Athyglisverð skrif um "Enron-verðmyndun" í íslenskum sjávarútvegi

fiskveiðarGetur verið  að dularfullar "verðhækkanir" fiskveiðiheimilda hafi átt uppruna sinn ofarlega í bankakerfinu  og viðskiptabankarnir hafi haft mikla og beina hagsmuni af því að lána útgerðarfyrirtækjum sem allra mest - til að styrkja rýrnandi lausafjárstöðu sína?

Þannig spyr Kristinn Pétursson í athyglisverðri bloggfærslu sem ég hvet ykkur til þess að lesa.

Voru útgerðarmenn hugsanlega blekktir til aukinnar lántöku? Sóttust viðskiptabankarnir eftir veði í aflaheimildum - hugsanlega til að skapa  sjálfum viðskiptabönkunum nýtt lausafé? ... 

... spyr hann ennfremur.

Það sem Kristinn gerir hér að umtalsefni er það sem hann nefnir "Enron verðmyndun" í sjávarútveginum.  Enron hafði áhrif á raforkuverð í USA með skipulögðum raforkuskorti. Kristinn leiðir rök að því að sama hafi átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi með skipulögðum hætti. Verðmyndunin hafi byggt á samráði þar sem framkallaður hafi verið skortur á veiðiheimildum sem aftur hafi verið nýttur til óraunhæfrar verðhækkunar aflaheimilda.

Hann styður mál sitt vel og með athyglisverðum gögnum. Málið - skoðað í þessu ljósi - er sláandi. Svo virðist sem íslenskur sjávarútvegur sé undirlagður sömu  meinsemdum og urðu íslensku fjármálakerfi að falli.

Málið þarfnast rannsóknar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fannar frá Rifi

Jæja Ólína.

Komdu nú með svar varðandi byggðarsjónarmið og kvótakerfið sem þú vilt koma á.

Af heildaraflamarki á Þorski. hversu mörg prósent eiga að fara á hverja byggð?

Hvað á að vera mörg prósent í Ísafjarðarbæ.

Hvað á að vera mörg prósent í Snæfellsbæ.

Hvað á að vera mörg prósent í Vestmannaeyjum.

Hvað á að vera mörg prósent í Grindavík.

Hvað á að vera mörg prósent á Akureyri.

Hvað á að vera mörg prósent í Bolungarvík. 

Komdu nú með svör við þessu. Þú gast það ekki þegar ég spurði þig um daginn. Vonandi að annað sætið á lista Samfylkingarinnar hafi aukið kjark þinn í að koma með svör en ekki innantómar upphrópanir og slagorð. 

Fannar frá Rifi, 12.3.2009 kl. 14:22

2 Smámynd: Fannar frá Rifi

En varðandi þessa grein Kristinns. Gerðist ekki það sama á húsnæðismarkaði og lóðamarkaði og gerði í kvótakerfinu? eða má ekki ræða það?

Fannar frá Rifi, 12.3.2009 kl. 14:24

3 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Fannar - af hverju langar þig svo mikið til að hengja umræðuna í prósentureikning og útfærsluatriði? Svaraðu mér því.

Það sem ég vil ræða er eignarhaldið á auðlindinni í sjónum. Ég gagnrýni að fiskveiðiheimildirnar skuli ganga kaupum og sölum eins og braskvarningur og vera veðsettar upp í topp. Þegar útgerðarmaðurinn fær síðan nóg, selur kvótann og flytur úr þorpinu, þá situr eftir byggð í sárum, eins og við sáum gerast á Flateyri. Hversu MÖRG PRÓSENT á sú byggð að fá gætir þú spurt? Svarið liggur ekki í prósentutölum - það liggur í kerfinu sjálfu. Þessu óréttláta kerfi sem gerir bröskurum kleift að svipta heilu byggðarlögin og fólkinu sem þar býr lífsviðurværi sínu.

Málið snýst ekki um magn fiskveiðiheimilda sem ráðstafað er milli útgerða - það snýst um aðferðafræðina, það hverjir eiga fiskinn í sjónum.

Um athugasemd þína um húsnæðismarkaðinn og lóðamarkaðinn vil ég bara segja: Svo má böl bæta að benda á annað ....

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 12.3.2009 kl. 15:35

4 Smámynd: Fannar frá Rifi

Af því að það er það sem skiptir máli.

ef þú ætlar eða vilt binda aflann við byggðir þá skiptir það máli hversu mikið verður á hverjum stað. ekki nema að þú viljir að það verði óheft sókn.

þannig að hver prósenta er þúsundir tonna af þorski. 

En má þá ekki einnig gagnrýna kaup og sölu á jarðnæði með samahætti?

"það hverjir eiga fiskinn í sjónum"

frasapólitíkinn enn á ferð Ólína.

Ég er ekki að bæta fyrir að menn skuldsetji sig. ef menn skuldsetja sig og taka áhættu sem borgar sig ekki. þá fara þeir á hausinn og aðrir sem eru vonandi betri í þeirri grein og ekki eins áhættu sæknir taka við. 

hvernig á að breyta kerfinu? það er voðalega fallegt að tala um þjóðareign og þjóðarauðlind og fiskinn til þjóðarinn og byggðanna og annað álíka kosningarvænt. 

það skiptir máli hvernig verður aflanum ráðstafað? hvaða staðir á landinu eiga að fá að vera útgerðarbæir? hvar á aflinn að koma að landi? hvar á hann að vera skráður? hvar á að gera að honum? 

Það eina sem þú kemur með inn í sjávarútvegsumræðuna er frasar og upphrópanir í von um að fá athygli. 

en hvað hefði átt að gerast á Flateyri Ólína? Átti Hinni að bíða þangað til að hann fyrirtækið yrði gjaldþrota? hefði það bætt allt? eða hefðir þú viljað að ríkissjóður (skattgreiðendur) hefðu borgað undir reksturinn svo að hann myndi halda áfram í útgerð? 

Til þess að braskarar geti gert þetta, þá þarf einhver að vera tilbúinn að selja. afhverju kynnir þú þér ekki hvernig staðan er t.d. í Snæfellsbæ. Hvernig menn taka á þessu þar? Þar hefur aflamark aukist þrátt fyrir niðurskurð. þar hafa menn ekki selt. og ef einhver hefur selt þá hefur bara annar keypt af honum eða annarstaðar frá meira til svæðisins. 

lausnin felst ekki í ríkisafskiptum eins og þú virðist halda fram. þú kannski heldur að þú og félagar þínir hafi höndlað hinn æðsta sannleika og getið sagt til um hvernig og hvar sé best að vinna fisk. að þið vitið meir um fiskveiðar heldur en þeir sem hafa unnið allt sitt líf í fiski?

Ólína. farðu nú og kynntu þér hvernig sjávarútvegurinn virkar og hversu miklu það skiptir að stjórnmálamenn eins og þú komir ekki gasprandi um svæðið og vekir öllum ótt. því þú og skoðanabræður þínir hafa hrekið fleiri einyrkja úr útgerð heldur en nokkur kvótaskerðing. Já hræðsluáróður t.d. Samfylkingarinnar hefur rekið litla aðila úr útgerð. þegar litlu aðilarnir fara þá verður samþjöppun á eignarhaldi og þá verður byggðin veikari og fallvaltari. 

Þannig að. það skiptir máli þegar þú segir að það eigi að færa byggðunum kvótann. það skiptir máli útaf því að þegar þú og skoðannabræður þínir fara að skipta upp kökunni eftir hinu pólitíska landslagi, þá mun þið taka frá mörgum byggðum og færa öðrum. ekki nema að allt þitt tal sé í raun innantómar kosningarupphrópanir. 

Fannar frá Rifi, 12.3.2009 kl. 16:37

5 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það er ætíð svo að þeir sem er með mjóu sjónpípuna, sjá ekki aðalatriðin fyrir ýmsum aukaatriðum sem eru í sjálfu sér mikilvæg á sinn hátt, en eru þó ekki kjarni málsins eða það sem kalla má grunninn að málaflokknum.

Fiskveiðistjórnunin er eitt og kvótaeignin annað. Hér ert þú Ólína að tala um verðmyndun á kvótaeign, bæði til leigu og sölu. Enron aðferðin er ekki svo ólíkleg, en vissulega ekki búið að skoða hana varðandi verðmyndun á kvóta frekar en margt annað.

Ágæti Fannar frá Rifi. Nú erum við búin að ráða til okkar mjög færan saksóknara í brotamálum á fjármálasviðinu. Vonandi getum við öll verið sammála um að ALLT FJÁRMÁLAKERFIÐ þarf að skoða ofan í kjölinn.

Við sem viljum halda þessari konu við störf hér í landinu, verðum bara að gera okkur grein fyrir því að það er alveg bráðnauðsynlegt að núverandi ríkisstjórn fái tækifæri til að sitja áfram eftir kosningar.

Það verður að skúra út í öll horn og undir allar mottur og það tekur tíma. Hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá er bara bráðnauðsynlegt að kjósa annan hvort stjórnarflokkinn til að tryggja að áfram verið skúrað.

Ég mundi ekki treysta Framsókn til að standast sængina hjá Íhaldinu, því miður.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 12.3.2009 kl. 16:43

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Það er rétt Hólmfríður að í þessari færslu hér fyrir ofan er ég að tala um verðmyndun þeirra fiskveiðiheimilda sem ganga kaupum og sölum.

Það sem við Fannar erum hisnvegar að pexa um er afstaðan til eignarhaldsins á fiskveiðiheimildunum - framhald af eldri  bloggfærslu sem ég setti inn um það efni.

Tvö aðskilin mál en náskyld þó.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 12.3.2009 kl. 17:30

7 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Athyglisverðar vangaveltur hjá Kristni.

Fannar, af því að við komum af sama svæði, þá velti ég fyrir mér; hvernig nennirðu að verja þetta kerfi?

Þetta kerfi hefur gert það að verkum að þeir sem svindla geta lifað af. Það vitum við báðir mjög vel.

Einnig hefur þetta kerfi gert nýliðun nærri ómögulega - nema þá með mikilli skuldsetningi og væntan ágóða á að selja kvótann á háu verði eftir ákveðinn tíma - aldrei verið mikil spurning um gæði rekstursins.

Fyrir 12 árum fékk ég nóg af þessu smitaða kerfi og hætti að vinna við sjávarútveg, og fór í eðlilega atvinnugrein.

Ég held að þú ætti að opna hugan og skoða kerfið með þeim hætti. Þá verður þér ýmislegt ljóst. Ég þekki mikið af útgerðarmönnum, sem eiga mikið undir í greininni sem eru hjartanlega sammála mér, en geta ekki tjáð sig, hagsmuna sinna vegna.

Eggert Hjelm Herbertsson, 12.3.2009 kl. 19:47

8 Smámynd: Guðrún Katrín Árnadóttir

Heyr, heyr, það er gott að fólk er farið að opna augun fyrir því að stefnan í sjáfarútvegsmálum er engu betri en stefnan var í bankakefinu. Báðar byggðar á peninga græðgis kapitalisma.  Maður óttast að  útlendingar eiga nú þegar kröfu í  kvótan vegna veðsetninga erlendis og við erum ekki einu sinni komin í viðræður um ESB.

Guðrún Katrín Árnadóttir, 12.3.2009 kl. 20:35

9 Smámynd: Guðrún Katrín Árnadóttir

Það á að sjálfsögðu að standa í sjávarútvegsmálum ekki Sjáfarútv....:-)

Guðrún Katrín Árnadóttir, 12.3.2009 kl. 20:37

10 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sú "hugmyndafræði" að gera einhverja vöru dýrari en hún er í raun og veru, hefur örugglega verið notuð lengi, þó keyrt hafi um þverbak undanfarin ár. Mér finnst það hljóti að vera meiri líkur en minni á að þessum fræðum hafi verið beitt á sjávarútveginn með einum eða öðrum hætti. Kvótinn hefur verið á svo uppsprengdu verði í mörg ár að þar hljóta að vera hæpnar forsendur að baki. Þeim forsendum hefur verið viðhaldið og nú verður að skoða "kvótabraskið" og allar hliðar á þessum mikilvæga atvinnuvegi.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 12.3.2009 kl. 21:42

11 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Fannar ræðst ómaklega að Ólínu með orðaflaumi og spurningarflóði !

Fannar heimtar svör við rökleysu !

Fannar dæmir og spyr í sömu setningunum !

Fannar neitar að gera sér grein fyrir hverslags hörmungum kvótakerfið hefur valdið íslenzkri þjóð !

Fannar !

Ólína er að stíga sín fyrstu skref í sjávarútvegsumræðunni að ég held og við munum koma henni margir til varnar !

Níels A. Ársælsson., 13.3.2009 kl. 00:30

12 Smámynd: Fannar frá Rifi

Ólína vill binda aflann við byggðir. Þá hlýtur það að vera eðlileg spurning, við hvað verður miðað og hversu mikið verður bundið við hverja byggð.

ef hún getur ekki svarað þessu en kemur samt fram með einhvert orðgljáfur um "að byggðirnar endurheimti kvótann" en er svo spurð, á að taka kvóta frá Vestmannaeyjum? eða Grindavík? eða Akureyrir? eða Húsavík? eða Snæfellsbæ? eða Grundarfirði? eða Keflavík? 

Þá felur hún sig á bak við enn fleiri upphrópanir og svo koma blindu kvótaandstæðingarnir og verja hana. 

Þannig að ef þú Ólína vilt að aflinn sé bundinn í byggðunum. Þá verðuru að gjörasvo vel og segja okkur hvernig. Verður miðað við prósentur ársins í ár? eða fyrir tveimur árum? eða 26 árum? 

engin svör. Bara kosningar frasar sem engin innistaða er fyrir. 

Fannar frá Rifi, 13.3.2009 kl. 10:04

13 Smámynd: Fannar frá Rifi

Eggert. Sjávarútvegur á Snæfellsnesi hefur blómstrað. Menn gera þarna út á sjóinn og gera það vel.

"Þetta kerfi hefur gert það að verkum að þeir sem svindla geta lifað af"

Þú ert semsagt að kalla alla þá sem vinna í sjávarútvegi svindlara og aumingja? 

Fannar frá Rifi, 13.3.2009 kl. 10:05

14 identicon

Ég hélt að Fannar frá Rifi væri kosningastjóri en ekki í framboði. Getur þetta verið? Ef hann er kosningastjóri þarna vestra er ekkert að gera hjá honum? Ólína, viltu senda mér e-mailið þitt eða hringa: gislibal@simnet.is 896 3297

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 10:12

15 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Fannar, vertu ekki að snúa út úr. Byggðirnar á Snæfellsnesi hafa ekki blómstrað síðustu 20 ár. Það veistu vel.

Þú veist vel hvað ég er að tala um þegar ég segi að þú þurfir að svindla til að lifa af. Það vita allir sem í greininni hafa unnið. Neyðin kennir.........

Aumingja hef ég engan kallað og dettur ekki í hug að gera.

Eggert Hjelm Herbertsson, 13.3.2009 kl. 11:25

16 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Fannar !

Þetta er einfallt mál með skiptinguna á kvótanum niður á byggðirnar.

Við reiknum út í hlutfall hvers byggðarlags í öllum tegundum árin 1980-1983 og deilum niður á hverja einustu löndunarhöfn.

Þetta eru viðmiðunarárin sem notuð voru þegar kvótinn var settur á 1984.

Varðandi karp þitt við Eggert hér að ofan vegna löndunar fram hjá hafnarvigt þá veistu betur.

Ef þú óskar eftir því hérna í kommentkerfinu hjá Ólínu þá er ég boðinn og búinn til að birta hér nöfnin á nokkrum fyrirtækjum og einstaklingum sem staðið hafa í stórfeldu svindli.

Níels A. Ársælsson., 13.3.2009 kl. 12:58

17 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Það gleður mig að hafa kveikt vel í sjávarútvegsumræðunni.

Ég þakka þann góða stuðning sem ég hef fengið hér frá fróðum mönnum og hef litlu við þeirra framlag að bæta - að sinni a.m.k.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 13.3.2009 kl. 15:11

18 Smámynd: Fannar frá Rifi

Já. alltaf gaman að sjá Zimbabwe hagfræðina.

Sé að Gísli hérna að ofan er allur í málefna umræðunni og reynir að hrekja menn burtu með persónuárásum því hann þorir ekki að koma fram með rök. 

byggð á Snæfellsnesi hefur haldist. Auðvitað hefur hún dalað. en er það útaf minnkunar í þorskvóta á staðnum? nei. er þá lausnin að auka þorskkvótann á staðnum? nei. það þurfti framhaldskóla í grundarfirði til efla byggðina en samt þarf meira til. 

annað hvort kemur Ólína með svar hvernig hún vill skipta kvótanum á byggðir eða að hún segi að hún vilji gefa frjálsar veiðar.

bynda kvótann við byggðir eins og það var fyrir 30 árum? afhverju 30 árum? afhverju ekki 70 árum eða 130 árum þegar Dritvík var stæðsta aflahöfn landsins? 

ef þú Nilli eða Kristinn viljið gera út. Nú þá verðið þið að gera nákvæmlega sama allir aðrir. kaupa til ykkar kvóta. mjög einfalt. það ætti að koma nóg á markað á næstunni ef spár þínar Kristinn eru réttar. Ef menn reka fyrirtæki í þrot, hvort sem það er banki, útgerðarfyrirtæki, sjoppa eða sendibílastöð. Þá á viðkomandi að fá að fara í gjaldþrot. Þá tekur einhver annar við. 

Það er lífið. Eða viljið þið ekki endurnýjun og nýliðun nema þegar það hentar ykkur? nýliðun er nefnilega einmitt þegar einn fer í þrot. 

Norska kerfið er byggðar kerfi sem er niðurgreitt af ríkinu. hérna erum við með eina kerfið sem borgar sig sjálft. auðvitað er það skuldum vafið. menn hafa þurft að kaupa upp þá sem hafa hrakist eða verið hraktir úr greininni af stjórnmálamönnum. litlu aðilarnir flúðu því þeir þorðu ekki að eiga í sjávarútvegi yfir kosningar. tala nú ekki um ofurgengið sem stórksaðaði sjávarútvegi og allan annan útfluttning. 

Landa framhjá vigt? nilli talaðu fyrir sjálfan þig.

Ef það á að binda kvóta við byggðir, þá þarf að koma skýrt fram strax fyrir kosningar hversu mörg prósent verður í hvaða byggð. 

Ólína, komdu nú með svar við því ef þú getur. 

Fannar frá Rifi, 13.3.2009 kl. 19:25

19 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Já Fannar ég tala fyrir sjálfan mig og fólkið í byggðunum sem flest hvert stendur hnípið og veit ekki sitt rjúkandi ráð eftir 25 ára ógæfu kvótakerfisins og heimskulega ráðgjöf Hafró.

Þú veist vel Fannar að stórfellt brottkast og skipulögð framhjálöndun á sér stað á nær flestum höfnum landsins.

Ég þarf ekkert að fræða þig á því Fannar, þú veist að þetta er stundað.

Kvótann á að festa á byggðirnar eins og hann var við fyrstu úthlutun 1984 eins og ég sagði hér fyrir framan.

Það er það eina rétta ! 

Síðan getum við samið um frekari útfærslu á nýtingunni öllum landsmönnum og þjóð til hagsbóta.

Ég veit að innst inni ertu sammála mér að fjöregg þjóðar má aldrei aftur verða bröskurum að bráð og aldrei aftur má hnepa fólk í ánauð og þrældóm frjáls framsals á aflaheimildum.

Fólk er ekki til sölu lengur nema í frjálsa framsali kvótakerfisins.

Þetta þarf að stoppa strax daginn eftir að mynduð verður ný ríkisstjórn Samfylkingar og VG.

Níels A. Ársælsson., 13.3.2009 kl. 20:53

20 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Talandi um Zimbabwe hagfræði !

Fannar ! Með öfugum formerkjum, já ..............

Kvótanum stolið af fjöldanum með aðstoð spiltra stjórnmála og bankamanna og hann færður fáum útvöldum græðgis pungum sem kunnu ekki að fara með þá ábyrgð sem þeim var fenginn.

Halelúla !

En núna er hún gamla Gríla bráðum dauð gafst hún upp á skuldunum !

Níels A. Ársælsson., 13.3.2009 kl. 21:20

21 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég hef talað fyrir því að sjávarbyggðirnar fái aftur lífsviðurværi sitt. Fannar kallar það að "binda kvótann við byggðir" og heimtar útfærslu af minni hálfu.

Það sem mér er efst í huga er grundvallaratriðið en ekki útfærslan. þ.e. að allir eigi þess kost að komast á sjó og gera út frá sínu byggðarlagi.

Fannar talar um sölu - hann gengur út frá núverandi eignarhaldi á fiskveiðiheimildunum. Ég vil eignarhaldið úr höndum útgerðarmanna í hendur þjóðarinnar (ríkisins) þaðan sem því yrði úthlutað eftir sanngjörnum leikreglum. Þá er ég ekki að tala um pólitíska fyrirgreiðslu heldur mætti hugsa sér t.d. leigu á fiskveiðiheimildum að undangengnu uppboði þar sem menn ættu þess jafnan kost að bjóða í og fá leigðan kvóta til að veiða sjálfir. Þeir gætu hinsvegar ekki framselt kvótann til annarra.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 13.3.2009 kl. 21:50

22 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mannlíf í sjávarþorpunum á ekki lengur að vera á uppbosmarkaði LÍÚ. Útfærsluatriði þessa flókna máls þarf ekki Ólína Þorvarðardóttir að hafa á reiðum höndum. Eins er það vonlaust að gera réð fyrir einhverju einu svari og endanlegu í því máli. En þetta mál hefur fleiri hliðar. Nú má alveg fara að hugsa til þess að við sækjum um aðild að ESB hvaða skoðun sem ég kann að hafa á því máli.

Mér sýnist viðhorf alþjóðasamfélagsins til botnfiskveiða vera að verða neikvæðari með hverju ári og það skil ég vel. Kyrrstæð veiðarfæri svonefnd skemma ekki lífríkið og mikil einveldni að trúa því að fiskistofnum stafi ógn af notkun slíkra veiðarfæra. Það yrðu sterk rök þegar auðlindaréttur kæmi til umræðu í samningum við ESB að vísa til svonefnds frumbyggjaréttar sjávarbyggðanna. Þau rök hafa reynst sterk hjá öðrum þjóðum.

Þess vegna eigum við skilyrðislaust að stórauka kvótann til þessara byggða og binda hann við tiltekin veiðarfæri og landhelgi því samkvæmt.

Árni Gunnarsson, 14.3.2009 kl. 01:11

23 Smámynd: Árni Gunnarsson

Botnvörpuveiða en ekki botnfiskveiða vildi ég sagt hafa.

Árni Gunnarsson, 14.3.2009 kl. 01:13

24 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég get tekið undir margt sem þú segir Kristinn - þetta eru athyglisverðar hugleiðingar og ábendingar hjá þér.

Raunar er ég ekki að tala um sölu veiðiheimilda á uppboði, heldur leigu - en látum það vera. Þetta er bara ein hugmynd. Önnur hugmynd er  fyrningarleiðin, talað hefur verið um að innkalla og selja 5% af aflamagni hvers árs; eins að ákveðnu magni verði haldið utan kvóta  o.s.frv., o.s. frv. ... Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að tala um að útgerðin verði einfaldlega tekin upp í skuld við samfélagið, skuldir útgerðarinnar lagðar í auðlindasjóð, og gefið upp á nýtt (afar athyglisverð hugmynd).

Aðal atriðið í mínum huga er að útfærslan þjóni grunnhugmyndinni um réttláta skiptingu þessara auðæfa þannig að þau nýtist samfélaginu í heild og þeim byggðum sem segja má að eigi frumbyggjarétt á sínum veiðum - en ekki fáeinum útgerðarmönnum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 15.3.2009 kl. 09:24

25 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Sverrir Hermannsson skrifar um kvótakerfið í mbl, 29 mars 2004.

ÞEGAR gagnrýnendur beina orðum sínum að landeyðingarstefnu kvótakerfisins og nefna meinsemdina miklu, brottkastið, heitir það á máli lénsherra og taglhnýtinga þeirra rógur um íslenzkan sjávarútveg.

Þeir bíða þeirra stunda óþreyjufullir að fá að vera í friði með kvótann sinn fyrir öfundsjúkum úrtölumönnum, sem ekki kunna að hagræða og skilja ekki einu sinni hagræðinguna sem í því felst að henda öllum fiski, sem ekki fæst hámarksverð fyrir, en það eru leigjendur veiðiheimilda hinsvegar nauðbeygðir til að skilja út í hörgul.

Formælendur kvótakerfisins segja að aldrei hafi verið uppfundið annað eins kerfi og vitna til fjarlægustu landa máli sínu til stuðnings.

Þeir hafa ekki enn frétt af sóknarkerfi Færeyinga, sem útrýmt hefir öllu brottkasti.

Auk þess að efla fiskstofna við eyjarnar stórum, sem menn skyldu halda að væri meginmarkmið fiskveiðistjórnar.

Aftur á móti hefir "fram úr skarandi" kerfi Íslendinga engu skilað í þeim efnum, heldur þvert á móti gengið á botnfiskstofna miðanna.

Frændur eru frændum verstir. Nú hafa Norðmenn og Danir rokið upp með andfælum vegna brottkasts afla og Danir m.a.s. reiknað út að fiskimenn þeirra fleygi jafn miklu og þjóðin étur af fiskmeti árlega.

Að hafa hátt um þetta mun íslenzkum kvótagreifum þykja óvinsamlegt af Dönum í garð sjávarútvegs og skyggja á hagræðinguna.

Að ekki sé minnzt á þá ósvífni Dana, þegar þeir nefna, að til athugunar komi að taka upp færeyska fiskveiðikerfið!

Hversu marga áratugi myndi það taka íslenzka þjóð að torga því fiskmeti sem hent er fyrir borð árlega á Íslandsmiðum?

Undirritaður hefir ekki þrek til að fara mörgum orðum um hið gegndarlausa brottkast afla af því sem gagnrýni þess vegna bitnar ekki á þeim sem aðalábyrgð bera, heldur einkum á þeim, sem síður skyldi:

Mönnunum, sem til þess eru neyddir að bjarga afkomu sinni og sinna - og nægir í mörgu falli ekki til.

Neyddir til af bandvitlausu kerfi, sem knúið er áfram af stórtækustu arðræningjum Íslandssögunnar síðan danska einokunarverzlunin var og hét, sem einnig var rekin samkvæmt lögum sem valdstjórn setti.

Og nú sem ráðstjórnarmenn eru óttaslegnir vegna kvótahöfðingja, sem láta greipar sópa með sölu á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, hafa þeir hátt um frelsið.

Eins og aðalritari orðaði það á Viðskiptaþingi hinn 11. febrúar sl.:

"Tilgangur baráttu okkar fyrir einstaklingsfrelsinu var aldrei sá að frelsið væri fyrir fáa útvalda."

Það var og!

Og verðandi aðalritara ráðstjórnar þótti af fyrrgreindu tilefni ástæða til að taka fram uppi í Háskóla Íslands að:

"Hin nýja íslenzka stefna er ekki "dýrkun gróðans"."

Það er nefnilega það!

Við hæfi er að ljúka þessu greinarkorni með því að vitna í viðtal við;

Kristján Júlíusson, bæjarstjóra á Akureyri og fv. stjórnarformann Samherja, í Morgunblaðinu 8. febrúar sl.

Hann segir svo:

"Ef frelsi sumra er með þeim hætti að það takmarkar frelsi annarra þá er eitthvað orðið að.

Það getur ekki verið að einhver hafi ætlast til þess að hlutirnir gengju þannig fyrir sig."

Þó ekki væri!

Hversu lengi mun æðstu ráðamönnum og attaníossum þeirra haldast uppi að tala til þjóðarinnar eins og hún sé mestmegnis samsafn fábjána?

Níels A. Ársælsson., 15.3.2009 kl. 11:08

26 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Níels A. Ársælsson., 15.3.2009 kl. 11:12

27 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir þessa tilvísun Níels - ég skoðaði þetta og það er afar athyglisvert.

Ég hvet alla til að skoða þetta. Það er ekki langt.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 15.3.2009 kl. 13:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband