Vel heppnað "útkall" á Skálavíkurheiði

Patton Í gær tókum við útkallsæfingu á Skálavíkurheiði og Tungudal ofan Bolungavíkur. Þegar ég segi "við" á ég við félagana í Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitar Íslands og Björgunarfélag Ísafjarðar en sveitirnar tvær efndu sameiginlega til þessarar æfingar.

 Við settum á svið leit að fjórum týndum einstaklingum - kærustupari sem hafði átt að koma fótgangandi frá Skálavík en borið af leið, og feðrum þeirra sem höfðu ákveðið að fara til móts við þau á sunnudagsmorgni. Samkvæmt sögunni átti parið að hafa náð símsambandi við foreldra sína á fjallshryggnum milli Skálavíkurheiðar og Tungudals svo ekki var "vitað" hvorumegin skyldi leita þeirra.

Þrjú hundateymi tóku þátt í leitinni. Allt unghundar sem voru að þreyta sína fyrstu þrekraun í "útkalli". Aðgerðastjórn var í höndum félaga úr báðum sveitum. Að þessu sinni var ég í skipulagsteyminu sem stjórnaði æfingunni, enda er minn hundur ekki tilbúinn ennþá í svona stórræði.

Æfingin tókst í alla staði vel - og það var ótrúlega gaman að sjá hundana vinna úr þessu verkefni, þessar elskur. Hundar eru frábært fyrirbæri þegar kemur að leitum. Lyktarskyn þeirra, hraðinn, vinnueinbeitingin. En sumir þeirra voru orðnir ansi þreyttir í lokin.

"Útkallið" barst kl. 13:09. Hálftíma síðar voru hundateymin komin á staðinn. Kl. 14:00 var búið að skipuleggja og skipta leitarsvæðum og hundarnir lagðir af stað. Fyrsti maðurinn fannst kl. 14.30 og sá síðasti laust fyrir kl. hálf fimm. Leitin í heild sinni tók því tvo og hálfan tíma sem þykir góður árangur. Leitarskilyrði voru góð, rigningarsúld en þokkalegur vindur. Hið síðarnefnda skiptir máli þegar hundar eru við leit því þeir taka lykt af fólki með veðri.

Í Vestfjarðadeild BHSÍ á Ísafirði eru alls sjö hundateymi. Hundarnir sem notaðir voru að þessu sinni eru allt ungir hundar sem hafa verið í þjálfun undanfarin tvö ár. Félagar úr unglingadeild Björgunarfélags Ísafjarðar aðstoðuðu í æfingunni. Þeir gengu svæðið eða léku ´"týnda" fólkið, eftir því sem þurfa þótti og stóðu sig í alla staði vel.

BHSI-ISO


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tiger

  Ég segi nú bara - hvar væri maður staddur án ósérhlýfinna björgunarsveitaeinstaklinga - að ég tali nú ekki um blessaða ferfætlingana? Greinilega illa að mínu mati. Björgunarsveitafólk á heiður skilið fyrir að vera ávallt reiðubúið í að bjarga mannslífum. Ótrúlega mikið sem þið leggjið á ykkur okkur til handa - takk fyrir það! Eigðu yndslegan dag mín kæra!

Tiger, 19.5.2008 kl. 15:00

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þið eruð sko rosalega dugleg að mínu mati og ég er virkilega stolt af því fólki sem stendur í svona erfiðum störfum.

Ásdís Sigurðardóttir, 19.5.2008 kl. 22:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband