Skammt stórra högga á milli

David60 Það er skammt stórra högga á milli í aðgerðum ríkisstjórnarinnar á fjármálamarkaðnum þessar klukkustundirnar. Maður er ekki fyrr búinn að ná andanum eftir Kastljóssviðtalið við Davíð Oddsson, en stjórn Glitnis hefur verið sett af. Eiginlega boðaði Davíð þessi tíðindi óbeinum orðum í viðtalinu þegar hann sagði óvíst að "það yrði nokkur banki til" þegar hluthafafundur Glitnis yrði á laugardag. Þar með þyrfti ríkið ekki að standa við vilyrði sitt um kaup á 75% hlut í bankanum. Hmmm ..... hljómaði svolítið eins og kærkomin ástæða til að standa ekki við þetta loforð, enda "vanþakklætið" hjá eigendum bankans mikið og óverðskuldað, ef marka mátti orð Seðlabankastjórans.

Annars var Davíð keikur í þessu viðtali - og sagði býsna margt sem ég get tekið undir, það á ekki síst við um líkinguna við eldsvoðann, slökkviliðið og brennuvargana og hvar samúðin ætti að liggja.

Ég er auðvitað eins og landsmenn aðrir orðin skekin af allir þessari hörmungarumræðu - og kannski er mér þess vegna farið að förlast eitthvað - að minnsta kosti er mér hálfpartinn um og ó yfir því hversu margt ég gat tekið undir í máli Davíðs.

Öðruvísi mér áður brá .... þegar við elduðum grátt silfur saman í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir margt löngu, og ég var aldrei sammála manninum.

Já, nú er Bleik svo sannarlega brugðið - enda "sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði" farnar að hafa áhrif á mig eins og aðra, svo vitnað sé í neyðarlögin.

Vel á minnst, neyðarlög: Eiginlega voru þarna sett "herlög". Ástæðan ærin og tilefnið illt - en valdsheimildirnar til Seðlabankans og fjármálaeftirlitsins eru svo víðtækar að það má jafna þeim við heimild til hernaðaríhlutunar í fjármálakerfinu. Segi nú svona.


mbl.is FME tekur Glitni yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Höskuldsson

Það er satt. Það er ansi margt í þessu sem "skekur" mann, en á heildina litið finnst mér ráðamenn vera að verja okkar hagsmuni. Er það ekki svo?

Margt umdeilanlegt og þarfnast athugunar.  

Friðrik Höskuldsson, 7.10.2008 kl. 23:35

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég verð alltaf smá smeyk ef ég finn samsvörun með DO.

Mér finnst það ekki normalt ástand enda man ég eftir honum úr kvennabaráttunni.  Þ.e. ég var í baráttunni - hann ekki ofkors.

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.10.2008 kl. 23:36

3 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Jebb - en hvað er líka "normalt" þessa dagana?

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.10.2008 kl. 23:39

4 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Ég hef fram að þessu ekki verið mikill aðdáandi Davíðs nema síður sé, finnst hann samt hafa staðið sig vel í þessum hörmungum og gert það eina rétta og ábyrga sem hægt var að gera, það er að bjarga okkur frá því að farast með bönkunum..

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 7.10.2008 kl. 23:44

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Nú hjaðnar verðbólgan fljótt, vextir lækka ört, verð á olíu lækkar, útflutningur verður meiri en innflutningur, bílakaup snarminnka, fleiri ferðast með strætisvögnum en áður og minni þörf verður á gatnagerð og viðhald á götum.

Íslendingar fara ekki lengur í verslunarferðir til útlanda, fleiri ferðamenn koma til landsins og meiri tekjur skapast í ferðaþjónustu og sjávarútvegi. Hér verða reist fleiri hótel, fleiri munu starfa í ferðaþjónustunni og auknar tekjur í sjávarútvegi styrkja sjávarþorpin.

KB-banki verður að öllum líkindum ekki gjaldþrota, hægt verður hagræða í bankakerfinu með því að sameina Landsbankann og Glitni undir nafni Landsbankans, ofurlaunin lækka og Íbúðalánasjóður tekur yfir bankalán til íbúðakaupa. Síðar verður svo hægt að selja Landsbankann.

Þetta er allt gott og engin ástæða til að örvænta yfir einu eða neinu. Hér hefur hins vegar ekki verið eðlilegt ástand undanfarin ár og ærleg hreingerning var nauðsynleg og löngu tímabær í efnahagslífinu.

Mennirnir á myndinni eru fyrrverandi formenn nemendafélags í menntaskóla og sá til hægri tók þar við af hinum.

Þorsteinn Briem, 8.10.2008 kl. 00:52

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þér er farið að förlast, Ólína mín... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 8.10.2008 kl. 02:53

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

22.11.2003: "Stjórnendurnir, Sigurður Einarsson, stjórnarformaður bankans, og Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri tilkynntu um fjögurleytið í gær að þeir hefðu ákveðið að falla frá nýgerðum samningi um kaup á hlutabréfum í bankanum og að efnt yrði til nýrra samningaviðræðna um kaup þeirra og kjör.

Um einum og hálfum tíma áður hafði Davíð Oddsson gengið frá stjórnarráðinu í aðalbanka Kaupþings Búnaðarbanka við Austurstræti og tekið út innistæðu sem hann átti þar á bankabók, alls um 400 þúsund kr."

(Auglýsingin frá Nova er dottin út.)

Þorsteinn Briem, 8.10.2008 kl. 03:54

8 identicon

Þetta er alveg magnað. Jafnvel Ólína lætur heillast. En Davíð hefur góðan talanda en það var frekar það sem hann sagði sem sló mig. Hann var hálf sauðslegur þegar hann var spurður um rússalánið og gönuhlaupið þar. Hann kom náttúrulega fram sem frelsari og veifaði krónunni í kringum sig eins og það væri vegna hennar að við gætum komist út úr vandanum.  Hvaða misskilningur var þetta svo með festingu á genginu? Hver misskildi hvern? Davíð segir að hann hafi varað árum saman við að bankarnir voru að fara of geyst, þar á meðal við ríkisstjórnina og svo bankana sjálfa. Ef hann sem brunaliðsstjóri (svo ég noti samlíkingu hans sjáfs) gerði sér grein fyrir að svo mikill eldsmatur var að safnast fyrir, af hverju gerði seðlabankinn engar ráðstafanir. Af hverju var bindiskyldan ekki sett á? Af hverju hlustaði enginn á Davíð? Hvaða rugl er þetta í manninum? Og Davíð sá þá niðurstöðu fyrir sem nú er í dag fyrir 12 - 14 mánuðum og lísti fyrir ónefndum bankastjóra. Hann sá þetta allt fyrir og lét svo allt fuðra upp. Hann gerði ekki baun. Ef lýsingin er rétt hjá Davíð þá brást hann og ríkistjórnin skyldum sínum. Trúum við því? Davíð segir það.

Frimann Benediktsson (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 09:20

9 identicon

Því miður get ég ekki verið sammála um samlíkinguna um eldsvoðann, slökkviliðið og brennuvargana, það er ekki minnst á þann sem lagði til tækin til að kvekja eldana, eða þann sem þóttist sjá fyrir um hvernig færi en gerði ekki neitt, um þann sem að lokum hellti bensíni á eldinn frekar en að reyana kæfa hann í fæðingu. Nei Davíð Oddsson stóð sig ekki vel í þessu viðtali, hann kennir öllum öðrum en sjálfum sér um hvernig komið er.

Stefán Guðmundsson (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 10:01

10 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Til að forðast allan misskilning þá er ég hvorki "heilluð" af frammistöðu Davíðs í Kastljósinu, né sammála öllu sem hann sagði. Ég gat hins vegar tekið undir ýmislegt  með honum. Annað hvort væri nú. En hann komst óvarlega að orði, og það er fjarri því að þarna hafi setið varkár embættismaður. Fjarri því.

Hins vegar lít ég ekki á það sem guðspjall að ósammála fólki "af því bara" - af því það sé skylda vinstrimanna og félagshyggjufólks að vera á móti öllu sem Davíð segir. Ég veit að hans áhangendur hugsa margir hverjir á þeim nótum - en ég tek ekki þátt í slíku. 

Ég er frjáls að því að vega og meta rök og ástæður manna, og vinsa úr orðum þeirra það sem nothæft er. Ef ég væri það ekki, þá byggi ég ekki í lýðræðisríki eða við málfrelsi.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.10.2008 kl. 11:13

11 Smámynd: Steinþór Ásgeirsson

Þetta með brennuvarga og slökkviliðið

Það þarf að passa að slökkvistarfið fari ekki fram með olíuúða, sem mér sýnist Davíð vera að gera

ég hald að það hefði alveg mátt vera mildari aðgerðir í síðustu viku.

Einhverjum virtist liggja á að koma höggi í Glitni 

Steinþór Ásgeirsson, 8.10.2008 kl. 11:49

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Tatiana Serafin Bank Failure Pummels Iceland's Billionaires:

http://www.forbes.com/businessbillionaires/2008/10/07/iceland-billionaires-banking-biz-billies-cz_ts_1007iceland.html

Þorsteinn Briem, 8.10.2008 kl. 12:15

13 Smámynd: Heilsa 107

Sæl Ólína

Við sem þjóð eigum nú að sækjast eftir efnahagssamvinnu og myntbandlagi við Norðmenn!

Sögulega sóttu norskir sjálfstæðisbaráttumenn hingað til Íslands á landnámstíma og nú er komin sá tími að þeir íslensku “norðmenn” sem hér hafa verið í sjálfstæðisbáráttu í nálægt 1200 ár hefji kröftuga samvinnu við gamla Noreg í efnahags-sjálfstæðisbáráttu nýrra tíma og við dyr nýs heims.

Í dag liggja hagsmunir þessara tveggja þjóða saman með margskonar hætti. Fiskiðnaður, orkumál, utanríkismál (eru bæði utan ESB, Danmörk og Svíþjóð eru innan ESB) og í raun á flestum sviðum samfélagsmála.

Í dag liggur líka fyrir að hagsmunir Norðmanna vegna Glitnis eru miklir og ættu ríkisstjórnir Íslands og Noregs saman að reka þann banka áfram. Glitnir er með miklar skuldbindingar í Noregi og yfirlýsingar Davíðs Oddssonar Seðlabankastjóra, um að Íslenska ríkið geti ekki borgað skuldir bankanna erlendis, ættu að valda ugg í Noregi

Við höfum margt að færa Norðmönnum í framtíðar samvinnu í gjörbreyttri heimsmynd, þar sem fyrirliggur að núverandi peningamarkaðshagfræði (=gjaldmiðlagræðgisbrálæði) (peningamarkaður er aðskilið eining frá framleiðslu og atvinnumarkaði), er hruninn. Ljóst virðist líka vera að glundroði innan ESB í björgunaraðgerðum dagsins í dag sýni að þar er ekki mikil samstaða og styrkur í efnahagstjórn. Þangað höfum við ekkert að gera.

Þetta vita Norðmenn! Þeir þekkja og meta vel raunvirði Íslands, virði lands og þjóðar. Við þurfum enga minnimáttarkenda að sýna í slíkri samvinnu.

Kær kveðja,

Kristján Emil Jónasson

Heilsa 107, 8.10.2008 kl. 12:56

14 Smámynd: Heilsa 107

Í bók Jóns J. Aðils, "Gullöld íslendinga" gefin út árið 1948 segir:

" En hún [byggingarsaga Íslands] er einnig fögur, því það er um leið saga um frelsisást og karlmannlegt sjálfstæði. "Frelsi" er í orði kveðnu tignað og tilbeðið um allan heim nú á dögum [1948] ; en því miður hættir mönnum oft til að afneita því og snúa við því bakinu þegar á herðir og ofsóknum er að mæta. Forfeður vorir tignuðu ekki frelsið með háróma lofsöngvum á strætum og gatnamótum en þeir vissu vel, hvað það var, og tignuðu og tilbáðu það í hjarta sínu, það sýndu þeir með því að leggja fyrir það allt, sem hjartanu er talið helgast og dýrmætast: óðöl, frændur og fósturjörð, eftir að þeir voru búnir að fórna blóði sínu á vigvellinum. Ísland varð þannig síðasti griðastaður þjóðfrelsis á Norðurlöndum. Þar tókst forferðum vorum að varðveita frelsi sitt óskert enn um langan aldur. og þar hefir niðjum þeirra tekizt að varðveita þjóðerni sitt og tungu óbreytta að heita má fram á þennan dag"

Kveðja,

Kristján Emil Jónasson

Heilsa 107, 8.10.2008 kl. 13:26

15 Smámynd: corvus corax

Frelsi hvað? "Freedom is just another word for nothing left to loose!" svo vitnað sé í frægan slagara. Nú er málið að setja í hvelli neyðarlög til að koma höndum yfir allar eignir þessara 20-30 glæpamanna sem sagt er að hafi stundað stórþjófnað og undankomu verðmæta úr bankakerfinu með svikum og lygum og stórkostlegri græðgi. Og hér eru gríðarleg verðmæti í húfi; heilu verslunarkeðjurnar, stórmarkaðir, olíufélög, hallir og limosínur auk einkaþotna og snekkja og hvíldarheimila í útlöndum.

corvus corax, 8.10.2008 kl. 15:19

16 identicon

Svo orti Örn Arnarson árið 1932 - Oddur sterki af Skaganum.

En þetta gæti verið ort í dag..

Kveðja,

IÞÞ

5. ríma - brot.

----

Þetta er mikið þjóðargrand,

þjóðarskútan orðin strand,

aldrei hefir okkar land

yfir dunið þvílíkt stand.

Íhald stýrði rangt og ragt,

rak af leið og skemmdi fragt,

í skuldakví var skútu lagt;

skömm er endi á heimskra magt.

Framsókn tók þá far að sér,

fórst þó ekki betur en ver,

kuggnum renndi á kreppusker,

kjölurinn sundir genginn er.

--

--

Íhald lastar Framsókn frekt,

Framsókn lýsir íhalds sekt,

kjaftæðið er kátbroslegt,

kuggurinn lekur eins og trekt.

--

6. ríma.

--

--

Vandasamt er sjómanns fag,

sigla og stýra nótt og dag.

Þeir, sem stjórna þjóðarhag,

þekkja varla áralag.

Eftir mikið þras og þóf

þingið upp til valda hóf

menn, sem hafa ei pungapróf,

piltar, það er forsmán gróf.

Aldrei bröndu Ási dró,

aldrei þekkti stag frá kló,

aldrei meig í saltan sjó.

-Sá held ég að stjórni þó.

--

Örn Arnarson 1932

Ingibjörg Þ. Þorleifsdóttir (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 16:06

17 identicon

Samkennari minn Anna Sólveig Ingvadóttir Þorkelssonar benti mér á þessar frábæru rímur.

Kveðja,

Ingibjörg

Ingibjörg Þ. Þorleifsdóttir (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 17:51

18 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Davíð Oddsson lék tveim skjöldum í Kastljósinu. Sá Davíð sem fólkið fellur kannski fyrir var slökkviliðsstjórinn og bjargvætturinn Davíð. Maðurinn sem með faglegum handahreyfingum lýsti því hvernig hann hefði komið í veg fyrir að íslenskur almenningur þyrfti að borga erlendar skuldir óreiðumanna. Davíð lýsti forsvarsmönnum og eigendum banka og fjárfestingafyrirtækja sem brennuvörgum, sem að lokum gengu svo langt að öll þjóðin sat í brennandi kofanum. Þá kom slökkviliðsstjórinn Davíð og forðaði hruni eins og hann lýsir því sjálfur. En hver kom þessu öllu af stað? Hver lagði hinn pólitíska grunn sem allt ævintýri byggðist á? Og hver var forsætisráðherra í fjölda ára á þeim tíma sem spilaborgin var hlaðin upp. Ef haldið er áfram með líkingamálið þá má segja að hann hafi verið arkitekt og byggingameistari húss þar sem brunavörnum var áfátt og burðarvirki gallað. Og hann lagði niður Þjóðhagsstofnun (byggingaeftirlitið?). Í Kastljósinu sagðist Davíð hafa margsinnis varað við því hvert stefndi. Við hvern talaði hann? Arftaka sinn og „húsráðanda“ Geir Haarde? Samverkamann og flokksbróður sinn til fjölda ára, fjármálaráðherrann Árna Mathiesen? Hver hlustaði ekki á varnaðarorð Davíðs? Er hann að segja okkur að þessir menn séu ekki starfi sínu vaxnir?

Nú er rætt um að menn skuli ekki eltast við sökudólga að sinni, nú eigi allir að standa saman. En Davíð fer ekki eftir þessu. Í Kastljósi var hann með yfirlýsingar um ýmsa menn, n.k. sakbendingu líkt og tíðkast í sakamálaþáttum sjónvarps. Ef marka má viðbrögð manna eftir Kastljósviðtalið þá virðist sem Davíð hafi tekist að fá fjölda fólks til að gleyma hans hlut í atburðarrásinni. Snilld.

Hjálmtýr V Heiðdal, 8.10.2008 kl. 20:34

19 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Tek nú undir með Hjálmtý - - hver skapaði umgjörðina um það sem hann nú lýsir sem einhvers konar skandal óreiðumanna . . . . og misnotkun á frelsinu?

Svo verð ég nú að viðurkenna að þú Ólína hlýtur að hafa eitthvað látið þér yfrisjást hvað DO var að gera - með því að þykjast hvergi hafa nærri komið.    Eða hver keyrði upp umgjörðina fyrir græðgisvæðingunni og hver átti síðan að fara með eftirlitið og taka í taumana?

Auðvitað ætlaði hann ekki að gera Bjöggana gjaldþrota . . .  og auðvitað hefur hann ekki beitt sér fyrir því að eignir aðalleikendanna úr kvótavæðingunni og græðgisvæðingunni  verði kyrrsettar? ? eða hver ætti að beita sér fyrir slíku?

Benedikt Sigurðarson, 8.10.2008 kl. 21:41

20 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þetta var skelfilegt viðtal og ekki síst fyrir þá sök að Davíð gat í augum alltof margra spilað sig sem bjargvætt og slökkviliðsmann á elda sem aðrir hefðu kveikt, þegar í raun má frekar líkja honum við brennuvarginn sjálfan sem svo í þokkabót mætir á brunastað klæddur slökkvibúningi en sprautar aðeins olíu á eldana.

Helgi Jóhann Hauksson, 8.10.2008 kl. 22:10

21 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Æ, já - það er margt til í þessu öllu saman. Þetta eru erfiðir tímar.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.10.2008 kl. 23:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband