Þeir sem aldrei þekktu ráð ...
8.10.2008 | 23:32
Nú er svo komið að það er einhvern veginn ekki um neitt að blogga. Maður er eins og þurrausinn eftir það sem á undan er gengið - búinn að tapa smáræðinu sem maður átti í Glitni. Hver veit nema meira tapist síðar. Kannski er þetta bara byrjunin, hvað veit ég?
Eins og stundum þegar syrtir í álinn, seildist ég í ljóðasöfnin mín kvöld í leit að einhverju sem gæti hýrgað andann eins og ástatt er. Nú brá svo við að ég fann ekkert sem mér líkaði. Ekkert sem gaf mér andagift í eins og eina bloggfærslu - enda hafa ljóðskáld þjóðarinnar varla staðið í þeim sporum sem við Íslendingar stöndum í núna.
Þá rifjaðist upp fyrir mér vísan eftir Egil Jónasson á Húsavík og Friðrik Jónsson landspóst á Helgastöðum í Reykjadal (sjá PS neðar) sem þeir félagarnir ortu í sameiningu:
Upp er skorið, engu sáð
allt er í varga ginum.
Þeir sem aldrei þekktu ráð
þeir eiga'að bjarga hinum.
Þar með fann ég jarðtengingu á nýjan leik - og mér varð hugsað til fjármálaráðgjafanna sem undanfarin ár hafa í sjálfumgleði sinni sagt mér og fleirum fyrir verkum varðandi ráðstöfun þeirra takmörkuðu umframaura sem við höfum sum hver haft undir höndum, viðbótarlífeyrissparnaðinn og eitthvað fleira. Ekki hafa þeir nú allir reynst heilráðir blessaðir.
Sjálf hef ég svosem ekki verið neinn fjármálasnillingur heldur - enda búin að brenna mig svolítið. Ekki mikið sem betur fer - kemst vonandi hjá frekari brunasárum í framtíðinni.
Jamm ... allt leitar jafnvægis um síðir. Munum það bara.
---------
PS: Þegar ég setti þessa vísu fyrst hér inn sagði ég að hún væri eftir Sigmund Sigurðsson úrsmið á Akureyri - en hann er skráður fyrir vísunni á vef Skjalasafns Skagfirðinga.
Vinur minn, Baldur Jónasson (sonarsonur Egils) hafði samband við mig og benti mér á að vísan væri ranglega eignuð Sigmundi. Vísan mun hafa birst í minningargrein um Sigmund og þar ranglega eignuð honum.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Ljóð | Breytt 9.10.2008 kl. 17:16 | Facebook
Athugasemdir
Aldeilis prýðilega viðeigandi vísa sem þú fannst þarna!
Lára Hanna Einarsdóttir, 8.10.2008 kl. 23:34
Plettskud. Sko vísan.
Jenný Anna Baldursdóttir, 8.10.2008 kl. 23:35
............og þeir sem aldrei þekktu sorg, þekkja ei sanna gleði. Kær kveðja vestur.
Ásdís Sigurðardóttir, 8.10.2008 kl. 23:42
Nr. 1, 2 og 3 er að reyna að vera jákvæður
Gísli Bergsveinn Ívarsson, 9.10.2008 kl. 11:39
Mæli með Sparisjóðnum á Dalvík, svona framað Kastljósi í kveld alla vega.
Þorsteinn Briem, 9.10.2008 kl. 12:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.