Gott var nú að fá þetta á hreint

arnarfjordur2 Ríkissjóður mun ekki greiða kostnað við umhverfismat vegna mögulegrar olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum segir Össur Skarphéðinsson. Gott var nú að fá þetta á hreint. Nauðsynlegt.

En hvað með lagaumhverfið að öðru leyti ? Mun einhver ráðherra á ögurstundu sitja dapur frammi fyrir fréttamönnum og segja að málið sé ekki í hans höndum, ekki í hans valdi, ekki á hans forræði?

Hvað lærðu menn af Helguvíkurmálinu?

Þarf ekki að breyta þessum lögum sem veita misvitrum sveitarstjórnum endanlegt vald til þess að hafa varanleg skemmdaráhrif á umhverfið.


mbl.is Borga ekki umhverfismat fyrir olíuhreinsunarstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Eins og talað út úr mínu hjarta - eða mínum pistlum, sjá t.d. hér. Og það er ekki bara Helguvíkurmálið - nú er það Sveitarfélagið Ölfus og Bitruvirkjun við Ölkelduháls. Ég skora á alla hvar sem er á landinu að senda inn athugasemd, sjá hér og hér.

Baráttukveðjur,

Lára Hanna Einarsdóttir, 7.5.2008 kl. 09:58

2 identicon

Það verða allir að standa vaktina. Þú Ólína fyrir vestan og Lára fyrir sunnan. Við á drekasvæðinu (skjaldamerkið) reynum líka.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 7.5.2008 kl. 10:57

3 identicon

Gott hjá þér Ólína að minnast á lagaumhverfið.  Það er aumt að horfa upp á fulltrúa löggjafarsamkundu skýla sér á bak við vitlaus lög.  Lögum er hægt að breyta fljótt og vel, ef vilji er til.  Lög eru ekki himnasending.  Þau eru manna verk, verk alþingsmannna.   

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 7.5.2008 kl. 11:35

4 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Þetta gaspur í Össuri hefur ekkert að segja. Hann er sem betur fer ekki einn í ríkisstjórn og ég veit að hann er ekki að tjá hug allra sinna samráðherra. Ég get ekki séð hver er munurinn á að Ríkið borgi fyrir þetta umhverfismat eins og það gerði á Kárahnjúkum. Það er alveg merkilegt hvað allt fer á annan endann þegar gera á eitthvað á Vestfjörðum. Það talar engin um Austfirði, Norðurland og Reykjanes. Þið verðið að fara að gera ykkur grein fyrir því að það geta ekki allir lifað á loftinu. Kaffi er ágætt sem slíkt en það gefur ekki mikið af sér að sitja á kaffihúsum og mótmæla öllu milli himins og jarðar.

Össur er að tala í allar áttir og ég held svei mér þá að maður taki meira mark á bullinu sem kemur upp úr honum á nóttinni en á daginn.

Ingólfur H Þorleifsson, 7.5.2008 kl. 12:46

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Talar enginn um Austfirði, Norðurland og Reykjanes, Ingólfur? Hvar hefurðu verið, góði maður? Það er búið að tala þessi lifandis ósköp um álver á Bakka og Þeistareyki, álver á Reyðarfirði og Kárahnjúka, álver í Helguvík og Bitruvirkjun og Þjórsá!

Og hver er að tala um að lifa á loftinu? Hvers konar málflutningur er þetta? Nú er ég alveg bit. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 7.5.2008 kl. 13:26

6 identicon

Ingólfur (nr.5) virðist ekki fylgjast mjög vel með umræðunni um aðra landshluta en Vestfirði.  Þar er þó af nógu að taka og ekki síst um stóriðju og umhverfisspjöll.  Vestfirðir hafa sem betur fer sloppið nokkuð vel frá slíkum vágesti þótt vitleysan hafi árif um allt.  Eðlilegra þætti mér að  hann fagnaði umhygggju fyrir Vestfjörðum og Vestfirðingum, hvort sem hún berst frá kaffi- eða frystihúsi.  Fólki er ekki sama um landið sitt.  Eitt er víst að vel yfir 90% þjóðarinnar lifir á "einhverju örðu" en stóriðju og enginn á lofti einu saman.  Ég veit að Súgandafjörður er þröngur, en víðsýni og dugur Vestfirðinga er mikill og mikils af þeim að vænta ef  búsetuskilyrði verða jöfnuð og gerð mannsæmandi.

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 7.5.2008 kl. 13:37

7 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Í lögum um mat á umhverfisáhrifum er á hreinu að framkvæmdaaðili borgar allan kostnað við mat á umhverfisárhrifum. Þetta má sjá á vef Skipulagsstofnunar. Landsvirkjun borgar slíkt vegna Kárahnjúkavirkjunar, svo dæmi séu tekin. Ég skil nú ekki þessa umræðu á þingi í gær því það er ekkert ljóst hvort farið verður í framkvæmdir við olíuhreinsistöð né hvar eða hver fer í þær framkvæmdir. Svo mat á umhverfisáhrifum er ekki á dagskrá strax. Hitt átti Álfheiður að vita þetta verður aldrei borgað úr ríkissjóði, nema ríkið ætli að byggja þessa stöð. Svo væri nú ágætt að þingmenn, ráðherra og fjölmiðlar kalli þetta réttum nöfnum. Mat á umhverfisáhrifum skal það vera en ekki umhverfismat. - Búinn að skrifa pistil um það á mína bloggsíðu.

Haraldur Bjarnason, 7.5.2008 kl. 13:53

8 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Haraldur er með réttmætar ábendingar, en oft er þessu tvennu ruglað saman.

Hitt er svo aftur annað mál að auðvitað á framkvæmdaraðilinn að borga kostnaðinn við mat á umhverfisáhrifum - en alls ekki að sjá um allt ferlið sjálfur og dæma svo að lokum í eigin máli eins og nú tíðkast samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Hlutlausir utanaðkomandi sérfræðingar eiga að sjá um matið, ekki sá aðili sem vill framkvæmdina.

Lára Hanna Einarsdóttir, 7.5.2008 kl. 13:57

9 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég trúi því, að aldrei verði byggð slík stöð á Vestfjörðum. Berjumst gegn því. 

Ásdís Sigurðardóttir, 7.5.2008 kl. 14:20

10 identicon

Ekki smá hroki þarna hjá þér? Hvað með misvitur stjórnvöld? Eru þau best í því að meta hvað heimamönnum er fyrir bestu. Ekki hefur mér alltaf fundist það. Spurðu vestfirðinga og skoðaðu tölur um fækkun síðustu 10 árin. Holt og bolt er án efa sami þverskurður af andlegu atgervi á þingi eins og í bæjar og sveitarstjórnum

Jón B G Jónsson (IP-tala skráð) 7.5.2008 kl. 14:28

11 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

En að byggja heilsuolíustöð ... ha  -  vinna heilsuolíur og annað gott fyrir búkinn og sálina úr hreinni vestfirskri náttúru. Trúlega slær þetta ekki í gegn hjá olígörkunum, þeim argvítugu náttúruföntum, en ég  hef áður sagt það og segi það enn... fólk er ekki að deyja fyrir vestan... þeir sem ég þekki eru við hestaheilsu og vilja ekki ógeðið sem verið er að reyna að þröngva uppá þá með loforðum um gull og græna skóga. Vestfirðir eru of dýrmætir að fórna þeim fyrir skít, Ísland er of dýrmætt til að fórna því fyrir gullkálfinn. Hættum þessu og förum að snúa okkur að einhverju heilnæmu.

Pálmi Gunnarsson, 7.5.2008 kl. 17:40

12 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Látið ekki blekkjast þótt Össur segi að ríkið borgi ekki umhverfismat. Það er verið að afvegaleiða fólk svo það rífist um það mál en ekki aðalmálefnið sem er olíuhreinsistöðin. Bandaríkjamenn hafa ekki gefið leifi fyrir nýrri stöð í mörg ár og síðasta var í Alaska. Ég veit að eldsneyti var aðeins ódýrara í smá tíma en allir héldu að olíuhreinsistöð myndi skila ódýrara eldsneyti fyrir heimamenn en svo var ekki. Vinnum að algjöru banni.

Valdimar Samúelsson, 7.5.2008 kl. 19:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband