Vestfirðir í ljóma dagsins!
1.8.2008 | 23:57
Aldrei hefur Rauðisandurinn ljómað skærar í hásumarsól en í dag. Að dýfa tánum í ylvolgan sjóinn á aðfallinu var engu líkt. Í tindrandi tíbrá mókti Snæfellsjökull í fjarska. Já, þetta voru yndislegir endurfundir við gamlar slóðir.
Við Siggi brugðum okkur sumsé í lystireisu með hana móður mína í dag. Ókum til Patreksfjarðar sem leið liggur um Önundarfjörð og Dýrafjörð, yfir Sandafell og Hrafnseyrarheiði, um Arnarfjörð og Dynjandisheiði. Komum við í Dynjandisvoginum á leiðinni þar sem við viðruðum hundana í veðurblíðunni. Heitur vindur lék í hári og gáraði hafflötinn - kindur lágu magnvana undir moldarbörðum og fólk flatmagaði eða sat í lautum og lægðum. Yndislegur dagur.
Þarna í Arnarfirðinum kom skáldskaparandinn yfir okkur mæðgur og við ortum:
Sól á fjörðum sindrar,
sveipar gullnum ljóma.
Ljóssins tíbrá tindrar.
Tún í fullum blóma.
Að hamraveggnum háa
hneigist fífan ljósa.
Brotnar aldan bláa
brött við sjávarósa.
Strýkur blærinn stráin,
stör á grónum hjalla.
Í fossi fellur áin
fram um hamrastalla.
Yfir landi liggur
ljómi sumardagsins,
hugur enginn hyggur
húmkul sólarlagsins.
Eftir svolitla viðdvöl á Patreksfirði var ferðinni heitið út á Rauðasand. Þar hefur orðið mikil og sjáanleg uppbygging á undanförnum árum fyrir tilstilli Kjartans Gunnarssonar og Sigríðar Snævarr sem fyrir nokkrum árum keyptu land í hreppnum og hófust handa. Nú er þar m.a. rekið "franskt" kaffi hús á fögrum útsýnisstað. Þar er gott tjaldstæði og aðstaða öll hin besta.
Við settumst út á verönd í sumarhitanum og fengum okkur vöfflur með rjóma. Hittum þar frú Sigríði með frumburð sinn og tókum tali. Þá hittum við þarna fleira fólk úr hreppnum sem mamma þekkti að sjálfsögðu öll deili á, enda ættuð úr Rauðasandshreppi og á þar enn frændfólk á öðrum hverjum bæ.
Útsýnið var óumræðilegt og undarlegt að fylgjast með aðfallinu, hve ört féll að á grunnsævinu. Ég stóðst ekki mátið að rífa mig úr skóm og vaða út í volgan sjóinn, draga að mér ilminn af sauðfénu sem var þarna í námunda, kúnum sem lágu jórtrandi og lynginu í hlíðinni.
Á heimleiðinni ókum við Barðaströndina. Komum við í Flókalundi og borðuðum síðbúinn kvöldverð við glugga sem vísar út Vatnsfjörðinn með útsýn yfir hluta Breiðafjarðar. Tíbráin titraði enn í bláum fjarskanum en jökullinn var horfinn í mistrið.
Oohhh - það jafnast ekkert á við Vestfirði í góðu veðri.
*
PS: Því miður gleymdi ég myndavélinni og get ekki sýnt ykkur myndir frá sjálfri mér. Þessar myndir hér fyrir ofan fékk ég á netinu. Því miður kemur þar ekki fram hver tók þær, en þær lýsa býsna vel því sem blasti við augum í dag.
Meginflokkur: Ljóð | Aukaflokkar: Ferðalög, Lífstíll, Vinir og fjölskylda | Breytt 12.8.2008 kl. 18:34 | Facebook
Athugasemdir
Þetta hefur verið dýrðarinnar dagur,myndræn og falleg lýsing og ljóðið er yndislega fallegt og lýsir vel því sem fyrir augu ykkar bar. Takk fyrir þetta. Kveðja
Ásdís Sigurðardóttir, 2.8.2008 kl. 00:58
Rauðasandur er magnaður, hvenær sem árs er! Kom þangað í fyrsta sinn sl. sumar og líkaði vel, vöfflurnar í Kaffihúsin Kjartans og Sigríðar voru líka góðar ... heldur dýrar en mjög góðar enda frú Sigríður nýlega komin heim með frumburðinn!
Ingibjörg Hinriksdóttir, 2.8.2008 kl. 01:17
Enn ekki farin að heimsækja firðina mína vestra eins og öll sumur síðan 1989; misjfnlega oft á hverju sinni. Minn kall er samt í Skóginum næstu viku en er við Djúpið núna með sonum, tengdadætrum og barnabörnum við veiðar. Ég gæti hins vegar fjögurra dásamlegra hvolpa og á ekki heimangegnt. Hver veit þó hvort ég kemst eftir helgi. Þú kveiktir svo rækilega í mér Ólína enda taka Vestfirðir öllum heimsins fallegustu stöðum fram. Ekki vafi.
Forvitna blaðakonan, 2.8.2008 kl. 01:48
Ég fór á þessar slóðir í vikunni og er enn í sæluvímu. Þvílíkri fegurð er ekki hægt að koma í orð. Arnarfjörður er jafnvel meiri perla en mig hefði geta órað fyrir:) Mun skella inn ljósmyndum á bloggið mitt í dag frá þessari ferð.
Birgitta Jónsdóttir, 2.8.2008 kl. 10:58
Sástu nokkuð ísbjörn?
kveðja Rafn.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 2.8.2008 kl. 12:21
Ljóðið ykkar mæðgna Ólína er lýsandi fyrir fagra vestfirði. Rauðisandur með Látrabjarg í vestri og Skor í austri, Breiðafjörð og Snæfellsjökul í suðri.
Já sjórinn verður heitur á sólríkum dögum þegar hann fellur hratt inn fyrir rifið á heitan vaðalinn.
Ég man eftir að hafa farið í blíðu á Rauðasand uppúr 1960 og þá var m.a. gengið yfir skeljasandsrifið og eldra fólkið stakk sér í brimið og synti í Breiðafirðinum með selum.
Að lokum vill ég vitna í skrif Gunnlaugs Júlíussonar frá Móbergi um nafn á sandinum sem er það sama og ég man, hann heitir Rauðisandur.
Þakka þér samt fyrir skemmtileg skrif á blogginu
"Skoðaði stóru kortabókina á laugardaginn. Hún er glæsilega upp sett og er vafalaust mikill fengur að henni á margan hátt. Fletti upp á mínum gamla hreppi Rauðasandshreppi til að skoða uppsetningu og frágang. Maður getur helst metið það eftir því sem maður þekkir best til. Ég var ekki alveg ánægður með það sem ég sá. Bæjarröð í þessum litla hreppi var vitlaust sett upp á þremur stöðum. Ég var heldur ekki sáttur við örnefnin. Rauðisandur heitir Rauðisandur í nefnifalli en ekki Rauðasandur. Það örnefni var alla vega aldrei notað í mínum uppvexti. Hann heitir Rauðisandur vegna þess að sandurinn er rauður en ekki vegna þess að sandurinn sé úr einhverjum rauða. Í annan kant er ég ekki sáttur við bæjarnafnið Máberg og örnefni því tengd. Bærinn hét og heitir Móberg í öllum opinberum gögnum og skrám. Heitið Máberg var einungis notað af tveimur fjölskyldum það ég man eftir. Mér fannst það alltaf heldur skrítið en á seinni árum sé ég ákveðin rök fyrir því vegna fýlsins í fjallinu fyrir ofan bæinn. Sama er.
Ég treysti þeim upplýsingum sem eru í bókinni miklu síður vegna þessara vankanta sem ég sá strax á því sem ég fletti upp þarna í einni skothendingu. Ég hélt satt að segja að svona verk væri lesið það vandlega yfir, ekki síst sem það á að byggja á opinberum kortagrunni sem á að vera margyfirfarinn og því alveg skotheldur.
Skráð af Gunnlaugur Júlíusson"
Mbk. bali
www.HandverkGalleri.is
bali, 2.8.2008 kl. 14:20
sæl og blessuð ólina. mikið hafði ég gaman af að lesa bloggið þitt um rauðasand, eg var þar í sveit sumarið 1948 og átti þar yndislega daga. þá voru allir bæjir i byggð og sveitin blómleg og falleg. við krakkarnir fórum oft niður a sand til að tína rekaspýtur, kuðunga og skeljar. ég er þér hjartanlega sammála um að þetta er ein allra fallegasta sveit landsins, vonandi eiga sem flestir okkar ferðamenn eftir að leggja leið sína þangað. bestu kveðjur sigríður friðriksdóttir, skpalóni 4, 22o hfj. (.eg gleymdi að segja þér að ég er alin upp á patreksfirði)
sigríður friðriksdóttir (IP-tala skráð) 2.8.2008 kl. 17:08
Ég þakka fyrir góða og réttmæta ábendingu um nafnið Rauðisandur. Ég hef leiðrétt þetta í færslunni. Ástæða pennaglapanna er líklega sú að nýlega hefur orðið talsverð umræða um nafnið Breiðavík (sem er Breiðavík í þf), og samanburður við svipuð örnefni á borð við Rauðalæk o.fl.
En það gleður mig ef færslan hefur yljað gömlum Rauðsendingum og vakið upp minningar hjá þeim um þennan fagra stað.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.8.2008 kl. 12:18
Við höfum þá þvælst um svipaðar slóðir á svipuðum tíma, ég var einmitt að koma úr ferðalagi um vestfirði, með 2 alsæla og dauðþreytta voffa.
Vestfirðir eru dásamlegir, algerlega magnaðir.
Takk fyrir góða færslu
Ragnheiður , 4.8.2008 kl. 23:54
Sæl Ólína
Var að rekast á þessa færslu þína og vil þkka þér fyrir fallegt ljóð og lýsingu á þessari sveit forfeðranna. Hef heimsótt sandinn á nánast hverju sumri í 20 ár og fylgst mes uppbyggingu heiðurshjónanna í Bæ síðustu árin.
En það er þetta með nafnið! Ég er ekki alveg viss um að rétt hafi verið hjá þér að breyta því. Það hefur lengi verið álitamál hvort skrifa skuli Rauði- eða Rauða-, sumum finnst þetta hið einfaldasta mál því sandurinn sé rauður, aðrir bendla einhverskonar "rauða" við nafnið (mýrarrauða?). Þetta hefur verið rannsakað dálítið, en engar heimildir fundist þar sem nafnið er skrifað í nefnifalli. Á öllum gömlum landakortum er skrifað Rauða..
Í bænum þar sem "franska kaffihúsið" er núna bjuggu lengi systkini sem voru flestum fróðari um sögu sveitarinnar og var mér sagt að Jóna hefði fussað er hún heyrði sandinn nefndan Rauði... og vildi meina að sandurinn væri kenndur við landnámsmanninn Ármóð hinn Rauða sem þar nam land (hann hefur sennilega verið rauðhærður).
með kveðju
ps
Í gömlum kikjubókum og manntölum er Móberg oft nefnt Máberg og jafnvel Mávberg
se
sigurvin (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 22:48
Takk fyrir þetta Sigurvin.
Ég veit að þetta er umdeilanlegt með Rauðasandsnafnið. Ég spurði móður mína og hún sagði að sandurinn hefði alltaf verið kallaður Rauðisandur af þeim sem hún umgekkst sem barn og unglingur. En það er rétt hjá þér, að á kortum og í skrám er yfirleitt skrifað Rauðasandur.
Eins og er með ýmis fleiri örnefni, t.d. Bolungarvík og Bolungavík (ýmist með "r" eða án þess) -- hvort tveggja virðist vera rétt.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 5.8.2008 kl. 23:12
Sæl aftur
Bolunga og Bolungar geta bæði verið rétt en Rauði eða Rauða ekki. Merkingin er mismunandi. Ég held ótrauður áfram að trúa Jónu gömlu í Kirkjuhvammi.... og afa.
kveða
sigurvin (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 23:30
Fallegt ljóð sem endurspeglar þá upplifun sem við eigum af eigin landi svona endrum og eins
Vil bara þakka fyrir þær færslu sem ég hef fengið að lesa frá þér Ólína Þ. Þú hefur stundum verið umdeild og kritíséruð en svei mér þá ef ég kann ekki að meta það sem að þú skrifar í þínum bloggfærslum. Takk fyrir góðar bloggfærslur. Upplífgandi og fræðandi.
Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 6.8.2008 kl. 02:21
Heil og sæl Ólína,
Fallegt ljóðið ykkar. Ég hef gegnum tíðina kallað Rauðasand Paradís á jörð og hef aldrei verið komin vestur á heimaslóð fyrr en ég er búin að heilsa Rauðasandi......þá fyrst er ég komin vestur. RauðIsandur er nefndur eftir rauða skeljasandinum sem sveitin dregur nafn sitt af og faðir minn, Ari frá Melanesi, er ákveðinn í því efni.
Varðandi uppbygginguna á Sandinum er ég ákaflega glöð með og sérlega hve vel hefur tekist til í Kirkjuhvammi og er sannfærð um að andi Jónu frænku svífi þar yfir............annað eins og hún lagaði af kaffi í den. Kom þar við á dögunum og einfaldlega varð að fá mér kaffi í hennar minningu.
Bestu kveðjur,
Sólveig Ara.
Sólveig Arad. (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 17:28
Guðdómleg færsla, það hrýslast um mann unaður við að lesa skrifin þín og ljóðið ykkar.
Takk fyrir.
Edda Agnarsdóttir, 10.8.2008 kl. 16:10
Ég var heldur of fljót á mér, hér fyrir ofan á að standa "hríslast" !
Edda Agnarsdóttir, 10.8.2008 kl. 16:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.