Bloggað fyrir Vestfirði!
16.2.2009 | 11:03
Ég sé á mínum fyrstu bloggfærslum frá því fyrir tveimur árum, að ég hef upphaflega byrjað að blogga fyrir Vestfirði. Olnbogabarnið sem mér er svo kært og ég hef nú deilt kjörum með um allnokkra hríð.
Upphaflegur tilgangur minn með því að kveðja mér hljóðs á þessum vettvangi, var nefnilega sá að koma Vestfjörðum inn í umræðuna og vekja máls á ýmsu sem höfuðborgarbúum er hulið varðandi aðstæður og búsetumál á landsbyggðinni. Tilefnið var alvarleg röskun sem varð í atvinnulífi Ísfirðinga um svipað leyti. Sú staða leiddi til þess að ég og fleiri efndum til borgarafundar undir slagorðinu: Vestfirðir lifi! Við kölluðum þingmenn og ráðherra til fundarins og hleyptum af stað mikilli umræðu um stöðu mála.
Það er nú einhvernvegin þannig að þegar ég er spurð hvers vegna ég vilji búa þarna fyrir vestan eins og það er yfirleitt orðað, þá fylgir spurningunni eitthvert fas eða svipur. Þetta er sami svipurinn og kemur á fólk þegar það talar um fjárstreymið til landsbyggðarinnar eins og nauðsynleg byggðaúrræði eru stundum nefnd.
En sannleikurinn er sá, að þrátt fyrir ýmsa erfiðleika sem dunið hafa yfir þetta landssvæði, er gott að búa hér fyrir vestan. Hér á Ísafirði stendur menning með miklum blóma, sérstaklega tónlistin. Hér er mikil ósnortin náttúra allt um kring og hvergi fegurra á sólbjörtum dögum en við Ísafjarðardjúp.
Við sem viljum búa hér eigum ekki að þurfa að réttlæta þá ákvörðun okkar fyrir neinum. Við eigum einfaldlega að sitja við sama borð og aðrir landsmenn þegar kemur að almennum búsetuskilyrðum og atvinnuháttum. Við greiðum okkar skatta og skyldur. Og þrátt fyrir þá röskun sem kvótakerfið hefur valdið hér í sjávarbyggðum, er landshlutinn í heild sinni drjúg uppistaða þjóðartekna.
Nú þegar fer að hitna í kolum fyrir næstu Alþingiskosningar er ekki úr vegi að minna á að það er löngu tímabært að Vestfirðir fái að búa við samskonar samgöngur, fjarskipti, flutningskostnað, menntunarkosti og almenn skilyrði í atvinnulífi og aðrir landshlutar. Að þessi hluti landsins sé samkeppnisfær. Og þó að ýmsu hafi verið þokað áleiðis er mikið ógert enn.
Brýnastar eru framkvæmdir í samgöngumálum og fjarskiptum - en síðast en ekki síst þurfum við: Sanngjarnar leikreglur! Meira um það síðar.
-----
PS: Myndina hér fyrir ofan tók Oddur Jónsson af Kubbanum í Skutulsfirði
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Lífstíll, Samgöngur, Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 23:54 | Facebook
Athugasemdir
Þetta viðhorf, að landsbyggðin sé baggi á landinu ber vott um mikla blindu og vankunnáttu. Eins og við sjáum í dag þá verða peningarnir ekki til í bönkunum eða verðbréfafyrirtækjunum eins og kennt var í viðsiptadeildum skólanna. Þeir koma úr þeim auðlindum sem okkur standa til boða og okkur hefur borið gæfa til að nýta með þeim hætti að þar eigum við ef til vill enn svolítið borð fyrir báru ( til dæmis með réttlátari skiptingu kvótans og hugsanlega aukinni veiði )
Það er rétt sem þú segir, landsbyggðin á ekki að þurfa að réttlæta tilveru sína frekar en hafnfirðingar eða reykvíkingar. Ef eitthvað á eftir að toga okkur upp úr þessum táradal þá verður það sjávarútvegurinn og bændastéttin auk þeirrar nýsköpunar sem er að finna víða um land ( og þá er ég bæði að tala um höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina ) Tónlistarhúsið í Reykjavík er þó ekki á þeim lista
Hjalti Tómasson, 16.2.2009 kl. 11:44
Það var einmitt vegna áhuga fyrir umfjöllun um Vestfirðina- lífbaráttuna og mannlífið þar ,einkum við Djúpið, sem ég rataði inná vefinn þinn. Lengi vel voru kjarnaskrifin um Vestfirðina- síðan tók almenna pólitíkin yfir- alveg. Ég sakna hugleiðinga frá Vestfjörðum .
Sævar Helgason, 16.2.2009 kl. 13:49
Hvernig væri að þeir sem stóðu Vestfirðir lifi! taki sig saman og haldi annan fund og fari yfir það sem hefur breyst? Ég mætti á þennan fund á sínum tíma og var hann mikið þarfaþing. Ég man að það mætti enginn þinmanna Sjálfstæðisflokksins en þáverandi stjórnarandstöðuþingmenn mættu nokkrir og ætluðu nú aldeilis að vera með atkvæðaveiðar en fengu skammir og var bent á að hunskast til Reykjavíkur og koma með lausnir. Nú væri gaman að sjá hvað er búið að gera á þessum tæpum tveimur árum sem liðin eru...
Benedikt Hreinn Einarsson (IP-tala skráð) 16.2.2009 kl. 14:19
Æ, já - dægurþrasið og fréttahringiðan taka svo oft yfir allt annað sem er manni hugleikið, og áður en maður veit hefur mann borið af leið. Það dynja yfir kosningar - til bæjarstjórna og alþingis - meirihlutar myndast og springa í Reykjavíkurborg, bankakerfið hrynur, ríkisstjórnir myndast og springa. Úff!
En ég hef góð áform um að taka nú upp breytta siði.
Og það er góð hugmynd hjá Benedikt Hreini (mínum gamla nemanda) að fara nú aðeins yfir listann með þeim sem töluðu á borgarafundinum fræga hér á Ísafirði í hitteðfyrra.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 16.2.2009 kl. 15:37
Elsku Ólína mín! Ég vona að þetta hafi verið innsláttarvilla. Engir kveða sér hljóðs.
Við kveðjum okkur hljóðs. Svona getur eggið stundum kennt hænunni!
Árni Gunnarsson, 16.2.2009 kl. 17:07
Ekki má vanmeta það að mikið skortir á að sjálfsmynd landsbyggðarbúa sé bökkuð upp en ekki rifin niður gegnum fjölmiðla og uppbyggingu stjórnsýslu.
Jón Halldór Guðmundsson, 16.2.2009 kl. 17:19
Sæll Árni - að kveðja sér hljóðs átti þetta nú að vera en í ljósi þess hvað ég er mikil kvæðakona má vonandi fyrirgefa mér þessa ásláttarvillu.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 16.2.2009 kl. 23:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.