Hreiður í jólatrénu

Ljosbrigdi-AgustAtlason Það er undarlegt að hugsa um storm í aðsigi þegar horft er á svarblátt lognið á pollinum fyrir utan gluggann minn - en þannig er lífið, ekki allt sem sýnist.

 Tréð er komið nýhöggvið inn á stofugólf - það var nú bara tekið úr garðinum að þessu sinni þar sem því var ofaukið. Fallegasta tré.

En þar sem við vorum að stilla því upp á sínum stað tókum við eftir haganlega gerðu hreiðri inni á milli greinanna, þétt við stofninn. Ég fékk sting í hjartað og hugsaði ósjálfrátt til fuglsins sem hefði lagt á sig erfiði við að útbúa þetta hreiður handa ungum sínum - af natni og dugnaði hefur hann tínt hvert einasta strá með litla gogginum sínum, fléttað og snúið í fallega körfu sem er svo bara orðin að jólaskrauti í stofunni hjá einhverju fólki.

Jæja - en hreiðrið verður látið kyrrt þar sem það er. Ég treysti því að í því leynist ekkert kvikt, flær eða annað álíka, því það hefur verið grimmdarfrost að undanförnu. En þetta er óneitanlega sérstakt og skemmtilegt jólaskraut - ekki síst í ljósi þess að ég hef alla tíð haft lítinn fugl á jólatrénu okkar. Ástæðan er saga sem fylgdi fallegu kvæði sem mamma söng oft fyrir okkur systurnar þegar við vorum litlar.  Læt það fljóta hér með að gamni:

Hér er bjart og hlýtt í kvöld,
helgi, ró og friður,
en mun þó engum ævin köld?
Ó, jú því er miður. 


Úti flýgur fuglinn minn
sem forðum söng í runni,
ekkert skjól á auminginn
og ekkert sætt í munni.

Frostið hart og hríðin köld
hug og orku lamar.
Æ, ef hann verður úti í kvöld
hann aldrei syngur framar.

Ljúfi Drottinn líttu á hann
og leyfðu að skíni sólin.
Láttu ekki aumingjann
eiga bágt um jólin.

 Þegar þarna var komið sögu sátum við systur tárvotar yfir örlögum litla fuglsins svo mamma bætti við farsælum sögulokum um opinn glugga, lítinn fugl sem flaug inn og settist á tréð þar sem hann gat nartað í nammið úr jólakörfunum (en í minni bernsku voru alltaf settar fallegar jólakörfur og kramarhús á tréð með litlum súkkulaðimolum).

Ég get bætt því við mína útgáfu sögunnar að hann hafi haft lítið hreiður að hlýja sér í - og því til sönnunar hef ég þessa mynd að sýna barnabörnunum.

P1000650 (Medium)

----------------------------- 

PS: Kvæðið mun vera eftir Sigurð J. Jóhannesson en ég hef þó hvergi rekist á fyrstu og síðustu vísurnar á prenti.


mbl.is Stormi spáð um landið sunnan- og vestanvert annað kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magdalena Sigurðardóttir

Þetta með hreiðrið er svona eins og í kvikmyndinni "Christmas Vacation" hahahaha ég sé pabba fyrir mér í anda að drösla trénu upp með hreiðrinu í!

Magdalena Sigurðardóttir, 22.12.2008 kl. 10:51

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Gaman að fá tréð úr eigin garði  Hreiðrið fallegt....myndi samt úða það aðeins (með þú veist..)

Gleðileg jól Ólína mín til þín og þinna

Sigrún Jónsdóttir, 22.12.2008 kl. 11:28

3 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Fallegt ljóð, var til lag við þetta ljóð? 

Ía Jóhannsdóttir, 22.12.2008 kl. 11:39

4 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Já auðvitað þar sem móðir þín sng þetta fyrir ykkur hvernig læt ég heheh

Ía Jóhannsdóttir, 22.12.2008 kl. 11:40

5 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ólína ég hef fengið jólatré með hreiðri..........þú verður að úða það með eitri því flærnar fara á stjá! En mér fannst gaman að hafa hreiður og keypti fallega fugla í það

Hólmdís Hjartardóttir, 22.12.2008 kl. 12:19

6 identicon

Mörg kvæði eru til á http://www.mbl.is/mm/mogginn/ljodabanki.html kv. gb

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 13:35

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Með láni krummi laup sér bjó,
í laglega trénu í garði við sjó,
en Þröstur niður það nú hjó,
með þúsund þar og einni fló.

Þorsteinn Briem, 22.12.2008 kl. 14:04

8 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það má líka setja lítil egg eða eftirmynd af eggjum. Þetta er góð tilbreyting frá kreppubloggi að lesa um fallega tréð með hreiðrinu. Gleðileg jól til allra sem lesa þessar línur.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 22.12.2008 kl. 20:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband