Nýtt lýðveldi: Undirskriftasöfnunin er hafin!
22.1.2009 | 15:20
Undirskriftasöfnunin til stuðnings utanþingsstjórn og boðun stjórnlagaþings er hafin á vefsíðunni Nýtt lýðveldi. Nú vona ég að almennignur taki við sér, fari inn á vefslóðina http://www.nyttlydveldi.is/ og skrifi undir áskorun okkar til forseta Íslands og Alþingis.
Að þessari undirskriftarsöfnun stendur hópur Íslendinga sem telur brýnt að hefjast nú þegar handa við að endurreisa traust í þjóðfélaginu Fólkið í landinu þráir nýtt upphaf og nýjar leikreglur ásamt endurreisn þeirra gilda sem þjóðin hefur um aldir lagt rækt við; gilda á borð við heiðarleika, samvinnu, ábyrgð og jöfnuð. Við viljum efla virðingu fyrir reglum lýðræðis og grundvallarstofnunum samfélagsin. Í því skyni viljum við mynda þverpólitíska breiðfylkingu um þau markmið sem koma fram í áskoruninni til forseta og Alþingis. Margir góðir og vel metnir Íslendingar hafa lagt til ráðgjöf og aðstoð við undirbúning þessa framtaks.
Hópurinn er óháður öllum stjórnmálaframboðum og hagsmunaöflum.
Áskorun Íslendinga til forseta lýðveldisins og Alþingis Íslendinga
Við undirritaðir Íslendingar skorum á forseta Íslands og Alþingi að hlutast til um skipun tímabundinnar utanþingsstjórnar sem fari með framkvæmdavald forseta á grundvelli 15. og 24. greina stjórnarskrár lýðveldisins Íslands í samræmi við stjórnskipan landsins. Jafnframt skorum við á Alþingi að samþykkja stjórnskipunarlög um boðun til stjórnlagaþings - nýs þjóðfundar. Forseti Íslands boði til þingsins fulltrúa sem kosnir verði ásamt varafulltrúa fyrir hvern þeirra í almennum kosningum sem haldnar skulu innan tveggja mánaða frá síðari samþykkt frumvarps til stjórnarskipunarlaga. Kjörgengi til stjórnlagaþings hafi allir sem uppfylla kjörgengisskilyrði 34. gr. stjórnarskrárinnar nema forseti Íslands, alþingismenn og ráðherrar. Í kosningum til stjórnlagaþings verði allt landið eitt kjördæmi. Stjórnlagaþing semji nýja stjórnarskrá þar sem lagður verði grunnur að nýju lýðveldi með virku og endurnýjuðu lýðræði. Í því felst m.a.
Að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána verði þing rofið og efnt til nýrra alþingiskosninga á grundvelli hennar. |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Mannréttindi, Vefurinn | Breytt s.d. kl. 17:43 | Facebook
Athugasemdir
Sá er hængur á Ólína að hann er ekki minn forseti;)
Heimir Lárusson Fjeldsted, 22.1.2009 kl. 15:34
Ásdís Sigurðardóttir, 22.1.2009 kl. 15:35
Gott fólk - texti áskorunarinnar hefur verið borinn undir færustu lögfræðinga.
Samkvæmt stjórnarskránni er það forseti Íslands sem veitir stjórnarmyndunarumboð að höfðu samráði við formenn stjórnmálaflokkanna. Ef mynduð er utanþingsstjórn - mætti hugsa sér einhverskonar þjóðstjórn - þá verður það tæpast gert nema í samráði og sátt við það alþingi sem nú situr og á forsendum þeirrar stjórnarskrá sem nú er í gildi.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 22.1.2009 kl. 15:44
Til hamingju með gott framtak. Þetta eru góðir útgangspunktar með stjórnarskrána, þó margt fleira þurfi að laga svo hún þjóni vel nýju lýðveldi framtíðarinnar.
Ég styð heils hugar þetta framtak ykkar.
Guðbjörn Jónsson, 22.1.2009 kl. 17:43
Kötturinn búinn að kvitta,
í kveld vill hann þig hitta,
horfa í þín himnesk augu,
svo hjúkra þarf Guðlaugu.
Þorsteinn Briem, 22.1.2009 kl. 18:05
Ríkisstjórnin er fallin og steindauð
Meðvirkni Samfylkingarinnar með hyski Davíðs hefur leitt flokkinn í glötun.
Aðeins 17 % fylgi og fer minnkandi.
Gáfumannafélag flokksins brást og veðjaði á vitlausan hest.
Of seint að iðrast í auðmýkt eftirá.
Vinstri Grænir með ca. 30 %.
Gætu gert gagn ef þeir losa sig við feministapakkið sem skaðar flokkinn (og
þjóðina)
Framsókn. Sminkað lík. Orðin stærri en Samfylkingin!
Að vissu leyti snjallt að nota líkið sem Trójuhest til að koma nýjum mönnum
inn í Þingsali.
Það getur þó reynst erfitt að berjast við hina lifandi dauðu Zombíur sem
hafast þar við í felum án þess að smitast.
Frjálslyndi flokkurinn og allir nýju flokkarnir!
"Spennandi tímar framundan" eins og einn fyrrverandi ráðherra sagði í
viðtali.
Eftir kosningarnar verður landslag stjórnmálanna mjög breytt.
Það sem skiptir mestu máli er að endurskoðun stjórnarskrárinnar takist vel.
Það þarf að búa þannig um að sú spillta valdaklíka sem hefur herjað á
Íslendinga síðustu áratugi geti ekki risið upp aftur.
Jón (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 18:27
Hamingjuóskir og búin að kvitta. Kveðjur á línuna
Hólmfríður Bjarnadóttir, 22.1.2009 kl. 19:20
Búinn að skrá mig.
Arinbjörn Kúld, 22.1.2009 kl. 20:11
Gott framtak og þarft.
Það er ekki gott í fljótu bragði að sjá á hvern hátt annan hægt er að hreinsa til í stjórnsýslunni með svo stuttum fyrirvara.
Það þarf að mínu viti að ganga lengra og taka til í embættismannakerfinu líka því við höfum allt of mörg dæmi um að ákvarðanir ráðamanna ná ekki fram að ganga vegna vilja eða getuleysis þeirra embættismanna sem eiga að fylgja eftir vilja kosinna fulltrúa.
Ég held jafnvel að ameríska kerfið ( þar sem embættismenn eru kosnir ) ætti ekkert síður við í fámenninu hér þar sem flokkstengsl og jafnvel ættartengsl ráða meir um embættisveitingar en hæfni fólks.
Hjalti Tómasson, 22.1.2009 kl. 21:09
Við hjónin erum búin að kvitta - ég er svo glöð yfir þessu framtaki að það hálfa væri nóg - get ekki hugsað mér kosningar í vor - vil engan flokkanna í stjórn - svo þetta framtak er eins og talað út úr mínu hjarta!!!
Bara spennandi og glæsilegt!!!!!!!!!!!
Ása (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 21:13
Sæl Ólína,
sennilega mjög gott framtak. Frekar hægvirkt en örugglega til bóta. Flott og haltu áfram.
Gunnar Skúli Ármannsson, 22.1.2009 kl. 21:59
Já fólkið í landinu er hætt að treysta orðum ráðherranna. Ég t.d. treysti ekki það sem Geir segir, bankarnir eru traustir, hvað á maður að trúa, því það er búið að ljúga mann fullann. Ég hef alltaf stutt Samfylkinguna, en ég held að það þurfi eitthvað alveg nýtt að koma til til þess að leysa þá hnúta og stöðu sem þjóðin stendur frammi fyrir. Það eru svo margir að segja eitthvað, svona misviturlegt svo maður verður bara að treysta eigin dómgreind. Gangi þér vel með Nýtt líðveldi, stið það heils hugar.
Áslaug Sigurjónsdóttir, 22.1.2009 kl. 22:31
Hvernig sem ég reyni þá kemst ég ekki inn á þessa síðu
Linda (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 23:01
Hefur maður eitthvað að segja eða getur maður hjálpað til ef maður býr á landsbyggðinni? Ég þakka Reykvíkingum fyrir að berjast gegn spillingaröflunum! Þið eruð byltingarhetjurnar sem hafið hreyft við vanhæfri ríkisstjórn og handónýtu Alþingi! Ég vildi að ég hefði getað tekið þátt en bý svo fjandi langt í burtu!
Helgi (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 23:05
Kemst ekki inn á síðuna heldur. Vona að sé lokuð vegna álags!
Solveig (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 23:31
Vefurinn virðist liggja niðri. Ég ætla að vona að það sé vegna álags.
Þórður Möller (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 23:32
Þetta er frábært framtak og spennandi. Skrifaði undir í morgun
Ragnhildur Jónsdóttir, 23.1.2009 kl. 01:22
Geir Hilmar Haarde og reyndar íslendingar allir þurfa að horfa á þessa mynd, "The Money Masters", afar vönduð heymildarmynd frá 1996 sem skýrir mjög vel afhverju það er kreppa og fyrri kreppur sem og hengingartak það sem klíka alþjóðlegra bankaskúrka hefur á öllum þjóðum, hvernig þeir náðu undir sig Bandaríkjunum(endanlega 1913), hvernig Aljóðlegi Gjaldeyrissjóðurinn kemur inn í dæmið seinna meir, hvernig það er hagur þessarar klíku að halda öllum þjóðum í skuld með skipulögðum kreppum og stríðum/styrjöldum.
Það reynist mörgum erfitt að horfast í augu við slíkan hráskinnaleik og hvernig þjóðir heimsins eru hafðar að leiksoppar öld eftir öld, öllum er þó hollt að horfast allavegana smástund í augu við óvininn og skilja hvernig hann hugsar, nú eru ekki tímarnir fyrir sjálfsblekkingu því að nú fara hlutirnir að gerast hratt og þessi þjóð þarf einhvernveginn að losna úr klóm þeirra afla sem gera okkur að skuldaþrælum kynslóð eftir kynslóð. Í lok myndarinnar (sem segir fyrir 9 árum fyrir um hrunið mikla sem nú er í gangi, þó að höfundurinn hafi sennilega reiknað með því að Peningameistararnir myndu láta til skarar skríða nokkuð fyrr er raunin varð) er líka talað um lausnir og hvernig hægt sé á raunhæfann hátt að brjótast undan þessum óskapnaði. Hér á landi sem annars staðar er vissulega fyrsta verk að losa sig við spilltustu stjórmálamennina og koma heiðarlegu fólki að stjórn. Sækja ræningja til saka síðan þegar búið er að koma varðhundum þeirra frá og endurheimta sem mest af þýfinu.
En í alls bænum horfið á hana og skiljið hvað hún upplýsir og augljóst samhengið við klípuna sem búið er að ginna íslensku í. Hverrar mínútu virði þó löng sé, afar augnaopnandi.
Tekur Nýtt Ísland þennan óskapnað sem myndin fjallar um með í reikningin?
Georg P Sveinbjörnsson, 23.1.2009 kl. 01:23
Þurfum að losna við sem flesta núverandi flokka:
Þeir liggja á lárviðarbeði
með líf sinnar þjóðar að veði.
Ég heiti Hörður,
heill sé þér, Njörður.
Ég skrifa með glöðu geði.
(Fyrirgefðu Ólína; nafnið þitt passaði ekki inn í limruna, en hefði átt að vera með)
Hörður
Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 10:01
Frábært framtak, ég er búinn að skrifa undir
Samon Bjarnar Harðarson (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 10:05
Einhvern veginn finnst að þessi gjörningur eigi ekki eftir að ganga upp.Eins og Heimir bendir á er forsetinn ekki allra og þeir tenglar sem vísað er í,á heimasíðu hins nýja lýðveldis, sýna alls ekki "þverpólitíska breiðfylkingu" eins og æskilegt væri,heldur þvert á móti.Svo eru íslendingar það miklir eiginhagsmunapotarar,sama hvar í flokki er,að þetta er ekki gerlegt.
Yngvi Högnason, 23.1.2009 kl. 10:57
Takk fyrir viðbrögðin.
Satt er það að síðan lá niðri af og til í gær . Það var mikil umferð um hana og við erum að vona að það sé skýringin. En það er verið að athuga hvort einhverjir hakkarar geti líka átt sök á þessu.
Eins og er sjást því ekki undirskriftirnar eða talningin - en það er hægt að skrifa undir, og þetta með talninguna stendur til bóta.
Yngvi - ef þú hefur ekki trú á þessu, þá er það allt í lagi. En ekki saka okkkur um flokksdrægni eða álíka - og ekki reyna að sverta þetta góða fólk með slíkum málflutningi. Í öllum bænum. Við sem stöndum að þessu erum þarna á eigin forsendum og komum úr öllum áttum. Sum okkar eru starfandi í ólíkum stjórnmálaflokkum, önnur ekki. Og ef þú lítur á undirskriftirnar (þegar það verður hægt aftur að sjá þær á síðunni) þá sérðu fljótt að þarna er þverpólitísk breiðfylking að myndast.
Við höfum ekki verið að reyna að draga fólk í dilka til að flokka það niður pólitískt - við spyrjum ekki hvert annað um flokksskírteini. Þannig á það líka að vera (og þú mættir sjálfur taka það til athugunar).
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 23.1.2009 kl. 11:14
Rétt er það frú Ólína,ekki hef ég trú á þessu.En eins og þú veist þá talaði ég um daginn hjá þér um lesskilning fólks,nú þarf hann.Ég hef hér ekki reynt að sverta einn eða neinn og þar sem ég hef ekki séð ennþá undirskriftir þá get ég ekki dæmt neitt um pólitíska afstöðu fólks þar.Enda benti ég bara á tengla á nýju síðunni.Um flokkskírteini hef ég aldrei spurt og hef aldrei í flokki verið. En það er alveg óþarfi að verða snefsin þó ég sé ekki sammála,ekki meina ég neitt illt þótt gjammi.
Yngvi Högnason, 23.1.2009 kl. 12:13
Georg, þú ert bjartsýnn með hann Geir. En þann þarf ekkert að oppna augun, hann er búinn að vera sem ráðamaður hvort sem er. En það tekur samt tíma fyrir fólk að átta sig á ástandinu sem ríkir hérna á plánetuni og sársaukafullt fyrir marga. En vonandi fara hlutirnir að breitast hérna á þrælaplánetuni og þrælarnir að átta sig hvað er í gangi. En okkur líður samt vel í blekkinguni, vegna þess að við þekkjum ekkert annað. Við erum ræktuð inn í þetta.
Alexander (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 13:37
Gott framtak og ég er búin að skrifa.
"Hópurinn er óháður öllum stjórnmálaframboðum og hagsmunaöflum" segir á síðunni. Þetta er villandi, vísvitandi, að mér sýnist. Stjórnmálaframboðum er sagt en ekki stjórnmálaflokkum.
Ólína, segðu skilið við spillinguna og valdagræðgina í SF og stofnaðu nýjan, hreinan flokk. Ég skal kjósa þig og hjálpa.
Skrifaði um þetta á minni síðu.
Halla Rut , 23.1.2009 kl. 14:40
Sæl Ólína - glæsilegt framtak hjá ykkur Nirði P.
Nú þegar forsætisráðherra er búinn að koma með tillögu að kosningum 9. maí nk. tel ég því miður litlar líkur á að af stjórnlagaÞingi verði, þrátt fyrir margar undirskriftir.
Næst á dagskrá eru kosningar 9. maí.
Ég - sjá http://joker.blog.is/ - er tengdur hópi sem vinnur að undirbúning framboðs sem hefur það markmið eitt að gera þær nauðsynlegar breytingar til að efla lýðræði á Íslandi. Hópurinn er með sameiginlegt plattform á vefnum - sjá http://lydveldisbyltingin.is
Hugmyndir mínar og þessa hóps eru áþekkar þeim hugmyndum sem m.a. Njörður P hefur talað fyrir og miða allar að því að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins.
Spurningin er hvort ekki sé nauðsynlegt að sameina áherslur og fylkja sér á bak við eitt öflugt framboð í næstu kosningum? Þá mun þjóðin einfaldlega sjálf geta gert það upp við sig hvort hún sér tilbúin í að gera þær breytingar sem stjórnlagaþingi er ætlað að gera?
kv,
Jóhann Kristjánsson
Jóhann Kristjánsson (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 14:44
Tek undir með Jóhanni.
Halla Rut , 23.1.2009 kl. 14:52
Yngvi - það er víst rétt hjá þér að ég var óþarflega snefsin. Fyrirgefðu.
Halla Rut spyr um orðalagið. Það er ekki til að villa um fyrir neinum, heldur þvert á móti til að taka af allan vafa um að við hyggjum ekki á framboð og erum ekki tengd neinum framboðum, hvorki hjá núverandi stjórnmálaflokkum né framboðum sem eru að verða til um þessar mundir.
Þar með hef ég þá líka svarað Jóhanni. Þetta verður að vera alveg skýrt. Ef nú eru að myndast ný stórnmálaframboð mega þau gjarnan taka undir þessa kröfu, og taka hana upp á sína arma. Það mættu gömlu flokkarnir líka gera. En þessi tiltekni hópur ætlar ekki að ganga lengra að sinni en safna undirskriftum og afhenda þær síðan þeim sem þær beinast að, Alþingi og forseta.
Mín vegna mega svo einstaklingar úr hópnum bjóða sig fram innan núverandi stjórnmálaflokka eða fyrir nýjar stjórnmálahreyfingar sem eru að verða til. Það er annað mál og þessu óviðkomandi. Svo þakka ég traustið.
En það verða að vera alveg skýr skil á milli þessa framtaks (undirskriftasöfnunarinnar um Nýtt lýðveldi) annarsvegar og stjórnmálaflokka- eða framboða, hvort sem einhverjir innan hópsins hyggja á frekari frama í stjórnmálum yfirleitt eða ekki (sem ég efast reyndar um).
Halla Rut biður mig að "segja skilið við spillinguna og valdagræðgina" - og á þar væntanlega við Samfylkinguna.
En Halla mín, ég hef aldrei samþykkt spillingu eða valdagræðgi og mun ekki gera. Þess vegna blogga ég og reyni að hafa áhrif. Ég á mér mörg skoðanasystkin bæði í Samfylkingunni og utan hennar.
En ég þakka samt falleg orð þín í minn garð - og traustið.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 23.1.2009 kl. 17:27
Gott framtak og búinn að skrifa undir.
Markmið: Börnin okkar eiga ekki að skulda það sem þau hafa ekki notið.
Markmið: Við skuldum ekki það sem aðrir hafa sólundað.
Markmið: Mannlegt Ísland, ekki nýju föt keisarans.
Magnús Þ Gissurarson (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 02:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.