Dagbækur Matthíasar og trúnaður við heimildamenn

matthíasMblIs  Dagbækur Matthíasar Johannesen fyrrum Morgunblaðsritstjóra hafa orðið tilefni fjölmiðlaumfjöllunar að undanförnu.  Enda ekki að furða - maður stendur agndofa yfir því að virtur ritstjóri skuli leyfa sér að opinbera einkasamtöl við menn með þeim hætti sem hann gerir. Það er eins og Matthías hafi aldrei heyrt talað um þá mikilvægu siðareglu blaðamanna að virða trúnað við heimildamenn. 

Í þessum dagbókarfærslum sem hann hefur nú birt rekur hann samtöl sín við ráðamenn þjóðarinnar frá ýmsum tímum. Samtöl sem augljóslega hafa verið "off the record" á sínum tíma: Slúður þeirra hvern um annan og óábyrgt tal. Hann opinberar tilraunir þeirra til þess að afhjúpa hvern annan og koma hver öðrum í koll. Allt er það fróðlegt aflestrar - en vekur um leið óþægilega tilfinningu þar sem auðséð er af öllu að þessir menn hafa treyst Matthíasi fyrir því sem þeir eru að segja.

Fréttahaukurinn fyrrverandi, Atli Rúnar Halldórsson, gerir  athyglisverðan útdrátt úr þessum minnispunktum Matthíasar á bloggsíðu sinni í dag.

Ósjálfrátt hvarflar hugurinn til þess tíma þegar Agnes Bragadóttir - þá blaðamaður undir stjórn Matthíasar á Morgunblaðinu - neitaði fyrir dómi að gefa upplýsingar um heimildir sínar í tilteknu máli. Hún og blaðið uppskáru virðingu annarra blaðamanna fyrir vikið, enda stóð blaðamannastéttin einhuga með henni í málinu. 

Traust er slungið hugtak - það felur m.a. í sér að maður geti gengið að ákveðnum leikreglum - jafnvel gagnvart óvinum sínum (það er nefnilega vel til í dæminu að trausti ríki milli andstæðinga). Þetta á jafnt við í opinberu lífi sem einkalífi. Til  dæmis treysta flestir því að einkalíf þeirra verði ekki sett á sölupall þó að hjúskaparstaðan breytist. Þess eru raunar dæmi að fólk hefur viljað græða á bókum og viðtölum um hjónalíf sitt eða náin samskipti með tilteknum aðila eftir skilnað. Það þykir ekki stórmannlegt.

Þessar opinberanir Matthíasar eru af svipuðum toga:  Að fá fólk til þess að opna sig við mann í einkasamskiptum, en ákveða svo einhliða hversu langt trúnaðurinn skuli ná og hvenær tímabært sé að rjúfa hann og segja frá.

Ég hef ekki orðið vitni að því fyrr að gamlir blaðamenn opinberuðu minnispunkta sína með þessum hætti - og ryfu þar með trúnað við heimildamenn sína. Sjálfri dytti mér það ekki í hug sem gömlum fréttamani að gera þetta - þykist ég þó vita að margir úr þessum bransa eigi ýmislegt í sínum minnisbókum, líkt og Matthías.

Dagækur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi skrif Matthíasar Johannesen eru ekki blaðamennska. Þetta eru dagbókarfærslur (sem hann kýs að deila með landsmönnum)og við slíkar færslur gilda önnur lögmál en í blaðamennsku. Allt tal um trúnað við heimildamenn á ekki við í þessu tilfelli.  

Það er munur á blaðamennsku og dagbókarfærslum.  Þetta hlýtur allt sæmilega snoturt fólk að sjá.

Sú staðreynd að Matthíasi finnist vegsemd í því að opinbera gamlar kjafta -og gróusögur segir hinsvegar mikið um persónu hans sjálfs.

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 19.8.2008 kl. 11:56

2 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég á ekki von á því að það sé nokkur kjaftur ánægður með gamla Moggaritstjórann, nema slúðurfjölmiðlar. Þetta er trúnaðarbrestur af verstu sort þótt hér sé kannski ekki um miklar uppljóstranir að ræða.

Helst að maður verði var við hversu litlar og brothættar sálir eru í mörgum af þessum svokölluðu stórmennum. Hver talaði um skítlegt eðli?

Haukur Nikulásson, 19.8.2008 kl. 13:52

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Matthías er að þessu til að sýna eigið mikilægi. Hann hafi nú aldeilis verið að véla um landsmálin með þeim sem ráða. Á allt venjlegt og sæmilegt fólk virkar þetta sem magalómnískur subbuskapur. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.8.2008 kl. 14:09

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Teitur - mig langar að gera svolitla athugasemd við það sem þú segir.

Sjálf er ég ekki fréttamaður lengur. En gefur það mér leyfi til þess að opinbera það sem fram hefur farið milli mín og þeirra sem ég ræddi við á meðan ég var fréttamaður? Er blaðamaðurinn laus undan trúnaðinum um leið og hann hefur skipt um starf? Hvað þá með lækninn eða hjúkrunarkonuna, sálfræðingin, prestinn eða félagsráðgjafann? Getur það fólk bara opinbera það sem það hefur orðið áskynja í sínu starfi um leið og það skiptir um starf? Að sjálfsögðu ekki.

Matthías er ekki ritstjóri lengur - en það sem hann hefur nú birt eru upplýsingar sem hann fékk í starfi sem ritstjóri. Sá trúnaður sem á að ríkja milli blaðamanns/ritstjóra og heimildamanns hýtur að halda þó svo að ritstjórinn/blaðamaðurinn hafi látið af starfi. Trúnaður er tímalaust fyrirbæri.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.8.2008 kl. 14:13

5 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Ætlaðist Svavar ekki til að þetta færi lengra þá og þegar hann greindi frá hneykslan sinni?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 19.8.2008 kl. 15:19

6 Smámynd: halkatla

þetta fer dáldið langt yfir strikið.

halkatla, 19.8.2008 kl. 16:28

7 Smámynd: Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock)

Ég lít svo á að Johannessen ættin ásamt Strangtrúuðum Sjálfstæðismönnum líti svo á að Hr Ólafur  standa í velgi fyrir ættarveldi Sjálfstæðismanna.

Forseta embættið hefur verið tekið frá Aðalsmönnum og hvað svíður meir.

Steini Pípari 

Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock), 19.8.2008 kl. 21:00

8 identicon

Þessi skrif dæma sig sjálf. Ótrúlegt að maðurinn skuli gera þetta.

sandkassi (IP-tala skráð) 19.8.2008 kl. 21:34

9 Smámynd: Sævar Helgason

Tek undir þetta hjá þér Ólína :

Matthías er ekki ritstjóri lengur - en það sem hann hefur nú birt eru upplýsingar sem hann fékk í starfi sem ritstjóri. Sá trúnaður sem á að ríkja milli blaðamanns/ritstjóra og heimildamanns hýtur að halda þó svo að ritstjórinn/blaðamaðurinn hafi látið af starfi. Trúnaður er tímalaust fyrirbæri.

Matthías gerir lítið úr sjálfum sér með þessum uppljóstrunum.  

Sævar Helgason, 19.8.2008 kl. 22:06

10 Smámynd: Guðmundur Björn

Ólína: Hef þetta hefðu ferið "einkasamtöl" við hægrimenn, hefði þetta þá ekki bara verið hið besta mál og argasta dónaskapur að hneykslast á þessu eins og þú ert að gera nú?

Guðmundur Björn, 19.8.2008 kl. 22:20

11 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Upplýsingarnar um undirbúning Bjarna Ben og Sigurjóns lögreglustjóra fyrir 30.mars 1949, þykir mér nú ákaflega mikilvægt að hafa fengið .

María Kristjánsdóttir, 19.8.2008 kl. 23:42

12 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Ég skil eiginlega ekki hvað manninum gengur til. Þetta hlýtur að virka sem rýtingur í bakið á mörgum sem þarna koma við sögu og treystu ritstjóranum á sínum tíma. Líklega engum að treysta eða hvað?
Allavega fæ ég mig ekki til að skoða þessi skrif.

Kolbrún Baldursdóttir, 20.8.2008 kl. 09:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband