Brautargengiskonan útskrifuð
13.5.2008 | 22:53
Í dag útskrifaðist ég af Brautargengisnámskeiði sem Impra - Nýsköpunarmiðstöð Íslands, hefur staðið fyrir hér á Ísafirði í vetur. Ég fékk meira að segja sérstaka viðurkenningu fyrir "bestu viðskiptaáætlunina" - og vissi vart hvaðan á mig stóð veðrið. Það var óvænt ánægja og heilmikil hvatning.
Ástæða þess að ég skellti mér á þetta námskeið var sú að mig hefur lengi langað til þess að standa fyrir stofnun söguseturs eða -sýningar um Spánverjavígin 1615. Ég sé fyrir mér afþreyingarsafn og sýningu ekki ósvipaða Landnámssetrinu í Borgarnesi ásamt leiðsöguferðum um söguslóð þessara dramatísku atburða þegar héraðshöfðingjar hér vestra - með Ara í Ögri fremstan í flokki - eltu uppi Baskneska hvalveiðimenn, sem hér höfðu lent í skipstrandi, og stráfelldu þá í tveimur aðförum 1615. Þessi atburður á engan sinn líka í Íslandssögunni - og af honum má ýmislegt læra um samfélag 17. aldar, atburða- og atvinnusögu okkar, hugmyndasöguna og margt fleira. Safnið gæti öðrum þræði verið fræðasetur þar sem fræðimenn gætu dvalið til lengri eða skemmri tíma við rannsóknir sínar. Það gæti verið vettvangur menningarviðburða og menningartengsla auk þess að bjóða upp á margvíslega afþreyingu og fróðleik.
Þegar ég, fyrr í vetur, fékk svo undirbúningsstyrk úr sjóðnum Átak til atvinnusköpunar og frá félagsmálaráðuneytinu til að vinna viðskiptaáætlun, þá var að hrökkva eða stökkva.
Þannig að ég fjárfesti einfaldlega í þessu Brautargengisnámskeiði - hugsaði með mér að það gæti verið gaman að skipta aðeins um gír og læra eitthvað nýtt. Brautargengisnámskeiðin eru ætluð konum í frumkvöðlaverkefnum. Og þarna hef ég setið á miðvikudögum, ásamt tíu konum hér úr nágrenninu, og stúderað innstu rök markaðs- og rekstrarfræða, bókhalds- og fjármögnunaráætlanir. Þetta hefur verið mjög skemmtilegt. Leiðbeinendur okkar hafa verið allir af vilja gerðir að aðstoða okkur og kenna - og satt að segja var þetta ný og áhugaverð reynsla fyrir mig.
Í dag vorum við svo útskrifaðar allar saman - með ræðum, blómum, skírteinum og viðurkenningum.
Með þá hvatningu í veganesti býst ég við að hóa saman hinum væntanlegu samstarfsaðilum. Og hjóla svo í sveitarstjórnirnar hér í kring, þingmenn kjördæmisins og væntanlega fjárfesta og kynna þeim áætlunina.
Nú sjáum við hvað setur.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 23:06 | Facebook
Athugasemdir
Til hamingju! Frábært hjá þér!
Ía Jóhannsdóttir, 13.5.2008 kl. 22:59
Takk fyrir það
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 13.5.2008 kl. 23:08
Innilega til hamingju, frábært hjá þér. Kveðja
Benedikta S Steingrímsdóttir, 13.5.2008 kl. 23:09
Innilega til hamingju Ólína.
Jenný Anna Baldursdóttir, 14.5.2008 kl. 00:58
Lykke til!
Heimir Lárusson Fjeldsted, 14.5.2008 kl. 09:17
Til hamingju með þennan áfanga Ólína
Sigrún Jónsdóttir, 14.5.2008 kl. 09:45
Hvernig í ósköpunum er hægt að ætlast til þess að nokkur geti skilið hvað "brautargengiskona" er?
Er til "brautargengiskarl"?
Er þetta virkilega eitthvað sem sett er á CV-ið?
Hvernig er þetta á t.d. dönsku eða ensku? Avenue walking woman? Manni er spurn !
Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 14.5.2008 kl. 15:59
Frábært hjá þér, Ólína! Þetta eru nú ekki ómerkari atburðir í Íslandssögunni en "Tyrkjaránið", í Eyjum og víðar tólf árum seinna. Og hægt er að líta á veru Baska hér frá mörgum fróðlegum og skemmtilegum sjónarhornum.
Hvallýsi frá Íslandi lýsti upp borgir Evrópu og rúmlega þrjátíu baskneskir hvalveiðimenn voru drepnir hér í tveimur aðförum, annars vegar á Fjallaskaga í Dýrafirði, og hins vegar í Æðey og á Sandeyri í Ísafjarðardjúpi í októbermánuði 1615, en þeir höfðu brotið hér skip sín. Rúmlega fjörtíu Íslendingar voru hins vegar drepnir hér í "Tyrkjaráninu" og í Eyjum er oft minnst þeirra atburða.
Nýlega fann Ísfirðingur mannabein á Fjallaskaga og trúað gæti ég að bein þetta sé frá þessu eina fjöldamorði sem Íslendingar hafa staðið fyrir, fyrr og síðar. Ísfirðingurinn hélt hins vegar að bein þetta væri kind, þannig að ekki veitir nú af að fræða Ísfirðinga um muninn á Böskum og kindum.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/04/21/mannsbein_fannst_a_fjallaskaga/
Margir Íslendingar eru örugglega afkomendur bæði Frakka og Baska, sem hér stunduðu veiðar. Til dæms er mamma Alexanders, ættuð úr Súgandafirði, lítil og dökk og spurð til vegar af heimamönnum þegar hún er niðri á Spáni.
Tvö basknesk-íslensk orðasöfn frá 17. öld, sem varðveitt eru á Stofnun Árna Magnússonar í Reykjavík, eru einnig skemmtilegt fyrirbæri og baskneskan er ekki skyld neinu öðru tungumáli. Franskur foie gras-bóndi gaf mér fransk-baskneskar orða- og textabækur í litlu basknesku þorpi í Pýreneafjöllunum, á landamærum Frakklands og Spánar, og ég les þessar bækur stundum mér til skemmtunar á kveldin. Nokkur töluorð í basknesku:
einn - bat
tveir - biga
þrír - hiru
fjórir - lau
fimm – bortz.
Þorsteinn Briem, 14.5.2008 kl. 17:44
Viðskrifarinn, ég held að þú ættir að sleppa því alveg á þínu "CV" að þú kunnir íslensku og það er nauðsynlegt fyrir þig að læra hana áður en þú byrjar að gapa hér um erlend tungumál og þýðingar. "Brautargengi" þýðir til að mynda "liðveisla" og "Impra" merkir til dæmis að vekja, örva eða hressa: "Impra eitthvað upp".
Þorsteinn Briem, 14.5.2008 kl. 17:58
Ef orðið "brautargengiskona" er t.d. sett í leitarvélina "Google" þá kemur upp ein ábending; .. hún er þessi:
Valgerður Sverrisdóttir < Fyrri ráðherrar < Ráðherra ...
www.vidskiptaraduneyti.is/radherra/raedurVS/nr/1959 - 19k - Afrit - Svipaðar síður
Til þess að birta þær niðurstöður sem helst koma til greina höfum við sleppt nokkrum niðurstöðum sem voru mjög svipaðar þeim 1 sem þegar eru birtar.
Ef þú vilt, geturðu endurtekið leitina með þeim vefsíðum sem sleppt var.
Er nema von að ekki sé hægt að gera sér nokkra grein fyrir því hvað þetta er fyrir nokkuð "almennt og yfirleitt"?
Viðskrifarinn (IP-tala skráð) 14.5.2008 kl. 19:02
Innilega til hamingju með þennan áfang, þú ert nú eldklár kona Ólína mín svo það kemur mér ekkert á óvart að þú hafir fengið sérstök veðlaun.
Ásdís Sigurðardóttir, 14.5.2008 kl. 20:36
Í Viðskrifara víðáttu er él,
viðundur flárátt með stél,
hann fer brátt í hakkavél,
með hausinn smátt í mél.
Þorsteinn Briem, 14.5.2008 kl. 22:32
Bestu þakkir fyrir góðar kveðjur þið öll.
Hvað er "brautargengiskona" spyr Viðskrifarinn. Svar: Það er svona kona sem útskrifast af Brautargengisnámskeiði hjá Nýsköpunarmiðstöðinni Impru. Ef karlmaður færi á slíkt náskeið - þá væri hann að sjálfsögu brautargengiskarl.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 16.5.2008 kl. 01:18
Námskeið átti þetta nú að vera.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 16.5.2008 kl. 01:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.