Hverjum ber að biðjast afsökunar?

orgerur_Katrn_Heia_jpg_550x400_q95"Við eigum að biðjast afsökunar" segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaraðherra í DV í dag (sjá hér) og er helst að skilja að "við" eigi við um ríkisstjórnina sem hafi ekki "gætt" sín og ekki "haldið vöku" sinni. Þið fyrirgefið, en þetta er full almennt orðað fyrir minn smekk.

Já, það er full vel sloppið verð ég að segja, ef ákveðnir ráðherrar sem persónulega bera siðferðilega (ekki bara pólitíska) ábyrgð geta svo bara beðist afsökunar sem hópverur, þ.e. sem hluti af ríkisstjórn, en ekki einstaklingar.

Byrjum á menntamálaráðherranum og skuldafyrirgreiðslunni sem starfsmenn Kaupþings fengu vegna kaupa á hlutabréfum - þ.á.m. Kristján Arason eiginmaður ráðherrans. Nú hefur Kauphöllin seint um síðir áminnt gamla Kaupþing fyrir það hvernig staðið var að málinu  (sjá hér). Hvað varð um ábyrgðina á 500 milljónunum sem hann (þau hjónin?) tók(u) að láni til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi í gegnum einkahlutafélagið sem stofnað var í febrúar eða mars? 

Hvaða áhrif hefur þetta á siðferðilega stöðu menntamálaráðherrans? Hún upplýsir það ekki - enda ekki spurð. Og eftir síðustu uppákomur af ritstjórnarmálum DV er ég satt að segja ekkert sérlega hissa þó henni sé hlíft við að svara því. Enda í sjálfu sér ekki auðvelt að gera slíkt í sama viðtalinu og hún tjáir sig um alvarleg veikindi dóttur sinnar.

Já, það gæti komið sér vel fyrir menntamálaráðherrann að geta í skjóli ríkisstjórnarinnar runnið inn í einhverskonar hópafsökun - og málið dautt.  Að þurfa ekki að standa skil á einu eða  neinu sem tengist hennar persónulegu fjármálum. Óneitanlega væri það þægilegra fyrir ráðherrann. Angry

 

----

PS: Af gefnu tilefni árétta ég að ég mun ekki hika við að henda út ómálefnalegum athugasemdum séu þær meiðandi eða særandi fyrir fólk og/eða lífsskoðanir þess sbr. fyrri bloggfærslu mína um það efni (sjá hér).

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ásdís Sigurðardóttir, 19.12.2008 kl. 12:35

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ekki voru liðnar margar mínútur frá því þessi færsla fór inn, þar til komin var athugasemd sem var svo ómálefnaleg og yfirgengileg að ég sá ástæðu til að taka hana út. Í öllum bænum, engin uppnefni, engar niðrandi samlíkingar.

Gerið það fyrir mig haldið ykkur við málefnið eins og það kemur fyrir.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.12.2008 kl. 12:52

3 Smámynd: Kjartan Pálmarsson

Við ráðherra ríkisstjórnar þessa lands vil ég segja:  Fyrirgefið mér að ég skuli vera til !

Og við þig Ólína vil ég segja: Fyrirgefðu mér að ég skuli ekki vera ráðherra!

Kjartan Pálmarsson, 19.12.2008 kl. 13:44

4 identicon

Hárrétt hjá þér, Ólína.  Eiginlega ætti Þorgerður að segja af sér.  Hún er óneitanlega tengd fjármálahneyksli vegna mannsins hennar sem vinnur í banka sem hreinlega strokaði út skuldir lykilstarfsmanna, (ég vil líka frá námslánin mín, bílalánið, húsnæðislánið og yfirdráttarlánið mitt strykað út).  Í öðrum löndum þurfa ráðherrar að segja af sé af minna tilefni.  Man einhver eftir Mona Sahlin í Svíþjóð út af Tobelroninu sem hún keypti út á kreditkort ráðuneytis hennar?

Hvaða ritstjórnarstefna er þetta nú hjá DV?  Tvö drottningar- og samúðarviðtöl við ráðherra (og eina forsetafrú), fyrst við Dorrit Moussajeff, en svo við Ingibjörgu Sólrúnu, og loks við Þorgerði Katrínu.  Ekki fá Davíð Oddsson, Björn Bjarnason, Valgerður Sverrisdóttir eða Sif Friðleifsdóttir svona drottningarviðtöl.

Ætlaði ekki DV að fjalla um upprisu og fall útrásarvíkinganna á upplýsandi og hátt?   Það eina sem kom út úr því var hálf-mærandi umfjöllun um Hannes Smárason. 

Hvað með alla hina útrásarvíkinganna?  Var DV kannski bannað að gera það eftir hótanir frá "háttsettum" og "áhrifamiklu" mönnum úti í bæ?

Þetta sýnir nú bara trúverðugleikan hjá DV eða þá hitt þá heldur.  DV er ekkert annað en ómerkilegur og ótrúverðugur snepill.   

Pétur Pétursson (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 13:45

5 Smámynd: Snorri Gestsson

Er uppgjörið með samþykki jafnaðarmanna ? Skuldaeftirgjafir hljóta að fara í gegn með samþykki núverandi valdhafa og þeirra stuðningsmanna, eða hvað ? 

Snorri Gestsson, 19.12.2008 kl. 13:46

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hún Tóta nappaði Tóbleróni,
tittlingaskít af Jónssyni Jóni,
öfundin er ferleg hér á Fróni,
er flösku nú fær ókeypis róni.

Þorsteinn Briem, 19.12.2008 kl. 14:29

7 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Mér þykir leitt að heyra að þú fáir ruddalegar athugasemdir á bloggið. Það er ekki öllum gefið að tjá sig á viðeigandi hátt. Ég á erfitt með að skilja karakter menntamálaráðherra og fleiri í hennar röðum. Ósvífnin virðist vera algjör.

DO hélt fund með ráðherrum í byrjun febrúar um alvarlegt ástand bankanna. Tveim vikum seinna stofnuðu menntamálaráðherra og maður hennar nýja kennitölu og fluttu skuldir sínar vegna Kaupþings. Í mínum bókum eru þetta kölluð innherjaviðskipti.

Siðblinda ráðherrans er slík að hún horfir framan í þjóðina og segir "allt upp á borðið." Hluti Kaupþings í þessum viðskiptum er líka glæpsamlegur. Kaupþing brýtur á hluthöfum þegar stjórnendur samþykkja að færa skuldina úr persónulegri ábyrgð þeirra hjóna yfir á kennitölu sem býður verri veð á móti. Svona viðskipti fara eingöngu fram þar sem spilling er mikil.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 19.12.2008 kl. 15:39

8 Smámynd: Sævar Helgason

Mér finnst nú frekar óþægilegt að lesa svona hugleiðingu um afsökun frá menntamálaráðherra- þó finnst mér hún Þorgerður hin mætasta kona- fyrir utan pólitíkina. Enda af jafnaðarmönnum komin. Auðvitað verður það í aðdraganda kosninga sem þetta fólk fer á hnén og biður sér griða . Þá er það okkar að vega og meta hvern fyrir sig og skrifa uppá syndakvittun eður ei.  En eitt er ljóst hvað mig varðar- enginn fær mitt atkvæði eða frá mínu fólki - sem ætlar fram í gegnum prófkjör. Eftir það sem á undan er gengið og með efnahagshruninu- þá er prófkjör í mínum huga- spillingaráhætta hin mesta. Erfitt er að greina stjórnmálin og viðskiptalífið nú hvert frá öðru- þetta er eins og spaghettikássa. Og hver má taka það til sín og kíkja í eigin hug....

Þetta er svona það sem mér finnst.

Sævar Helgason, 19.12.2008 kl. 15:44

9 Smámynd: Offari

Ég skal biðjast afsökunar. Ég trúði þessum blekkingum, En sem betur fer féll ég ekki í freystinguna. Auðvitað á hver og einn að biðjast afsökunar á misgjörðum sínum, eignig á ríkisstjórnin að biðjast afsökunar á því að hafa mistekist að koma í veg fyrir hrunið. Þeir sem hylma yfir sín mistök virka samsekir á mig. Ef allir kæmu hreint fram tel ég að fljótlegra sé að rétta aftur úr kútnum.

Offari, 19.12.2008 kl. 16:21

10 identicon

Ef ég man rétt þá kom það fram þegar umræður um skuldaniðurfellingu hjá starfsmönnum Kaupþing fór sem hæst, að Kristján Arason væri ekki í þeim hópi. Hann hefði vissulega keypt hlutabréf, sem nú voru orðin verðlaus, og þannig tapað miklum peningum, en að þau hlutabréf hefðu verið keypt með eignum þeirra hjóna, m.a. frá handboltaárum hans, og því engin lán tekin.

Það virðist vera komið hálfgert skotleyfi á stjórnmálamenn, og löngu hætt að skipta máli hvað er satt og hvað ekki. Bara benda, hrópa og vera hneisklaður.

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 16:21

11 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Er komin einhver niðurstaða í mál þeirra hjóna vegna hlutabréfakaupa og ef þar er rétt sem Auður skrifar hér að ofan, þá finnst mér ekki við hæfi að tala um einhvað sakhæft athæfi þeirra hjóna. Hafi þau tekið lán þá er það ekki saknæmt í sjálfu sér og hvað þá ástæða afsagnar ÞKG. Komi við rannsókn eitthvað annað í ljós þá mun hún axla sína ábyrgð, það er ég viss um.

Það er vissulega mjög sorglegt að heyra um veikindi í fjölskyldu Þorgerðar og bið ég almættið um hjálp fyrir þeirra hönd.

Þorgerður Katrín er mikill stjórnmálamaður og það væri missir ef hún mundi láta af embætti. Þó hún sé ekki flokkssystir mín, þá sé ég hæfileika þegar þeir eru til staðar. Umræðan í samfélaginu núna er afskaplega óvægin og ég vona svo innilega að fólk fari aðeins að mýkjast. Þessi harka skilar okkur litlu nema ergelsi og pirrinigi.

Ég er sérlega ánægð með að þú skulir ekki líða meiðandi og særandi ummæli Ólína.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 19.12.2008 kl. 17:07

12 identicon

Takk fyrir rúgbrauðsuppskriftina í fyrri færslu. Ég er nú að þróa baksturinn í nýju brauðvélinni og ætla að láta það duga að sinni.

Það fara nú ábyggilega að meyrna eitthvað hjörtun hörðu hjá ýmsum þegar nær dregur jólum. Spurning er hvort einhverjir auðmennirnir eða nýríku bankamennirnir játi syndir sínar  og taki þátt í því að greiða reikningana sem streyma inn um lúgurnar núna hjá almúganum vegna fjármálaóreiðunnar sem þeir sameiginlega tóku þátt í að skapa.  Aldrey að gefa upp vonina.  Allt getur gerst á Fróni.

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 17:35

13 Smámynd: Offari

Jurgen hvað er athugavert við að trúa Þorgerði?  Erum við ekki of fljót að dæma ég er hrædur um að margt saklaust fólk verði dæmt meðan feluleikurinn fær að líðast.  Ég hef líka misst trú á það sem sagt er og ritað en ég vill ekki dæma fólk fyrir það að trúa því sem þeim er sagt.

Offari, 19.12.2008 kl. 17:36

14 identicon

Er það merki um gagnrýna hugsun að dæma fólk á sögusögnum, án þess að fram hafi komið haldbær gögn sem sýni saknæmt eða siðlaust athæfi?

Nenni annars ekki að elta ólar við að rökræða við teiknimyndapersónur sem koma fram undir dulnefni...!

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 18:03

15 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Auður - það eru engar sögusagnir að þau hjónin keyptu hlutabréf í Kaupþingi fyrir 500 mkr. Fram hefur komið að til þess tóku þau  lán hjá Kaupþingi  í gegum einkahlutafélag sem stofnað var í febrúar/mars. Þetta eru staðreyndir, ekki sögusagnir. Þetta kom fram á RÚV og því hefur mér vitanlega ekki verið mótmælt.

Spurningin er hinsvegar - hvað varð um sjálfskuldarábyrgðina? Hver skuldar núna þessar 500 mkr? Eru það þau hjónin eða félagið? Ef félagði verður gert gjaldþrota fer lánið þá með því - eru þau hjónin þá laus allra mála? Eða ...  spyr nú sá sem ekki veit  ... hefur skuldinni breytt á einhvern hátt? 

Þorgerður Katrín hefur engu svarað varðandi þetta. Hún hefur ekki svarað því hver beri ábyrgð á láninu og hvernig það verði greitt. Hún hefur ekki svarað neinu nákvæmlega um tilgang þessa einkafélags þeirra Kristjáns Arasonar og Þorgils Óttars Matthiesen. Hún talar utan um málið í það endalausa og segir "óþolandi" fyrir sig sem ráðherra að vera grunaða um eitthvað misjafnt, því það eigi allt að vera uppi á borðum. Samt gerir hún ekki hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli. Svarar ekki þeim spurningum sem brenna á öllum almenningi. Og fjölmiðlar halda henni ekki við efnið heldur.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.12.2008 kl. 18:28

16 Smámynd: Sigmar Ægir Björgvinsson

þarna fór ævisparnaður okkar hjóna 500 milljónir sagði þORGERÐUR Katrín í sjónvarpsfréttum.

Er lán sparnaður?

Laug Þorgerður Katrín?

Sigmar Ægir Björgvinsson, 19.12.2008 kl. 22:44

17 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Góð spurning. Henni hefur ekki verið svarað.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.12.2008 kl. 22:50

18 identicon

Það sem mér finnst athyglisverðast í þessu máli, er að hún var innherji á þessum tíma, þegar skuldirnar og hlutabréfin foru færð í einkahlutafélagið.

Samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti  telst sá tímabundinn innherji sem »býr yfir innherjaupplýsingum vegna eignaraðildar, starfs síns, stöðu eða skyldna«. Í kafla laganna um innherjasvik segir að innherja sé óheimilt að »afla eða ráðstafa fjármálagerningum með beinum eða óbeinum hætti, fyrir eigin reikning eða annarra, búi hann yfir innherjaupplýsingum«.

Ég  setti fram þessa bloggfærslu um málið  fyrir nokkru.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 23:06

19 identicon

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 23:29

20 Smámynd: Þórbergur Torfason

Þegar til alvörunnar kemur, rís upp einhverskonar múgsefjun. Hvers á Þorgerður Katrín að gjalda. Hún er bara dóttir föður síns og eiginkona fjármálabraskara ef taka má mark á hennar eigin orðum. Hún hefur þurft að vaka yfir veikindum barns síns. Hvaða foreldri hefur ekki þurft að taka þátt í því nema kannske togarasjómaður (eins og ég) sem var ekki á staðnum á réttum tíma. Aumlegasta ásýndin er þegar þáttakendur eru orðnir blórabögglar.

Þórbergur Torfason, 20.12.2008 kl. 00:22

21 Smámynd: Theódór Norðkvist

Það skiptir engu máli hvenær félag ráðherrahjónanna, 7 hægri efh, var stofnað. Hvort það var í febrúar eða kortéri fyrir hrun.

Tilgangurinn með stofnun félagsins var augljós: Að komast undan því að borga lán vegna hlutabréfakaupa, féllu þau í verði, með því að færa skuldirnar yfir á félag sem er sjálfstæður lögaðili sem hægt er að keyra í þrot.

Láta eigendurna (Kristján Arason, eiginmann Þorgerðar Katrínar og Þorgils Óttar Mathiesen, bróðir Árna Mathiesen fjármálaráðherra) komast undan skuldbindingum sínum með því að velta þeim yfir á skattgreiðendur, eða aðra viðskiptavini Kaupþings sem hefðu þurft að borga tapið með okurvöxtum, ef ekki hefði komið til hrunsins.

Theódór Norðkvist, 20.12.2008 kl. 01:17

22 identicon

Sæl Ólína.

Ég hef hvergi séð það svart á hvítu, að Þorgerður og Kristján hafi tekið 500 milljóna króna lán hjá Kaupþingi, í þeim tilgangi að kaupa hlutabréf í þeim sama banka. Þú hlítur að muna það Ólína, að Kristján Arason var um árabil atvinnumaður í handbolta. Og hann var enginn miðlungsmaður, heldur leikmaður í heimsklassa með há laun. Og ég trúi að hann hafi ávaxtað sitt pund vel frá byrjun.  Auk þess hefur Kristján verið í vellaunuðu starfi eftir að ferlinum lauk og það sama gildir um Þorgerði Katrínu.  Ég held að fólk af þeirra "caliber" sé ekki að tala um lán þegar þau ræða ævisparnað sinn með þessum hætti. Það er því ósmekklegt að mínu mati að gefa í skyn, að þessar 500 milljónir séu alfarið lán, eins  og Sigmar Ægir kýs að gera í sinni færslu og þú tekur undir með því að hæla honum fyrir "góða spurningu".

Sveinn hinn ungi fullyrðir að um innherjaviðskipti sé að ræða.  Samkvæmt fréttum sátu fundinn fræga í febrúar auk Davíðs, þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Geir Haarde og Árni Mathiesen. Eins og fram hefur komið í fréttum þagði Ingibjörg Sólrún þunnu hljóði yfir þeim upplýsingum sem fram komu á þessum fundi og sagði ekki einu sinni bankamálaráðherranum frá því að bankarnir væru í stórtjóni.  Fyrst að hún gat þagað hafa hinir ábyggilega getað það líka, enda er margt sem bendir til þess, að krataráðherrarnir séu lausmálli en hinir. Það er því ekki greindarlegt að gefa sér það að Þorgerður hafi verið innherji á þeim tíma.

Ég hef mikið og gott álit á þér Ólína og les bloggið þitt oft mér til ánægju. Verð þó að viðurkenna að mér finnst þú stundum nokkuð léttstíg og fljót á þér í gagnrýni á pólitízka andstæðinga. Mér finnst reyndar almennt séð, að Samfylkingarfólk sýni samstarfsflokknum í ríkisstjórn lítil heilindi og rítingsstungur í bakið  séu fulltíðar fyrir minn smekk. Og þá er ég bæði að tala um ráðherra flokksins og fótgönguliðana

Hvernig væri nú Ólína að taka aðeins til í sínum eigin pólitízka garði, áður en rokið er í garð nágrannans ?

Eða er þar allt í fínni rækt og ilgresi hvergi sjáanlegt ? Annað mátti skilja á grein Einars Más  í Mogganum í gær.

Með góðri kveðju,

Kári Lárusson

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 20.12.2008 kl. 01:47

23 identicon

Ég er, líkt og Kári, einn af þeim sem les þetta blogg oft mér til ánægju. Ástæðan er einfaldlega sú að hér er bloggað af einskæru hlutleisi, hreinskilni og heiðarleika. Það er mín skoðun - og er ég þó ekki kjósandi né aðdáandi samfylkingarinnar. Mér finnst einfaldlega að blogg Ólínu sé laust við alla flokkspólítík en get ekki varist þeirri hugsun að athugasemd Kára sé ekki af þeirri gerð.

Hvað varðar lántöku ÞKG til hlutabréfakaupa (ég set samasemmerki milli ráðherrans og maka) eru nokkrar staðreindir ljósar: (a) Hún fékk stórt lán til þeirra kaupa sem hún (b)flutti yfir í einkahlutaélag eftir fund í byrjun febrúar þar sem (c)alvarleg staða bankanna var fundarefnið. Á þessum fundi voru (d)samflokksmenn hennar þ.á.m. (e)bróðir annars stofnenda umrætts einkahlutafélags. Kunningjar hennar í bankanum afléttu síðan "persónulegri ábyrgð" þannig að  (f)lánið hvíldi eingöngu á einkahlutafélaginu. Það er alveg ljóst að hún var "innherji" samkvæmt skilningi laganna (sjá færslur Sveins h.U.) "Ég heimta allt uppá borðið í þessu máli" sagði hún. Hvers vegna leggur hún ekki allt á borðið? Enginn er í betri aðstöðu til þess en hún.

Mér finnst afskaplega ósanngjarnt að væna Ólínu um að vera "léttstíg og fljót á sér í gagnrýni á pólitíska andstæðinga" Hennar gagnrýni/skrif eiga ekkert skilt við flokkspólitík, enda minnist ég þess að hafa, á hennar bloggi, lesið gagnrýni á samfylkinguna sem aðra. Hún virðist líta sinn pólitíska garð sömu augum og garð nágrannans.

PS. Fyrir allnokru fullyrti maður við mig eð hægt væri að KAUPA sér viðtöl í ákveðnum helgarblöðum og einnig sjónvarpsþáttum. Skildi eitthvað vera til í því?

sigurvin (IP-tala skráð) 20.12.2008 kl. 04:14

24 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þrymur Sveinsson og Kári S. Lárusson: "Í framhaldi af þessum fréttum um endurskoðun KPMG og rannsókn fyrirtækisins á viðskiptum Glitnis fyrir bankahrunið finnst mér tímabært að rifja upp lögin um ráðherraábyrgð (HÉR), sérstaklega 2. gr.,  6. gr. og 7. gr. 

Hvernig stendur á því að viðskiptaráðherra vissi ekki af því að KPMG - sem sá um endurskoðun sumra stærstu hluthafa gamla Glitnis - hefði verið falin rannsóknin á viðskiptum bankans fyrir hrunið? Fyrirtækið hefur verið í þessari rannsókn í tvo mánuði."

http://olinathorv.blog.is/blog/olinathorv/entry/739609/

Í hvaða stjórnmálaflokki er viðskiptaráðherra?

Þorsteinn Briem, 20.12.2008 kl. 04:15

25 identicon

....... og þá datt inn athugasemd sem staðfestir mín orð, og það frá sjálfum SB - Ólína er hafin yfir flokkspólitík!

sigurvin (IP-tala skráð) 20.12.2008 kl. 04:30

26 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefur að sjálfsögðu ALLTAF vitað hvort hún er persónulega ábyrg fyrir lánum 7 hægri einkahlutafélags (ehf.) vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi, enda þótt hún haldi öðru fram í viðtali við fjölmiðla 4. nóvember síðastliðinn.

Lög um einkahlutafélög nr. 138/1994:

1. grein. Einkahlutafélag merkir félag samkvæmt lögum þessum þar sem enginn félagsmanna ber persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins."

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segir að ekki sé búið að gjaldfella skuldirnar vegna kaupa á hlutabréfunum í bankanum, þannig að ekki sé ljóst hvort 7 hægri taki skuldirnar eða hvort þau hjónin geri það persónulega.

http://www.visir.is/article/20081104/FRETTIR01/322236162

25.03.2008. "7 hægri [einkahlutafélag (ehf.)] ber það nánast með sér að vera fengið beint úr handboltanum en bæði Kristján [Arason] og Þorgils [Óttar Mathiesen] eru meðal bestu handknattleiksmanna sögunnar. Þeir léku báðir með margföldu Íslandsmeistaraliði FH og svo með landsliðinu undir stjórn Bogdans.

Kristján vildi lítið tjá sig um fyrirtækið sjálft, sagði þetta vera svona "prívat" eignarhaldsfélag sem væri staðsett í heimabænum Hafnarfirði. En hann viðurkenndi hins vegar að nafnið væri komið beint úr handboltanum, hefði verið notað á Bogdan-tímum landsliðsins. "Það veitir kannski ekki af góðum leikkerfum eins og staðan er í dag," segir Kristján.

Hann sagði að leikkerfið hefði ekki verið eingöngu samspil þeirra tveggja, skyttunnar og línumannsins, en 7 hægri hefði vissulega oft heppnast. "Leikkerfið var til. Og það var frekar árangursríkt en líkt og í handboltanum borgar sig ekki að gefa of mikið uppi um hvernig það virkaði," segir Kristján."

http://www.handbolti.is/?p=101&i=17795

Kristján starfaði sem framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Kaupþings. Hann segir einhver lán hafa hvílt á félaginu en þau hafi ekki verið strokuð út.

http://www.dv.is/frettir/2008/11/4/aevisparnadurinn-farinn/

Starfsemi eignarhaldsfélaga felst í að eiga hlutafé í öðrum fyrirtækjum án þess að þau sjálf framleiði eða bjóði þjónustu að nokkru marki.

Þorsteinn Briem, 20.12.2008 kl. 04:31

27 Smámynd: Þorsteinn Briem

PS. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir útskrifaðist með próf í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1993 og hefur þar að auki verið alþingismaður frá árinu 1999 og menntamálaráðherra frá árinu 2003.

Þorgerður Katrín var lögfræðingur hjá Lögmönnum Höfðabakka árin 1993-1994 og Lög um einkahlutafélög voru sett árið 1994.

Þorgerður Katrín veit allt um þau.

Þorsteinn Briem, 20.12.2008 kl. 04:59

28 identicon

Eftirfarandi er úr ræðu seðlabankastjóra:

"Fulltrúar Seðlabankans áttu fundi í London í fyrri helmingi
febrúarmánaðar á þessu ári. Þeir voru með háttsettum mönnum í
fjölmörgum stærstu bönkunum, sem mest viðskipti áttu við Ísland og
íslensk fyrirtæki, og eins fundir með matsfyrirtækjum sem þar eru
staðsett. Þótt Seðlabankamenn hafi lengi haft áhyggjur af stöðu
bankakerfisins, varð þeim mjög brugðið vegna þeirra viðhorfa, sem
komu fram á fundunum í London
. Þegar heim var komið var óskað eftir
fundi með forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna, fleiri ráðherrum og
embættismönnum, og fékkst sá fundur. Þar var lesin upp í heild skýrsla
um ferðina sem þá var til í handriti."

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 20.12.2008 kl. 12:04

29 identicon

Ólína, þetta mál er mikilvægt og það þarf að vera uppi á borðum. En fyrst þú ert þessi siðapostuli af hverju segirðu ekki dyggum lesendum þínum frá uppákomum í MÍ þegar þú þurftir að hætta. Getur verið að þú skuldir einhverjum afsökunarbeiðni? Getur ekki veirð að þú sért að hjóla í Þorgerði Katrínu sem tók á verkefninu og rak þig úr Mí vegna mikilla vandræða í stjórnun skólans?

Guðrún V (IP-tala skráð) 20.12.2008 kl. 14:54

30 identicon

Hvers vegna er sett samasem merki milli maka ráðherra og ráðherra? Og af hverju er ekki verið að skoða alla maka ráðherra? Gæti það verið af því að einhverjum þykir menntamálaráðherra vera að standa sig of vel sem einn af vinsælustu ráðherrum ríkisstjórnarinnar og sem einn af vinsælustu stjórnmálamönnum landsins og sem mest ánægja og traust ríkir með?
Ég veit ekki betur en að Þorgerður Katrín hafi sagt að þetta yrði allt gegnsætt og myndi ekki vera gert á neinn annan hátt en hjá öðrum í sömu stöðu. Það er aðalatriðið, að allt sé uppi á borðum, að ekkert sé falið. Annars er ég orðin þreytt á að ráðist sé endalaust á kvenkyns stjórnmálamenn sem ná langt, þetta á við alls staðar í heiminum og þær eru mun líklegri til að segja af sér en karlkyns stjórnmálamenn. Mér finnst Þorgerður Katrín hafa sýnt þannig framgang að það eigi miklu frekar einhverjir aðrir að segja af sér þessa dagana. Hún á eftir að ná langt.

Og hvar eru feministarnir í þessu máli? Verja þeir bara vinstri konur?

Elísabet (IP-tala skráð) 20.12.2008 kl. 15:33

31 Smámynd: Þorsteinn Briem

Elísabet.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
segir að ekki sé búið að gjaldfella skuldirnar vegna kaupa á hlutabréfunum í KB-Banka, þannig að ekki sé ljóst hvort 7 hægri taki skuldirnar eða hvort þau hjónin geri það persónulega.

ÞETTA VAR Í MINNI SVEIT KALLAÐ AÐ LJÚGA. Þorgerður Katrín er lögfræðingur og veit því betur.

Lög um einkahlutafélög nr. 138/1994:

1. grein. Einkahlutafélag merkir félag samkvæmt lögum þessum þar sem enginn félagsmanna ber persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins."

Og þetta mál snýst ekki eingöngu um Kristján Arason, eiginmann Þorgerðar Katrínar:

Þorgerður Katrín segir að ekki sé ljóst hvort 7 hægri taki skuldirnar eða hvort ÞAU HJÓNIN geri það persónulega.

ÞAU HALDI HINS VEGAR HÚSINU SÍNU OG SÉU EKKI GJALDÞROTA.


Sjá hér að ofan í athugasemdum #31 og #32.

HVERJIR GREIÐA ÞÁ LÁN 7 HÆGRI EHF. EF FÉLAGIÐ GERIR ÞAÐ EKKI OG EKKI HELDUR MENNTAMÁLARÁÐHERRA?!

Einkahlutafélagið 7 hægri fékk lán til að kaupa hlutabréf í KB-Banka og þar sem um einkahlutafélag er að ræða er það ábyrgt fyrir láninu en ekki Þorgerður Katrín og eiginmaður hennar, Kristján Arason, sem starfaði sem framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs KB-Banka.

VÆRI NÚ EKKI FÍNT EF ALMENNINGUR GÆTI STOFNAÐ EINKAHLUTAFÉLAG UTAN UM SKULDIR SÍNAR OG EIGNIR Í KB-BANKA, TIL DÆMIS ÍBÚÐIR, OG LÁTA SVO AÐRA BORGA SKULDIRNAR ÞEGAR FÓLK RÆÐUR EKKI SJÁLFT VIÐ AÐ GREIÐA AF ÍBÚÐUNUM?!

Ólína hefur ekki eingöngu gagnrýnt Þorgerði Katrínu, heldur einnig til dæmis viðskiptaráðherra. Sjá hér að ofan í athugasemd #29. Og ég fæ ekki séð að máli skipti hvort þar er um að ræða karlmenn eða kvenfólk.

Þorsteinn Briem, 20.12.2008 kl. 17:57

32 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Guðrún V - þú veður í villu og svíma þegar þú talar um að ég hafi verið rekin úr MÍ. Það er alrangt.

Ég skulda engum afsökunarbeiðni fyrir mitt starf fyrir Menntaskólann á Ísafirði nema síður sé. Hinsvegar mættu  ýmsir biðja mig afsökunar á framkomu sinni við mig í tengslum við ýmislegt sem þar gerðist. 

Ekki orð um það meir.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 20.12.2008 kl. 20:03

33 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Svo vil ég þakka þeim sem hér hafa komið með málefnalegar og upplýsandi athugasemdir - ekki síst Sigurvin og Steina Briem að öðrum ólöstuðum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 20.12.2008 kl. 20:08

34 Smámynd: Haukur Nikulásson

Þorgerður má alveg biðjast afsökunar, hún má líka biðjast lausnar frá embætti.

Stofnun einkahlutafélags um hlutabréfaeign hefur bara einn tilgang eins og margir vita og hafa bent á og það er að vera laus undan raunverulegri fjárhagsábyrgð.

Það er glæpur gegn þjóðinni að láta fólkið sem sukkaði í þessu efni sleppa en láta síðan 99% þjóðarinnar borga alla vitleysuna til a.m.k. næstu 10 ára ef ekki betur. 

Haukur Nikulásson, 20.12.2008 kl. 20:10

35 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég þakka þér fyrir hlý orð Ylfa.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 20.12.2008 kl. 21:29

36 identicon

Það er alþekkt að borgað er fyrir pistla í blöðum án þess að þeir séu merktir sem kynning eða auglýsingar. Menn kaupa pláss í blöðunum fyrir sín hugðarefni.

Viðtölin við Ingibjörgu Sólrúnu og Þorgerði eru augljóslega hönnuð og samin af auglýsingafólki. Þau eru 100% fagvinna, en ekki blaðamanna, heldur markaðsmanna. Efnistök og myndataka bera þess glöggt merki. Myndirnar eru í raun  stórskemmtilegar. Þar birtast þær hlýjar og mannlegar, jafnvel lítið eitt sorgmæddar.

Myndin og litgreiningin á Þorgerði á forsíðunni er dásamleg. Hressa glanspían hefur þar vikið fyrir alvörugefinni hugsjónakonu. Maður hugsar ósjálfrátt „þessi kona stendur ekki í braski, ónei“. Inn í viðtölin er svo skotið frásögnum af persónulegum erfiðleikum, veikindum, gjaldþrotum, í von um að vekja samúð með ráðherrunum.

Hvernig skyldu viðtölin vera til komin? Spyr sá sem ekki veit. Eigendur DV hafa augljóslega mikilla hagsmuna að gæta á fjölmiðlamarkaði. Velvild ráðherranna er þeim mikilvæg og þá ekki síst nú þegar uppstokkun stendur fyrir dyrum. En hvað með þær? Þær stöllur standa báðar höllum fæti í pólítík og eru sakaðar um hroka og spillingu. Jákvæð umfjöllun er því hvalreki, jafnvel í DV. Greiði fyrir greiða?

Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 20.12.2008 kl. 23:11

37 identicon

Ingibjörg Sólrún, Þorgerður Katrín, Elín bankastjóri. Allar vilja endilega halda persónulegum málum frá fjölmiðlum. En veita (löng) viðtöl til að segja það. Sorrý, virkar ekki á mig. Með fullri samúð og virðingu fyrir veikindum og persónulegum erfiðleikum. Ég þekki það allt vel úr starfi mínu og af eigin reynslu. Þetta er ekki það sem málið snýst um þegar fólk er kallað til ábyrgðar í starfi. Þá gildir kalt mat, ef annað truflar þá víkur fólk og aðrir taka við. Enginn er sérsniðinn í eitthvað starf eða embætti. Enginn er ómissandi. Reynið bara putti-í-vatn prófið.

Solveig (IP-tala skráð) 21.12.2008 kl. 00:41

38 identicon

Allt upp á borðið já. Það verður þá líka að eiga við um þig Ólína. Þú segir hér að ofan að þú hafir ekki verið rekin úr starfi MÍ. Ég hef nú sjálfur staðið að því að reka lélegt starfsfólk en til að létta því lífið var því stundum gefin kostur á því að "segja upp sjálft". Þá er það "tæknilega" ekki rekið úr starfi.

Það er alveg ljóst að þú hlýtur að hafa staðið í gríðarlegu stappi við Menntamálaráðuneytið vegna starfa þinna við Menntaskólann á Ísafirði. Þessi grein í Mogga (http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1068826) og þessi (http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1054213) sýna svart á hvítu að það logaði allt innan MÍ á meðan þú varst þar í forsvari. Og á að segja okkur að Menntamálaráðuneytið hafi ekkert komið að þeim málum?

Mér segir svo hugur að Ólína sé alfarið ófær, sökum vanhæfi, að fjalla um Þorgerði, sérstaklega undir því yfirskyni að um einhvers konar "óháða" umfjöllun sé að ræða.

Proffari (IP-tala skráð) 21.12.2008 kl. 02:32

39 identicon

Annað: Þú ferð líka með tómar dylgjur í þessu bloggi Ólína.

Þú fullyrðir að lánið sem Kristján tók sem síðan endaði inni í þessu blessaða félagi hafi verið 500 milljónir. Þetta veist þú ekkert um, því upphæðin hefur ekki verið gefin upp.

Þú fullyrðir að Kristján hafi verið í persónulegum ábyrgðum. Þetta veist þú heldur ekkert um. Raunar efast ég um að svo hafi verið, án þess að ég viti það. Ástæðan er sú að Íslenskir bankar hafa á síðustu árum lánað þúsundum einkahlutafélaga út á eignir þeirra án þess að taka persónuleg veð. Mér finnst það slappur viðskiptamáti hjá bönkum, en þannig hafa þeir hegðað sér. En þú ert hér aftur að fullyrða eitthvað sem þú veist ekkert um.

Þú fullyrðir að Kristján Arason hafi fengið "skuldafyrirgreiðslu". Þetta veist þú heldur ekkert um. Ég gat ekki betur lesið þetta á sínum tíma en að félagið væri í skoðun hjá bankanum, eflaust vegna slæmrar stöðu, og þar sem bankarnir eru drekkhlaðnir af slíkum málum komast þeir lítið sem ekkert áfram. Maður hefur enga ástæðu aðra en að þetta sé þannig fyrr en annað kemur í ljós. Þú getur því ekki fullyrt um þessa hluti.

Þú dylgjar sem sagt í bloggi þínu um nánast allt sem viðkemur málinu, utan þess að Þorgerður notaði "við" en ekki "ég" í DV viðtalinu, sem er rétt hjá þér. Og síðan leggur þú upp með einhverjar siðferðislegar spurningar út frá þessum dylgjum. Hvar er nú siðferðið í þessu spyr ég?

Proffari (IP-tala skráð) 21.12.2008 kl. 03:05

40 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ef Ólína er "vanhæf" til að fjalla um Þorgerði Katrínu að hvaða leyti eru þá aðrir í þessari umræðu, til dæmis undirritaður, "vanhæfir" til að fjalla um hana hér?! Hvaða þvæla er nú þetta eiginlega?!

Þorgerður Katrín hefur orðið uppvís að lygum sem ráðherra og hér hafa verið lagðar fram sannanir fyrir því. Þar af leiðandi á hún að sjálfsögðu að segja af sér, enda þótt hún geri það náttúrlega ekki. En Þorgerður Katrín verður fyrr eða síðar rekin úr embætti af kjósendum fyrir sína lygaþvælu og skuldir sem hún lætur almenning greiða fyrir sig.

En Proffarinn telur það "professionellt" og rekur fólk ekki fyrir slíkt.

Þorsteinn Briem, 21.12.2008 kl. 03:21

41 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jóhann Þröstur Pálmason segir á bloggsíðu sinni hér á Moggablogginu að iðnaðarmenn hafi unnið svart fyrir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra og hann geti gefið upp nöfn og símanúmer þessara iðnaðarmanna.

Er Jóhann Þröstur, sem var flokksbundinn sjálfstæðismaður í 20 ár, kannski einnig "vanhæfur" til að fjalla um þetta mál og heldur þú að hann verði sá eini sem kýs aldrei aftur Sjálfstæðisflokkinn, Proffari?!

http://svartur.blog.is/blog/svartur/entry/698673/

Þorsteinn Briem, 21.12.2008 kl. 05:10

42 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Proffari, hér er allt uppi á borðum.  Það hvernig þú setur þetta mál hér er augljóslega gert í því skyni að sverta mig - þú ert að blanda saman óskyldum málum á afar ómálefnalegan hátt. Enda þorirðu ekki að koma hér undir réttu nafni.

Ég hef fullt leyfi til þess að gagnrýna Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra og vísa því á bug að ég sé á nokkurn hátt vanhæf til þess.

En til að taka af allan vafa um það sem þú tekur hér upp varðandi Menntaskólann á Ísafirði: Ég var ekki rekin þaðan og mér var ekki heldur gefinn kostur á að hætta þar "með sæmd" eins og þú ýjar að. Ég tók sjálf yfirvegaða ákvörðun um að hætta við skólann þar sem þar var enginn starfsfriður lengur til  góðra verka. Ábyrgðin þar lá að hluta til hjá mér, en þó enn frekar hjá öðrum, eins og ég skýrði m.a. í þessari yfirlýsingu hér.  Viðureign mín stóð m.a. við Félag framhaldsskólakennara sem gekk óvenju hart og fautalega fram  í rógburði og mannorðsárásum sem urðu tilefni þessarar yfirlýsingar frá Skólameistarafélagi Íslands.

En hvað um það - ég tók yfirvegaða ákvörðun um að leggja ekki skólastarfið í hættu og láta skólann og nemendur hans njóta vafans. Það var með þeirra hagsmuni í huga sem ég ákvað að hætta til að skapa frið um skólastarfið. Sama gerðu þrír meðstjórnendur mínir. Ég tók þar með ábyrgð á því sem úrskeiðis hafði farið, þó svo ég hefði ekkert af mér brotið, heldur lyft skólastarfinu til mikilla muna minni stjórnunartíð þar. Þú mátt kalla það heiðursmanna afsögn - ég axlaði að minnsta kosti mína ábyrgð.

Svo ætla ég ekki að ræða málefni Menntaskólans á Ísafirði frekar í tengslum við óskyld mál, og mun taka út allar athugasemdir þar að lútandi. Enda er augljóst að þeim er ekki ætlað að bæta neinu vitrænu við þessa umræðu.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 21.12.2008 kl. 13:18

43 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Varðandi meintar "dylgjur" um "allt sem viðkemur málinu" þ.e. persónulega aðild ÞKG að skuldafyrirgreiðslu og innherjaviðskiptum, þá vísa ég því alfarið á bug að hér sé farið með dylgjur. Hér er einungis vitnað til staðreynda sem hafa komið fram opinberlega í virtum fréttamiðlum, t.d. Ríkisútvarpinu, og þeim hefur ekki verið mótmælt. Hefði það verið gert lægi málið ljósar fyrir.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 21.12.2008 kl. 13:22

44 identicon

ÞKG á að sjálfsögðu að segja af sér! Hún er, fyrir svo löngu síðan, orðin vanhæf sem ráðherra og ég vona innilega að hún fari að hætta. Mér þykir það ótrúlegt hve margir standa með konunni, fólk virðist vera blint og sér ekki í gegnum hana...

Hún gerir ekkert nema að bulla um það sem hún heldur að fólk vilji heyra og situr svo auðum höndum.

p.s. að Ólína skuli vera sögð "vanhæf" að fjalla um ÞKG er bara grín...ég myndi frekar vilja heyra að menntamálaráðherra okkar sé með öllu vanhæf í starfi sínu.

María (IP-tala skráð) 21.12.2008 kl. 14:12

45 Smámynd: Theódór Norðkvist

Það er fáránlegt að líkja saman samskiptaörðugleikum sem urðu í litlum menntaskóla úti á landi á sínum tíma þegar Ólína var þar skólameistari og fjármálamisferli hjá manneskju í einni af æðstu valdastöðum landsins. Manneskju sem hefur verið kosin til að taka á svona misferlum.

Ótrúlegt rugl sem sumir láta frá sér. Ekki skrýtið að sá sem ber slíkt á borð þori ekki að gera það undir nafni.

Theódór Norðkvist, 21.12.2008 kl. 14:17

46 identicon

Mikið ands..... ertu nú annars góð Ólína! Ég tek ofan fyrir þér.

Hinn proffinn (IP-tala skráð) 21.12.2008 kl. 14:22

47 Smámynd: Árni Gunnarsson

Yfirleitt má lesa málefnalegt vægi þeirra sem til máls taka í deilum með því að skoða á hvaða viðræðuplani þeir kjósa að staðnæmast. Ég tel mig vita að deilum Ólínu við sína viðfangsaðilja hafi lyktað með niðurstöðu. Ólína er áreiðanlega ekki laus við hina ýmsu ágalla fremur en nokkur þeirra sem hér taka til máls. En hér var tekið til máls um tilgreint efni og þess vegna verður að krefjast þess af þeim sem sjá ástæðu til að koma Þorgerði Katrínu til varnar- sem áreiðanlega er engum til ama- að þeir geri það með málefnalegum rökum en ekki bjánalegu skítkasti á málshefjanda. það hefur alltaf verið flokkað undir lágmarks mannasiði. Það er skýrasta vísbending um rökþrot að reyna að klína á viðfangsmanninn meintum ávirðingum í óskyldu máli. 

Sjálfur met ég það til tekna hjá Þorgerði Katrínu sem er pólitíkus í slæmri klípu að hún er hnuggin yfir sínum hlut í stærstu mistökum valdstjórnar í manna minnum. Og hún gekk svo langt í auðmýktinni að lýsa yfir því að ríkisstjórnin ætti að biðja þessa þjóð afsökunar. Það væri sannarlega góð byrjun. 

Árni Gunnarsson, 22.12.2008 kl. 15:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband