Ill nauðsyn - eða hvað?

Sorgleg endalok voru það að björninn skyldi felldur - en ill nauðsyn er ég hrædd um. Ekki hefði ég viljað vera þarna og sjá dýrið koma á móti mér.

Athugasemdir héraðsdýralæknisins á Blönduósi eru þó umhugsunarefni (sjá hér ) og þær vekja spurningar um hvort raunverulega hafi verið vilji til þess að ná birninum lifandi.

Fram kom í fréttum að það hefði tekið sólarhing að fá deyfilyf til landsins til þess að svæfa dýrið - og af því mátti skilja að vá  hafi verið fyrir dyrum að ætla að bíða svo lengi með lausan ísbjörn á vappi um hlíðar Þverárfjalls.  En .... var þetta athugað nógu vel? Héraðsdýralæknirinn segist vera með svona deyfilyf í bílnum hjá sér. Líka byssuna sem til þarf!

Eiginlega finnst mér að deyfilyf af þessu tagi eigi að vera tiltækt á lögreglustöðvum landsins og/eða hjá héraðsdýralæknum. Og varla getur verið svo mikið mál að koma því þannig fyrir.

Eiginlega finnst mér líka að það þyrfti að vera til viðbragðsáætlun fyrir uppákomur af þessu tagi. Hvítabirnir eru alfriðaðir - við getum alltaf átt von á því að þeir gangi á land hér, þó það gerist ekki oft.

Þá er vel hugsanlegt að grípa þurfi til svæfingarlyfja með skömmum fyrirvara vega fleiri dýrategunda en ísbjarna. Ég minnist þess þegar hreindýrskýr gat ekki losnað frá kálfi sínum og gekk með hann í burðarliðnum meðfram veginum í Fellahreppi á Fljótsdalshéraði um árið. Framan af þorði enginn að fella dýrið af því það var ekki veiðitímabil - og engin deyfibyssa var tiltæk heldur. Kýrin var þó skotin um síðir, en þá var hún búin að ganga sárkvalin sólahringum saman og var að dauða komin.

Gætu stjórnvöld til dæmis ekki átt samstarf við alþjóðleg náttúruverndarsamtök um viðbrögð og aðgengi að sérfræðingum þegar eitthvað þessu líkt kemur upp? Ég segi nú svona.


mbl.is Ísbjörninn felldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Mikil óyndishugmyndafátækt var þetta af lögreglunni að reyna ekki að sjá fleiri mögleika. Loka svæðinu ef bangsi var svangur, en síðan reyna að sjá til að rétt yrði tekið á málinu. 

http://www.formosus.blog.is/blog/formosus/entry/558517/

Baldur Gautur Baldursson, 3.6.2008 kl. 15:26

2 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Sammála Baldri Gauta það hlýtur að hafa verið hægt að gera eitthvað annað en að leggja dýrið í valinn!

Ía Jóhannsdóttir, 3.6.2008 kl. 15:59

3 identicon

Þetta var nú umhverfisráðherran úr þínum flokki Ólína, sem gaf grænt ljós á að skotið yrði á bangsa greyið.  Hvað segirðu nú við því???  Þú hlýtur að hafa einhverjar skýringar fyrir hennar hönd á reiðum höndum.

Sigurbjörn D. Karlsson (IP-tala skráð) 3.6.2008 kl. 16:03

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Allt er nú hægt að setja í flokkspólitískt samhengi - meira að segja þetta!

En ég spyr þig Sigurbjörn: Hefðir þú sem umhverfisráðherra neitað lögreglunni um að skjóta dýrið þar sem það stefndi niður hlíðina að mönnunum?

Það er hægara um að tala en í að komast að dæma svona ákvörðun sitjandi í sínu örugga sæti einhversstaðar. Auðvitað verður lögreglan að hafa heimild til þess að tryggja almannahagsmuni á stað og stundu. Ráðherrann var ekki á staðnum.

Svo er hægt að velta vöngum yfir þeirri ákvörðun eftir á - og það erum við að gera.

Ég fyrir mitt leyti vil að við  drögum lærdóma af þessu - þess vegna er ég að tala um viðbragðsáætlun og viðbúnað við atburðum sem þessum svo það þurfi ekki að gerast oftar að dýr í útrýmingarhættu sé fellt.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.6.2008 kl. 16:09

5 identicon

Hafa menn ekki heyrt um tilflutninga skógabjarna í Evrópu? Héldu menn að það þyrfti deyfilyf fyrir tvo sólarhringa? Er dýralæknirinn að segja ósatt?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 3.6.2008 kl. 16:12

6 identicon

Sæl Ólína

Þessi blessaði ísbjörn er mjög líklega búinn að vappa hér um í nokkrar vikur eða mánuði án þess að nokkur hafi orðið hans var. En það stendur víst skýrt í lögum um verndun villtra dýra að bannað er að drepa ísbjörn nema að honum stafi ógn við mannfólk eða búfé. Ég verð nú bara að segja fyrir mig að þegar hann var skotinn þá var lítil hætta sem stafaði af honum. vappaði þarna um mjög sakleysislega. eina rétta var að hafa gætur á honum í þann tíma sem þyrfti deyfilyf.

Kv

Þorbjörn

Þorbjörn Jóhannsson (IP-tala skráð) 3.6.2008 kl. 16:53

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Já, ég er svolítið hrædd um að þetta sé rétt hjá ykkur, Þorbjörn og Gísli. Og ég skil vel afstöðu Baldurs Gauta og Íu. Því miður er útlit fyrir að kunnáttuleysi og hræðsla hafi stjórnað aðgerðum þarna.  

Þetta er afar leitt. Afar leitt.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.6.2008 kl. 19:20

8 Smámynd: Sævar Helgason

Auðvitað er fólk hrætt við þessar stóru skepnur- þó nú væri.  Alltaf ,hefur ýmist verði  reynt  að farga þeim eða tekist að drepa þá þegar þeir hafa gengið á land í aldanna rás- sögur segja okkur það.

Mér verður alltaf í fersku minni gönguferð sem ég fór í frá Hesteyri við Jökulfirði og norður í Hornvík snemma í júlí árið 1993.   Ég var einn á ferð. 

Þegar ég kom í land á Hesteyri eftir ferð með Fagranesinu yfir Djúpið- settist ég niður á sjávarbakkann og fékk mér hressingu ásamt því að lesa DV sem ég hafði keypt á Ísafirði.  Þar blasir við mér á baksíðu að spor eftir hvítabjörn hefðu sést í fjörunni við Hlöðuvík tveim dögum áður. 

Ekki þóttu mér þetta beint hressandi fréttir svona í upphafi ferðar um þessar víkur á næstu dögum- vopnlaus maðurinn. Ég ákvað samt að leggja í ferðina og vona að skepnan væru á braut. 

Á leiðinni uppí Kjaransvíkurskarðið , sem aðskilur Jöklufirðina frá Kjaransvík og Hlöðuvík, hafði ég nægan tíma til að upphugsa einhverjar varnir ef ég mætti bangsa svona auglitis til auglitis.  Niðurstaðan var sú að möguleikarnir væru litlir á að sleppa ef bangsi væri mjög hungraður.  Hlaupahraði minn væri mestur 7-10 km/ klst þegar bangsi getur hlaupið á 50 km/ klst.  Og einn stuttur vasahnífur mætti sín lítils í návígi.

Þegar í Kjaransvíkurskarðið var komið kíkti ég varlega yfir - en enginn bangsi var sýnilegur- og áfram var haldið og ekkert bar til tíðinda varðandi hvítabjörninn.

En saga er ekki búinn.  Á þeim tíma sem ég var þarna á minni Hornstrandagöngu , frétti ég síðar að skipverjar á báti frá Bolungarvík hefðu fangað hvítabjörn þarna nokkrar mílur frá Hlöðuvík ,á sundi, náð honum um borð og hengt hann. Þeir fengu bágt fyrir meðferðina á dýrinu.

Mér datt í hug að setja þessa sögu á bloggið í tilefni dagsins 

Sævar Helgason, 3.6.2008 kl. 19:24

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Brrrr...... maður fær bara hroll af tilhugsuninni um það hvað hefði getað gerst, ef bangsi hefði verið á ferð á sömu slóðum og þú.

Vissulega eru ísbirnir skaðræðisgripir, og engin ástæða til að umgangast þá af neinni léttúð.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.6.2008 kl. 19:59

10 identicon

Af Birninum stafaði engin hætta....svo mikið er víst. Maður sá á karlpeningnum sem var þarna, (með allri virðingu fyrir þeim), að þeir voru komnir í annan heim, forsögulegan heim, sem hefði verið í lagi ef þeir væru að veiða sér til matar, eða verjast argandi dýrinu, sem var ekki raunin. Þessir svokölluðu sérþjálfuðu menn létu ekki menntun sína ráða verkum í dag heldur frumlega hegðun, og ef þessir menn geta ekki gert greinarmun á þessari stundu hvernig haga skal málum þá eru þeir á röngum stað í lífinu.

Umhverfisráðherra hefði getað gert ýmislegt, en miðað við tímann sem leið frá fundi bjarnarinns og þar til hann var felldur gefur til kynna að hún hafi ekkert aðhafst...það hefði verið einfalt að hafa um vopnaða vaktmenn yfir dýrinu, loka veginum og vísa fólki heim til sín, í stað þess að bjóða því í sirkus.

ég á ekki til orð!

Valur G (IP-tala skráð) 3.6.2008 kl. 20:11

11 Smámynd: Sævar Helgason

Það er þetta með lífshættuna þegar maður er á ferðalagi. Hér á Íslandi stafar okkur svo til öll lífshættan af mannfólkinu sem er akandi á bílum- tölfræðin upplýsir það.

Fyrir mér er það t.d Suðurlandsvegurinn á kaflanum frá Geithálsi og að Ölfusárbrú . Þar hafa margir tugir fólks á öllum aldri látið lífið - og margir árlega.  

Það eru höfð snarari handtök við að skjóta rólyndis ísbjörn sem sennilega engum hefur stafað hætta af, en að gera úrbætur á þessum vegi dauðans .   

Við eru nú ekki fullkomnari en þetta, mannfólkið. 

Sævar Helgason, 3.6.2008 kl. 23:07

12 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Furðulegt hvað margir virðast halda að bangsinn hefði bara fengið að leika lausum hala hefði hann ekki verið plaffaður niður af þessum snillingum ...eða þannig. Bara kjánalegur fyrirsláttur að erfitt heði verið að fylgjast með ferðum hans þar til honum hefði verið bjargað...frekar snautleg málalok finnst mér og lítil reisn yfir þessu...en hræðsla orsakar oft dómgreindarleysi og fljótfærar ákvarðanir.

Georg P Sveinbjörnsson, 4.6.2008 kl. 13:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband