Nú vandast málið: Hverjir eiga landið?

Bjarnarflag Landeigandi í Mývatnssveit hefur sótt um rannsóknarleyfi og forgang að nýtingu jarðvarmaorku á eignarlandi sínu. Hann vill reisa 50 megawatta virkjun. Nú vandast málið - jarðvarmaorkan er nefnilega ekki til skiptanna. Það er búið að taka hana frá handa Landsvirkjun. Og eins og iðnaðarráðherra bendir á þá er "ekki hægt að fara með neinni rányrkju gagnvart jarðhitanum" því það verða "ekki meira en 90 megavött miðað við þær rannsóknir sem liggja fyrir teknar upp úr þessum sama geymi".

Þetta er athyglisvert mál. Það virðist aldrei hafa hvarflað að mönnum að landeigendur sjálfir hefðu bolmagn til þess að nýta landgæði af þessu tagi. En hvers vegna ætti Landsvirkjun að eiga meiri rétt en sjálfur landeigandinn til þess? Af hverju ætti hann ekki að mega rannsaka sjálfur og virkja á sínu landi? Hann gæti þá selt virkjun sína til Landsvirkjunar í stað þess að selja henni aðganginn að jarðvarmanum. Báðir gætu hugsanlega haft hag af þeim skiptum.

Já, nú vakna nokkrar áleitnar grundvallarspurningar: Hverjir eiga landið? Hvernig skal farið með auðlindir þess?

Nærtækt dæmi er fiskurinn í sjónum. Í sjávarútveginum ganga leyfi til nýtingar kaupum og sölum milli útgerða. Þar er engin formleg "landsútgerð"  (þó að LÍÚ sé það kannski í raun) sem á forgangsrétt að þeirri takmörkuðu auðlind.

Kannski gætu menn lært eitthvað af því að skoða gæði lands og sjávar í einu samhengi til þess að átta sig á því hvernig réttast sé að fara með auðlindirnar og nýta þær.

Í því samhengi mættu menn líka líta á vítin sem varast ber.


mbl.is Umsókn landeigenda í Reykjahlíð vekur furðu ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Eiga ekki bændur sitt land? – Það er ánægjulegt að sjá, það, Ólína, að þú ert ekki á línu Jóns Baldvins í þessu máli.

Jón Valur Jensson, 22.9.2008 kl. 10:24

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Auðvitað hlýtur landeigandi að eiga rétt á þeim hlunnindum sem jörðin býður. Þannig hefur það verið um aldir.

Ég sé þetta fyrir mér. Ég verð of seinn í vinnuna því bíllinn minn var farinn. Þegar ég hringi í lögguna er mér sagt að Friðrik eða Össur hafi verið bíllausir og minn bíll hafi verið tekinn frá fyrir þá í dag. Því þeir eru ríkið. Eitthvað hljómar það furðulega. Ég gæti svo sem sætt mig við það ef þeir borguðu leigu, en það virðist ekki vera í þessu máli.

Villi Asgeirsson, 22.9.2008 kl. 10:36

3 Smámynd: Örvar Már Marteinsson

Mín skoðun er sú að landeigendur eigi sitt land og afnotarétt af því. Eigi landeigendur ekki sitt land, sem þeir hafa keypt eða eignast á annan lögmætan hátt mætti fara að efast um að ég eigi húsið mitt eða hreinlega fötin mín. Það sem maður á hlýtur maður að eiga!

Mér finnst það hins vegar mjög undarleg athugasemd að LÍÚ sé einhver vísir að Landsútgerð. Ef ég vissi ekki betur myndi ég halda að þarna færu saman fordómar og fáfræði. Eru þá kennarasamtökin einhverskonar Landsmennt? Bændasamtökin Landsbú? Þetta eru bara hagsmunasamtök eins og Landssamband Smábátaeigenda og hver önnur.

Örvar Már Marteinsson, 22.9.2008 kl. 10:40

4 identicon

Ef þetta er óskýrt þá á að skýra þetta með lögum eða dómi. Á sama hátt má spyrja sig: Hver á vatnsréttindi úr jarðgöngum? Hver á það jarðefni sem koma úr slíkum göngum?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 22.9.2008 kl. 11:56

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þarna er gripið á því máli sem er einna viðkvæmast allra pólitískra mála í dag. Flestir hafa á þessu sterkar skoðanir sem jafnan litast af þeim hagsmunum sem hverjum stendur næst. Þetta var fremur einfalt til skilnings allt fram að lokum síðustu aldar. Jarðir voru keyptar af fólki sem hugðist reka þar þann hefðbundna búskap sem stundaður hafði verið kynslóð fram af kynslóð. Sama mátti segja um nýtingu fiskimiðanna. Ungir menn keyptu báta og reru til fiskjar og þetta var engum umræðuefni í skilningi einhvers réttar. Svo kemur allt í einu upp sú umræða að öll verðmæti lands og lagar séu kannski ekki nægilega skilgreind í tilliti jafnræðis þegnanna.

Mín reikula réttlætiskennd segir mér að íbúar sjávarþorpa eigi sögulegan og siðferðislegan rétt til fiskimiðana umfram einhverja sem hyggjast komast yfir helst allan rétt til aðgengisins og byggja upp eina risastóra "stassjón" og hafa fengið Exelskrímslið til að fella það undir þjóðhagslega sniðuga nýtingu vegna hagræðingarinnar sem ævinlega virðist gera sér mannamun. ´Sama réttlætiskennd fær mig til að finna til ónota ef auðmenn kaupa upp bújarðir með orkuuppsprettum og vatnsréttindum til að græða milljarða en moka um leið yfir okkar elsta menningararf sem er Bjartur í Sumarhúsum allra tíma.

En ég hef nú ekki ennþá séð neina löggjöf í hillingum sem passar fyrir réttlætiskennd heillar þjóðar. Er þó sannfærður um að okkur sé alltaf skylt að leita góðra lausna án þess að lögfesta einu réttu lausnina. Hún hlýtur ævinlega að vera draumsýn.

Árni Gunnarsson, 22.9.2008 kl. 18:17

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jarðalög nr. 81/2004:

2. grein. Skilgreiningar. ...

Jarðhiti merkir í lögum þessum annars vegar jarðvarmaforða í bergi í jarðskorpunni og hins vegar stöðugan straum varma úr iðrum jarðar sem ekki telst grunnvatn."

3. grein. Gildissvið.

Lög þessi gilda um allt land sem ekki er undanskilið skv. 2. mgr., þ.m.t. jarðir, jarðahluta, afréttarlönd, almenninga, öræfi, þjóðlendur og hvers konar land, eyðijarðir, landspildur, lóðir, mannvirki, skóga, vatnsréttindi, veiðiréttindi, námuréttindi, jarðhitaréttindi og aðrar náttúruauðlindir, svo og hvers konar aðrar fasteignir, fasteignaréttindi, ítök og hlunnindi á landi og innan netlaga, hvort sem þau hafa verið skilin frá jörð eða ekki.

Undanskilið ákvæðum þessara laga er jarðir, annað land, fasteignir og fasteignaréttindi í þéttbýli sem skipulagt hefur verið fyrir aðra starfsemi en landbúnað með skipulagi staðfestu og/eða samþykktu af skipulagsyfirvöldum í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga. Það gildir þó ekki um lögbýli en ákvæði þessara laga gilda um öll lögbýli í þéttbýli án tillits til hvaða skipulag gildir um landsvæði þeirra."

40. grein. Réttindi undanskilin sölu.

Við sölu ríkisjarða er landbúnaðarráðherra heimilt að undanskilja jarðefni, rétt til efnistöku umfram búsþarfir og einnig öll vatns- og jarðhitaréttindi."

Þorsteinn Briem, 22.9.2008 kl. 20:22

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Landskrá fasteigna:

Reykjahlíð I
í Skútustaðahreppi: Jarðhiti samtals 1,8 milljónir króna, samkvæmt fasteignamati.

Reykjahlíð II í Skútustaðahreppi: Jarðhiti 1,605 milljónir króna, samkvæmt fasteignamati.

Reykjahlíð III í Skútustaðahreppi: Jarðhiti 1,205 milljónir króna, samkvæmt fasteignamati.

Reykjahlíð IV í Skútustaðahreppi: Jarðhiti 804 þúsund krónur, samkvæmt fasteignamati.

Þorsteinn Briem, 22.9.2008 kl. 20:48

8 Smámynd: Einar Þór Strand

Vona bara að þessir landeigendur geri sér grein fyrir að eigi þeir jarðhitann en ekki þjóðin þá bera þeir líka fjárhagslegaábyrð á eldgosum og afleiðinum þeirra sem koma upp á þeirra svæði.

Einar Þór Strand, 23.9.2008 kl. 07:51

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Jarðeigendur í Reykjahlíð hafa frá miðöldum nýtt jörðina til brennisteinsnáms, allt frá því áður en konungur samdi um að nýta þær námur, þannig að jarðvinnsla á vegum landeigenda er ekkert nýmæli á þeirri jörð fremur en öðrum.

Jón Valur Jensson, 23.9.2008 kl. 08:57

10 Smámynd: Fannar frá Rifi

já það er ekki að spyrja af samfylkingunni. er draumsýnin um gamla kommúmisman að vakna? allt í ríkiseigu og undirstjórn flokksgæðinga. samyrkjubú eru næst á dagskrá hjá milljarðaráðherranum sem skapað ótöld verðmæti í laxeldi.

Fannar frá Rifi, 23.9.2008 kl. 13:08

11 Smámynd: Pétur Kristinsson

Það verður forvitnilegt að sjá hvernig tekið verður á þessu máli, þ.e. hvor aðilinn fær að nýta jarðvarmann. Verður það landeigandinn eða stórfyrirtækið landsvirkjun.

Pétur Kristinsson, 23.9.2008 kl. 16:39

12 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir athugasemdir.

En Örvar, þegar ég segi (að vísu í hálfkæringi) að LÍÚ sé "landsútgerð" í raun - þá á ég við að LÍÚ virðist stjórna öllum ákvörðunum sem teknar eru í sjávarútvegsmálum. Í sjávarútvegsráðuneytinu er komið fram við LÍÚ eins og þeir "eigi" fiskinn í sjónum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 27.9.2008 kl. 10:14

13 Smámynd: Fannar frá Rifi

Ólína.

Það er ein til ein stofnun á Íslandi sem hefur alræðisvald. hvorki LÍÚ, Sjávarútvegsráðherra eða nokkur annarr hefur eitthvað um það að segja um orð og gjörðir þessarar stofnunar. 

Hafró stjórnar öllu. Þó einhverjir eigi fiskin og veiði hann stjórna þeir í raun engu. Hafró ákveður hvar má veiða, hvenær og hvort að hryggningar hólf séu opnuð þegar fiskurinn er enn að hryggna. 

Fannar frá Rifi, 29.9.2008 kl. 10:19

14 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sínum augum lítur hver á silfrið

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 29.9.2008 kl. 10:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband