Samvinna eða samkeppni - gæði eða magn!
28.12.2008 | 22:33
Í kvöld hlustaði ég á Pál Skúlason heimspeking og fyrrum Háskólarektor í samtali við Evu Maríu (hér). Honum mæltist vel að venju og ósjálfrátt varð mér hugsað til þess tíma þegar ég sat hjá honum í heimspekinni í den. Það voru skemmtilegir tímar, miklar samræður og pælingar, og eiginlega má segja að þar hafi ég hlotið mína gagnlegustu menntun.
Heimspekin kennir manni nefnilega að hugsa - hún krefur mann um ákveðna hugsunaraðferð sem hefur svo sárlega vantað undanfarna áratugi. Það er hin gagnrýna hugsun í bestu merkingu orðsins gagn-rýni.
Mér þótti vænt um að heyra þennan fyrrverandi læriföður minn tala um gildi samvinnu og samhjálpar. Þessi gildi hafa gleymst á meðan skefjalaus samkeppni hefur verið nánast boðorð meðal þeirra sem fjallað hafa um landsins gagn og nauðsynjar hin síðari ár. Lítil þjóð þarf á því að halda að sýna samheldni og samvinnu - menn verða að kunna að deila með sér, eiga eitthvað saman. Þetta er eitt það fyrsta sem börn þurfa að læra, eigi þau að geta verið með öðrum börnum. Samvinnuhugsunin hefur hins vegar átt mjög undir högg að sækja hin síðari ár - og það er skaði.
Samkeppni og önnur markaðslögmál geta auðvitað átt rétt á sér - eins og Páll benti á - en það má ekki yfirfæra þau á öll svið mannlegra samskipta. Samkeppni getur í vissum tilvikum komið niður á mannúð og gæðum þar sem þörf er annarra sjónarmiða en markaðarins. Hún getur til dæmis orðið til ills í skólastarfi, innan heilbrigðiskerfisins eða í velferðarþjónustunni. Og þó svo að þetta virðist sjálfsagðir hlutir, þá þarf stöðugt að minna á þá - það sýnir reynslan.
Lítum til dæmis á endurskipulagningu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu. Hefur hún ekki einmitt tekið mið af hagræðingu, samruna, stækkun og samlegðaráhrifum líkt og gert er við framleiðslufyrirtæki? Mér hefur sýnst það - þegar nær hefði verið að taka mið af því að starfsemi sjúkrahúsanna er í eðli sínu heilbrigðisþjónusta. Og það gilda önnur lögmál um þjónustu en framleiðslu.
Í framhaldsskólakerfinu hafa fjárframlög til skólanna miðast við fjölda þeirra nemenda sem þreyta próf um leið og áhersla hefur verið lögð á að stytta námstíma þeirra til stúdentsprófs. Fyrir vikið hafa skólar keppst um að fá til sín sem flesta nemendur og útskrifa þá á sem skemmstum tíma. Slík framleiðsluhugsun getur átt fullan rétt á sér í kjúklingabúi, en hún á ekki rétt á sér þar sem verið er að mennta ungt fólk og búa það undir lífið.
Já, það vöknuðu ýmsar hugleiðingar við að hlusta á tal þeirra Páls Skúlasonar og Evu Maríu í kvöld. Hafi þau bestu þakkir fyrir þennan góða viðtalsþátt.
PS: Ummæli Páls um landráð af gáleysi eru líklega gagnorðasta lýsingin á því sem gerðist á Mikjálsmessu þann 29. september síðastliðinn.
Meginflokkur: Sjónvarp | Aukaflokkar: Menntun og skóli, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 29.12.2008 kl. 02:14 | Facebook
Athugasemdir
Tókstu eftir því að hann sakaði landstjórnarmenn um landráð af gáleysi, en landráð engu að síður því ekki væri hægt að skjóta sér undan ábyrgð með því að bera fyrir sig andvaraleysi eins og hann orðaði það.
Sigurður Þórðarson, 28.12.2008 kl. 22:46
Páll Skúlason var í senn harður í afstöðu en mildur í orðum.
Stjórnmálamenn sem bregðast landi og þjóð af gáleysi en víkja ekki úr sessi eru ekki heiðarlegir.
Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 02:11
Ég var nú hálffúl yfir að hann skildi tala um heiðarlega stjórnmálamenn. Vissulega eru þeir til en alltof margir hafa látið heiðarleikann fara lönd og leið. Landráð eru alvarlegur hlutur en ef þið lesið lögin og skilgreiningu á landráðum má sjá að ýmsir hafa gerst sekir um landráð.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 29.12.2008 kl. 02:14
Ég veit ekki alveg hvort ég á að skrifa þessa athugasemd aftur - e.t.v.hefur hún fallið út fyrir mistök. Mér fannst viðtal Evu Maríu og Páls alveg ágætt að flestu leyti en mikið finnst mér skrif þín um viðtalið ræfilsleg og taka í engu á því meginmáli sem allt snýst um - þjóðin er gjaldþrota og það hafa verið framin landráð. Að samvinnuhugsjónin geti verið skynsamlegur kostur er síðari tíma vandamál. Þið þessar leiðandi persónur í þjóðlífinu sem skiptið máli (það skiptir engu hvað fíflið ég hér norður í Skagafirði segi!) en þið snúist um málið eins og köttur um heitan graut, skammist í aukaleikurunum en gangið ekki feti framar. Ég enda þessa færslu eins og þá sem hvarf á að spyrja: Ertu að fara í framboð?
Ragnar Eiríksson
Ragnar Eiríksson, 29.12.2008 kl. 06:18
Sæll Ragnar.
Fyrri athugasemd þín féll ekki út fyrir slysni - ég tók hana út. Hún var einfaldlega þannig fram sett að ég vildi ekki hafa hana inni - enda hef ég marg beðið þá sem hér skrifa athugasemdir að halda sig við málefni og forðast meiðandi fullyrðingar um einstaklinga, hópa og lífsskoðanir (sjá hér). Þessi síðari athugasemd þín er lítið skárri en þó aðeins.
Ekki veit ég hvað þú átt við með því að "við" þessar "leiðandi persónur í þjóðlífinu" snúumst um málið eins og köttur í kringum heitan graut. Ég lít í fyrsta lagi ekki á mig sem leiðandi persónu, en þakka samt hólið. Í öðru lagi hef ég komið mér beint að þeim umræðuefnum sem ég hef blandað mér í hingað til og veit ekki hvernig þú skilgreinir aðal- og aukaleikara í því sambandi. Sjálf lít ég á mig sem algjöra aukapersónu að öðru leyti en því að ég hef mig frammi í umræðunni. Vona að þú áfellist mig ekki fyrir það.
Varðandi ítrekaða spurningu þína um það hvort ég sé að fara í framboð þá get ég bara engu svarað um það. Ég hef ekki verið að hugsa á þeim nótum, en margir hafa spurt mig að undanförnu. Sjálf er ég nógu lífsreynd til að vita að maður á aldrei að þvertaka fyrir nokkurn hlut í lífinu, því enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Ég verð Þó að viðurkenna að framboð fyrir flokk í stjórnarsamstarfi er þó ekki árennileg tilhugsun við núverandi aðstæður.
Hafðu það svo sem best og njóttu hátíðanna.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 29.12.2008 kl. 12:20
Sæl!
Ég vissi ekki að hægt væri að taka færslu svona alveg út - ein stúlkan með fallega orðfærið sagði mig fávita sem ekki ynni að setja inn bloggað sjá ekki að færsla sem ég skrifaði en hvarf hefði aldrei komið inn en hún skyldi sýna fávitanum á blogginu sínu! Það gerði hún og eftir stóð að þar stóð "færsla tekin út af bloggara".
Að ég hafi verið meiðandi má vera - fannst þér hrunið ekkert meiðandi? En náttúrulega "má ekki persónugera" hrunið eða vandann. Það sneiddi Páll óbeint hjá en hann sagði "landráð af gáleysi eru líka landráð" og nokkru seinna "Þeir sem voru við stjórnvölinn verða að axla ábyrgð og fara frá því þjóðin treystir þeim ekki." Þessar tvær tilvitnanir lesnar í samhengi segja það sem þú vilt ekki láta segja en í raun átti Lögreglan að fara strax eftir hrunið og handtaka landráðamennina - en gerði það ekki! Ég sagði þetta strax og nú hefur fyrrverandi háskólarektor komið með þetta fram. Spurningin er hvort ríkisstjórnin treystir sér að sitja undir þessum ásökunum eða hvort þær virka eins og vatni sé skvett á gæs? Það er spurning um siðferði - eða skort á því sama!
Auðvitað ertu þekkt og hefur komið víða við - meira að segja ég sem aldrei horfi á sjónvarp þekki þig!. Framboðsspurningin kemur sem framhald - "þá má ekki rugga bátnum". Farirðu fram óska ég þér góðs gengis og komistu á þing eru samvinnuhugsjónirnar a la Sigurður frá Ystafelli góðar að hafa í farteskinu!
Ragnar Eiríksson
Ragnar Eiríksson, 29.12.2008 kl. 13:09
Er á smá jóla/áramóta yfirreið að lesa hjá ykkur öllum, hafðu það ávallt sem best kæri bloggvinur
Ásdís Sigurðardóttir, 29.12.2008 kl. 13:11
Vel mælt Ólína!
Baldur Gautur Baldursson, 29.12.2008 kl. 13:12
Mér þætti betra ef þeir sem gera athugasemdir hér létu nægja að tjá sínar eigin skoðanir frekar en að gera öðrum upp hugsanir og afstöðu, líkt og mér finnst Ragnar gera hér ofar.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 29.12.2008 kl. 14:13
Ólína hún er ekki í boði,
enda þótt hún það skoði,
í pólitíkinni ógnar óhroði,
er þar sem hundur á roði.
Þorsteinn Briem, 29.12.2008 kl. 15:03
Páll Skúlason veit sínu viti, svo er víst. En þegar talað er um það að þeir sem stjórna eigi að axla ábyrgð (sem er ágætt eins langt og það nær) verður fólk aðeins að hugsa lengra. Hver á að taka við stjórn landsins? Stjórnarandstaðan? Eða valinkunnir sómamenn og konur? Hver á að velja það fólk? Eiginlega virðist vera lítið sem ekkert traust á stjórnmálamönnum í dag, nánast í öllum flokkum. Þess vegna eru kosningar málið, bara ekki strax. Fáum fyrst tíma til að undirbúa, stofna nýja flokka eða velja nýtt fólk á lista.
Íslendingar virðast vera nokkuð vel gefið fólk upp til hópa. Þá tilfinningu fær maður m.a. á að lesa bloggskrifin. Fólk hefur aldeilis bent á "hvað við erum í miklum skít", ekki að ósekju. Í því ljósi óska ég sérstaklega eftir því að fólk komi með tillögur til lausna, en bara bendi ekki á það sem aflaga hefur farið eða bendi á sökudólga. Því þeir eru líklega miklu fleiri en fólk nefnir dagsdaglega. Kannski meirihluti þjóðarinnar sem kaus sína Flokka nánast alveg sama þrátt fyrir mörg aðvörunarorðin, ja alveg frá kosningum 1999, 2003 og jafnvel 2007. Og fólk tók virkilegan þátt í "góðærinu". Ekki allir, enda höfðu ekki allir efni á! Því miður lendir það fólk oft verst úti.
Ágæta fólk, hvað eigum t.d. að gera í atvinnumálum, fiskveiðistjórnunarmálinu, utanríkismálum (þám. ESB), skattamálum, velferðarmálum osfrv. Í raun er mikið tækifæri í dag að stokka upp úrelt og vonlaus spillingarkerfi sem voru hönnuð fyrir fáeina flokksdindla og annarra jábræðra. Tækifærið er í dag.
Gísli (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 15:14
Gísli. Hér hjá Ólínu hefur verið fjallað í mörgum færslum og athugasemdum um "hvað eigum t.d. að gera í atvinnumálum, fiskveiðistjórnunarmálinu, utanríkismálum (þám. ESB), skattamálum, velferðarmálum osfrv."
Þorsteinn Briem, 29.12.2008 kl. 15:32
Alveg rétt, Steini. Hún hefur fjallað um það ítarlega. Athugasemdinni var fremur beint til þeirra sem koma með athugasemdir eins og andans mannsins Ragnars hér að ofan.
En nú sem aldrei fyrr ríður á að við bendum á lausnir fremur en að vera með niðurrifsstarfsemi. Sjálfur var ég mikið með niðurrifstóninn þar sem ég trúði aldrei á íslenska viðskiptamódelið, peningamálastefnuna né "góðærið". Nú þegar þetta er allt sprungið hefur það enga þýðingu lengur, nema vegna sagnfræðinnar og þá til að læra af.
Þetta er bara einhverjir útrásarvíkingar. Þetta er efnahagsstefna sem hlaut að enda með gjaldþroti. Eins og ég benti á að meirihluti kjósenda kaus yfir sig þessa stefnu. Það fólk verður kannski fyrst að horfast í augu við það áður en bent er á sökudólga. Dæmi: Hver hafði áhyggjur af "ástandinu" frá ca. 2002 til 2006? Mjög fáir hér á landi og þeir sem höfðu það voru taldir vitlausir, neikvæðir eða bara öfundsjúkir. Af hverju var ekki hlustað á þetta fólk fyrr ? Kom það kannski þjóðarstoltinu við afþví að m.a. Danir gagnrýndu okkur? Þetta er líka eitthvað sem þarf að rannsaka !
Gísli (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 16:12
Virkilega gott viðtal við Pál. En skildi mig eftir með þá spurningu. Hvers vegna hóf hann ekki upp rausn sína fyrr?. Ekki skorti hann tækifærin.
itg (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 16:26
Afsakið nokkrar fljótfærnisvitleysur hér að ofan. En punkturinn er sá að við verðum að læra það, á hverjum skuli taka mark á. Ekki einhverja vinsældagosa eða "skemmtikrafta" í pólitík afþví að þeir hafa svo mikinn "kjörþokka". Við eigum í auknum mæli að hlusta á hagfræðinga eins og Gylfa Magnússon (þekki hann ekkert) sem veit sínu viti í því fagi.
Einnig er það rannsóknarefni að sá ágæti maður Geir H. Haarde, vel menntaður hagfræðingur, skildi hafa tekið þátt í þessu öllu, varið þetta og jafnvel gagnrýnt þá sem vöruðu við. Vissi hann ekki betur eða þorði hann ekki segja sannleikann? Ég veit hreinlega ekki hvort er verra.
Smá útúrdúr, verð á jákvæðu nótunum næst.
Gísli (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 16:33
Kynlegan hafa kjörþokka,
og kostulega lofa óþokka,
stóreigna alla stórbokka,
í stuttbuxum drengi lokka.
Þorsteinn Briem, 29.12.2008 kl. 17:20
Brilljant vísa Steini. Tví-, þrí ef ekki margræðin !
Gísli (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 18:25
Ég geri hvorki Páli eða þér upp skoðanir - Það sem Páll sagði var augljóst og þó ágætt sé að huga að hvernig á að byggja upp þá er niðurrifið nauðsynlegt áður en endurbygging getur hafist. Að engir geti stjórnað nema núverandi stjórnvöld er bábilja þeirra sjálfra. Það má kjósa í apríl-maí og þá verða örugglega mörg ný framboð komin fram - en þau fá auðvitað ekki auglýsingafé frá ríkinu eins og gömlu samtryggingarflokkarnir. Það er ekki eins og þetta sé einhver venjuleg staða - þá væri ekki vandi að stjórnin sæti eitthvað áfram - en að hægt skuli vera að nefna landráð og stjórnvöld í sömu andránni hlýtur að hringja einhverjum bjöllum! Og það berast sífellt fregnir af sporum sem eru að hverfa í sandinn af því ekkert er rannsakað og engum steini velt við! "Það má ekki persónugera hlutina" er sagt! Það verður að byrja á réttum enda og alla vega mér finnst að það megi ekki dragast! Svo má fara að huga að lausnunum og þær verða sjálfsagt jafn margar mönnunum sem þær bera fram!
Það er fallegt að kalla mig "andans mann" - önnur og verri uppnefni hefi ég fengið þó tónninn hér sé e.t.v. blendinn! Ég vil hins vegar segja sannleikann en ekki endalaust að þegja yfir honum af tillitssemi eða hræðslu! Það gildir ekki að alltaf megi satt kyrrt liggja!
Ragnar Eiríksson, 29.12.2008 kl. 18:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.