Reykjavík er ljót borg

Korpulfsstadir Þegar ég ók Vesturlandsveginn í átt til höfuðborgarinnar í fyrradag ætlaði ég að venju að líta í átt til Korpúlfsstaða sem ævinlega gleðja augu mín frá þjóðveginum. En þá blasti við mér allt önnur sjón: Risastórt gímald - ferhyrndur álkassi sem á víst að heita hús og mun eiga að hýsa Rúmfatalagerinn. Angry 

Þetta hræðilega mannvirki dregur að sér alla athygli þarna sem það stendur. Það skyggir á formfagrar byggingar gamla stórbýlisins á Korpúlfsstöðum sem Thor Jensen reisti af metnaði og rausn og sem hafa verið héraðsprýði. Nú stendur Korpúlfsstaðabýlið eins og hálfgerður hundakofi í skugga þessarar risabyggingar sem virðist frá veginum séð vera tíu sinnum stærri. Hinumegin við Vesturlandsveginn er svo Bauhaus að reisa annan kumbalda. Álíka stóran - ef marka má húsgrindina sem komin er upp - og líklega jafn ljótan.

Sundurgerðin og skipulagsleysið í íslenskum arkitektúr held ég að hljóti að vera einstök í veröldinni.  Með örfáum undantekningum er nánast allt sem hér er byggt einhverskonar formtilraunir eða skipulagsfúsk. Engin virðing fyrir því sem fyrir er. Gler og álkössum er troðið niður innan um gömul og falleg hús, í hrópandi ósamræmi við umhverfið. 

Hér áður fyrr voru hús hönnuð og byggð til þess að fegra umhverfi sitt. FríkirkjuvegurMúrsteinar og falleg náttúruefni sjást varla lengur. Ég held bara að hér á Íslandi hafi ekki komið arkitekt sem stendur undir nafni frá því Guðjón Samúelsson leið. Hann hannaði byggingar inn í umhverfi og heildarmynd. Því miður var skipulagsuppdráttum hans ekki fylgt nema að takmörkuðu leyti - en það virðist vera þjóðareinkenni á okkur Íslendingum að geta aldrei fylgt skipulagi.

Borgin ber þessa merki þar sem hálfar húsaraðir blasa hvarvetna við með sína æpandi brandveggi. Sumar götur í Reykjavík eru eins og skörðóttur tanngarður þar sem misleitar byggingar og hver sundurgerðin tekur við af annarri. Á góðum degi reynir maður að telja sér trú um að þetta sé nú hluti af hinum Reykvíska sjarma - en sannleikurinn er sá að það er ekkert sjarmerandi við þetta. Þetta er bara ljótt.

 800px-Kringlan

Kaldur arkitektúr er það sem hefur tröllriðið allri byggingarlist undanfarna áratugi. Hvort sem um er að ræða íbúðarhúsnæði, verslunarhúsnæði eða opinberar byggingar. Þetta eru allt einhverjar klakahallir. Af hverju er ekki bara hægt að byggja eitthvað fallegt? Formfagrar byggingar í samræmi við umhverfi sitt?

Mér þykir vænt um Reykjavík. En hún ljót borg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl; Ólína !

Jah; ....... þarna verð ég, að taka undir með þér, hvað varðar ömurleika þann, hver bygir sýn okkar, sem um Vesturlandsveg förum, til Korpúlfsstaða, t.d.

Eitt fjölmargra dæma; um hryggilega dýrkun Reykvízkra frjálshyggju kapítalista, þessi ferhyrnings kofi, ásamt svo mörgum ljótleikanum öðrum.

En,...... kannski við séum of gamaldags, í viðhorfum öllum, jafnaldra góð, í augum nýjabrums fólksins, Ólína mín ?

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi, til Vestfjarða /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.6.2008 kl. 01:39

2 Smámynd: Magnús Unnar

Amen. Það er komið nóg af þessum ógeðslegu 21. aldar bröggum sem spretta upp eins og gorkúlur útum allt. Við getum rétt ímyndað okkur hvað verður sagt um þetta allt saman eftir tíu ár.

Magnús Unnar, 9.6.2008 kl. 01:42

3 Smámynd: Hallmundur Kristinsson

Því miður er of mikið til í þessu hjá þér, Ólína.  Allt of mikið.

Hallmundur Kristinsson, 9.6.2008 kl. 02:24

4 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ég verð að taka undir með þér. sem Reykvíkingi þykir mér sárt til þess að vita, að það virðist sama hvejir komi að stjórn skipulagsmála hér í bæ. aldrei virðast menn geta hugsað út fyrir rassgatið á sér.

ekki að furða að borgin líti út eins og illa kokkaður biximatur

Brjánn Guðjónsson, 9.6.2008 kl. 02:24

5 identicon

Sæl Ólína.

Ég get nú ekki sagt að mér þyki vænt um Reykjavík, en að öðru leiti er ég algerlega sammála þér. Stundum mætti halda að steinsteyptu kumbaldarnir væru hannaðir fyrir steypumótin. Þvílík hörmung. Ég líð kvalir þegar ég ber þessar byggingar augum. Góður pistill.

Kveðja,

Kári Lár. 

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 9.6.2008 kl. 02:28

6 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Hvað eru allir eiginlega að vilja þangað? Æ já, ekki vilja menn svelta í hel á landsbyggðinni...

Aðalheiður Ámundadóttir, 9.6.2008 kl. 03:29

7 Smámynd: Gylfi Björgvinsson

sæl Ólína

Þetta er því miður ekki bara Reykvískt fyrirbæri, gamla góða  London er að fyllast af glerhúsum sem sett eru í stað  æfaforna bygginga sem eru rifin  og veistu   hvað,  mörg  þessara húsa  eru  bara mjög  flott og  sóma sér vel þarna

Gylfi Björgvinsson, 9.6.2008 kl. 06:25

8 identicon

Kári Lár. byggingar eru hannaðar fyrir steypumótin þ.e. allir steyptir veggir eru viljandi hannaðir þannig að lengd hvers flatar gangi upp í það móta-kerfi sem byggingaraðilinn á og alt skraut og út-flúr er til mikils óþurftar af hans hálfu og sem verkkaupi (arkitektsins) þá er ekki liðið að bæta einhverju við sem eykur kostnað.

Þetta er þannig frekar vandamál með að eigendur húsanna / framkvæmdanna en ekki arkitektana. Það er samt rétt að arkitektar gætu vandað sig meira.

Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 9.6.2008 kl. 07:01

9 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég hangi á því að Reykjavík sé falleg borg með mörgum undantekningum

Jenný Anna Baldursdóttir, 9.6.2008 kl. 07:23

10 Smámynd: Yngvi Högnason

Margt er rétt hjá þér þarna. En varðandi stórar byggingar undir  Rúmfatalager,Bauhaus eða hvað annað í þeim dúr, þá er ekki við eigendur þeirra fyrirtækja að sakast. Á Íslandi er mikið af Bónusheilum, sem að lítur á ferðir í kringlulindir og vöruhús ódýrra markaða,tilvalda sem skemmtiferðir með börnin sín(líklega vegna þess að ekkert kostar inn).Og þá er nú betra að hafa nóg pláss fyrir pöpulinn ef að tilboð eru í gangi,því þá fyrst æsast leikar. En ekki þyrftu salar ódýrra vara að byggja risa stóra álgáma ef að enginn kæmi kúnninn.En hvort að Reykjavík sé falleg eða ljót, er mat hvers og eins. Það er ekki algilt að gamalt sé fallegt.

Yngvi Högnason, 9.6.2008 kl. 09:23

11 Smámynd: Júlíus Valsson

Aðdáendum íslenskrar byggingalistar og arkitektúr skal bent á nýja viðbyggingu Breiðagerðisskóla. Hún slær allt út.

Júlíus Valsson, 9.6.2008 kl. 09:26

12 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Merkilegt að þú skulir minnast á Guðjón Samúelsson, því við vorum einmitt að ræða þetta þegar við stóðum fyrir utan aðalbyggingu H.Í. ég og betri helmingurinn í gær. Enginn hefur komist með tærnar þar sem hann hefur hælana. Reykjavíkin er því miður sundurlaus og leiðinleg. Aftur á móti fórum við í bíltúr í Hafnarfjörðinn í gær og þeir eru heldur betur að taka til hjá sér, eflaust vegna afmælis. Glæsileg umgjörð í kringum höfnina og síðan er að verða virkilega fallegt í kringum lækinn og tjörnina. Mikið af blómakerjum og svo er verið að rífa gamalt drasl!

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 9.6.2008 kl. 10:16

13 identicon

Ástæðan fyrir þessu er einföld, nútíma arkítektúr og skipulag er á villgötum og hefur verið allt síðan módernisminn og fúnkisstílinn komst í tísku...

Það er einfalt að sýna fram á þetta með því að skoða á öll hús og hverfi sem byggð eru eftir 1950, aðeins u.þ.b. 1 af hverjum 100 húsum er eitthvað sem teljast má fallegt.

Tryggvi (IP-tala skráð) 9.6.2008 kl. 12:59

14 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Sammála er ég þér Ólína, núna verður þú að aka inn í Grafarvoginn til þess að sjá Korpúlfsstaði, fer nefnilega ætíð þá leið er suður fer, til að fara í kaffi hjá bróður mínum. Ég er nú fædd og uppalin í Reykjavík, fæddist að Hringbraut 32 beint á móti þjóðminjasafninu, og mikið fannst mér Reykjavík falleg er ég vara að alast upp, það breyttist nú skjótt, enda hef ég ekki búið í borginni síðan 1961.
Ég vill fá aftur gömlu góðu Reykjavík, allavega gamla kjarnann, ég veit að það kostar, en allt kostar peninga.
                                   Kveðja frá Húsavík
                                      

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 9.6.2008 kl. 13:51

15 identicon

Já Reykjavík er forljót borg.

Hluti af vandamálinu er sá, að Reykjavík er hönnuð fyrst og fremst fyrir bíla, en ekki fyrir fólkið.

Tryggvi og fleiri: Það er ekki rétt ad nútíma arkitektúr sé ljótur, hann getur verið frábær og er það á mörgum stöðum þar sem eitthvað hefur verið lagt í hann. Það er því miður ekki tilfellið á Íslandi.  Ég myndi kynna mér málið áður en ég kæmi með svona fullyrðingar, módernisminn er ekki slæmur, það er margt fallegt við einfaldleikann.

Listin við fallegan arkitektúr er að geta blandað sama gömlu og nýju eins og maður sér t.d. gert í Berlín, Amsterdam, París og öðrum fallegum Evrópuborgum. Reykvíkingar gætu lært ýmislegt af þeim. 

lítill nemi (IP-tala skráð) 9.6.2008 kl. 14:04

16 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Því  sjaldnar sem ég kem suður, því leiðinlegri og ljótari finnst mér borgin, kannski ekki sanngjarnt af mér að segja svona, en mér finnst ástand stór-Reykjavíkur svæðisins hafa hrakað illilega síðustu árin.  Kveðja vestur

Ásdís Sigurðardóttir, 9.6.2008 kl. 14:41

17 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæl Ólína

Ég er Reykvíkingur með rætur sem ná langt aftur til bernsku bæjarins. Ég mótmæli þessari yfirlýsingu sem þú birtir í þinni fyrirsögn. Satt er að mörg slysin eru fest í gler og steypu en það eru margir fallegir staðir í borginni.

Ég vona að sú uppbygging sem á sér stað í miðbænum skili betri og fallegri borg, þar sem hið gamla fær að njóta sín við hlið hins nýja. Ein orsök ljótleikans sem þið talið um hér á undan er ósamræmið, það hefur skort heildarsýn.

En að afgreiða borgina sem ljóta borg, basta! - það fer yfir strikið.

Hjálmtýr V Heiðdal, 9.6.2008 kl. 16:39

18 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Reykjavík er einfaldlega ekki falleg borg.....svo er hún afskaplega sóðaleg.

Hólmdís Hjartardóttir, 9.6.2008 kl. 17:06

19 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæl verið þið og takk fyrir athugasemdir ykkar.

Ég sé að Hjálmtý sárnar þessi yfirlýsing mín. En sannleikurinn er sá að ég er líka Reykvíkingur, með bernskurætur í þessari borg. Þess vegna þykir mér vænt um hana.

En þó að fallegir staðir finnist hér og hvar í borgarlandinu þá er Reykjavík ekki falleg borg. Því miður. Stundum verður maður bara að segja eins og er. Og því fleiri sem láta álit sitt í ljós á þessu því betra held ég - því þá er kannski von til þess að þeir sem hafa skipulagsvaldið hugsi sinn gang. Það er löngu tímabært.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 9.6.2008 kl. 17:27

20 Smámynd: booboo

Þessi tvö hús eru umhverfismengun að mínu mati. Ég skil ekki hvernig yfirvöld geta gefið leyfi fyrir svona, af því að eins og þú segir eyðileggja þessi hús ásýnd landslags á stóru svæði. Svo er það með veggjakrotið. Borgaryfirvöld spreða peningum á hverju ári í þrif á ósómanum. En það spyr engin hvort ekki sé hægt að gera eithvað í því að koma í veg fyrir að krotarar komist yfir úðabrúsa og risatússpenna. Hvernig væri að setja til dæmis 500 til 1000% toll eða gjald á þessar vörur? Yfirvöld leggja há gjöld á áfengi og innfluttar landbúnaðarvörur í einhverskonar verndunartilgangi - hvernig væri að setja verndartoll á graffiti vörurnar líka?

booboo , 10.6.2008 kl. 12:00

21 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Heil og sæl Ólína. Mikið er ég þér sammála. Þetta er ekki falleg "innkoma" í borgina. Korpúlfstaðir, þessi reisulegi bær sem var eitt af merkjum þess að maður var að koma inn í höfuðborgina, nýtur sín ekki lengur. Þessi kaldi arkitektúr sem þú talar um er einmitt að tröllríða öllu. Þessi kaldi, grái, kassalagaði fúnkisstíll sem mér finnst ljótur. Eins og þú segir kaldar glerhallir innan um gömul og virðuleg hús er skemmd. Mér finnst alltaf eins og arkítektar hér fái að leika lausum hala og noti borgina sem tilraunadýr fyrir útrás sína. Hér er aldrei byggt þannig að byggingar falli inn í það umhverfi sem fyrir er. Ég vildi óska að þessi þróun sneri brátt í hina áttina. Við eigum ekki stórt svæði með sögu og megum því ekki farga því litla sem til er vegna fégræðgi verktaka og verslunareigenda.

Sigurlaug B. Gröndal, 10.6.2008 kl. 20:36

22 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Verð nú bara aðeins, hafandi bæði fæðst og alist upp í yndislegri Reykjavík.
Sjá hana svo breytast smá saman í eitthvað óskiljanlegt, í skipulagi og Arkitektúr.
Í hvert skipti sem ég kem akandi suður þá fæ ég hroll, það er algjörlega búið að eyðileggja allt augna yndi sem áður var hluti af sérkennum borgarinnar.
Ég vona bara að þeir snúi við blaðinu í miðborginni og skapi aftur gamla góða bæjarandann, ég sem er fædd 1942, man þá tíma er miðbærinn var eins og ein stór fjölskylda, og vitið þið að þeir eru til ennþá meira að segja í henni stóru Ameríku.
                                     Vonum það besta.

Ps. Ólína hvernig gengur með verndun og uppbyggingu gamla bæjarins á Ísafirði, er ekki allt stopp núna vegna peningaleysis?

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 11.6.2008 kl. 09:07

23 Smámynd: Jóhann Frímann Traustason

Hvaða vitleysa er þetta í þér ,Reykjavík er mjög falleg borg og alltaf að verða flottari þetta er ótrulegt hvað er í boði hér miðað við hvað við erum fá .Það vantar samt meira líf  í miðbæinn .

Jóhann Frímann Traustason, 11.6.2008 kl. 12:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband