Ungir menn í gamalli klækjapólitík
24.2.2009 | 10:37
Nú eru leikfléttur Framsóknarmanna farnar að taka á sig undarlegar myndir. Í gær greiddi Höskuldur Þórhallsson atkvæði með tillögu Sjálfstæðismanna í viðskiptanefnd Alþingis um að fresta afgreiðslu Seðlabankafrumvarpsins þar til í dag. Svo mætir hann ekki á fund nefndarinnar í morgun og málið er fast í nefndinni.
Hvaða fíflagangur er þetta eiginlega? Halda menn virkilega að svona klækjapólitík sé að skora eitthvað hjá fólki um þessar mundir? Þetta sé það sem fólk vilji sjá í kreppunni?
Þegar Framsóknarflokkurinn kaus sér nýja forystu á dögunum töldu ýmsir - ég þar á meðal - að nú væri gamla framsóknar-maddaman að ganga í endurnýjun lífdaga með ungt og sprækt fólk í sinni framvarðarsveit. Já - ég trúði því meira að segja að þessum mönnum væri einhver alvara með því að lofa ríkisstjórninni hlutleysi sínu: Að þeir ætluðu virkilega að greiða fyrir því sem gera þyrfti - myndu a.m.k. ekki þvælast fyrir.
Nú lítur út fyrir að þeim hafi ekki verið sú alvara sem ætla mátti. Á bak við andlitslyftinguna og hina unglegu ásýnd tinar gamli ellihrumi Framsóknarflokkurinn með sína klæki og klíkur, leikfléttur, samsæri og tilheyrandi paranoju sem við höfum þegar séð merki um, m.a. hjá formanninum unga.
Birgir Ármannsson fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í viðskiptanefnd er sigri hrósandi yfir því að málið muni ekki komast á dagskrá Alþingis í dag þar sem nefndin hefur ekki enn lokið umfjöllun sinni. Já, hann er kátur yfir því að þeim tókst að tefja. Það var víst markmiðið að tefja, tefja, tefja ....
Jahjarna - segi ég nú bara.
Ekki rætt um Seðlabanka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Vefurinn, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:45 | Facebook
Athugasemdir
Á alþingi virðast hagsmunir flokka skipta meira máli heldur en þjóðarhagur. Framsóknarflokkurinn er að bregðast ríkisstjórninni finnst mér. Kæmi ekki á óvart að stjórnin hrökklaðist frá fljótlega enda öll mál meira og minna stopp. Minn gamli flokkur sjálfstæðisflokkurinn gleðst þá væntanlega en hvorki þeir eða framsóknarmenn gera sér grein fyrir afleiðingunum þess að landið verði stjórnlaust á nýjan leik. Það er þyngra en tárum taki að fylgjast með alþingismönnum á þeirri ögurstund sem íslenska þjóðin er stödd á. Fyrirtækjum og heimilum blæðir hægt út en þeir skynja það ekki.
Daníel Sigurbjörnsson, 24.2.2009 kl. 10:57
Þessir menn eru allir að bregðast okkur. Nauðsynin á að skipta þessu liði út kemur æ betur í ljós. Þeim virðist fyrirmunað að sjá útfyrir flokkadrætti og hagsmunapot og gera sér grein fyrir forgangsröðuninni. Með hverjum deginum sem líður og hverju gjaldþrotinu sem yfir dynur þá virðist blinda þeirra aukast. Ég er viss um að í eigin huga eru þeir ábyrgir og vandvirkir. Ekki er ég viss um að allir séu því sammála. Enginn þeirra hefur gert tilraun til að réttlæta gerðir sínar til þessa heldur er eins og þeim finnist það ekki koma fólki við hvað stjórnarhættir þeirra og vinnubrögð hafa leitt yfir okkur
Alþingismenn !
Hlustið á þjóð ykkar, takið höndum saman og leysið brýnustu verkefnin og farið í skotgrafirnar seinna þegar við höfum efni á svona sandkassaleik
Hjalti Tómasson, 24.2.2009 kl. 12:49
Frá því eftir HRUN hefur flokkakerfið staðið sig með eindæmun illa.
Tafir, biðleikir og almennur fíflagangur eins og Framsókn birtir okkur núna- hafa gert mjög marga afhuga þessu flokkaliði.
Nú hefur rekið á fjörur okkar nýtt stjórnmálaafl- afl sem sprottið er upp úr grasrótarhreyfingum sem urðu til eftir HRUN.
Sennilega fær þetta nýja framboð mjög gott sóknarfæri núna og höfðar til hins almenna manns og konu sem vill lifa eðlilegu lífi hér í þessu landi.
Allavega fólkinu er hreinlega ofboðið með þessum leikaraskap sem birtist okkur frá alþingi núna... Val um annað er komið fram.
Sævar Helgason, 24.2.2009 kl. 14:23
Það eru vitrir menn sem setja athugasemdir á bloggið þitt Ólína. Mikið er ég ánægð að sjá þetta, já og sammála er ég færslunni þinni.
Ingibjörg Hinriksdóttir, 24.2.2009 kl. 17:50
Þegar hinn 11. september í efnahagslífi Íslands átti sér stað í byrjun október 2008, þá vildi svo til að einn af forsvarsmönnum Moody's var staddur í sjónvarpssal beinnar útsendingar hjá fjármálasjónvarpsstöðinni CNBC Europe. Ég sat og horfði á hann í tölvunni hjá mér. Talið barst að íslensku krónunni og Seðlabanka Íslands. En í þessum hamförum náði íslenska krónan sennilega að falla mest allra gjaldmiðla án þess að viðkomandi seðlabanki gerði neitt til að stöðva fallið
Þetta er dálítið merkilegt. En hvað er svona merkilegt við þetta? Jú, talsmaður Moody's sagði það vera Seðlabanka Íslands til mikils hróss að hann freistaðist ekki til þess að grípa inn með stuðningsuppkaupum á krónu. Þessi maður frá Moody's vissi nefnilega vel að þetta er freisting sem hefur orðið mörgum gjaldeyrisforðanum að falli, því í hita augnabliksins er svo auðvelt að missa skynsemina og fara að ímynda sér að hægt sé að verja myntina gegn ofurkröftum. Endalaus röð af seðlabönkum heimsins hafa reynt þetta í erfiðum aðstæðum og er hausinn oftast blásinn af þeim og forðinn gufar upp
Ekki á þeirra vakt
En þetta gerðist bara ekki hjá Seðlabanka Íslands. Hausinn var ekki blásinn af Seðlabanka Íslands og gjaldeyrisforða þjóðarinnar var ekki eytt í halda uppi vonlausu gengi einungis hinum vonlausu til hjálpar
Þjóðin getur því þakkað hæfum mönnum Seðlabanka Íslands fyrir að hún á ennþá gjaldeyrisforða. Honum var ekki eytt til hjálpar hinum vonlausu. Hann var geymdur handa þjóðinni. Geymdur ef til harðinda kæmi og ef Ísland hefði þurft að halda út og þrauka eitt og yfirgefið í óvinveittri baráttu - og ef þurft hefði að semja illvíga samninga við umheiminn, algerlega án utanaðkomandi hjálpar. Það hefði því verið hægt. Styrkleiki í samningum er nauðsynlegur en hann hverfur þó oftast ef þjóðin sveltur. Þetta var tryggt vegna þess að það sátu hæfir hagfræðingar og vanir stjórnendur í Seðlabanka Íslands. Banka þjóðarinnar. En núna á samt að reka þá
Næsta atriði í krísustjórn undir áföllum - og ennþá hér samkvæmt Moody's - er að tryggja að það sé ekki gert áhlaup á gjaldeyrisforðann. Að hann endi ekki á Cayman eða í hólfi í Singapore í eigu fárra aðila. Þetta tryggði Seðlabanki Íslands einnig. Gjaldeyrisforðinn er þarna ennþá, fyrir þjóðina. Seðlabanki Íslands sýndi hér í verki að hann er stofnun sem brást ekki. En mikið var lagt á hann. Öllu var hrúgað á þessa stofnun. Óhæfum fjármálageira á ólöglegum vaxtahormónum, óhæfum rembum útrásar og einnig eyðslusamri ríkisstjórn. Svo biðja menn um kraftaverk á meðan allt var gert sem yfirhöfuð var hægt að gera til að þröngva Seðlabankanum til að grípa til örþrifaráða. Gjaldmiðillinn níddur niður, sífellt grafið er undan öllu með innilegri heimsku fjölmiðla, forvígismenn lýðskrumast í akkorði og Samfylkingin grefur undan starfshæfni ríkisstjórnarinnar þegar mest ríður á að hún sé sterk og þróttmikil
Hin nýja ríkisstjórn Íslands heldur eins og öll vinstri öfl alltaf halda að það sé hægt að laga allt ef bara settar eru fleiri reglur. Hún heldur að allir hætti að aka óvarlega vegna þess að þeir hafi bílpróf. En vandamálið er bara það að ríkisstjórn Íslands situr núna ölvuð undir stýri og er að keyra yfir á rauðu ljósi út um allt. Hún mun brjóta allt og bramla í ölæðinu. Hún er nefnilega ofurölvi og víman er hefndarþorsti, skítt með þjóðina og skítt með landið. Ölvunaræði þar sem bakarar bæjarins verða hengdir opinberlega sem smiðir. Brátt mun brauðið því þverra
En hver gerði þetta?
En hver gerði árásina á Ísland, á myntina, á Seðlabankann, á ríkissjóð og á öryggi þjóðarinnar? Það veit ríkisstjórnin ekki, hún hefur ekki tíma, því hún er úti að aka
Ekki einu sinni seðlabankastjóri Evrópusambandsins mun geta fengið vinnu hjá nýju ríkisstjórn Íslands því hann hefur ekki prófið. Þess utan þá hefur hann aldrei prófað neitt nema að búa í ríkisreknu hagkerfi svo prófið skiptir heldur ekki máli hér. En núna getur nýja ríkisstjórn Íslands valið úr fullt af hæfum mönnum úr hinu fyrrverandi af öllu fyrrverandi, þ.e. frá leifunum af fjármálageira Íslands og klappstýrum gulláranna
Þvílíkir kjánar og einfeldningar. Næst verður forsætisráðherrann krafinn um skilríki þegar hann/hún þarf að fara á . . . já þú veist.....Ofanskráð er tekið af bloggi Gunnars Rögnvaldssonar og er athyglisvert innlegg í þá einlitu umræðu sem átt hefur séð stað hér á landi í kjölfar atburða þeirra er leiddu til falls bankanna. Grunnhyggnir tækifærissinnar úr rýmsum áttum hafa reynt að skjóta pólitískum keilum, ráðast á Seðlabanka Íslands og gera hann að blóraböggli. Forsætisráðherra vinstri starfsstjórnarinnar hefur látið etja sér á foraðið og fjölmiðlar hafa básúnað upp órökstutt blaðrið semi stórasannleiik, að forsenda afturbatans í efnahagsmálum sé að finna í hreinsunum í yfirstjórn Seðlabanka Íslands! Spyrja mætti hvort í kjölfar fall Lehman brothers bankans í Ameríku, sem hafði keðjuverkandi áhrif á starfsemi vestrænna banka, hvort Hörður Torfason, Jóhanna Sigurðardóttir og Co. ætli ekki að skrifa Obama bréf og spyrja hvort hann vilji ekki reyna að víkja Ben Bernanke seðlabankastjóra úr starfi (hann er með 14 ára samning frá 2006). Hvergi í hinum vestræna heimi annars staðar en hér hafa ríkisstjórnir reynt að reka yfirmenn seðlabankanna í kjölfar bankakreppunar. Þær eru upplýstari en svo um orsakir vandans.
Óttar Felix Hauksson, 25.2.2009 kl. 01:21
Búsáhalda byltingin sagði burt með flokksræði og látið ekki.framkvæmdavaldið vaða yfir þingið svo þegar þingmenn fara eftir samfæringu sinni þá verður allt vitlaust . Ég sé ekki að Seðlabankastjórar séu að spill neinu heldur að vinna í því að koma málum áfram. Hvað sýndi Davíð í Kastljósi. Ríkistjórnin er að vinna í algjörum aukaatriðum þetta er ekki spurning um menn í seðlabankanum. Það hljóta að vera mál sem biða hjá stjórninni sem hægt er að ræða á meðan annað er í skoðun. Allir ráðherrar síðustu fríkstjórnar eiga að hverfa af þingi og að fara í endurmenntun eins og Þorgerður sagði um fjármála erlenda ráðgjafann sem benti á að bankakerfið væri illa komið. Ríkistjórnin á að snúa sér að því að koma fyrirtækjum og heimilum til hjálpar og það strax Davíð vill hjálpa þeim við það.
Jón Ólafur Vilhjálmsson, 25.2.2009 kl. 09:36
"Þjóðin getur því þakkað hæfum mönnum Seðlabanka Íslands fyrir að hún á ennþá gjaldeyrisforða. Honum var ekki eytt til hjálpar hinum vonlausu. Hann var geymdur handa þjóðinni."
Setti Seðlabanki Íslands ekki nokkur hundruð milljarða ísl.kr inní danskan banka til "bjargar Kaupþingi" í vonlausir stöðu - í septemberlok 2008 ? Davíð Seðlabankastjóri segist hafa vitað þegar í febrúar að 2008 að hrun bankanna yrði í október 2008- samt var þessum fjármunum hent á glæ . Það er margt sem þarf að skýra í vinnu Seðlabankans - og víðar... Allavega er Seðlabanki Íslands gjaldþrota - núna
Sævar Helgason, 25.2.2009 kl. 10:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.