Sarah Palin - úff!
29.9.2008 | 23:45
Jæja, þá er gríman endanlega fallin af Söru Palin. Útslagið gerði þetta viðtal á CBS sjónvarpsstöðinni. Og fyrir vikið fékk hún þessa útreið hjá bandarískum álitsgjafa að nafni Jack Cafferty. Það var verðskulduð útreið.
Sara Palin kom með glæsibrag inn á sviðið á flokksþingi repúblikana fyrir fáeinum vikum - leynivopnið sem McCain skellti fram öllum að óvörum þegar hann tilnefndi hana sem varaforsetaefni sitt. Hún flutti snilldar ræðu, kom vel fyrir og sjarmeraði alla upp úr skónum.
Síðan hefur lítið til hennar heyrst - og sennilega er skýringin hér lifandi komin. Konan veit ekkert um utanríkismál. Hún er óörugg í návígi. Hún er ekki með stefnu sína á hreinu, hvorki í utanríkismálum né velferðarmálum. Skoðanir hennar á lífinu og tilverunni eru undarlega afturhaldssamar og kreddufullar. Þá er ég ekki að tala um trúarlíf hennar, sem hefur verið dregið inn í umræðuna. Auðvitað má konan hafa sína trú. En það er margt í málflutningi hennar sem vekur manni ugg. Jafnvel repúblikönum er nóg boðið, sumum hverjum.
Það er kannski ekki nema von að hún skuli þiggja fyrirbænir og handayfirlagnir úr ýmsum áttum - henni veitir sjálfsagt ekkert af.
Satt að segja leist mér ekkert á blikuna fyrir demókratana fyrst eftir að Palin kom fram, sérstaklega í ljósi þess að Obama hafði ekki vit á að taka Hilary Clinton sem sitt varaforsetaefni. Ég bloggaði meira að segja um það hversu flott og sjarmerandi kona þetta væri - og uppskar ótrúlega sterk og heiftúðug viðbrögð.
Það er augljóst að Palin kallar fram sterkar tilfinningar hjá fólki - og það kemur því miður ekki til af góðu. Ég sé það núna.
En - svo ég gerist nú sek um svolitla "skadeglæde" - þá er þetta ekki slæmt fyrir demókratana.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Sjónvarp | Facebook
Athugasemdir
Ég er nú í það minnsta að vona það að þetta komi demókrötum vel!
Edda Agnarsdóttir, 29.9.2008 kl. 23:51
Sara Palin er óvenju hæfileikarík kona sem hefur komist langt á eigin verðleikum og það þrátt fyrir kynferðið. Hvort hún nær svo ekki alla leið fyrir öfund kynsystra hennar er svo annað mál;-)
Heimir Lárusson Fjeldsted, 30.9.2008 kl. 09:27
Heimir þó - hvaða konur eru það sem öfunda Palin? Hún hefur verið gagnrýnd úr öllum áttum - af fólki sem hefur stutt bæði hana og repúblikana.
Svo er hún auðvitað gagnrýnd af pólitískum andstæðingum - en síðast en ekki síst af fjölmiðlafólki sem furðar sig á ummælum hennar um fjölmarga hluti.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 30.9.2008 kl. 10:09
Ef Sara er svona slæmur kostur þá er ekki mikið varið í alla hina Rebublikana sem komu til greina. Það hlýtur að hafa verið stór hópur manna sem valdi hana úr og er dómgreind þeirra ekki upp á marga fiska.
Annars er Barrack minn maður þótt ég rétti konu hjálparhönd sem á í vök að verjast;)
Heimir Lárusson Fjeldsted, 30.9.2008 kl. 10:32
Ég vorkenni Söru, það verður að skrifa meiri heimsku á McCain fyrir að velja konu angan.
DoctorE (IP-tala skráð) 30.9.2008 kl. 11:06
Sara Palin lofaði góðu til að byrja með - en svo hefur hún bara ekki staðið sig. Því miður.
En Heimir - ég met það við þig að hjálpa "konu sem á í vök að verjast". Það er herramannlegt af þér.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 30.9.2008 kl. 11:22
Hjartanlega sammála þér, kreddufullir stjórnmálamenn varðandi trúarbrögð eiga ekki uppá pallborðið hjá mér, eru ekki líklegir til annars en að vera kreddufullir og þröngsýnir á öðrum sviðum líka.
p.s. flott nýja bloggmyndin þín
Marta B Helgadóttir, 30.9.2008 kl. 16:18
Hún er yfirlýstur andstæðingur fóstureyðinga. Þetta segir svo margt um þröngsýni þessarar konu. Hvað með ef barnið kemur undir vegna nauðgunar?
Ég er nokkuð viss um það að McCain hefur valið hana sér við hlið vegna þess að í USA eru ansi mörg atkvæði hjá strangkristnum einstaklingum og greinilegt að hann hefur viljað leita á þeirra mið.
Pétur Kristinsson, 30.9.2008 kl. 17:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.