Stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá
12.1.2009 | 14:36
Jón Kristjánsson fv. ráðherra skrifar merka grein í Fréttablaðið í dag (bls. 15) um þann möguleika að þjóðin kjósi sér sjálfstætt stjórnlagaþing sem leysi Alþingi tímabundið af hólmi á meðan samin er ný stjórnarskrá - nýtt upphaf fyrir íslenska þjóð að endurreisa lýðveldi sitt. Hugmyndir þær sem Jón Kristjánsson kynnir eru eiginlega nánari útfærsla á innleggi Njarðar P. Njarðvík um stofnun nýs lýðveldis á Íslandi, þó þær séu til orðnar af öðru tilefni.
Útfærslan felur það í sér að þjóðin sjálf sé "stjórnarskrárgjafinn með raunverulegum hætti" í stað þess að hnýta breytingar á stjórnarskránni við almennar alþingiskosningar og dægurdeilur þeim tengdar eins og venjan hefur verið. Jón bendir réttilega á að hingað til hefur frumkvæði að breytingum á stjórnarskrá aðeins getað komið frá alþingismönnum þó að stjórnvöld fari með vald í umboði þjóðarinnar.
Undirtónninn í allri umræðu þessa dagana er einmitt sá að þessu þurfi að breyta. Sú hugmynd sem þarna er reifuð - að kosið verði sérstakt stjórnlagaþing sem haldið yrði í heyranda hljóði og tillögur þess að nýrri stjórnarskrá síðan lagðar fyrir dóm þjóðarinnar í allsherjaratkvæðagreiðslu - virðist geta verið fær leið og þjóðinni þóknanleg.
En ég gríp hér niður í grein Jóns:
,,Með þessari skipan eru stjórnarskrárbreytingar fjarlægðar frá stjórnmálaátökum dagsins sem verka truflandi á þessa vinnu. Hugmyndin er að alþingismenn sitji ekki stjórnlagaþing til þess að þjóðin velkist ekki í vafa um þennan aðskilnað. Með því koma þjóðkjörnir fulltrúar á stjórnlagaþingi einir að málinu og ákveða nýtt upphaf að fenginni reynslu af því stjórnskipulagi sem hefur ríkt hér lítið breytt í rétt 105 ár frá heimastjórn 1904.''
Og hann heldur áfram nokkru síðar:
,,Stjórnlagaþing mundi hafa mikil verkefni og nauðsyn ber til að það spegli sem flest sjónarmið í samfélaginu. Sem dæmi um verkefnin má nefna ákvæði um ríkisstjórn og Alþingi og tengsl þeirra aðila, forseta Íslands, dómstóla, auðlindir og umhverfi . Til viðbótar má svo nefna það ákvæði sem mikið hefur verið til umræðu nú þessa dagana sem er um framsal ríkisvalds eða fullveldis. Ennfremur eru sjónarmið um almenn mannréttindi ætíð breytingum háð. Þá er brýn þörf á að setja ákvæði um aukið valfrelsi kjósenda um fulltrúa á framboðslistum og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu."
Þetta eru athyglisverðar hugmyndir og vel þess virði að þær séu skoðaðar vandlega í samhengi umræðunnar.
----------------------------
Fánamyndin hér ofar er fengin hjá Álfheiði Ólafsdóttur myndlistarkonu
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Evrópumál | Breytt s.d. kl. 23:24 | Facebook
Athugasemdir
Frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra um stjórnlagaþing.
"Stjórnlagaþing á ... að skoða sérstaklega æskilegar breytingar á stjórnkerfinu, eins og aukinn rétt fólks til þjóðaratkvæðagreiðslu og skýrari skil milli framkvæmdar- og löggjafarvalds. Er þar átt við atriði eins og hvort ráðherrar eigi jafnframt að vera þingmenn ...Um skipan stjórnlagaþings og starfshætti þarf að setja sérstök lög. Í frumvarpi því sem ég lagði fram á Alþingi er m.a. lagt til að þingið verði skipað þjóðkjörnum fulltrúum sem verði kjörgengir samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis, öðrum en alþingismönnum.
Með slíku þingi væri komið í veg fyrir að alþingismenn fjölluðu um mál sem vörðuðu þá sjálfa, t.d. ákvæði stjórnarskrárinnar um kosningaskipan og ráðherraábyrgð. Lagt er til að stjórnlagaþing verði skipað 41 kjörnum fulltrúa. Þeir skulu kosnir persónukosningum, en slíkt fyrirkomulag gefur kjósendum tækifæri til að velja menn á þingið án tillits til hvaða flokki eða samtökum þeir tilheyra.
Þá er gerð krafa til þess að frambjóðendur hafi tilskilinn fjölda meðmælenda, enda mikilvægt að til þingsins veljist einstaklingar er njóti góðs trausts samborgara sinna. Slík krafa er einnig í samræmi við lög um kosningar til Alþingis, en þar er kveðið á um tiltekinn fjölda meðmælenda með hverjum framboðslista. ...
Í frumvarpinu er kveðið á um að stjórnlagaþing starfi í einni málstofu á Alþingi og því settur tímafrestur hvenær starfi þess lýkur. Þá þegar færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaþings."
Vefsíða Jóhönnu Sigurðardóttur.
Þorsteinn Briem, 12.1.2009 kl. 15:36
Velkomin í bloggvinahópinn minn Ólína kv HB
Hólmfríður Bjarnadóttir, 12.1.2009 kl. 15:42
Takk fyrir þessar upplýsingar Steini Briem.
Þetta frumvarp Jóhönnu er orðið 12 ára gmalt-frá árinu 1996. Þetta er gott dæmi um áhugaleysi alþingis (valdaklíkunnar) á að gera einhverjar breytingar sem snerta þeirra hagsmuni. Þessvegna verður að mynda samtök sem ná því afli sem úrslitum ræður - til að stjórnlagaþing verði ákvarðað á næstu mánuðum.
Sævar Helgason, 12.1.2009 kl. 16:03
Blessuð Ólína.
Mig langar til að benda þér á blogg, sem ég skrifaði þann 27. nóvember s.l. undir fyrirsögninni „Stofnum stjórnlagaþing". Ég fæ ekki séð, að hægt sé, að senda Alþingi í frí, eins og Jón Kristjánsson leggur til. Til þess þyrfti stjórnarskrárbreytingu. Og þá hverra, áður en stjórnlagaþing hefði skilað niðurstöðu og þjóðin borið hana undir atkvæði? Hins vegar verður að mynda utanþingsstjórn meðan stjórnlagaþing situr að störfum.
Pjetur Hafstein Lárusson, 12.1.2009 kl. 17:04
Sæl Ólína
Hugmyndin er öflug og þörf. Spurningin er hvort slíkt þing gæti ekki starfað samhliða Alþingi? Þá væri komin lausn á "fríi" Alþingis. Auk þess þarf að halda áfram þeim störfum sem nú eru í gangi á Alþingi, hvort sem fólk trúir því eða ekki. Það er augljóst að breytinga er þörf en við verðum að tryggja að ekki komi enn meira frost í þjóðfélagið.
Kv.
Sveinbjörn
Sveinbjörn Kristjánsson, 12.1.2009 kl. 18:12
Það er ljóst af lestri færslu þinnar Ólína að áhugi á breytti stjórnskipulagi gengur þvert á flokka og í raun þvert á þjóðgélagið allt. Hef verið aðeins að skrifast á við Egil forstjóra Brimborgar undanfarinn sólarhring og hann er áhugasamur. Áhugavert að lesa frumvarp Jóhönnu um Stjórnlagaþing.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 12.1.2009 kl. 19:49
Þetta eru frábærar hugmyndir hjá Jóni Kristjáns, Nirði P. Jóhönnu Sigurðar og öllu því góða fólki sem vill réttlæti á Íslandi - svo segja spillingaröflin ávallt; "hvað viljið þið í staðinn? Það er ekkert betra í boði".
Jú þessar hugmyndir eru í boði og þetta er mikið mun betra en það sem við þekkjum og viljum - en hvað stendur alltaf í vegi fyrir slíkum góðum hugmyndum og verkum gott fólk? J
ú ríkjandi valdhafar!
Nú verðum við að rísa upp sem þjóð - þvert á alla flokkadrætti - ellegar missa sjálfstæði okkar og lifa í álíka lýðræðisafmyndun og ný þekkist í Rússlandi.
Þór Jóhannesson, 12.1.2009 kl. 21:17
Ég veit ekki hvað stjórnlagaþing ætti að laga. Breyta stjórnarskránni? Hvaða breytingar yrðu það? Ég vænti þess aðeins og oligarkíð muni tryggja stöðu og yfirburði sína með nýrri gerð stjórnarskrár.
Ég mæli heldur með utanþingsstjórn í tvö ár. Ég hefi rætt þetta áður á blogginu mínu. Ég held að á tveimur árum ættum við að geta skipt þingliði og ráðherrum og fengið inn nýtt fólk. Fækkum þingmönnum í 43 og gerum að reglu að ráðherrar verði ALDREI þingmenn á sama tíma. Fleiri svona hugmyndir gætu þróast og nýtt lýðræði fengi möguleika að vaxa frítt. Burt með spillingarliðið!
Baldur Gautur Baldursson, 12.1.2009 kl. 22:57
Grein Jóns gengur út á stjórnarskrárbreytingu (lög eru ekki nóg eins og Steini Briem vitnar í JS um, sbr. ábendingu Pjeturs); stjórnarskrárbreytingin felur stjórnlagaþingi það vald sem nú tilheyrir tveimur alþingum með kosningum á milli. Á stjórnlagaþingi sætu ekki alþingismenn og ráðherrar. Á meðan ný stjórnarskrá væri samin (t.d. í 6 mánuði) sinnir Alþingi sínum hefðbundnu störfum, sbr. innlegg Sveinbjörns, svo og ríkisstjórn; engin þörf er því á utanþingsstjórn þess vegna eins og Pjetur gerir ráð fyrir - stjórnlagaþing hefur sitt vald og sitt sjálfstæði. Að mínu mati er hins vegar erfitt að gera þetta fram hjá flokkunum eins og Stefán leggur til - þá fer orkan í stofnun flokka en ekki undirbúning stjórnlagaþings, sbr. ábendingu Hólmfríðar og Þórs.
Gísli Tryggvason, 12.1.2009 kl. 23:08
Hér er grein Jóns að finna:
http://www.visir.is/article/20090112/SKODANIR/427010674
Gísli Tryggvason, 12.1.2009 kl. 23:19
Hluti af því að gera svona hugmyndavinnu skarpari er að nefna einhver tiltekin dæmi (óskalista) um hverju stjórnarskrárvinna ætti að skila.
- Aðgreining löggjafarvalds og framkvæmdavalds
- Valfrelsi kjósenda - hægt að kjósa fólk en ekki bara flokka
- Eignarréttur þjóðarinnar á auðlindum
- Undir hvaða kringumstæðum skal efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu
Bara fjögur dæmi til að byrja óskalistann. Mér líst mjög vel á þá reglu í Danmörku að það þurfi aðeins 1/3 þingmanna til að knýja fram þjóðaratkvæði. Þetta er gríðarlega sterkt vopn fyrir stjórnarandstöðu og vörn gegn því að menn misbeiti valdi eða fari út í geðþóttaákvarðanir.
Hversu mörg umdeild mál skyldu hafa stoppað á Íslandi gegnum tíðina á "hættunni" á því að 21 þingmaður hefði getað knúið fram þjóðaratkvæði? Hér eru ekki einu sinni til reglur um hvenær/hvernig almenningur getur farið fram á þjóðaratkvæði, einu ákvæðin um það í stjórnarskránni tengjast forsetanum og kirkjunni.
Haraldur Hansson, 12.1.2009 kl. 23:28
Sammála síðasta skrifara um vinnubrögð !
Það er komið nóg af tali og skrifum, það þarf að fara að vinna !
Við þurfum fólk sem er heiðarlegt og getur unnið !
JR (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 23:50
Já Kristinn, Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að fara sóðalega með fjársýslu ríkisins. Ég er sammála því að rétt væri að endurreisa Ísland, en Sjálfstæðisflokkurinn mun aldrei leyfa slíkt, hagsmunir hans við glæpaklíkur eru of miklir og því miður nýtur þetta flokksskrípi og spillingarbatterí enn stuðnings fjórðungs þjóðarinnar. Að hugsa sér, fjórðungur þjóðarinnar er svo firrtur að sjá ekki hve mikið þessi Íslndsmeistari spillingarinnar er búinn að skaða landið okkar. Meira að segja er búið að veðsetja kvótann upp í topp, þökk sé varðhundum þess kerfis. Það eru skelfilegir tímar framundan, lífeyrissjóir standa höllum fæti og bankarnir riða til falls eina ferðina enn. Takk Sjálfstæðisflokkur!
Valsól (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 00:33
Af einhverri frétt frá þessum borgarafundi í Háskólabíói í kvöld á ég þess getið að Varaformaður Samf. Ágúst Ólafur Ágústsson hefði verið spurður álits á breytingu í þessa veru. Svar hans var á þá leið að hann treysti sér ekki til að lýsa því yfir.
Menn sem eiga von á sæti í ríkisstjórn skera ekki frá sér ofríkisvaldið.
Árni Gunnarsson, 13.1.2009 kl. 00:59
Á lýðveldistímanum (síðastliðin 65 ár, nánast mannsaldur) hefur ENGIN þjóðaratkvæðagreiðsla verið haldin hérlendis.
Hér voru haldnar þjóðaratkvæðagreiðslur samhliða Alþingiskosningum árið 1908 um áfengisbann (60,1% meðmælt en einungis karlmenn höfðu þá kosningarétt), árið 1916 um þegnskylduvinnu 17-25 ára karlmanna (91,8% andvíg) og árið 1933 um afnám áfengisbannsins (57,7% meðmælt).
Einnig voru haldnar hér þjóðaratkvæðagreiðslur í Spænsku veikinni árið 1918 um setningu Sambandslaganna (92,6% meðmælt) og tvennar kosningar Í EINU LAGI 20.-23. maí 1944 um afnám Sambandslaganna (meðmælt 99,5%) og setningu nýrrar stjórnarskrár (meðmælt 98,5%).
Þorsteinn Briem, 13.1.2009 kl. 02:07
Stór hluti þjóðarinnar gæti til dæmis skorað á Alþingi að setja lög um skipan stjórnlagaþings og starfshætti, til dæmis að þingið yrði skipað þjóðkjörnum fulltrúum, sem yrðu kjörgengir samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis, öðrum en alþingismönnum, og þinginu skuli lokið innan ákveðins tíma.
Þá skuli þjóðin kjósa um niðurstöður stjórnlagaþingsins, síðasta verk Alþingis fyrir næstu alþingiskosningar yrði þá að breyta Stjórnarskránni í samræmi við þjóðaratkvæðagreiðsluna og fyrsta verk Alþingis eftir alþingiskosningarnar yrði að staðfesta breytingarnar.
Þorsteinn Briem, 13.1.2009 kl. 02:29
Stjórnkerfisbreytingin þarf að vera miklu meiri og djúptækari en „bara“ að skilja að þing og framkvæmdavald.
Það voru mjög merkileg erindi flutt í kvöld á fundinum í Háskólabíói og a.m.k. tvö þeirra komu inná þau vinnubrögð og stjórnsýslulegu siðmenningu sem hér hefur þróast og viðgengist og versnað síðustu ár með ofríki, skoðanakúgun, einelti, útilokun og einkavinavæðingu.
Aðeins með allsherjar kerfisbreytingu sem felur í sér uppbyggingu sem veitir sjálfkrafa aðhald og efirlit á öllum sviðum og á öllum lögum valdisns er hægt að taka á þessu.
- í raun erum við svo samdauna þessu að við sjáum ekki einu sinni spillinguna þegar hún blasir við, hugsunaháttur okkar allra er þannig að við t.d. hendum „samræmdum prófum“ (framhaldsskólum og fækkun í grunnskólum) frekar en að þróa þau, breyta og bæta - það er svo fjári óþægilegt og leiðinleg að láta mæla árangur stofnanna, stjórnenda og starfsmanna eða komast að hver skóinn kreppir hjá börnum okkar - þá er betra að sleppa því - eða þannig.
Embættismannapróf eru óþekkt við umsóknir um opinber embætti - og svo tala menn um spillingu í öðrum kerfum þar sem slík próf eru reglan og stjórna ráðningum, starfsreynsla, þekking og menntun er í raun lítils metin hér svo jafnvel ráðherrar málaflokka geta verið án allrar menntunar og án allrar reynslu af málaflokki sínum...
- Laxveiðitúrar ruddu brautina og þóttu sjálfsögð hlunnindi til bankastjóra í boða fyrirtækja og öfugt ... og svo kom allt hitt „kostanir“ og styrkir til kosningabaráttu einstaka stjórnmálamanna og fyrirtækja þeirra og miklu fleira.
- Stjórnsýslan er algerlega búin að missa jarðsambandið um hvar hún stendur og hvert er hennar hlutverk, eftirlitsembætti eins og byggingafulltrúar hafa orðið að einskonar sölumannsstörfum fyrir byggingasvæði sveitafélaganna, og fjármálaeftirlitið taldi sig eiga að verja bankakerfið gegn gagnrýnisröddum ... - og svo var allt falt allsstaðar.
- Í raun verðum við að kynnast stjórnsýslukröfum ESB og að fá ráð hennar til að hér verði eitthvað traust í framtíðinni.
Auk bóta vegna formbreytingar við róttækrar stjórnkerfisbreytingar - þá þurfa líka allir að leggja á sig að læra sitt hlutverk uppá nýtt til að þekkja sína stöðu og hugsa sitt hlutverk frá grunni - og stúdera með öðrum hvernig hlutir eiga að virka. Ef bretiingin er ekki alger og gagnger renna menn bara í sama farið og fyrr, vanninn tekur völdin hver sem formbreytingin er ef hún er ekki því gagngerari og djúptækari.
Helgi Jóhann Hauksson, 13.1.2009 kl. 05:15
Þessar hugmyndir hafa lengi verið í gerjun hjá Framsóknarmönnum, meðal annars hjá "gufuhópnum"!
Sjá nánar blogg mitt:
Þjóðkjörið stjórnlagaþing móti stjórnskipan framtíðarinnar
Hallur Magnússon, 13.1.2009 kl. 08:45
Hér er uppskrift mín að stjórnlagaþingi í 12 skrefum: Þjóðfundurinn 2009 í kjölfar greinar formanns stjórnarskrárnefndar. Beinna verður lýðræðið ekki en að þjóðin sjálf ákveði grundvöll nýs þjóðskipulags.
Gísli Tryggvason, 13.1.2009 kl. 08:49
Gott að fá góða umræðu um þessi mál og mjög brýnt að fara að taka til hendinni. En hvernig verður þessu komið í framkvæmd? Hver getur gripið boltann á lofti og gert eitthvað? Hvaða leiðir eru færar?
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 13.1.2009 kl. 14:25
Mér líst vel á þá meginhugmynd sem Gísli setur fram um stjórnlagaþing í 12 þrepum. Með hans leyfi þá eru þrepin þessi:
Svo stenst ég ekki mátið að taka undir með Helga Jóhanni þegar hann gagnrýnir umgengni okkar við stjórnsýsluna, og segir:
- í raun erum við svo samdauna þessu að við sjáum ekki einu sinni spillinguna þegar hún blasir við, hugsunaháttur okkar allra er þannig að við t.d. hendum „samræmdum prófum“ (framhaldsskólum og fækkun í grunnskólum) frekar en að þróa þau, breyta og bæta - það er svo fjári óþægilegt og leiðinleg að láta mæla árangur stofnanna, stjórnenda og starfsmanna eða komast að hver skóinn kreppir hjá börnum okkar - þá er betra að sleppa því - eða þannig.
Þetta er eins og talað út úr mínu hjarta
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 13.1.2009 kl. 16:18
Mér sýnist að allir ættu að geta verið sammála þessari tillögu Gísla Tryggvasonar, lögfræðings og talsmanns neytenda. Ég legg því til að doktor Ólína Þorvarðardóttir setji tillöguna inn á sérstaka vefsíðu sem áskorun til allra alþingismanna og hún verði afhent forseta Alþingis þegar undirskriftum hefur verið safnað á síðuna eftir til dæmis þrjár vikur.
Einnig verði leitað álits allra alþingismanna á þessari áskorun með því að senda þeim öllum tölvupóst eftir að Alþingi hefur fengið hana í hendur.
Þorsteinn Briem, 13.1.2009 kl. 16:49
Á bloggi sínu segir nýr þingmaður Framsóknarflokksins, Helga Sigrún Harðardóttir, um upptöku stjórnlagaþings: "Það er nákvæmlega ekkert flókið við þetta...". Hárrétt Helga Sigrún, nema það að flokksræðið tryggir einfaldlega að slíkt verði aldrei gert nema það sé tryggt að flokkarnir hafi allt um það að segja hverjir geti komist á slíkt þing.
Þetta yrði bara enn eitt sjónarspilið og blekkingarleikurinn hjá ríkjandi ógnarstjórn. Það er ekkert hægt að gera fyrr en hún fer frá - akkúrat ekki nokkurn skapaðan hlut.
En því miður þá held ég að það sé - hvort sem er allt of seint - hrun 2 tryggir flokksræðinu endanlegt vald yfir Íslandi þegar lífeyrissjóðirnir hverfa og almenn fátækt verður um 90% á meðan hin 10% leika sér af auðlindunum og einkavæðingu til að þyngja sína eigin vasa. Þannig verður Ísland nákvæmlega eins og Rússland er í dag.
Flokksræðið er orðið svo gegnsýrt að þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð að tryggja sér völdin með því að eyðileggja lífsviðurværi fólksins og alla almenna velferð í skjóli kreppunnar að þá mun hann líklega byrja að banna aðra flokka sem eru ekki nógu líkir þeim í skoðunum. Það sem blasir við er lýðsskrum og flokksræðið er að sigra með þessu lýðsskrumi. Og það sem verra er að þetta er allt í boði jafnaðarmannaflokksins sem kallar sig Samfylking.
Þór Jóhannesson, 13.1.2009 kl. 17:35
Þór Jóhannesson. Fólk hefur kosið Sjálfstæðisflokkinn, Samfylkinguna, Framsókn, Frjálslynda og Vinstri græna af fúsum og frjálsum vilja í leynilegum kosningum til Alþingis.
Og frá því í haust hefur, þrátt fyrir mikla umræðu um alþingiskosningar í vor, einungis einn stjórnmálaflokkur verið stofnaður hér, mér vitanlega, en Sturla Jónsson vörubílstjóri hefur nú mjög lítið fylgi, sýnist mér.
Einungis ein leið er til að breyta lögunum og það er gert á Alþingi Íslendinga.
Hver sem er getur hins vegar hvar og hvenær sem er verið með lýðskrum, einnig Þór Jóhannesson.
Þorsteinn Briem, 13.1.2009 kl. 18:55
Steini Breim - það er ljóst að þú sérð lífið í með hinni margfrægu bláu litblindu. Það er t.d. lýðsskrum að þú nefnir ekki Íslandshreifinguna og hvernig núverandi flokkræði hefur komið í veg fyrir að þar sitji 2 menn á þingi.
Hversvegna kýstu að nefna þá ekki til sögunnar? Er það óþægilegt kæri lýðsskrumari?
Þór Jóhannesson, 13.1.2009 kl. 19:12
Þór Jóhannesson. Ég er félagi í Íslandshreyfingunni og hef aldrei verið í öðrum stjórnmálaflokki. Hins vegar er ég ekki alltaf sammála formanni hreyfingarinnar og þá segi ég honum það opinberlega á bloggi hans hér.
Þar að auki skrifaði ég eftirfarandi á bloggi Ómars Ragnarssonar 7. desember síðastliðinn:
"Lög um kosningar til Alþingis nr. 24/2000:
108. grein. Þau stjórnmálasamtök koma ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa a.m.k. fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu."
Ef landið hefði verið eitt kjördæmi, sem það á að sjálfsögðu að vera, og engin lágmarksregla verið um atkvæðafjölda, hefði Íslandshreyfingin fengið tvo þingmenn með sín 5.953 atkvæði í síðustu Alþingiskosningum.
Ísland er hins vegar örríki, hefur því ekkert með 63 þingmenn að gera, og 50 þingmenn er nóg fyrir þjóðina. Miðað við 50 þingmenn, 5.953 atkvæði og landið sem eitt kjördæmi hefði Íslandshreyfingin aftur á móti einnig fengið tvo þingmenn í síðustu Alþingiskosningum.
Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið 18 þingmenn í stað 25, Samfylkingin 13 í stað 18, Vinstri grænir sjö en ekki níu, Framsókn sex þingmenn í staðinn fyrir sjö og Frjálslyndir fjóra þingmenn, jafn marga og þeir fengu í kosningunum.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefði því fallið með 24 þingmenn, eins og hún átti að sjálfsögðu að gera. Og miðað við 63 þingmenn hefði ríkisstjórnin einnig fallið með 23 þingmönnum Sjálfstæðisflokks og sjö þingmönnum Framsóknar. Samfylkingin hefði fengið 17 þingmenn, Vinstri grænir níu og Frjálslyndir fimm þingmenn.
Í báðum tilfellum hefði Íslandshreyfingin því fellt ríkisstjórnina með tveimur þingmönnum.
Og einstaklingur, sem hefði boðið sig fram í kosningunum samkvæmt þessum reglum, hefði einungis þurft 2.892 atkvæði til að komast á þing, miðað við 63 þingmenn, en 3.644 atkvæði miðað við 50 þingmenn.
Þetta er kallað lýðræði. Núverandi fyrirkomulag heitir hins vegar flokksræði."
Þorsteinn Briem, 13.1.2009 kl. 19:51
Gott að heyra Steini, skil ekki hvaða upphrópanir þetta voru í þér í minn garð - sé að við erum að mestu leiti sammála.
Þór Jóhannesson, 13.1.2009 kl. 20:35
Þór Jóhannesson. Ég er ekki sammála þessu hjá þér hér að ofan:
"Það sem blasir við er lýðsskrum og flokksræðið er að sigra með þessu lýðsskrumi. Og það sem verra er að þetta er allt í boði jafnaðarmannaflokksins sem kallar sig Samfylking."
Þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar, Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra, sem nú eiga sæti á Alþingi, sitja þar í boði almennings í landinu, sem kaus þá í alþingiskosningunum vorið 2007 til fjögurra ára. Lögum verður ekki breytt nema á Alþingi og það er almennings að breyta því sem þarf að breyta, einnig á Alþingi, enda sækir það vald sitt til almennings.
Rætur lýðskrumsins er því hjá almenningi, lýðnum, sem segir það sem hann heldur að aðrir vilji heyra en breytir sjálfur aldrei neinu.
Vinstri grænir, Framsókn, Frjálslyndir og Íslandshreyfingin væru hins vegar alltaf á móti núverandi ríkisstjórn, rétt eins og allir þessir flokkar voru í byrjun þessa kjörtímabils þegar efnahagsástandið var mun betra en það er nú, því það er eðli stjórnarandstöðunnar að vera á móti þeirri ríkisstjórn sem situr hverju sinni.
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn voru saman í ríkisstjórn á árunum 1995-2007 og komu á því kerfi sem hér hefur verið við lýði á þessari öld, þannig að ég myndi nú frekar kenna þeim flokkum um það sem hér hefur farið úrskeiðis undanfarið en Samfylkingunni, sem var stofnuð árið 2000. Og þá fyrst og fremst Halldóri Ásgrímssyni, Davíð Oddssyni og Geir Haarde.
En fyrst og fremst er þar meirihluta almennings, lýðsins, um að kenna.
Þorsteinn Briem, 13.1.2009 kl. 21:29
Rætur lýðskrumsins eru því hjá almenningi, lýðnum, sem segir það sem hann heldur að aðrir vilji heyra en breytir sjálfur aldrei neinu, átti þetta nú að vera.
Þorsteinn Briem, 13.1.2009 kl. 21:34
Ef ég man rétt þá höfum við enn þá stjórnarskrá og löggjöf þar sem m.a. er fjallað um frelsi einstaklingsins. Þess vegna er fáránlegt að halda að hægt sé að útiloka sitjandi þingmnenn ef stilla á upp til kostninga til stjórnlagaþings. Þeir hafa lögvarin rétt allveg eins og við öll hin. Gleymið því ekki að þó við séum óánægð með ríkjandi skipulag þá gengur ekki að troða á því valdi sem fyrir er. Það verður að leysa það frá með þeim leikreglum sem gilda. Þingmenn geta þá boðið sig fram til þingsins eins og aðrir. Það mætti allveg eins banna t.d. þeim sem hafa verið virkir í pólitísku starfi til að taka þátt í svona kostningum. Hvað finndist þér um það Ólína, eða þú Gísli??? Svo að lokum. Eina raunhæfa lausn í þessari stöðu sem þjóðin er komin í, þ.e.a.s. hún er gjaldþrota, er einfaldlega að ganga á fund ´Haraldar Noregskonungs og byðja hann, venligst, að taka við okkur skrælingjunum aftur,því við getum ekki séð okkur farborða lengur. ERUM Á HAUSNUM
kv.
NN (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 00:06
NN. Eins og hér hefur margoft komið fram þarf Alþingi sjálft að setja lög um stjórnlagaþing og að sjálfsögðu geta alþingismenn, ef þeir vilja, kveðið á um það í lögunum að þeir sjálfir megi ekki eiga sæti á slíku þingi.
Og það er nú einmitt tilgangurinn með sérstöku stjórnlagaþingi. Annars gæti Alþingi sjálft séð um að breyta Stjórnarskránni, eins og mikil þörf er á að gera sem fyrst, en það hefur nú ekki gengið beint vel hjá því hingað til.
Þorsteinn Briem, 14.1.2009 kl. 00:38
NN hér er að finna Frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra um stjórnlagaþing.
Með því að lesa það er unnt að fræðast betur um hugmyndina á bak við STJÓRNLAGAÞING og þar er meðal annars tekið fram að þingmenn hafi ekki kjörgengi til þess.
Svo er líka gert ráð fyrir því að Alþingi sé jafnframt starfandi svo það eitt og sér er næg ástæða til að undanskilja þingmenn.
Við sem erum fylgjandi því að skoða þessa leið, erum ekki að velta fyrir okkur póitískann litarhætti hvers annars. Til þess er málið of stórt og mikilvægt.
Það er að mínu mati algjörlega yfir slíkt hafið og þau ykkar sem eruð að sækjast eftir "lýðskrumaraframa" skuluð endilega snúa ykkur annað.
Öllum er auðvitað velkomið að vera með í skoðanaskiptum, en skiljið skítkastið eftir heima ef þið vilduð vera svo væn.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 14.1.2009 kl. 00:38
Þetta mál er í góðum og mjúkum höndum og ég hef engar áhyggjur af því.
Þorsteinn Briem, 14.1.2009 kl. 01:21
Ég legg til að menn sem hafa verið dæmdir fyrir mútuþægni í opinberu starfi séu ekki kjörgengir til Alþingis. Með þeirri einu undantekningu að þjóðkjörinn forseti veiti þeim uppreisn æru. Svona ákvæði getur haft gríðarlegan fælingarmátt.
Sigurður Þórðarson, 14.1.2009 kl. 04:08
Hressandi umræða hér Ólina-líst vel á hugmyndina um fjöldahreyfingu en ekki stjórnmálaflokk, það er mikilvægt að fá heiðarlegt fólk sem er hafið yfir allan grun um spillingu til að sitja stjórnlagaþingið.
Kristlaug M Sigurðardóttir, 14.1.2009 kl. 11:58
Hér er skoðanakönnun um málið: http://neytendatalsmadur.blog.is/blog/neytendatalsmadur/entry/772450/
Gísli Tryggvason, 16.1.2009 kl. 00:36
Sæl Ólína.
Þetta er allt gott og gillt sem komið hefurhér fram, en eitt finnst mér vera agalegt í þeirri stöðu sem öll þjóðin er að upplifa og það er.
Það er alls ekkert lýðræði við völd...þetta er tvíræði tveggja persónna sem svífast einskis og fer öllu sínu fram, hundsar alla Þjóðina með þögninni og aðgerðarleysi, og er með vellaunað óstarfhæft þing.
það er svo mikill LEYNDARHJÚPUR yfir öllu að það á ÖRUGGLEGA eftir að verða sprenging hjá jóðinni " HVELLUR ".
það er svo sterk tilfinning hjá mér um það sem á eftir að koma, áður en hreinsað er almennilega til.
Og það er gott til þess að vita að það er fólk þarna úti sem vill taka á þessu og endurreisa nýtt land og nýja þjóð á góðum gildum.
Takk fyrir,
og kær kveðja til allra sem láta sig málið varða.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 02:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.