörgum fínum bloggfærslum þínum undanfarið. Skerpa á þrískiptingu valdsins og að Alþingi verði ekki bara afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið. Efla lýðræðið og fá nýja stjórnarskrá.
Er ekki pínulítið öfugsnúið að vilja þá framselja valdið til ESB þar sem allt gengur í öfuga átt. Þar sem raunverulegt vald er í höndum átján manna ríkisstjórnar og þingið er bara afgreiðslustofnun. Þar sem lýðræðið er meira upp á punt.
Innganga í ESB snýst um annað og meira en fiskveiðar, fallvötn og rolluskjátur. Að misnota kreppuna til að draga okkur þangað inn er ljót pólitík. Hvers vegna skyldi það vera að ekkert land (utan stofnþjóða) hafi gengið í ESB nema í efnahagslegri eða pólitískri kreppu?
Haraldur Hansson, 23.3.2009 kl. 19:07
Sigurbjörn. Ég hef kynnt mér málin ágætlega og hugtök eins og fæðuöryggi, markaðssmæð og eyland eru mér vel kunnug. Og já, ég hef svo sannarlega mínar eigin skoðanir. Sé að þú hefur einnig þínar eigin. Það er gott að sjá.
Þórður Már Jónsson, 23.3.2009 kl. 20:02
Sigurbjörn og aðrir úrtölumenn: Á hinum endanum eru töluverð tækifæri fyrir bænddur að flytja út afurðir sínar. Aldrei komist þið að þeirri húshliðinni þannig að þið eruð alltaf í skugganum. Evruupptaka verður ekki fyrr en eftir 2ja ára stöðugt tímabil efnahagsmála. Héðan í frá ca 4 ár amk. Get ekki skilið hvers vegna má ekki fara í aðildarviðræður. Úrtölufólkið má ekki orðið ferðataksta og Brussel nefnt í sömu setningunni. Leitt.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 20:08
Hefur eitthvert ykkar lesið t.d Lissabon sáttmálann og þá á ég við lesið sjálf en ekki látið aðra segja ykkur hvað stendur í honum????
Ég er ein af fyrrum gallhörðum ESB sinna sannfærð um að það væri hið rétta allt hitt væri bara hræðsluáróður, því umræðan er svo sannarlega mjög misvísandi svo ekki sé nú meira sagt. Ég var orðin hundleið á þessari umræðu og hafði tíma til lesturs, og það ætla ég svo sannarlega að vona að fleiri ESB sinnar geri því það sem ég las mér til sjálf sneri mér á stundinni og er ég nú gallhörð á móti og svo hörð að ég tel okkur þ.e þjóðina ekki einu sinni hæfa til að kjósa um aðild fyrr en hver er búin að lesa sjálfur án milligöngu því það er nauðsynlegt, þetta verður að koma frá fyrstu hendi eigin hendi. Auðvitað er margt gott það vita allir, en hér á svo sannarlega við klisjan Þetta er of gott til að vera satt. Ég ætla ekki í neinar rökræður um þetta því ég veit að það þýðir ekki, það þýddi ekki við mig allavega ég var svo sannfærð, það væri kallaður hræðsluáróður, en ég veit að hver sá sem leggur það á sig að lesa sjálfur hann verður sjálfkrafa á móti. Góðar stundir
(IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 21:13
Ég hef nú mestar áhyggjur af hvernig við lifum af næstu vikur og mánuði.
Ísland verður engin paradís á næstunni, nær hinum endanum sýnist mér!
Björn Finnbogason, 23.3.2009 kl. 22:55
Kærar þakkir fyrir lífleg skoðanaskipti hér. Því miður hef ég ekki getað komið inn í þetta fyrr þar sem ég hef setið undir stýri á ferð um kjördæmið í mestallan dag og er fyrst að komast að tölvunni núna.
Ég þakka þeim sem hafa tekið af mér ómakið að svara ýmsu hér.
Það er rétt sem fram hefur komið að evruna getum við líklega ekki tekið upp fyrr en eftir 7-10 ár, og þá að uppfylltum skilyrðum myntbandalagsins um verðbólgustig, vaxtastig, hallalausan ríkisrekstur og stöðugt gengi. Sem stendur uppfyllum við ekkert af þessum skilyrðum. Ávinningurinn er hinsvegar sá að við yrðum að hefjast handa nú þegar við að ná stöðugleika í efnahagslífinu, eins og Einar Hansson bendir á hér ofar.
Margrét Birna kemur réttilega inn á það að með aðild myndi opnast fyrir okkur Íslendinga nýr markaður fyrir afurðir okkar og framleiðslu. Já, 500 milljón manna tollfrjáls markaður.
Magnús Helgi bendir líka réttilega á það að bændasamtökin séu líklega að verja sérhagsmuni tiltekins hóps bænda á kostnað almannahagsmuna.
Haraldur Hansson veltir fyrir sér fullveldi landsins og talar un að ofurselja ákvörðunarvald til miðstýrðs Evrópu-valds. Þetta held ég að sé mikill misskilningur. Evrópusambandið er samvinnuvettvangur fullvalda ríkja sem starfa á jafnréttis og jafnræðisgrundvelli. Þetta er upphaflega friðarbandalag sem sett var á laggir eftir seinna stríð til að tryggja frið í álfunni. Markmið bandalagsins er m.a. að jafna aðstöðumun og styðja veik svæði. Með aðild að ESB eigum við þess kost Íslendingar að ganga inn í samstarfið sem þjóð meðal þjóða, í stað þess að sitja áhrifalaus hjá og fá engu ráðið um ákvarðanir sem við vitum að munu hafa áhrif á okkur og okkar hag.
Annars hittir Einar Hansson naglann á höfuðið þegar hann segir svo réttilega: ESB er engin allsherjarlausn á öllum vandamálum allra þjóða heldur býður upp á skynsamlegan ramma fyrir samskipti og viðskipti þjóða innan þess. Þar á meðal einn stöðugasta gjaldmiðil heims.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 23.3.2009 kl. 23:30
Síðan við gengum í EES hefur hlutur innlends landbúnaðar fallið og stendur nú í að við framleiðum um helminginn af þeim matvælum sem við borðum og að ef verslun félli niður við útlönd hefðum við mat í rétt rúma tvo mánuði. Við stöndum nú frammi fyrir að geta ekki stýrt eigin ríkisfjármálum eða staðið í lappirnar í deilumálum við erlendar þjóðir vegna þess að erlendir aðilar geta einfaldlega valdið matvælaskort á landinu með tilheyrandi samféalgshruni.
Prófið að bera saman hversu vel við stóðum í lappirnar gagnvart Bretum þegar landhelgin var færð út miðað við í IceSave deilunni. Við verðum að tryggja matvælaöryggi þjóðarinnar og leika alla þá millileiki sem við getum á erlendum vegvangi þangað til. Þegar svo er komið að við erum aftur orðin sjálfbær um matvæli verðum við orðin fær um að fá viðhlýtandi samninga við erlend ríki. Sjálfstæðisbaráttan í dag snýrst um að skapa sjálfbærni í matvælum en aðeins í gegnum hana getum við endurheimt forræði yfir ríkisfjármálum og efnahag landsins. Meðan erlendir aðilar ráða því hvort við fáum að borða munu þeir alltaf ráða.
Héðinn Björnsson, 24.3.2009 kl. 10:00
Ólína segir: "Annars hittir Einar Hansson naglann á höfuðið þegar hann segir svo réttilega: ESB er engin allsherjarlausn á öllum vandamálum allra þjóða heldur býður upp á skynsamlegan ramma fyrir samskipti og viðskipti þjóða innan þess. Þar á meðal einn stöðugasta gjaldmiðil heims."
Ég tek þetta sem svarið við spurningunni um hvers vegna við ættum að ganga í ESB.
Ísland getur alveg sjálfstætt átt samskipti og viðskipti við aðrar þjóðir og þarf ekki að gang í ESB til þess og það er gott að trú Ólínu að með krónunni náum þeim árgangri sem skilyrðin krefjast, hver er þá þörfin á Evru? Það er einnig gleðilegt að Ólína tekur ekki undir.
Samfylkingin hefur haft uppi lævísan áróður fyrir inngöngu í ESB, sem fellst í því að með inngöngu verði hér á landi strax komið á stöðugleika með upptöku Evru. Það er verið að nýta sér erfiðleika og svartsýni þjóðarinnar og lofa fólki betra lífi með inngöngu í ESB. Slíkur málflutningur er lákúrulegur.
Sigurbjörn Svavarsson, 24.3.2009 kl. 12:39
átti að vera:
Ísland getur alveg sjálfstætt átt samskipti og viðskipti við aðrar þjóðir og þarf ekki að ganga í ESB til þess, og það er gott að trú Ólínu á að krónan nái þeim árgangri sem skilyrðin krefjast, hver er þá þörfin á Evru?
Það er einnig gleðilegt að Ólína tekur ekki undir þann lævísa málflutning Samfylkingarinnar fyrir inngöngu í ESB, sem fellst í því að með inngöngu verði hér á landi strax komið á stöðugleika með upptöku Evru. Þar er verið að nýta sér erfiðleika og svartsýni þjóðarinnar og lofa fólki betra lífi með inngöngu í ESB. Slíkur málflutningur er lákúrulegur.
Sigurbjörn Svavarsson, 24.3.2009 kl. 12:45
Öruggasta leiðin til að fá fólk til að ganga af göflunum er að blogga um hugsanlega kosti við það að ganga í ESB eða setja spurningamerki við hvalveiðar :)
Finnur Bárðarson, 24.3.2009 kl. 17:08
Sigurbjörn - ég tek ekki undir það með þér að Samfylkingin lofi tafarlausum stöðugleika og upptöku Evru samhliða inngöngu í ESB. Ég held að Samfylkingarfólk geri sér fulla grein fyrir þeim skrefum sem þarf að stíga og að ferlið í heild sinni taki tíma.
Það sem þú ert að vísa til er hinsvegar (rang) túlkun ýmissa á málflutningi Samfylkingarinnar varðandi ESB. Sú (rang)túlkun er notuð til að byggja upp hræðsluáróður gegn ESB-aðild og þeim sem hana aðhyllast.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 24.3.2009 kl. 23:43
Bendi bara á staðreyndir úr skýrslu utanríkisráðuneytisins um öryggi í víðara samhengi sem kom út hér fyrir nokkrum vikum. Fiskur veiðist ekki nema að það fáist olía á skipin og sama á við um stóran hluta landbúnaðsins. Við eigum mjög litlar olíubirgðar og erum mjög háð innflutningi.
Við höfum mikla möguleika á að snúa við þessarri þróunn og verða aftur sjálfbær um orku og matvæli en það gerist ekki á einni nóttu og þangað til erum við í mjög veikri stöðu til alþjóðasamninga. Við verðum að horfast í augu við staðreyndir stöðu okkar í dag til jafns við framtíðarmöguleika okkar.
Héðinn Björnsson, 25.3.2009 kl. 14:40
Við höfum bara enga hugmynd um það í hvaða samningsstöðu við erum nema láta á það reyna í aðildarviðræðum. Aðildarumsókn er forsenda þess að hægt sé að ræða um kosti og ókosti ESB aðildar af einhverju viti. Þannig er það nú bara.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 25.3.2009 kl. 17:11
Þetta er nú heldur léleg rök fyrir aðildarviðræðum. Sækja um og sjá svo til. Samningamenn setja sér ávallt skýr markmið. Ég hef ekki séð þau hjá Samfylkingunni, hún er hinsvegar tilbúin að setja íslendinga í skuldafangelsi vegna ICESAVE til að komast í ESB fremur en að láta reyna á neitunina í því máli.
Ef við hefðum farið með kröfurnar um útfærslu landhelginar fyrir gildandi alþjóðarétt á þeim tíma hefðum við tapað því. Við þorðum að berjast fyrir hagsmunum þjóðarinnar og ICESAVE málið er ekki minna hagsmunamál.
Sigurbjörn Svavarsson, 25.3.2009 kl. 21:03
Markmiðin eru skýr: Bætt lífskjör, lægri vextir, minni verðbólga, heilbrigðara markaðs- og viðskiptaumhverfi, byggðastefna á víðum grunni, virkari og agaðri stjórnsýsla, aðgengi að erlendum, tollfrjálsum mörkuðum .... ég gæti haldið áfram lengi.
Sé það vilji manna að taka upp sérstök undanþáguákvæði vegna sérstöðu Íslands (t.d. vegna fiskimiðanna og aðstæðna í landbúnaði) þá þýðir ekkert annað en að fara í viðræðu - og eins og þú segir Sigurbjörn, hafa þá skýr markmið um það hvað við viljum fá fram. Ekki sjá neitt til - heldur setja sér markmið með viðræðunum.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 28.3.2009 kl. 01:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.