Heit mitt og játning
19.1.2009 | 15:25
Ykkur að segja þá hef ég fengið mig svo fullsadda af reiði og meðvirkni í samfélaginu að ég segi hvoru tveggja hér með stríð á hendur. Og þá er ég bæði að tala um meðvirknina í sjórnarsamstarfinu og innan stjórnmálaflokkanna og líka þá meðvirkni sem verður æ meira áberandi í tengslum við mótmælin í landinu og andstöðu við stjórnvöld.
Ég er staðráðnari en nokkru sinni í að þegja hvorki yfir því sem miður fer né heldur hinu sem vel er gert, hvernig svo sem það kann að koma niður á flokkstengslum, mannvirðingum eða hagsmunum. Ég fylgi engu og engum að máli nema sannfæringu minni og samvisku. Mér er ljóst að fyrir vikið verð ég kannski sökuð um svik við einhvern málstað og á mig ráðist fyrir að fylgja ekki fjöldanum. Það verður þá að hafa það.
Ég tek mér það frelsi sem mér er heitið í stjórnarskrá lýðveldisins að tjá skoðun mína.
Að þessu sögðu vil ég létta fyrsta steininum af brjósti mínu.
1) Eftir að hafa horft á borgarfundurinn sem haldinn var s.l. mánudag átta ég mig á því að það reiðin í samfélaginu er að verða að einhverskonar hópsefjun. Það er komin "við " og "þið" stemning - og sú stemning er við það að ganga of langt. Hún getur auðveldlega breyst í sjálfsréttlætingu þeirra sem telja sig vera knúna áfram af "réttlátri reiði". Hættan er sú að fólk sem er í hjarta sínu reitt og vill ríkisstjórnina burt, telji sig skyldugt til að taka undir með öllum þeim sem tjá reiði sína, án tillits til þess hvernig það er gert: Að fjöldinn fari að sætta sig við fleira en gott þykir í nafni samstöðunnar. Sú tilhneiging var áberandi á borgarafundinum séð frá mínum sjónarhóli.
2) Ég styð ekki þá ríkisstjórn sem nú situr enda kaus ég Samfylkinguna við síðustu kosningar, ekki ríkisstjórnina. Ég tel óhjákvæmilegt að ríkisstjórnin víki, sett verði utanþingsstjórn og síðan boðað til stjórnlagaþings.
Ég held að ríkisstjórnin eigi engan annan kost, ef ekki á að verða upplausn í landinu, en að stíga til hliðar og stuðla að því að hér verði mynduð starfhæf utanþingsstjórn - í skjóli og með hlutleysi Alþingis. Þetta gæti verið einhverskonar þjóðstjórn. En ráðamenn verða að átta sig á því trúnaðarrofi sem orðið er milli þeirra og almennings í landinu. Það rof verður ekki bætt með því að þumbast áfram og streitast við að sitja.
----------
Fallegu myndina hér fyrir ofan tók Oddur Jónsson. Hún er ef Kubbanum í SKutulsfirði, tekin yfir Pollinn á Ísafirði.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Sjónvarp, Vefurinn | Breytt s.d. kl. 15:28 | Facebook
Athugasemdir
Sagði ekki Dagur að "við" væri fallegasta orðið?
María Kristjánsdóttir, 19.1.2009 kl. 15:39
Heyr, heyr fyrir þessu:
"2) Ég styð ekki þá ríkisstjórn sem nú situr enda kaus ég Samfylkinguna við síðustu kosningar, ekki ríkisstjórnina. Ég tel óhjákvæmilegt að ríkisstjórnin víki, sett verði utanþingsstjórn og síðan boðað til stjórnlagaþings".
Sigrún Jónsdóttir, 19.1.2009 kl. 15:58
Ólína, fín pistill en ég vil benda þér á að það er ekki fólkið í landinu sem hefur búið til "við" og "þið" stemminguna. Almenningur á engan þátt í þeirri stöðu sem nú er uppi, þegar tillit er tekið til þess að spillingin hefur verið á bak við tjöldin og hún þrifist með ákveðnum stuðningi stjórnvalda.
Þessu vildi ég nú bara koma á framfæri.
Jenný Anna Baldursdóttir, 19.1.2009 kl. 16:10
Það er afskaplega heimskulegt að segjast ekki styðja ríkisstjórnina sem nú situr "enda hafir þú kosið Samfylkinguna" en ekki ríkisstjórnina!
Það er fulltrúalýðræði á Íslandi. Þú kaust Samfylkinguna til þess að hún kæmist í ríkisstjórn. Það er eðli kosninganna. Hafir þú ekki haft áhuga á því að flokkurinn þinn settist við stjórnvölinn hefðir þú ekki átt að kjósa!
Mikill misskilningur á eðli lýðræðis og kosninga hjá þér.
Kristín (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 16:13
Tek undir þetta með Jenný, en annars lýst mér mikið vel á þetta hjá þér Ólína. Betra væri ef fleiri settu sig í þessar stellingar. Ég er að hugsa um að fara að ráði þínu og hugsa fyrst og fremst um mína sannfæringu. En ég get ekki hætt að vera reið, til þess hefur of lítið gerst, og of seint. Meðan stjórnvöld sína engan lit á að taka til hendinni eða fara frá. Get ég ekkert annað en verið reið. Mér finnst eins og við séum að brenna út á tíma. Að vonin sé að ganga okkur úr greipum, og því lengur sem dregst að koma böndum á pillinguna, því meiri líkur eru á að ekki náist að laga það sem þarf að laga svo sannarlega.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.1.2009 kl. 16:17
sammála þér að þessu sinni.
Ásdís Sigurðardóttir, 19.1.2009 kl. 16:45
Mér þætti vænt um ef þú gætir farið gætilegra með orðið meðvirkni. Ég tengi hérna á þau einkenni sem ég tengi við meðvirkni.
Er annars sammála þér um að reiðin í samfélaginu sé á mörkum þess að fara úr böndunum og að réttlát reiði hafi aldrei skilað neinum neitt gott. Við verðum að taka á vanda samfélagsins af yfirvegun og en finnst einmitt borgarfundirnir hafa verið góðir í því að beisla reiði fólks á konstrúktívan hátt og er það helsta ástæðan fyrir því að ég ákvað að styðja við undirbúningshópinn þar. Ef þú hefur einhverjar góðar hugmyndir bendi ég þér á að senda okkur komment á borgarafundur (at) gmail.com. Þeir sem hafa áhuga á að starfa með okkur er einnig bennt á að skrá sig þarna á póstlista og þá fáið þið fundarboð á undirbúningsfundi.
Að ríkisstjórnin þurfi að fara frá er að mínu mati hárrétt og í raun forsenda þess að við getum farið aftur að starfa saman í þessu landi. Ég er viss um að bæði Geir og Ingibjörg er góðar manneskjur sem hafa mikilvægt hlutverk í framtíð lands og þjóðar, en er jafn viss um að þau eru ekki að vinna neinum gagn með starfi sínu í dag. Ég er almennt ekki hryfin af breitingum breitinganna vegna en tel að í dag sé staðan þannig að handahófsúrtak úr þjóðskrá myndi eiga auðveldara með að þjappa þjóðinni á bak við sig en núverandi ráðherralið.
Héðinn Björnsson, 19.1.2009 kl. 16:46
Sannarlega falleg mynd Ólína. Ég mun seint gleyma því þegar ég ók Djúpið fyrsta og eina skiptið. Þetta var snemma vors og lognkyrrt veður. Firðirnir endurspegluðu fjöllin í lygnum sænum og mér fannst sem enginn hefði séð þetta áður og að ég væri fyrsti maðurinn til að uppgötva alla þessa fegurð.
Ég er sammála ályktun þinni nr.2 nema auðvitað á fyrsta setningin ekki við mig. Það er útilokað að endurreisn samfélagsins verði markviss í eldum tortryggni, haturs og jafnvel heiftar.
Árni Gunnarsson, 19.1.2009 kl. 16:56
Takk fyrir þennan pistil. Það þarf bein til þess að stíga svona fram en það er augljóst að þú lætur sannfæringu þína gilda ofar öllum tenglum við flokka eða persónur - þannig fólk vill ég í pólitík.
Tek heils hugar undir orð þín og en óttast að niðurstaðan verði aðeins ýktari en "upplausn í landinu" - eins og þú kallar það ef þau þumbast ekki frá. Þetta með utanþingsstjórnina og stjórnlagaþingið held ég að flestir Íslendingar þrái að sjá gerast.
Tek undir orð Jennýar Önnu í "við" og "þið" hugleiðingunni. Þegar ljóst varð að "við" ættum að borga fyrir sukk "þeirra" að þá var samfélagssáttmálinn rofinn á milli ríkisstjórnar og almennings. Þannig bjuggu þau til stríð á milli "okkar" og "þeirra".
Og svo lengi sem "þau" hygla útrásarvíkingum og óreiðumönnunum verður gjáin á milli - "við" og "þið" - ekki brúuð.
Hlakka til að lesa framtíðarskrif þín Ólína.
Þór Jóhannesson, 19.1.2009 kl. 17:01
Góð skrif að vanda Ólína.
Heyr heyr !
Marta B Helgadóttir, 19.1.2009 kl. 17:23
Borgarafundirnir eru nú ekki alslæmir þó Sigurbjörg hafi aðeins runnið til:
http://sigurbjorns.blog.is/blog/sigurbjorns/entry/769836/
Sigurbjörn Sveinsson, 19.1.2009 kl. 18:06
Sæl Ólína. Þetta er athyglisvert:
"Ég er staðráðnari en nokkru sinni í að þegja hvorki yfir því sem miður fer né heldur hinu sem vel er gert, hvernig svo sem það kann að koma niður á flokkstengslum, mannvirðingum eða hagsmunum. "
Hvað hefurðu gert hingað til? Talað gegn eigin skoðunum eða sannfæringu?
Svona burtséð frá þér, er þetta ekki það sem er að pólitíkusum á Íslandi? Þeir tala ekki frá eigin sannfæringu heldur eru alltaf að passa upp á flokkstengslin, að styggja ekki flokkinn, og gæta einhverra hagsmuna annarra en fólksins sem þeir vinna fyrir?
Jón Árnason (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 18:32
Afsakið, síðasta setningin mín úr fyrri athugasemd átti að vera svona:
Þeir tala ekki frá eigin sannfæringu heldur eru alltaf að passa upp á flokkstengslin, að styggja ekki flokkinn, og gæta einhverra hagsmuna annarra en fólksins sem þeir eiga að vera vinna fyrir?
Jón Árnason (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 18:36
Þetta er góður pistill hjá þér Ólína og mómælendur verða að passa sig á því að reiðina fari ekki á næsta stig ég óttast það virkilega og ef svo verður þá er ekki aftur tekið þegar heimilið fjölskyldan og vinnan er farinn hvað örþrifa ráð grípur einstaklinga sem ekki eru í fullu jafnvægi. Ég seigi bara talið varlega og haldið ykkur á mottunni.
Jón Ólafur Vilhjálmsson, 19.1.2009 kl. 18:57
Það er ekki skrítið að það séu við og þið. Nú eru þeir sem ætluðu að slá skjaldborg um heimilin, en á suðurlandi er verið að gefa út HANDTÖKUSKIPUN á tæplaega 400 einstaklinga sem ekki hafa mætt í fjárnám?????????
Leiðinlegt að þú skulir upplifa "stemmninguna" ( andrúmsloftið) svona
Hildur (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 19:46
Takk Ólína, ég finn til samhyggðar við lesturinn og líkar það vel
Ég skil vel hvað þú ert að tala um varðandi til dæmis Borgarafundina, en hafa ber í huga að þar sem annarsstaðar, er það ekki meirihlutinn sem er án dómgreindar eða með hana léttvæga. Það er þar sem annarsstaðar að það eru kannski 10% sem hafa hvað hæst.
Ég er mjög hrifinn af samstöðu fólks í mótmælum og á Borgarafundum, mér þótti hins vegar leitt að sjá fólk ætla Viðskiptaráði að vera einhvern plott stofnun líka. Við megum ekki bara vaða yfir allt og allt, það er fátt hættulegra en reiður stjórnlaus múgur.
En ég sá að þú varst búin að kíkja við á wiki vefnum okkar - það er mjög stór og vaxandi hópur sem vill sjá og standa að miklum breytingum. Þær breytingar munu vafalítið njóta meira fylgis utan núverandi flokka en innan þeirra. Ég þekki að minnsta kosti engan sem að mun treysta hugmynd Össurar til dæmis með "Nýja Ísland". Fyrir utan að vera popularismi af verstu sort, munum við líka eftir Fagra Ísland, Unga Ísland og hvað þessar yfirlýsingar nú hétu allar fyrir síðustu kosningar, og hafa ekki sést síðan.
Samfylkingin, sem og aðrir núverandi flokkar, mun þurfa gagngera uppstokkun vilji hún öðlast víðtækan trúverðugleika aftur.
En ég trúi því að nú séu nýjir tímar að koma, tímar gagnsæis og algerlega opinberrar umræðu og lýðræðis. Engin leyndarmál nema þau beinlínis komi inn á lög um persónuvernd. Endilega slástu með í hópinn í hugmyndavinnunni á vefnum.
Baldvin Jónsson, 19.1.2009 kl. 20:03
Takk fyrir undirtektir ykkar.
Aðeins meira um "við" og "þið" móralinn. Nú get ég að sjálfsögðu tekið undir það að ég samsama mig ekki þeim fjárglæframönnum sem orsökuðu bankahrunið. Ég samsama mig heldur ekki þeim embættismönnum, stofnunum og/eða stjórnmálamönnum sem sváfu á vaktinni. En þegar heill fundur er farinn að veitast að atvinnurekanda fyrir það eitt að sitja í viðskiptaráði - eins og gerðist gagnvart talsmanni Auðar Capital á síðasta fundi, þá líst mér ekki á blikuna. Þegar vinkona ráðherra reynir að nýta sér samskipti þeirra til þess að slá keilur á opnum borgarafundi, þá líst mér heldur ekki á blikuna. Þegar virtur erlendur hagfræðingur óskar stjórnmála- og embættismönnum út í hafsauga til þess að uppskera klapp og hróp á opnum fundi, þá líst mér heldur ekki á blikuna.
Það er þetta sem ég á við - og læt ég nú alveg liggja milli hluta hver er sekur um hvað. Sjálf hef ég mínar hugmyndir um það - ef ég og öll þjóðin gefur sig á vald sjálfskipuðu réttlæti á forsendum"réttlátrar reiði", þá er illa komið fyrir okkur. Þá er hugarþelið lítið skárra en fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem þúsundir manna deyja og hvorugur deiluaðili getur hætt.
Við Íslendingar erum fámenn þjóð - okkur líður illa, satt er það. En eigum við ekki að reyna að standa saman sem þjóð? Svo ég vísi aftur í dæmið af borgarafundinum: Hvers eiga til dæmis atvinnurekendur í landinu að gjalda? Hvers eiga dyggðir á borð við Vináttu og Traust að gjalda?
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.1.2009 kl. 20:05
Oft og iðulega er ég sammála þér Ólína, en sjaldan eða aldrei eins og nú. Varðandi við og þið stemminguna þá get ég upplýst það að ég mæti á útifundina á Austurvelli á mínum eigin forsendum. Stundum er ég sammála ræðumönnum en alls ekki alltaf. Stundum er ég sammála Herði Torfa en alls ekki alltaf.
Ég varð forviða að hlusta á erlenda hagfræðinginn í Háskólabíó og það fyrsta sem mér datt í hug var ... hver fóðraði manninn á þessum upplýsingum? Að mínu mati þá setti hann dálítið niður við þetta og það jafnvel þó ég sé algjörlega sammála honum.
Sinnisskipti þín, ef þau eru þá í raun nokkur, skil ég vel sérstaklega vegna þess að það var hér hjá þér sem ég sá í fyrsta sinn orðin Burt með spillingarliðið! Enginn hefur vikið sæti og ég er orðin LANGÞREYTT á því að enginn stígi fram og segist bera ábyrgð. Þolinmæði mín er löngu þrotin!
Ingibjörg Hinriksdóttir, 19.1.2009 kl. 21:22
Það er rétt hjá þér, Ólína, að Auður Capital er með öðruvísi viðfangsefni en þau sem urðu okkur að falli. En kannski fælir nafnið eitt fólk frá og skapar fordóma.
Varðandi uppljóstrun Sigurbjargar á fundinum verð ég að segja að ég gladdist yfir því að eftir sex ára bið frá því að ég lýsti opinberlega eðli þöggunarinnar og óttans kom loksins fram manneskja sem hafði sömu sögu að segja og þorði að gera það.
Eitt lúmskasta fyrirbæri þöggunarinnar og óttans er það þegar allir eru orðnir svo meðvirkir að bestu vinir manns taka þátt í henni án þess að átta sig á því.
Þegar valdakerfið reyndi allt sem hægt var til að hræða mig frá því að gera myndina um Kárahnjúkavirkjun bárust til mín hótanir í einkasamtölum við vini mína á borð við "vertu nú þægur, ", "starfsheiður þinn er í veði", - "ætlarðu að eyðileggja heiður fréttastofunnar?" eða þetta hérna: "vinur minn átti við mig trúnaðarsamtal um það að það væri hópur manna úti í bæ að plotta þannig gegn þér að ef þú heldur áfram verðurðu rændur ærunni, þeir þykjast hafa það mikið á þig."
Ég gæti nefnt mun fleiri dæmi um þetta en vona að þú áttir þig á því hvað ég á við.
Ómar Ragnarsson, 19.1.2009 kl. 21:27
"Ég er staðráðnari en nokkru sinni í að þegja hvorki yfir því sem miður fer né heldur hinu sem vel er gert, hvernig svo sem það kann að koma niður á flokkstengslum, mannvirðingum eða hagsmunum. Ég fylgi engu og engum að máli nema sannfæringu minni og samvisku. Mér er ljóst að fyrir vikið verð ég kannski sökuð um svik við einhvern málstað og á mig ráðist fyrir að fylgja ekki fjöldanum. Það verður þá að hafa það. "
Bravó! Svona á það líka að vera!
Anarkisti (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 21:38
Flottur pistill Ólína. Kveðja.
Eyþór Árnason, 19.1.2009 kl. 21:41
Sæl Ólína mig langaði bara að benda þér á hvað hún Halla Tómasdóttir stendur fyrir, því það sem hefur komið út úr henni upp á síðkastið er tómt þvaður. Síðasta sumar hélt Halla þá verandi framkvæmdastjóri Viðskiptaráð 'Islands ræðu um hvernig 'Island gæti verið best í heimi sem er ansi forvitnileg, þar vill hún auðvitað leggja niður flest ráðuneyti og eftirlitstofnanir veri lagðar niður eða komnar til einkaaðila, eins sem allar náttúruauðlindir.
hægt er að lesa ræðu hennar á þessi slóð
http://www.vi.is/um-vi/frettir/nr/536/
jón jóns (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 21:49
"sjálfskipuðu réttlæti á forsendum"réttlátrar reiði", þá er illa komið fyrir okkur. Þá er hugarþelið lítið skárra en fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem þúsundir manna deyja og hvorugur deiluaðili getur hætt."
Já svona er mannlegt eðli - það er getur magnast upp í aðstæðum tortryggni og vantrausts. Við áttum okkar Sturlungaöld. Við sjálf gátum þá ekki komið á innanlandsfriði. Við fengum Noregskonung í verkið. Nú ríkir tortryggni og vantraust- einkum á stjórnvöldum- alþingi og ríkisstjórn. Og það er í gangi mögnun á því ástandi. Það besta sem ríkisstjórnin og alþingi getur gert þjóðinni núna- er að segja afsér og efna til kosninga. Utanþingsstjórn eða starfsstjórn myndi sitja fram yfir kosningar. Kjósa snemma í vor.
Þetta úrræði finnst mér það eina úrræði í stöðunni.
Sævar Helgason, 19.1.2009 kl. 21:58
Það er eitthvað sem er í sálfræðinni sem heitir múgsefjun, þ.e. þú tekur þátt í einhverju ert kanski ekki sammála, en verður það á því augnarbliki þar sem þú ert staddur í hóp sem er að aðhafast eitthvað. Get sagt ykkur frá konu sem ég vinn með sem fór á mótmælin við austurvöllinn og áður en hún vissi þá var hún farin að mótmæla hástöfum, án þess að hafa ætlað sér það. Þetta er múgsefjun sem hver getur lent í. Kanski myndi ég gera það ef ég færi, en ég hef ekki farið á neinn mótmælafund frá því við urðum fyrir þessari kreppu. Skammi ég.
Enn ég ætla að fara á einn fund til að upplifa stemninguna, þegar færi gefst hjá mér, en vona að ég haldi mér á mottunni. Er viss um að ég verð fyrir svona múgsefjun.
Áslaug Sigurjónsdóttir, 19.1.2009 kl. 22:13
Eins og er þá ræður IMF á Íslandi. Got that? Samfylkingin sá meðal annars fyrir því.
.
Einnig þarf að greiða Icesave skuldir bankanna sem var stjórnað af Andrési Önd & Co og sem Samfylkingin lagði einnig í búið af fremsta megni með því að gæta ekki öryggis landsins undir pressu frá óvinveittum þjóðum og með aulaskap sínum. Því þarf að fara í vinnufötin á ný og hætta að láta snúna út úr fyrir þjóðinni lengur með því að hrópa stanslaust eftir því að Ísland verði lagt niður.
Þegar Guðirnir (bankarnir) falla svona niður af stalli þá verða viðbrögðin svona. Viðskiptaráðherra, einhver?
Menn hefðu átt að hlusta á aðvaranir Seðlabanka Íslands
Kveðjur
Gunnar Rögnvaldsson, 19.1.2009 kl. 22:20
Það sem mér finnst einna athyglisverðast við umræðuna hér er hvernig tungumálið er notað. Hvernig það, að stór hópur fólks er sammála um eitthvað er kallað "meðvirkni" eða "múgsefjun". Þetta er nákvæmlega það sama og gert hefur verið í áratugi þegar mótmælendur eru kallaðir "skríll", "múgur" eða eitthvað þaðan af verra. Mér finnst svona tal niðurlægjandi fyrir þá einstaklinga sem taka þátt í þeim mótmælum eða borgarafundum sem vísað er til. Eins og þeir geti ekki verið með sjálfstæðar skoðanir og annaðhvort klappað, púað eða staðið upp af því þeir eru sammála af eigin hvötum, ekki fyrir áhrif annarra. Gætum tungunnar.
Og af hverju ætti einhver að setja niður við að segja eitthvað sem fólk er innilega sammála?
Sú gjá sem myndaðist undanfarin gróðærisár milli hinna ofurríku og almennings er líkast til grunnástæða þessa "við og þið" viðhorfs. Gjáin dýpkaði með hverju árinu sem leið og alltaf hefur verið gjá milli stjórnvalda og fólksins í landinu. Við hrunið kom í ljós að auðjöfrarnir höfðu verið að spila rúllettu með fé almennings - með vitund og blessun stjórnvalda. Ekkert hefur verið gert til að brúa gjána - þvert á móti breikkar hún og dýpkar með hverjum deginum. Ný spillingarmál koma upp daglega og við sjáum engin merki þess að verið sé að gera neitt til að upplýsa málin eða láta menn sæta ábyrgð. Fjölmiðlar taka viðtöl á viðtöl ofan við hina seku sem neita sekt og enn hækka skuldir almennings. Enginn axlar ábyrgð sem bendir ótvírætt til þess að allir hafi sukkað með í spillingarforaðinu.
Ef það, að mörgþúsund manns eru innilega sammála um að mótmæla þessu er meðvirkni eða múgæsing þá er ég hætt að skilja merkingu þeirra orða.
Lára Hanna Einarsdóttir, 19.1.2009 kl. 22:48
Ég skildi "við" og "þið" eins og þú hugsaðir það. Ég skynjaði nákvæmlega það sama og þú á þessum borgarafundi.
Það var líka margt fleira sem olli mér vonbrigðum, t.d. það hvernig fundarstjórinn kom fram. Mér finnst hann eiginlega óhæfur í þetta hlutverk. Meðhöndlun hans á Ágústi Ólafi annars vegar og Steingrími Joð hins vegar segir eiginlega allt sem segja þarf. Hann brást ótrúlega pirraður við því að Ágúst Ólafur skyldi bera kveðju til fundarmanna frá Ingibjörgu Sólrúnu. Fundarstjórinn greip mörgum sinnum fram í fyrir Ágústi vegna þess að Ágúst taldi sig ekki geta svarað einhverri spurningu um stjórnlagaþing með já-i eða nei-i og vildi tjá sig um hugmyndina. Það var ekki séns að ég gæti náð neinu af því sem Ágúst sagði vegna þess að fundarstjórinn gjammaði stöðugt fram í. Og afhverju? Jú, það var víst vegna þess að það sem Ágúst var að segja var víst einhver framboðsræða að dómi fundarstjóra. Svo kom að Steingrími og þá var nú talsvert annað uppi á teningnum. Allt virtist vera fundarstjóranum einstaklega þóknanlegt og Steingrímur fékk sérstakar þakkir frá honum þegar hann hafði lokið máli sínu. Við og þið? Já, ég er ansi hrædd um að það sé eitthvað svoleiðis.
Mér fannst ömurlegt að heyra skætinginn og dónaskapinn sem Höllu Tómasdóttur var sýndur á þessum fundi og reyndar líka unga manninum sem hélt framsöguerindi og var líka "sekur" um að vera partur af viðskiptaráði. Mér finnst boragarfundirnir engan veginnstanda undir nafni sem slíkir þegar farið er að meðhöndla fólk í panelnum eins og þarna var gert.
Mér fannst Wade gera mistök þegar hann fór að tala um sendiherrastöður fyrir Davíð. Hann var að tala sem fræðimaður og átti að halda sig við það hlutverk.
Mér fannst Sigurbjörg (sem ég hef borið mikla virðingu fyrir til þessa) gera hrikaleg mistök með þessari opnun. Vegna þessara upphafsorða fékk EKKERT annað sem hún sagði, sem hefði verið efni í margar fréttir, nokkra einustu athygli.
Ég er fyrir löngu komin á þá skoðun að ríkisstjórnin eigi að víkja og að seðlabankastjórar og forstöðumaður og stjórn Fjármálaeftirlitsins eigi líka að víkja EN við fáum bara "ný föt, sama siðferðið" ef við skiptum bara um flokka í ríkisstjórn. Það er engin lausn í því að mínu mati. Þess vegna held ég að neyðarstjórnin sem Njörður talaði um í Silfri Egils, breyting á stjórnarskránni og nýtt lýðveldi í kjölfarið sé kostur sem eigi að skoða.
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 22:49
sammála jón jóns (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 21:49
http://www.vi.is/um-vi/frettir/nr/536/
endilega lesið ræðuna hennar Höllu
Er ekki alveg að fá Stockholms-syndrome-ið vegna "ævintýrsins" sem við "lentum" í.
Þarf einhverja múgsefjun að ætlast til að ;
þessi ríkistjórn ætti að fara, fara STRAX !
Seðlabankastjóra+stjórn burt STRAX ! IME er alveg nóg
F M E þyrfti að fara í STRAX ! ( amk. hluti þess)
Embættismannakerfið þyrfti að skoða VEL ! Eða er það ekki ?
Stjórnarskrána, þingræði,löggjafarvald vs framkvæmdarvald ?
Er ekki bara verið að biðja um; pólítíska ábyrgð, réttlæti, gagnsæi og ekki síst
upplýsingar ?
ag (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 23:22
Sammála Önnu Ólafsdóttur hér að ofan, nákvæmlega sama upplifun af fundinum (að vísu aðeins í sjónvarpi).
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 19.1.2009 kl. 23:30
Lára Hanna. Ég er ekki að tala um að þeir sem sækja mótmæli og borgarafundi geri það af meðvirkni. Fólk hefur sínar skoðanir að sjálfsögðu.
En þú veist sjálf hvernig umræðan hefur orðið hér á blogginu gagnvart þeim sem leyfa sér að hafa skoðun á því hvernig mótmælin fara fram eða bera á einhvern hátt í bætifláka fyrir þá sem reiði almennings beinist að. Þeir eru beinlínis bombarderaðir í athugasemdakerfunum með reiðilestrum og heift. Og þeir eru bombarderaðir á opnum fundum.
Finnst þér ekki umhugsunarefni hvernig sumir virðast geta réttlætt hér í bloggheimum og á borgarafundum hegðun sem þeir myndu ekki líða í sínum eigin húsum - hvort sem það eru rúðubrot, grímur fyrir andliti, aðhrópanir eða annað? Af hverju ætti fólk að sætta sig við hegðun annarsstaðar sem það myndi ekki líða heima hjá sér. Af hverju ætti það að sætta sig við hegðun gagnvart ókunnugum sem það myndi ekki sætta sig við gagnvart sjálfum sér eða ástvinum sínum?
Það er þetta sem ég er að tala um. Ég er ekki að tala um neinn múg eða skríl. Ég er ekki að reyna að niðurlægja neinn enda ber ég fulla virðingu fyrir mótmælum almennings og þeim fundum sem haldnir hafa verið - hef sótt þessar samkomur sjálf.
Og Héðinn, ég tek ekki við neinum tilskipunum frá þér um það hvaða orð ég megi nota um það sem ég meina. Ég þekki mætavel merkingu orðsins "meðvirkni".
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.1.2009 kl. 23:40
"Ég styð ekki þá ríkisstjórn sem nú situr enda kaus ég Samfylkinguna við síðustu kosningar, ekki ríkisstjórnina. Ég tel óhjákvæmilegt að ríkisstjórnin víki, sett verði utanþingsstjórn og síðan boðað til stjórnlagaþings."
Þetta er nákvæmlega málið, og þeim fjölgar dag frá degi sem krefjast róttækra inngripa: neyðarstjórn, utanþingsstjórn, stjórnlagaþings og síðan nýrrar stjórnarskrár og jafnvel stofnunar nýs lýðveldis. Svipaðar hugmyndir, skýr rauður þráður í kröfum fólks.
Og fleiri og fleiri innan Samfylkingarinnar þora orðið að stíga fram með slíkar hugmyndir, s.s. Helgi P., Elsa Smáradóttir ofl.
Samfylkingunni er ekki stætt á því lengur að sitja í þessari ríkisstjórn!
Baráttukveðjur!
Erla Vilhjálms (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 23:41
Tek undir skrif þín Ólína.
Ég hef meðvitað látið vera að blogga um þetta ástand. Þetta við / þið hefur truflað mig líka. Kýs að skrifa ekki um þetta á meðan innri reiði rænir mig dómgreind.
Reyndar kaus ég ekki samfylkinguna, en ég tel að við þurfum að brjótast út úr þessum flokkahugsunum og trúarbrögðum tengdum þeim. Spillingin er inngróin í þá alla sem starfa á hinu háa alþingi, sama hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.
Hlakka til að lesa meira frá þér.
Einar Örn Einarsson, 19.1.2009 kl. 23:57
Auðvitað tekur þú ekki við tilskipunum Ólína, en hugtökin meðvirkni og músefjun eru hins vegar það nátengd heilbrigðis- og sálarfræðum, að vissulega má deila um hvort notkun þeirra sé heppileg í þessu samhengi eða hversu vel þau lýsa ástandinu.Þó hygg ég nú að þetta birtist jú orðið sumum að minnsta kosti sem ískyggilega nálægt hættuástandi og í þínu máli fer það nú ekkert á milli mála. En sú góða og indæla vinkona, Auður H. Ingólfsdóttir, notaði þó í pistli sínum um ástandið annað hugtak um þetta, sem ég held að passi vel og á ekki að stuða neinn, eða einfaldlega RÉTTTRÚNAð OG FINNST MÉR ÞAÐ EINKAR HEPPILEGT ORÐ TIL AÐ LÝSA ÞESSU SEM M.A. GERÐIST Á MARGNEFNDUM FUNDI.
Sjálfur hef ég lýst því hvað varðaði fleyg upphafsorð Sigurbjargar á fundinum og viðbrögðunum í kjölfarið við storm í vatnsglasi, þar sem misskilningur og/eða dómgreindarskortur hafi spilað inn í og væri fyrst og síðast mál hennar og Ingibjargar.Hef fengið nokkrar gusur yfir mig fyrir það og þá ekki síst vegna þess að ég hef ekki á neinn hátt getað séð hótun í þessu.(og botna þar að leiðandi ekki alveg í samanburði Ómars við sín miklu áform annars vegar og litla ræðu einnar konu hins vegar, sem sömuleiðis neitaði því að um hótun hafi verið að ræða!)
Ein kona vildi til dæmis í hneykslun sinni vita hvað mér eiginlega gengi til að verja þessa konu og hvaðeina og spurði hvort hún væri kannski mamma mín!?
Ekki gott þegar svona gerist,en persónulega læt ég þetta ekkert trufla mig, en hef samt áhyggjur fyrir hönd rökfræðinnar svolítið, en auðvitað meir af eðlilegum og heilbrigðum skoðanaskiptum milli fólks!
Magnús Geir Guðmundsson, 20.1.2009 kl. 01:17
Eftir að hafa lesið athugasemdirnar þína Ólína er ég eiginlega orðlaus. Eigum við bara að vera á móti svívirðunni ein út í horni? Ekki standa saman á mótmælafundum? Menn æpa á íþróttaleikjum, menn eru meira segja farnir að æpa á skólaútskriftum, og í leikhúsum. Á Ítalíu á óperusýningum púa áhorfendur á söngvara þyki þeim þeir ekki standa sig vel í aríunum. Og þykir enginn dónaskapur.
Og eiga fræðimenn alltaf að vera hlutlausir ? Hafa engar skoðanir um opinberar pólitískar persónur ? Mega þeir ekki nota myndlíkingartil að lýsa því hvað seðlabankastjóri er óhæfur? Ekki hafa húmor?
Og Þarf ekki að koma fram sú skoðanakúgun og einelti sem stór hópur okkar sem ekki tilheyrum valdamönnum höfum verið beitt um ævina? Mér fannst þetta flott hjá Sigurbjörgu. Verst að menn tengdu þetta ekki við annað það merkilega sem hún var segja. Aukatriðin urðu að aðalatriðum.
Veistu ekki að stór hluti þeirra vitlausu ákvarðana sem teknar hafa verið undanfarin ár voru hugmyndir sem komu frá Viðskiptaráði? Það situr því alltaf persóna á hverju máli einsog Svíinn segir.
Og þó við Íslendingar séum aðeins þrjú hundruð þúsund þá verða Ólafur Ólafsson, Sigurður Einarsson, Davíð Oddsson o.s.frv. allt þetta lið sem búið er að gera börnin okkar og barnabörnin að þrælum eða landflóttamönnum aldrei vinir mínir. Svo einfalt er það.
Við komumst ekki hjá því að tala um persónur í þessu miklla uppgjöri sem þarf að fara fram. Við komumst ekki hjá því að segja við og þeir. Og við vitum um stóran hóp þeirra sem komið hafa okkur oní díkið - en auðvitað ekki nærri alla enn þá.
Og því lengur sem Samfylkingin hangir í ríkisstjórn þeim mun stærri verður sá hópur sem er sekur innan Samfylkingarinnar.
María Kristjánsdóttir, 20.1.2009 kl. 01:26
Nokkuð finnst mér hún maría vera að misskilja þig Ólína, en læt þig auðvitað sjálfa eftir að leiðrétta.
En vil hins vegar bæta við, að kveðjan þín til Ingibjargar Sólrúnar hér að neðan er einstaklega falleg og kemur beint frá hjartanu!Slíkt er alltaf virðingarvert, en þeim mun meira er það dapurlegt þegar fólk þolir ekki slíka tilfiningatjáningu og setur út á hana!
Magnús Geir Guðmundsson, 20.1.2009 kl. 01:48
"Sjálfa UM að leiðrétta" átti nú að standa þarna.
Magnús Geir Guðmundsson, 20.1.2009 kl. 01:49
Ég hef fram að þessu ekki verið fylgjandi þeirri kröfu að ríkisstjórnin ætti að víkja. Ekki af því að mér finnst hún hafa staðið sig svo óskaplega vel og ekki vegna þess að hún hafi staðið sig svo óskaplega illa.
Heldur vegna þess að ég hef ekki séð neinn skárri kost í stöðunni. Kosningar í beinu framhaldi af hruninu í haust fannst mér fáránleg krafa vegna þess að það vissi í raun enginn neitt og kaosið var ógnvekjandi.
Nú þegar linur eru farnar að skýrast aðeins í mínum kolli og annarra, er ég komin á þá skoðun að utanþingsstjórn eigi að taka við völdum hið fyrsta og boðað verði til stjórnlagaþings þar sem nýjar grunnreglur samfélagsins verði samdar.
Ég hef ekki tekið þátt í mótmælum og hef verið nokkuð vandfýsin á það hvernig þau hafa verið sett fram. Til að byrja með fannst mér skiljanlegt að fólkið sem er svona reitt, kæmi saman og léti reiðina í ljós.
Eftir því sem útifundunum fjölgaði hélt ég að málflutningur mundi þróast úr reiðihrópum í átt til úrlausna. Svo þegar litla telpan kom og flutt reiðilestur með málfari fullorðins, var mér allri lokið.
Um fundina innan húss get ég ekki dæmt nema að hluta. Mér fannst þessi Sigurbjörg í raun hafa lokið máli sínu þegar hún var búin að segja frá þessar aðvörun sem hún fékk frá ónefndum aðila.
Það sem ég sá af þeim fundi fannst mér líkast meira framboðsfundi en málefnaumræðu. Ræðumenn virtust uppveðrast full mikið af því klappi sem þeir uppskáru.
Það er afar mikil meðvirkni í þessu öllu, á fundunum, blogginu, í blöðunum og í stjórnmálunum.
Ég bind nú vonir við að fólkið í landinu sem vissulega vill gera eitthvað í málunum, geti fundið sér farvegi í þeim samtökum/félögum/hópum sem eru að myndast utan um einstaka málaflokka.
Mér finnst það jákvæð þróun og vona að hún skili árangri.
Við þurfum nýtt stjórnskipulag og það tekur tíma að finna þar bestu leiðirnar. Og það eru svo gríðarlega mörg verk sem bíða og í þau þarf að ganga af röggsemi og krafti.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 20.1.2009 kl. 01:57
Ef ríkisstjórnin ber ekki ábyrð á neinu sem gerðist fyrir hrun bankakerfisins - eins og Geir Haarde heldur ítrekað fram - að þá ber hún vissulega ábyrgð á því sem gerst hefur þá 4 mánuði sem liðnir eru síðan. Við sjáum hversu vel þeim hefur tekist til verks - þjóðin bókstaflega logar í illdeilum og framundan blasir við óöld ef þetta heldur áfram. VILL Samfylkingin virkilega bera ábyrgð á því líka? Ég skil ekki hvaða hagsmuni Samfylkingin telur sig vera að vernda, getur einhver sagt mér það - og ég meina það í alvöru?
Því lengur sem Samfylking bakkar upp Sjálfstæðisflokkinn - og þessa ómanneskjulegu spillingu sem hér er við líði, held ég að fólk verði andsnúnara Evrópusambandinu en ella. Þannig að Evrópumálin geta ekki verið ein og sér svona sterkt lím til að hanga á. En samkvæmt svarpósti sem mér barst frá Þórunni Sveinbjarnar um daginn - hangir allt á þeirri spýtu hvort Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að fara inn á Evrópuleiðina eða ekki.
Flott umræða og gagnleg mjög. Ítreka bara spurningu mína - sem mig langar svo mjög að einhver Samfylingarmaður/kona svari - hvaða hagsmuni telur Samfylkingin sig vera að vernda með því að bakka upp Sjálfstæðisflokkinn og þessa ómannúðlegu spillingu sem sá flokkur stendur fyrir?
Þór Jóhannesson, 20.1.2009 kl. 02:02
Já já, bara komin úr djeilinu! Velkomin meðal vor!
Sigfús Axfjörð Sigfússon, 20.1.2009 kl. 03:27
Já og vel á minnst, ég átti yndislegan hálfann mánuð á vestfjörðum í sumar, þvílík fegurð!
Sigfús Axfjörð Sigfússon, 20.1.2009 kl. 03:30
Það er gott að fara í naflaskoðun Ólína, sérstaklega ef út úr henni kemur, að maður ætli að standa með sjálfum sér.
Það hef ég gert og þess vegna stend ég niður á Austurvelli, þess vegna,hlusta ég á menn eins og Njörð P Njarðvík.
Tæplega 400 manns eiga yfir höfði sér handtökuskipun vegna fjárnáms. Er þetta skjaldborgin sem ÞEIR lofuðu OKKUR?
Ég finn til þess vegna er ég....
Hildur (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 08:32
Takk fyrir þetta frú Ólína. Það er leitt að sjá hve margir, sem koma hér með athugasemd,hafa ekki lesskilning.
Yngvi Högnason, 20.1.2009 kl. 09:42
Þetta er rétt hjá þér Ólína. Sú neikvæðni sem núna ríkir virðist loka augum manna fyrir því jákvæða sem er að gerast. Stjórnvöld og auðvöld hafa í sameiningu gert mörg mistök. Verkefni framtíðarinnar er að byggja aftur upp. Til að hægt sé að hefja endurbyggingu þarf traustan grunn. Það er ekki hægt að byggja upp á grunni sem byggður er af mistökum fortíðarinnar.
Offari, 20.1.2009 kl. 09:48
Þið sem eruð að spá í "við" og "þið" umræðunni ættuð að lesa þessa frábæru grein sem einfaldlega ber fyrirsögnin Við.
http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/616
Þór Jóhannesson, 20.1.2009 kl. 11:18
Reiðin er öllum nauðsynleg þegar okkur er ofboðið. Við viljum að einhver beri ábyrgð á mistökunum.
Sem dæmi um reiða menn fyrr á tímum þá tóku nokkrir reiðir Ísfirðingar sig til eina nóttina og sátu fyrir settum sýslumanni,drógu niður buxurnar og flengdu! Tilefnið var sakamálarannsókn á hendur Skúla Thoroddsen sem naut mikilla vinsælda á Ísafirði og þótti flestum nóg af svo góðu í ofsóknunum gegn honum.
Lárus H. Bjarnason sá alltaf eftir því að verða leiksoppur landshöfðingjaveldisins. Hann dró sinn lærdóm af þessu og gerðist síðar farsæll embættismaður. Sr. Árni Þórarinsson prófastur fer miklum og fögrum orðum um Lárus. Kvað hann embættisfærslu Skúla hafa verið „optima forma“, þ.e. í besta lagi.
Ef einhver ráðamaður axlar ábyrgð og er tilbúinn að leggja mál sitt undir Landsdóm þá er hann maður að meiri. Davíð,Geir og Halldór bera gríðarlega ábyrgð á því sem komið er í okkar samfélagi.
Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur bera mjög mikla ábyrgð á einkavæðingu bankanna og megin ábyrgð á að ráðist var í Kárahnjúkavirkun. Alþjóðlegi gjaldeyrissjóðurinn hefur staðfest nú að viðvaranir VG og flestra í Samfylkingunni átti viðrök að styðjast. Þessar umdeildu ákvarðanir leiddu til mikils aðhaldsleysis á nánast öllum sviðum og hefur annar eins gervikaupmáttur aldrei orðið hefði verið farið hægar í þessar ákvarðanir og framkvæmdir.
Bestu kveðjur
MosiGuðjón Sigþór Jensson, 20.1.2009 kl. 11:41
Mikið er ég óskaplega feginn að fólk skuli vera farið að fatta þetta. Ég hef sagt þetta frá degi 1 á þessum mótmælum og fengið litlar undirltektir en núna loksins er maður farin að sjá svona blogg í hrönnum.
Hættum nú að skæla og förum að láta að okkur kveða á alvörugefnu nótunum !
Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 12:04
Takk fyrir pistilinn Ólína.
Ég er alveg sammála þessum pistli og flestum athugasemdum t.d. frá Önnu en að því sögðu spyr ég sjálfan mig: Hvort skyldi nú vera meira þjóðfélagsmein meðvirknin með spillingunni eða meðvirknin með pirringnum, reiðinni og jafnvel dónaskap?
Með þessum orðum er ég ekki að segja að fólk þurfi að velja á milli best er að vera réttsýnn og í góðu jafnvægi en við höfum misjafnar forsendur til þess.
Mankynsagan kennir okkur líka að miklar og góðar breytingar eru drifnar áfram af réttlætiskennd, reiði, sætu og súru.
Sigurður Þórðarson, 20.1.2009 kl. 12:25
Vel gert gert kæra Ólína, en verður þú þá ekki á þessum fundi annað kvöld?
Samfylkingin ræðir stjórnarsamstarfið
Nú er að láta hendur standa fram úr ermum!
Guðsteinn Haukur Barkarson, 20.1.2009 kl. 12:41
Þetta eru ágætar umræður hér. Þó er rétt sem hér hefur verið bent á að ekki eru allir jafn læsir á inntakið í því sem sagt er.
María segir: ,,Eigum við bara að vera á móti svívirðunni ein út í horni? Ekki standa saman á mótmælafundum? Menn æpa á íþróttaleikjum, menn eru meira segja farnir að æpa á skólaútskriftum, og í leikhúsum. Á Ítalíu á óperusýningum púa áhorfendur á söngvara þyki þeim þeir ekki standa sig vel í aríunum. Og þykir enginn dónaskapur. Og eiga fræðimenn alltaf að vera hlutlausir ? Hafa engar skoðanir um opinberar pólitískar persónur ? Mega þeir ekki nota myndlíkingar til að lýsa því hvað seðlabankastjóri er óhæfur? Ekki hafa húmor?''
Svar mitt við ölum þessum spurningum er: Að sjálfsögðu ekki. Að sjálfsögðu á fólk að hafa skoðanir og tjá þær. Þessi umræða snýst um allt annað - hún snýst um það hvenær við erum að tjá okkar eigin skoðanir og hvenær við erum að tjá annarra.
Ég tek í meginatriðum undir með Hólmfríði og held að hún sé einmitt að lýsa afstöðu meginþorra Samfylkingarfólks.
Þór spyr: ,,Hvaða hagsmuni telur Samfylkingin sig vera að vernda með því að bakka upp Sjálfstæðisflokkinn og þessa ómannúðlegu spillingu sem sá flokkur stendur fyrir?''
Ég hef því miður ekki gott svar við þessu. Ég býst þó við að forysta flokksins líti á það sem skyldu ríkisstjórnarinnar að taka til eftir hrunið en skilja ekki allt eftir í rjúkandi rúst. Svo er auðvitað spurning hvenær sé nóg komið í tiltektinni og tímabært að snúa sér að öðru.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 20.1.2009 kl. 13:23
Ég þakka þér Ólina fyrir frábært innlegg.
Í raun hefur maður ýmist lent í að verja stjórnina eða gagnrýna hana. Það eru ekki allir sanngjarnir í svona ástandi. En þetta ástand er ekki búið til af almenningi. Það er búið til að ríkisstjórninni sem hefur ekki tekið á því að láta axla ábyrgð. Hún hefur ekki sett fram trúverðuga leið út úr vanbdanum og hún hefur ekki skilgreint á skýran hátt hvað gerðist. Almenningur sér að okkar vandi er kominn til að spillingu og óráðssíu, þeirra sem fengu bankana okkar gefins á silfurfati.
Við erum í forarvilpu auðmanna. Fólk treystir ekki fulltrúum þeirra til að taka á því dæmi.
Um leið og ég fordæmi ofbeldi og skemmdarverk, segi ég að ríkisstjórnin hefur ekki traust og á að fara frá, eða að minnsta kosti boða til kosninga.
Jón Halldór Guðmundsson, 20.1.2009 kl. 14:24
Mótmælin í landinu eru af margs konar toga og mismunandi ástæðum. Ég hef ekki fundið mér farveg á fundum með sérfræðingum sem vöruðu okkur við, ekki vegna þess að ég virði ekki þeirra varnaðarorð, heldur vegna þess að ég held að krafan nú sé mun einfaldari og skýrari: Kosningar strax. Þannig að ég dag harmaði ég það að vera ekki meðal mótmælenda fyrir utan alþingishúsið, en liggja óvíg í pest heima. Uppgjör þarf að eiga sér stað, en nú þurfum við viðurkenningu stjórnvalda á að þau valdi ekki vandanum hér og nú - og efni til lýðræðislegra kosninga. Undanfari þeirra, stuttur og snarpur, er raunverulegur vettvangur fyrir þá sem vilja koma breytingum á framfæri. Ég hef áður átt þátt í að koma að áhrifamiklu breytingarafli - Kvennalistanum - sem ótvírætt breytti miklu en enginn spáði framgangi. Okkur í VG vantar gott fólk að vinna með og það er á hverju strái, í bloggheimum, á Austurvelli, á Silfurtorgi og víðar og því fagna ég.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 20.1.2009 kl. 15:27
Mikið er ég feginn að það er til fólk sem segir hug sinn, er málefnalegt, elskar þjóð og land og vill berjast fyrir réttlæti og viðreisn lýðræðis.
Mér lætur illa í eyrum að heyra að mótmælin í Reykjavík einkennist af "þeir" og "við" viðhorfinu og að fjölmiðlar í "meðvirkni" sinni með stjórnvöldum, sýni helst þá mynd af grímuklæddum táningum með skrílslæti og skemmdaverk. Meirihluti þjóðarinnar er niðurbrotinn. Fjölmiðlar fjalla ekki um ástandið, rannsóknarfréttamennska er komin á svo lágt plan að skömm er að. Fólk fær ekki að heyra sannleikan um HVERSU ÖMURLEGT ástandið verður þegar stóru lánin fara að falla á Íslandi í maí. Þegar atvinnuleysið fer að aukast úr öllum hömlum, þegar lífeyrissjóðirnir fara að rýrna. Ríkisstjórnin segir ekkert um hvað muni gerast þegar greiða á úr lífeyrissjóðum fjölda landsmanna og lífeyrir fólks verður undir fátækramörkum. Ég segi það bara og legg mér óvenjuleg orð í munn: Ég er skítleiður á þessu aðgerðarleysi og þráu þrælslund þjóðarinnar. Fólk sem á þess kost verður að storma niður á Austurvöll og SÝNA 100% SAMSTÖÐU, SVO RÍKISSTJÓRNINNI, ÞINGMÖNNUM OG RÁÐAMÖNNUM ÖÐRUM VERÐI LJÓS ALVARA ÞJÓÐARSÁLARINNAR.
Í fyllstu samhyggð frá Stokkhólmi, Baldur
Baldur Gautur Baldursson, 20.1.2009 kl. 19:09
Ég hef álitið að Samfylkingin sé að bíða eftir afstöðu Sjálfstæðismanna til aðildarviðræðna við ESB og muni ekki taka ákvörðun um framhalds stjórnarsamstarfs fyrr en sú niðurstaða liggur fyrir.
um kosningar er að verða háværari innan Samfylkingarinnar og nú er fundarvika hjá flokknum sem líkur á laugardag. Hvað gerist eftir það treysti ég mér ekki til að spá um með vissu, en þá er bara ein vika þar til Sjálfstæðisflokkurinn tekur afstöðuna. En ein vika í pólitík getur verið býsna löng
Hólmfríður Bjarnadóttir, 20.1.2009 kl. 20:26
Gott hjá þér frænka. Við nálgumst það að vera bara nokkuð sammála.
Haukur Nikulásson, 20.1.2009 kl. 22:47
...já Ólína...og Takk!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 20.1.2009 kl. 23:10
hurr, enda kaustu samfylkinguna... á hún að vera einhvað skárri en Sjálfstæðismafían?
Hermann (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 01:22
Áhugavert að fylgjast með baráttu þinni við eigin sannfæringu og heiðarleika.
Hér kemur þú með uppkjör sem gott er, samt finnst mér ekki allt sagt og finnst jafnvel vanta einn kafla í þetta blogg. Hér er ekki allt sagt, er mín tilfinning. En látum það liggja milli hluta. Sá sannleikur og sannfæring sem þú hefur komið hér með undanfarið er þér til sóma og fær fólk til að trúa þér. Það er einmitt sannleikurinn og einlægnin sem þjóðin þarf á að halda nú. Ég finn heiðarleikann í þér og veit að oft er erfitt að skipta um gír.
Ég vona og trúi að þú eigir jafnvel eftir að taka skrefið til fulls.
Halla Rut , 21.1.2009 kl. 01:53
Gott hjá þér Ólína, vöknuð af værum blundi.
Það að kjósa flokk er ekki endilega það sama og að styðja flokksstöðuna eins og hún er nú. Hver hefði við síðustu kosningar dreymt um annað eins og nú er uppi.
Ég tek það fram að ég er löngu hættur þessari vitleysu að kjósa, það hefur bara hingað til verið MeMe (kind) útfærsla af svokölluðu lýðræði. Þetta kom greinilega fram á Hótel Sögu á forðum við rússneskar kosningar í "ykkar" stöður.
Við og þið er styttinging af "Við sem ekki fáum að vera með" og "þið sem ráðskist með okkur" Bara ef við gætum verið þið, þá væri... "þið við?"
Það þurfti þessa kreppu til þess að koma vitinu fyrir íslensku þjóðina, reyndar eftirá að hyggja, ekki slæm staða ef þjóðin hefði bein í nefinu til þess að reka ríkisstjórnina frá, enda er augljóst að þeir fara ekki fríviljugir.
Annars vil ég nota tækifærið til að koma á framfæri þakklæti til Íslensku þjóðarinnar með söfnunina til handa öldruðum hér í Bretlandi, en við fáum gáminn væntanlega næsta Fimmtudag, það verður gaman að sjá hvernig okkur tekst til við að koma peysunum í hendurnar á gamla fólkinu.
Íslendingar eru ekki slæmt fólk, helur eru þeir í höndum þeirra sem þeir kusu þá...
lifið heil.
Njáll Harðarson, 21.1.2009 kl. 11:36
Sæl Ólína, ég hef oft lesið pistla þína og finnst þú hafa góða nálgun á hlutina. Þakka þér fyrir þennan pistil. Haltu áfram að standa mér sjálfri þér ;-)
Persónulega finnst mér stjórnvöld sína þjóðinni dónaskap með því að þegja þunnu hljóði sama hvað á gengur.
Magga (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 13:28
@Ólína: Og Héðinn, ég tek ekki við neinum tilskipunum frá þér um það hvaða orð ég megi nota um það sem ég meina. Ég þekki mætavel merkingu orðsins "meðvirkni".
Ólína mín ég var nú ekkert að skipa þér. Ég bað þig vinsamlegast að fara gætilega með orð sem notað er yfir andlegan sjúkdóm og sem mér þætti vænt um ef hægt væri að halda utan við þessa umræðu. Þú ræður að sjálfsögðu þínum orðum en ég vildi bara að þú gerðir þér grein fyrir því að slík orðnotkun stuðar fólk sem er að vinna í sinni meðvirkni. Þegar orð eins og einelti, einhverfa, meðvirkni og þroskaheftur eru notuð í hversdagslegu máli um allt önnur fyrirbæri þykir mér vera gert lítið úr upprunalegu merkingu orðanna. Ég treysti hinsvegar dómgreind þinni algerlega til að vega það og meta hvenær þörf er á hvaða orði og dytti aldrei í hug að ætla að skipa þér fyrir um málnotkun. Gangi þér vel í lífi og starfi!
Héðinn Björnsson, 21.1.2009 kl. 14:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.