Þarfasti þjónninn, félaginn, hljóðfærið ...
17.5.2008 | 11:42
Það er svo undarlegt að hugsa til þess á hve örskömmum tíma tölvan - þetta litla tæki (núorðið) - hefur náð að skipa sér sess í lífi manns. Tölvan er orðin miðpunktur alls sem gerist.
Í vinnunni er hún þarfasti þjóninn. Hún er glugginn út í heim. Samskiptatækið við vini og vandamenn. Hljóðfærið sem ég hamra á tregatóna um andvökunætur og gleðisöngva á góðum dögum. Já, þó skömm sé frá að segja þá hefur tölvan (nánast) tekið við af píanóinu og gítarnum sem sálusorgari og gleðigjafi. Í stað þess að slá á strengi er ég farin að hamra á tölvu til þess að tjá hugsanir mínar, ljóðasmíð og fleira. Tölvan er orðin helsti tengiliðurinn við lífið. Hún er "félaginn" - hljóðfærið - síminn!
Er ekki eitthvað bogið við þetta?
Svo, til að kóróna skömmina, er hún líka farin að taka sér sess sem hálfgildings persóna. Þessi sem ég er að vinna á núna, er svolítið farin að þreytast. Hún er farin að hiksta og þrjóskast við - vera lengi að sumum hlutum. Og þá finn ég hvernig óþolinmæðin og ergelsið byggist upp gagnvart henni smátt og smátt. Já, ég viðurkenni það bara - ég er farin að TALA við tölvuófétið! Æ, vertu nú ekki að þreyta mig þetta - reyndu nú að moðast í gegnum þetta! Tuldra ég stundum. ÞÚ ætlar þó ekki að fara að frjósa núna!
Svo suma daga er hún eins og hugur manns - lætur allt renna þýðlega í gegn og er bara draumur í dós (í orðsins fyllstu). Þá erum við vinkonur - og ég strýk henni mjúklega í þakklætisskyni þegar ég loka henni. Finn að mér er hlýtt til hennar.
Nú er ég farin að strjúka henni líka áður en ég opna hana - svona til að blíðka hana aðeins áður en við byrjum - það virkar ..... stundum
Meginflokkur: Tölvur og tækni | Aukaflokkar: Bloggar, Lífstíll, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:44 | Facebook
Athugasemdir
Þú þarft að hreinsa og afslitra tölvuna þína, Ólína. Ef þú kannt það ekki, hringdu þá í mig og ég hjálpa þér. Það gæti lengt líftíma tölvunnar og fjölgað strokum svo um munar!
Lára Hanna Einarsdóttir, 17.5.2008 kl. 11:46
Tek þig á orðinu, mín kæra :I)
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 17.5.2008 kl. 11:48
Ólína af móðurást ölvuð,
þótt illa hún sé tölvuð,
hefur allt fryst,
þó hún sé hrist,
og móðurborðin mölvuð.
Þorsteinn Briem, 17.5.2008 kl. 13:27
Hahaha, ljúf og mannbætandi færsla hjá þér Ólína mín, í öllu sínu þó rafræna inntaki!
Liggur við að ég vildi nú vera tölvan þín um dagstund eða svo, hún öfundsverð af gælum góðrar og glæstrar konu!
Of ekki hefur þú orðið svikin af góðum ráðum hinnar hugumstóru Láru Hönnu, sem ekki er aldeilis einhöm og segist nú meira að segja vera "söngkona bakatil"!
En pælingin þín um ríkara hlutverk tölvunnar er fín, en samt er nú eitt sem ekki breytist, allavega ekki enn, söngurinn, tilfinningarnar, tjáþörfin öll, verður enn til í hug og hjarta, bara verkfærin sem breytast. En í öllum bænum hættu samt ekki að grípa í hljóðfærin, ekki frekar en að hætta að opna munninn til söngs eða annars!
Hvað skildi Lára Hanna annars hafa náð að kenna þér gegnum símtólið,
Strauja?
Magnús Geir Guðmundsson, 17.5.2008 kl. 20:30
Þetta er málið, blessuð tölvan farin að kalla meira á mig en bókin. Tæknin er svo ótrúlega skemmtileg.
Ásdís Sigurðardóttir, 17.5.2008 kl. 22:52
Já, það er svo endalaust satt að blessuð tölvan er orðin miðpunktur alls þess sem gerist í heiminum. Hvort sem það er heima hjá Jóni úti í bæ eða Hvíta húsinu sjálfu. Skelfilegt er þó þegar maður hugsar til þess að tölvur eða róbótar eru að ýta fólki til hliðar af vinnumarkaðinum víða um heim, vonandi verður það ekki framtíðin - allir heim og tölvur vinna verkin. Eigðu yndislega viku framundan mín kæra Ólína!
Tiger, 19.5.2008 kl. 03:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.