Sjúkrahúsgjald - hvar voru stjórnarandstaðan og ASÍ ?

Um hátíðarnar var tekin ákvörðun á alþingi Íslendinga sem undarlega lítið hefur verið fjallað um. Ég segi undarlega lítið vegna þess að hún varðar grunnafstöðu okkar til samhjálpar og velferðar. Ég er að tala um þá ákvörðun að taka upp 6000 kr. gjald fyrir innlögn á sjúkrahús. Slíkt gjald hefur aldrei verið tekið af sjúklingum áður, þó svo að rukkað hafi verið fyrir komu á heilsugæslustöð, göngudeild og slysavarðstofu, rannsóknir, já og flutning með sjúkrabíl - þá hefur innlögn á sjúkrahús hingað til ekki verið innheimt af sjúklingum. Nú er þetta síðasta vígi fallið - það gerðist þegjandi og hljóðalaust.

Hvar var nú stjórnarandstaðan? Hvar er nú umhyggja hennar fyrir almenningi á Íslandi? Eina bofsið sem þaðan kom var frá Álfheiði Ingadóttur: "Ég vissi ekki að þetta hefði átt að verða svona hátt" umlaði hún vandræðalega í sjónvarpsviðtali rétt eftir nýjárið.

Vissi ekki að þetta ætti að verða svona hátt? Angry Nei, en þingmenn vissu að þetta stóð til, og létu sér fátt um finnast. Hvorki stjórnarandstaðan né verkalýðshreyfingin hafði einu sinni dug í sér til þess að taka málið til umræðu í samfélaginu.

Já, og hvar voru þingmenn Samfylkingarinnar? Angry Eru þeir heillum horfnir í þessu stjórnarsamstarfi?

Fyrir um 15 árum logaði allt þjóðfélagið stafnanna á milli - í tíð Sighvats Björgvinssonar sem þá var heilbrigðisráðherra - vegna hugmynda af þessu tagi. Það var blessunarlega lamið niður þá.

Nú eru augljóslega aðrir tímar.

Eftir síðustu hækkanir heilbrigðisráðherra gæti dæmið litið svona út:

Segjum að ég slasi mig og sé send á bráðamóttöku. Sjúkrabíllinn kostar 4.700 kr og innritun á slysadeildina 4600 kr. Þar er tekin röntgen mynd, blóðprufur o.fl., segjum að það kosti annað eins. Niðurstaðan er sú að ég er með innvortis blæðingar og verð að leggjast á sjúkrahús. Það kostar 6000 kr til viðbótar. Að sjúkrahúsdvöl lokinn þarf ég að koma í endurkomu á göngudeild, 4.600 kr þar. Nú varla er ég lyfjalaus allan þennan tíma  - ekki ólíklegt að skrifað hafi verið upp á eitthvað handa mér í apótekinu - 4000 kr. þar. Samtals 28.500.

Þarna á ég að vísu rétt á afsláttarkorti - en það er ekkert sem segir að þessi atburðarás geti ekki endurtekið sig nokkrum sinnum á einu ári.

Já - það sannarlega hægt að mjólka inn tekjurnar í ríkissjóð núna.


mbl.is Læknisþjónusta hækkar í verði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Þetta er það sem við höfum kosið yfir okkur aftur, aftur og aftur. Það er enginn sem segir að góðu gæjarnir eigi rétt á að ráða. Fólk átti allan tímann val og allan tímann voru nógu margir sem vildu frjálshyggjuna og fá hana þá að sjálfsögðu með kostum og göllum. Meirihluti fólks á Íslandi velur möguleikann á því að græða feitt sjálfur frekar en jöfnuð, þetta er bara eins og að spila í lottó, þú vilt frekar henda peningum í það og eiga möguleikann á að græða heldur en að safna bara saman peningnum, jafnvel þótt þú vitir að möguleikinn er ótrúlega lítill og það er eins og fólk fatti ekki að í Sjálfstæðisflokkslottóinu eru tölurnar valdar en ekki dregnar út af handahófi.

Glákan er aðallega í augum kjósenda

Sóley Björk Stefánsdóttir, 6.1.2009 kl. 12:15

2 Smámynd: Sævar Helgason

Er þetta ekki bara byrjunin á kreppunni ?  Gríðarlegar skuldir í kjölfar efnahagshrunsins eiga eftir að  mergsjúga allt þjóðfélagið- ekki síst velferðarmálin. Vonandi verða kosningar í vor og uppjör. Þá getur fólkið valið á milli  réttlætis í þjóðfélaginu og  sjálftökuliðsins sem ráðið hefur í landinu - vonandi.

Sævar Helgason, 6.1.2009 kl. 12:22

3 Smámynd: Ragnheiður

Gleðilegt ár Ólína mín

sko, ég horfði á þingið af miklum móð í desember og meðal annars umræður um þetta. Álfheiður margkom upp í stól og andmælti þessu kröftuglega. Ekki varð heldur annað ráðið af svörum ráðherra en að þetta ætti að miðast við sömu upphæð og slysadeildarkomugjald.

Álfheiður margskammaðist og notaði orðalag að það ætti að "seilast í vasa sjúklinga sem komnir væru á nærbuxurnar"

Allar þingumræður má sjá á vef alþingis og þar má rekja sig áfram með hvert það mál sem maður vill skoða.

Eigðu svo góðan dag

Ragnheiður , 6.1.2009 kl. 12:25

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Alveg sammála þér Ólína hvar var allt fólkið sem á að gæta hagsmuna okkar?  þetta er orðin einn hrærigrautur.  Annað hvort er stjórnarandstaðan á kafi í spillingunni eða að þau eru orðin svo þreytt á amstrinu að bitið er farið til fjandans.  Helvítis fokking fokk!!!

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.1.2009 kl. 12:26

5 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Algerlega sammála.  Það hefði þurft aðstanda vörð um þetta.   Álögur á sjúklinga hafa aukist jafnt og þétt. Þetta er ekki kerfi sem hugnast mér.

Hólmdís Hjartardóttir, 6.1.2009 kl. 12:35

6 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Maður vonar svo sannarlega núna að maður þurfi ekki á læknishjálp að halda! Heilbrigðisþjónustan er frekar orðin dýr. Þegar ég flutti hingað til Íslands fyrir rúmlega 25 árum var kostnaðurinn sjúklings talsvert minna og þá voru ekki sérstaklega feit ár. Nokkur dæmi: Ég þarf reglulega að nota exemkrem sem er frekar dýr. Í "gamla daga" fékk ég lyfjakort og borgaði ekkert, nú borga ég allt. Ég slasaði mig þá einu sinni á hendi, fór í aðgerð og þurfti á sjúkraþjálfun að halda. Ég fékk þá 10 tímar ókeypis. Núna borga ég sjálf góðan part af þessu, og til þess að kóróna þetta þá borga ég skatt af styrktarpeningum sem ég fær frá stéttarfélaginu.

Húrra fyrir einkavæðingar- ráðherra Guðlaugur Þór! Hvað skyldi detta honum næst í hug til þess að raða á mjóu bökin?

Úrsúla Jünemann, 6.1.2009 kl. 14:31

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég er mest að hugsa um hvernig brugðist verður við ef menn neita að borga.

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.1.2009 kl. 17:21

8 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Hvar var Samfylkingin?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 6.1.2009 kl. 18:40

9 identicon

Þannig er að fjölmiðlar eru á mála hjá tilteknum sjónarmiðum meðan önnur eiga ekki upp á pallborðið.

Hér má til dæmis lesa  það sem Ólína saknar úr andófinu og eða þá hlusta ef vill heldur

Umræðan um fjárlögin er hér ef fólk vill heyra hvað stjórnarandstaðn hafði til málanna að leggja .

Ólína, þú getur verið alveg viss um að stjórnarandstaðan er með sitt innlegg í hverju máli en þú getur ekki treyst því að það sé sagt frá því af þeim sem það ættu að gera.  

101 (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 18:45

10 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Það kann að vera að stjórnarandstaðan hafi gert sitt ýtrasta en fjölmiðlar bara ekki sagt frá því. Það er ekki alveg sanngjarnt að segja um Álfheiði "hún vissi en lét sér fátt um finnast" . Nær væri að tala um þingmenn almennt og því hefð ég breytt setningunni - enda vil ég ekki gera neinum rangt til.

Staðreyndin er sú eftir sem áður að það var engin umræða um þetta úti í samfélaginu - eins og ég bendi á í minni færslu - og ekkert frá þessu sagt fyrr en allir stóðu frammi fyrir orðnum hlut.  Á sama tíma hamaðist stjórnarandstaðan á ríkisstjórninni fyrir innbyrðis samskipti með upphrópunum um að hún væri óstarfhæf o.s.frv. Mér sýnist stjórnarandstaðan sjálf hafa verið hálf óstarfhæf upp á síðkastið.

Þið leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál, en ég hef ekki séð eina einustu blaðagrein eða bloggfærslu frá þingmanni um þetta sjúkrahúsgjald - ef undan er skilið viðtalið við Álfheiði eftir að hækkunin tók gildi. 

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 6.1.2009 kl. 18:55

11 identicon

Í umræðum á alþingi kom fram að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin ætluðu að láta sjúklinga greið komugjöld á sjúkrahúsin og kom fram að þau ættu að vera um 4000 krónur. Þetta kallaði stjórnarandstaðan að "selja inn á spítalana".

Svo var það ákvörðun heilbrigðisráðherra að hafa gjaldið 50% hærra en þinginu var sagt og það var ekki í takt við fyrri umræðu.   

Þess vegna var ekki hægt að tjá sig um þá tölu fyrr en eftir að hún hafði verið ákveðin.

Minni svo enn og aftur á ábyrgð fjölmiðla um upplýsta umræðu í stað  umræðustýringu. 

101 (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 19:14

12 Smámynd: Sigrún Óskars

Ég er alfarið á móti þessu gjaldi. Sá sem borgar 6000 kallinn getur ekki átt að borga öll rannsóknargjöld líka. Þetta var bara sett á, án þess að kynna þetta fyrir fólki - enn einn skatturinn.

Sigrún Óskars, 6.1.2009 kl. 19:32

13 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Látum þá heyra það Ólína.    Þetta er aldeilis skelfilegt - og ´ægileg mistök hjá sveitarstjórnarmönnum að semja sig og heimmenn og nándarsamfélagið frá öllum áhrifum á stjórn og skipulag heilbrigismála.

Breytingarnar í stjórnun heilbrigðismálanna hafa allar gengið út á að "verktakavæða" sjúkrahúsin og efla duttlungavald og miðstýringu frá heilbrigðisráðurneytinu.     

Skoðum bara lögin. (hér)

Við verðum að stíga til baka og endurvekja nándarstjórnun heilbrigðismálanna

Svo er grundvallaratriði auðvitað að við viljum greiða skatta á meðan við erum frísk og fullvinnandi - og eigum síðan að geta notið heilbrigðisþjónustu án gjaldtöku þegar við verðum gömul og veik.   Princip velferðarríkisins!

Og bloggið mitt: http://blogg.visir.is/bensi/2009/01/03/gjaldtaka-a-spitulum-og-f%c3%a6%c3%b0isgjold-hva%c3%b0-er-a%c3%b0-%c3%beingmonnum-samfylkingarinnar/ 

Benedikt Sigurðarson, 6.1.2009 kl. 19:59

14 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Kreppan kemur af völdum stjórnvalda, ekki af völdum alheimskreppunnar. Ríkið er farið að þreyfa fjarska langt niður í vasa almúgans. Það sem ríkisvaldið ekki veit, er að það eru göt á öllum vösum og þeir allir þegar tómir. 

Að alþingismenn segist ekki "hafa vitað að þetta yrði svona hátt" lýsir fádæma GRUNNHYGGNI og AFGLAPAHÆTTI. Kann þetta fólk sér engin mörk? 

Ég segi það og stend við það: Ég vil fá utanþingsstjórn. Setta af forseta Íslands þar sem hann situr í forsæti. Að í utanþingsstjórninni siti bæði Íslendingar og útlendingar; þeir bestu í sinni grein. Þessi stjórn sitji í tvö ár og verði sá tími nýttur til að finna heiðarlegt, sjálfrátt og klókt fólk sem myndi stjórnmálahreyfingar. Síðan verði kosið að tveimur árum liðnum.  Þingmönnum verði fækkað í 43 og þingmenn fái ekki að vera ráðherrar.  Greinum að löggjafarvald og framkvæmdarvald.

Baldur Gautur Baldursson, 6.1.2009 kl. 20:41

15 identicon

Mér sýnist séra Baldur ekki átta sig á hvernig þetta gekk fyrir sig. 

Meirhluti þingsins ákvað að setja komugjald á sjúkrahúsin og dugðu mótmæli stjórnarandstöðu ekki til að koma í veg fyrir það.

Í umræðum á þingi töluðu stjórnarliðar að það yrði "ekki nema 4000 krónur."

Gjaldtakan var samþykkt en það var heilbrigðisráðherrans á ákveða upphæðina sem varð 6000 krónur og kom sú tala mönnum í opna skjöldu, jafnvel stjórnarliðum.

Það er fráleitt að tala um afglapahátt í nokkrum manni vegna þessa. Þetta lá allt fyrir nema þetta óvænta útspil ráðherrans.  Og um það vissi enginn nema hann fyrr en eftirá. 

PS. Svo held ég að ekki megi skipa erlenda ríkisborgara til setu í ríkisstjórn Íslands  og þingið getur aldrei orðið öðruvísi en þverskurður þjóðarinnar hvernig svo sem við förum að því að velja það.

101 (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 21:08

16 identicon

Ætli stjórnarandstaðan, ASÍ og almennir stjórnarþingmenn hafi bara ekki verið að lesa jólabækurnar eins og aðrir. Til hvers að vera að lesa löng og leiðinleg lagafrumvörp þegar heilu bókastæðurnar eftir Arnald, Hallgrím, Guðmund Andra og fleiri bíða. Maður verður að hafa eitthvað að segja í kaffinu í Þinginu - lítið gaman að ræða einhver kreppufrumvörp í lögboðnum matartímum.

Fyrir hvað stendur ASÍ annars : Alveg Sama um Íslendinga.

Gleymdi að óska flokkunum til hamingju með jólagjöfina - hækkun á framlaginu til sín úr 300 m.kr. í 370 m.kr.

TH (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 23:38

17 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Mig langar aðeins að svara 101 hér. Hann nefnir réttilega að upphæðin á innlagnargjaldinu hafi hækkað um 50% frá því málið var rætt í þinginu.

Þó þetta sé nú nógu slæmt, þá er það ekki aðal atriði. Hér er verið að taka ákvörðun um grundvallarbreytingu á heilbrigðisþjónustunni, nefnilega að sjúkt fólk sem leggst inn á sjúkrahús skuli greiða fyrir það. Þetta hefur aldrei tíðkast í okkar landi fyrr. Þetta tíðkast mér vitanlega hvergi á Norðurlöndunum. Í Danmörku greiðir maður aðeins fyrir komu til heimilislæknis. Ef hann vísar manni áfram til sérfræðings eða frekari rannsókna er það  ókeypis á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar. Danir þekkja nefnilega hugtakið velferðarsamfélag. Það hugtak er Íslendingum augljóslega framandi - jafnvel þeim sem kenna sig við jafnaðarmennsku.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 6.1.2009 kl. 23:47

18 identicon

Einmitt, Ólína. Þetta var grundvallarbreyting á heilbrigðisþjónustunni.  Það var það sem stjórnarandstaðan var að andmæla og kallaði að nú ætti "að selja inn á spítalana."

Heilbrigðisþjónusta á Norðurlöndunum hefur til þessa verið innifalin í sköttunum nema hvað sænska hægristjórnin byrjaði fyrir skömmu að rukka svona skatt á sjúklinga  og okkar hægri stjórn hefur tekið það upp eftir henni. 

Og rétt er það. Það eru ekki jafnaðarmenn við stjórnvölinn í Svíþjóð og maður setur spurningarmerki við Ísland.

Upphaflegt innlegg mitt í þessa umræðu var vegna hjóðsyrða í stjórnarandstöðuna sem mér fundust ekki réttmæt eins og ég hef rakið hér að ofan.

Með kveðju vestur úr 101 Reykjavík

G

101 (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 00:19

19 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Það var vitað að þetta yrði stefnan þegar Guðlaugur Þórðarson fékk lyklana að heilbrigðisráðuneytinu. Drengurinn er rétt skriðinn upp úr stuttbuxnadeildinni og við vitum nákvæmlega hvaða stefna er rekin á þeim bænum. Ef hann fær að sitja þarna út kjörtímabilið eigum við eftir að sjá fleiri svona gjörninga. Og samfylkingin, ja ég veit ekki hvað á að segja um hana, einhver sagði að ef framsókn var hækja, þá er samfylkingin skækja sjálfstæðismanna.

Gísli Sigurðsson, 7.1.2009 kl. 00:24

20 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

101 - stjórnarandstaðan  (og hugsanlega einnig fjölmiðlar) brást almenningi í þessu máli, hvað svo sem segja má um stjórnarþingmenn. Stjórnarandstöðunni hefur yfirleitt tekist ágætlega að komast að í fjölmiðlum hafi þeim þótt ástæða til.

Af einhverjum ástæðum komu þeir sér ekki að við fjölmiðla í þessu máli - og enginn þeirra vakti máls á þessu úti í samfélaginu með blaðagrein eða bloggi. Sama á við um Verkalýðshreyfinguna.

Maður á að gagnrýna það sem er gagnrýni vert - hvorki stjórnarandstaðan né launþegahreyfingin eru hafnar yfir gagnrýni, ekkert frekar en ríkisstjórnin. Allir þessir aðilar bera ábyrgð.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.1.2009 kl. 10:22

21 identicon

Hvað sagði Ragheiður Ásta og Jóhanna Sigurðardóttir þegar greidd voru atkvæði um þessar breytingar? Það er ekki skrítið að Framsóknaflokkurinn hefur haldið því fram að þess vegna vildi Sjálstæðisflokkur frekar Samfylkingu því að þá gætu þeir gert hvað sem er í HEILBRIGÐISKERFINU.

Guðrún Hlín (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 18:33

22 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Já Guðrún Hlín - það er líka góð spurning. Enda spyr ég í færslu minni: "Hvar voru þingmenn Samfylkingarinnar?"

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.1.2009 kl. 19:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband