Landsföðurlegur Geir - í vandræðum vegna Árna Matt
15.9.2008 | 10:43
Athyglisvert var að hlusta á ræður manna í Silfri Egilsí gær. Augljóst er að Sjálfstæðismenn vilja sem minnst gera úr þessu útspili Árna Matthiesen að lögsækja ljósmæður í miðri kjaradeilu. Forsætisráðherra talaði eins og lögsóknin væri "lagatæknilegt" úrskurðaratriðið sem "breytti ekki deilunni um kjörin" eins og þetta væru tvö aðskilin mál algjörlega úr tengslum hvert við annað.
Jebb ... menn eru í stökustu vandræðum, sem vonlegt er. Því það er auðvitað alveg sama hvað hver segir, lögsókn fjármálaráðherra á ljósmæður nú þegar verkföll eru hafin, er auðvitað innlegg í sjálfa deiluna og fjarri því að vera óháð henni. Hafi þetta legið fyrir frá því í júlí að efasemdir væru uppi um lögmæti uppsagna ljósmæðra, þá er þetta vægast sagt undarleg tímasetning núna.
Annars var Geir Hilmar bara landsföðurlegur og traustvekjandi í samtalinu við Egil. Það var gott að heyra hann tala af föðurlegri visku eftir hrunadans efnahagsumræðunnar í fyrri hluta þáttarins þar sem allt var á fallanda fæti, ævisparnaður fólks horfinn í kreppuhít og ég veit ekki hvað. Ef Kristinn H hefði ekki verið til staðar að stemma þau ósköp öllsömul af, veit ég ekki nema maður sæti enn stjarfur af skelfingu fyrir framan skjáinn.
En sumsé - svo kom Geir og sagði mér og fleirum að verðbólgan myndi minnka hratt á næsta ári. Í stjórnarráðinu væru menn að takast á við vandann og finna á honum lausnir af ábyrgð og yfirvegun. Hann náði mér úr þeim skelfingargreipum sem ég var komin í eftir að hlusta á Andrés Magnússon fyrr í þættinum. Og maður skyldi ekki vanmeta það hlutverk landsfeðra að tala til fólksins og róa það á viðsjárverðum tímum.
Geir er viðkunnanlegur maður - mildur og rökfimur. Maður hefur tilhneigingu til að trúa honum. Sem er gott eins og á stendur.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 12:24 | Facebook
Athugasemdir
Sanngjörn og málefnaleg skrif hjá þér að venju, Ólína. Alltaf gaman að líta á bloggið þitt
Guðrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 11:44
Já Geir róaði okkur líka aðeins niður hér að Stjörnusteini eftir að hafa hlustað á allar hinar hrakfaraspárnar. Elsku kallinn, ber umhyggju fyrir okkur öllum.
Ía Jóhannsdóttir, 15.9.2008 kl. 11:54
Þetta var ágætt hjá Geir forsætisráðherra okkar... en svo komu morgunfréttirnar. Áframhaldandi gjaldþrot hinna stóru og fyrrum öflugu banka í BNA.... og fyrrum Seðlabankastjóri , virtur og reynsluríkur maður, talar um kreppu aldarinnar og verri en hann hefur upplifað á langri ævi... En nú er ég að fara að taka upp kartöflur- þær hafa ávaxtað sig vel-engin kreppa þar. Nú er gott að safna vetrarforða sem er óháður hinum stóra markaði- að vera sjálfum sér nægur...
Sævar Helgason, 15.9.2008 kl. 12:38
Hann sagði líka í fyrra að verðbólgan væri á niðurleið. og í janúar sagði hann að toppnum yrði náð í mars en þá frestaðist það eitthvað fram á vorið og nú er talað um nokkur ár. Samt eru menn enn að berjast í flottræfilshætti eins og að komast í öryggisráðið. Hvað er að þessu liði?
Sigurður Þórðarson, 15.9.2008 kl. 22:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.