Ísbjarnarblúsinn - sagan eins og hún var
22.7.2008 | 12:10
Voru þetta ísbirnir? Veit ekki. Voru það álftir? Útilokað. Mávager? Nei. Snjóskaflar? Hugsanlega. Þennan dag var heiðskír himinn og mikil sólbráð á fjöllum. Tveir litlir skaflar gætu hugsanlega hafa bráðnað niður á sjö klukkutímum, hafi þeir verið orðnir mjög þunnir. Þetta gætu líka jafnvel hafa verið hvít lítil tjöld sem búið var að taka saman síðdegis. En hver tjaldar við vatn þar sem krökkt er af fugli í 200 m hæð? Hugsanlega náttúruvísindamenn. En hefðu þá ekki einhverjir vitað af ferðum þeirra? Nota menn hvít tjöld lengur?
Já spurningarnar eru margar og svörin fá. En svo mikið veit ég, að það sem við sáum yfir Hvannadalsvatni þar sem við stóðum efst í Skálakambi á milli Hlöðuvíkur og Hælavíkur um hálfeittleytið á laugardag, var engin "missýn" eða ímyndun. Við vorum fjórtán sem skoðuðum þetta vel - og okkur brá í brún sjö tímum síðar þegar við stóðum á sama stað og sáum þetta ekki lengur, hvorki með berum augum né í sjónaukum.
Við veltum því fyrir okkur hvort við ættum að tilkynna þetta. Upp skutust hugsanir eins og: Nú verðum við álitin ímyndunarveik. Þetta verður ekki tekið alvarlega! En þó að spéhræðsla sé sterkt afl þá varð nú umhyggja okkar fyrir ferðalöngum á Hornströndum hégómanum yfirsterkari. Á leiðinni höfðum við mætt fimm manna hópi sem var á leiðinni yfir í Hvannadal um Hvannadalsskarð. Þau ætluðu að tjalda þarna í námunda við staðinn þar sem við sáum fyrirbærið. Okkur var hugsað til þessa fólks og annarra ferðalanga á nálægum slóðum. Niðurstaðan varð því sú að tilkynna þetta. Enda vorum við ekki í neinum vafa um að það sem við sáum var greinilegt berum augum, á meðan það var þarna. Jafn augljóslega var það horfið síðar um daginn.
Við létum það því verða okkar fyrsta verk þegar við komum niður í Hlöðuvík um níuleytið um kvöldið að láta ferðafélagshópinn vita sem þar var staddur í Búðum. Að höfðu samráði við Guðmund Hallvarðsson, leiðsögumann og óðalsherra í Hlöðuvík, var haft samband við 112. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Síðar um kvöldið ómuðu þyrluspaðar og flugvélagnýr um alla fjallatinda. Björgunarskip kom inn í víkina frá Ísafirði með björgunarsveitarmenn og sérsveitarmenn lögreglunnar innanborðs. Við fylgdumst með þyrlunni leita svæðið og það gerðu þeir afar nákvæmlega, eftir því sem við gátum best séð. Okkur var því óneitanlega rórra því það er ekki skemmtileg tilhugsun að liggja í tjaldi, óvarinn, með grun um ísbirni í nánd. Við vorum sammála um að viðbrögð löggæslunnar voru til fyrirmyndar.
Ferðafélagshópurinn var í húsi - við hinsvegar vorum í tjöldum ca 700 metrum utar í víkinni. Við áttum þess ekki kost að komast öll í hús - en lögreglan bauð okkur að fara um borð í skipið og sigla til Ísafjarðar. Þetta íhuguðum við. En þegar leið á nótt og leitin bar ekki árangur ákváðum við að halda kyrru fyrir en hafa vakt. Við skipulögðum vaktaskipti - og höfðum talstöðvarsamband í ferðafélagsskálann, þar sem menn voru líka á vakt. Við vorum með tvö neyðarblys, eitt handhelt og annað til að skjóta upp. Og með þetta að "vopni" ásamt sjónauka og talstöðvum, létum við fyrirberast um nóttina og skiptumst á að ganga sjávarkambinn og skima til fjallaskarða með sjónaukum.
Ég skal viðurkenna að okkur var þó ekki rótt það sem eftir lifði ferðarinnar - lái okkur hver sem vill.
Annars var þetta aldeilis hreint frábær ferð. Meira um það á morgun ...
Hér sjáið þið nokkrar myndir af hluta hópsins í Hlöðuvíkurskarði og Veiðileysufirði.
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:22 | Facebook
Athugasemdir
Það verður að játast að þetta er ekki leiðinlegt til frásagnar - svona eftirá.
Dásamlegt útsýni á myndunum þínum.
Kveðja.
Jenný Anna Baldursdóttir, 22.7.2008 kl. 12:21
Álftir, og ísbirnir. Það heitasta í fréttum þessa dagana
Gísli Bergsveinn Ívarsson, 22.7.2008 kl. 12:29
Sagan segir að möguleikinn á að hitta fyrir ísbjörn , einn eða fleiri, á Hornströndum er raunhæfur. Ég kannast vel við hugrenningar ykkar við svona aðstæður- óvissunnar.
Fyrrihluta í júlí 1993 var ég ekki í ósvipuðum sporum þarna á Hornströndum, þegar talið var að ísbjarnarspor hefðu sést í fjörunni í Hlöðuvík. Þá var ekki til siðs að kemba svæðið úr flugvélum , eins og nú er gert. Mikið öryggismál það fyrir ferðalanga á þessum slóðum .
Ég sé á myndunum þínum að þið hafið á góðar stundir þarna norður frá- burt séð frá ísbjarnahugrenningum. Þetta verður ferð sem þið gleymið aldrei...
Takk fyrir söguna frá fyrstu hendi...
Sævar Helgason, 22.7.2008 kl. 12:48
Fjórtán missýnir í Hornstrandaferð. Þetta hefur verið galdur! Eða kannski fífusund sem sólin glampaði á.
Ég taldi 160 hvítar skellur á grænum fleti á laugardagskvöldið var. Allar giska bjarnarlegar til að sjá. Ég var dálítið langt í burtu, samt varð ég töluvert hræddur.
Daginn eftir voru heyrúllurnar horfnar. Bóndinn hafði hirt þær. Bjarnarlaus blasti græn grundin við.
Mér finnst verra að hafa hvorki heyrt í þyrlu né séð varðskip. En í framvegis mun ég hafa þetta fyrir satt: Það sem er hvítt og hverfur, það er björn.
Á myndunum þínum sést að það eru ennþá birnir í brúnum fyrir ofan Hlöðuvík.
Kristján Sveinsson (IP-tala skráð) 22.7.2008 kl. 13:16
Ég skil það mæta vel að ykkur hafi ekki verið rótt - líklega hefði ég farið með skipinu til Ísafjarðar, svo mikil kveif er ég. Gönguhópar eiga náttúrulega að vera með skotvopn á sér - en það er kannski allt of þungt að bera í löngum gönguferðum ef það á að duga á ísbjörn.
Eru engir hellisskútar þarna sem bangsar geta farið inn í? Var ísröndin fræga nálægust Íslandi stuttu fyrir þennan tíma sem þú varst þarna?
Gott að þú ert loksins komin "öryggið".
Edda Agnarsdóttir, 22.7.2008 kl. 13:20
Takk fyrir kveðjur þið öll. Já, þetta var nú meiri uppákoman og ekki skal ég lá þeim sem ekki sáu þetta þó þeir efist um eitt og annað varðandi málið allt. En svona var þetta nú samt.
En Jóhann Örn, ég aftek með öllu að þarna hafi verið einhver móðursýki á ferð. Þetta fólk sem var í hópnum er einfaldlega ekki þannig fólk. Enda ef svo hefði verið, þá hefðum við reynt að ná myndum af þessu til þess að "sanna" okkar mál og sýna fram á það. En það gerðum við ekki - enda bara í slök og róleg yfir þessu til að byrja með.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 22.7.2008 kl. 15:43
Búin að vera skólameistari í fjölda ára? þekkir ekki mun á snjóskafli og ísbirni!
Þvílik athyglissýki!!!
Ha Ha Ha (hvað heldur þú að þetta hafi kostað að koma þér í fréttir
baldur (IP-tala skráð) 25.7.2008 kl. 01:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.