Óstarfhæf borgarstjórn.

VilliÞ Það er stjórnarkreppa í Reykjavíkurborg. Sjálfstæðisflokkurinn ekki stjórntækur. Oddviti hans, rúinn trausti, streitist við að sitja sem fastast, þrjóskur eins og skólastrákur, eftir að hafa orðið uppvís að ósannindum og blekkingum, ítrekað - að ekki sé nú minnst á umboðsleysi hans við stórar ákvarðanir.

Borgarfulltrúar hins svonefnda Tjarnarkvartetts hafa svarist í fóstbræðralag, og lýst því yfir að þeir muni ekki starfa með Sjálfstæðisflokknum eftir allt sem á undan er gengið. Núverandi meirihlutasamstarfi veltur á einum einasta borgarfulltrúi sem hefur ekki einu sinni næstu menn á lista til stuðnings við sig, og má ekki fá kvef, þá er kominn nýr meirihluti! Sá fjórði á þessu kjörtímabili.

Það er aðeins eitt orð yfir ástandið: Stjórnarkreppa. Borgarstjórn Reykjavíkur er ekki starfhæf eins og á stendur.

Alþingi Íslendinga ætti að sjá sóma sinn í því að höggva á þennan hnút og setja bráðabirgðalög sem heimila nýjar kosningar í Reykjavík. Fyrir því er fordæmi frá árinu 1934 þegar bæjarstjórn Ísafjarðar var óstarfhæf.

Þeir borgarfulltrúar sem sitja í núverandi meirihluta verða einfaldlega að endurnýja umboð sitt. Það er ekkert annað í stöðunni. Það hlýtur hver heilvita maður að sjá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þetta verður allt í lagi Ólína þegar þið utanbæjarfólkið hættið að skipta ykkur af innri málefnum okkar Reykvíkinga ;-)

Heimir Lárusson Fjeldsted, 11.2.2008 kl. 15:50

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ekkert svona Heimir - ég er Reykvíkingur eins og þú veist vel, og held þar mitt annað heimili. Mér kemur þetta við. Raunar kemur öllum landsmönnum þetta við, Reykjavík er höfuðborg landsins. Hegðun stjórnmálamanna er ekki þeirra einkamál og hefur áhrif langt út fyrir héraðsmörk.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 11.2.2008 kl. 15:57

3 Smámynd: Heidi Strand

Það er engin leið að hætta

Heidi Strand, 11.2.2008 kl. 15:58

4 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Rétt Ólína. Öllum landsmönnum kemur stjórn Reykjavíkurborgar við...Þetta er höfuðborg landsins alls..Ég horfði á Vilhjálm á blaðamannafundi, ströglast við að sitja áftam í borgarstjórninni...Rúinn öllu trausti borgarbúa og samflokksaðila...Hanna Birna og Gísli Marteinn flýðu af vettvangi fyrir fundinn...Það segir sitt um samstöðu meðal sjálfstæðismanna.

Guðrún Magnea Helgadóttir, 11.2.2008 kl. 16:06

5 Smámynd: Tiger

Ég er sammála því að kreppan í borginni er orðin mjög undarleg. Oddviti sjálfstæðismanna í borginni er hættur að vera þrjóskur - þrjóska hans er hætt og heimska hans er tekin við.

Hann ætlar sér(sennilega að ráði Landspabba) að sitja af sér orrahríðina með von um að borgarbúar og landsmenn allir verði búnir að gleyma þessum hamagangi og að hann geti bara með góðu móti og engum mótmælum - sest í borgarstjórastólinn að ári liðnu. Oddviti Sjálfstæðismanna - sem og líklega sjálfstæðismenn allir - vona að Gullfiska minni okkar verði búið að gleypa allt sem nú er búið að ganga á.

Málið er líka athyglivert ef maður spáir í það að það virðist enginn raunverulega þora að taka af skarið - stíga niður fæti og segja nú er nóg komið. Allir borgarfulltrúar í núverandi meirihluta eru hræddir um sitt sæti og sitt fylgi og þora ekki að standa upp og mótmæla. Þessi Mýflugnasveimur hérna mun halda áfram að ota og pota sínum tota í blóðugan borgarbúann og stinga hann án eftirmála.

Tiger, 11.2.2008 kl. 16:17

6 identicon

Það hefði kannski átt að banna öðrum en akureyringum að tjá sig um Lúkasarmálið. Þetta er stóra axlarmálið, eða ekki stóra axlarmálið. Er ekki 112 dagurinn í dag? Sami fjöldi daga og klúðrið byrjaði?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 17:01

7 identicon

Það er ekki stjórnarkreppa ef það er meirihluti við völd. Ef að það væri ekki hægt að mynda meirihluta vegna þess að það væru ekki til 8 borgarfulltrúar sem að vildu vinna saman, þá væri hægt að tala um stjórnarkreppu.

Það eru engin fordæmi fyrir því að Alþingi hafi bein afskipti af sveitarstjórnarmálum og satt best að segja litist mér illa á að Alþingi færi að gera það. Þá fara sveitarstjórnarmenn að biðla til Alþingis um íhlutun. Þá gætu flokkar eða sveitarstjórnarmenn sagt einfaldlega nei við samstarfi í þeirri trú að Alþingi blandist í málið. Það gæfi litlum flokkum ennþá meiri völd en nú er. Er ekki einmitt kvartað yfir því að litlir flokkar, flokkar sem að hafa einn mann hafi of mikil völd. Með svona íhlutun yrðu völd þeirra meiri.

Jóhann P (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 17:28

8 identicon

Spurningin er:

Hvernig lendi Villi í þessu?

Hann skilur það ekki!!

Skiljið þið það?

Þórður Runólfsson (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 19:25

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Jóhann, það eru VÍST fordæmi fyrir því að Alþingi setji lög vegna stjórnarkreppu í sveitarstjórn. Það gerðist á Ísafirði árið 1934.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 11.2.2008 kl. 19:27

10 Smámynd: J. Trausti Magnússon

Hvað mundi svo sem breytast ef það yrðu kosningar í borginni. Villi gæfi ekki kost á sér en hinir sex sennilega allir. Dagur yrði áfram með Björk Vilhelms og Oddnýju Sturludóttur og næðu sennilega inn þeim fjórða.  Svandís Svavars næði kannski að draga einn með sér. Svo héngi Ólafur F inni. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 34 - 36% Samfylking 30 - 34% VG 12 - 14% Ólafur F 8% og Framsókn þurrkaðist út. Breytingin, jú Samfylkingin fengi sennilega einum manni meira en hún hefði í dag og það á kostnað Framsóknar. Það mundi akkúrat ekki breyta neinu fyrir kjósendur og aðra landsmenn.

J. Trausti Magnússon, 11.2.2008 kl. 21:40

11 identicon

Það er alveg furðuleg hvað það er hægt að sparka oft í Villa Vill sérstaklega fólk á vinstri vægnum.Maðurinn er marg búinn að biðjast afsökunar á sínum mistökum sem engin skaðaðist á og ekkert fjárhagstap varð,en þá er samt sparkað í manninn aftur og aftur.Nú ef hann vill sitja áfram þá hann um það,og reynir að vinna sína vinnu ef hann fær frið til þess vegna sparka frá fólki sem getur ekki fyrir sitt litla líf tekið við afsökunarbeiðniEr nú ekki að mál linni og við horfum fram á við,og sjáum bara hvað setur sama hvar við búum á landinu.

Guðrún Fririksd (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 21:41

12 identicon

Mér sýnist að stjórnarskráin í dag hamli að almenn lög verði sett. Þá er ekki hægt að setja bráðabirgðalög á meðan þing situr og reyndar orðið ansi erfitt að setja slík lög. En stjórnskipun er sett með stjórnarskrá...sýnist mér. Persónulega vonast ég til að þessi "meirihluti" sitji til vors 2010 enda ekki annað að skilja á borgarstjóra.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 22:45

13 Smámynd: Magnús Paul Korntop

Það er kominn tími á að Vilhjálmur axli ábyrggð á gerðum sínum og segi af sér,ef þetta væri í Þýskalandi eða Bretlandi þá væri búið að láta hann segja af sér.

Maðurinn er rúinn trausti frá A-Ö og hinir í borgarstjórnarflokknum treysta honum ekki með nokkru móti enda flýðu þau í burtu eins og hýenur rétt áður en þessi "blaðamannafundur"byrjaði.

Gefa á sjálfstæðisflokknum langt og gott frí frá völdum enda búinn að vera með þau OF LENGI.

Góður pistill Ólína.

Magnús Paul Korntop, 11.2.2008 kl. 22:58

14 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Góður pistill.  Þetta er mestmegnis innlitskvitt var að lesa þína skoðun er sammála að mestu.

Ásdís Sigurðardóttir, 11.2.2008 kl. 23:21

15 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Já, ef menn létu skynsemina ráða, stæðu menn upp og bæðu um endurnýjað umboð,en slík virðing fyrir kjósendum sýnist mér nú ekki vera fyrir hendi!

Áfram skal leikin farsinn "Sirkús Reykjavík" og helst svo lengi sem "Fló á skinni" forðum daga!(sem L.A. er einmitt að taka til sýninga um næstu helgi held ég, skemmtileg tilviljun!?)

En mín ágæta, þetta datt út úr mér í dag og leyfi ég því að fylgja hér með.

(Í tilefni þess að Vilhjálmur sagðist nú hafa axlað ábyrgð)

Haldlítil hljóma þín rök,

heldur já finnst mér þau slök.

Og eigi vel valin,

verður þú talin

Dómari í sjálfs þíns sök!

Magnús Geir Guðmundsson, 12.2.2008 kl. 00:06

16 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

En Ólína,þa' gerist ekkert, Davíð segir Villi situr og þá situr Villi.

Jenný Anna Baldursdóttir, 12.2.2008 kl. 00:06

17 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hann má þó eiga það hann Vilhjálmur að hann er betri í því að tala af sér heldur en að segja af sér.

Emil Hannes Valgeirsson, 12.2.2008 kl. 00:12

18 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæl öll og takk fyrir skoðanaskiptin.

Guðrún, þú segir að það sé verið að sparka í Villa, sem sé ljótt af því hann hafi beðist afsökunar. Þú fyrirgefur en þetta finnst mér vera meðvirkni. Villi hefur vissulega beðist afsökunar, og svo bætir hann um betur og segir eitthvað sem rýr hann trausti á ný, t.d. ósannindi. Það er farsinn ... og þetta er búið að mola niður það álit sem maðurinn hafði.

J.Trausti reiknar út hér fyrir ofan hvað borgarfulltrúar myndu fá af atkvæðum ef kosið yrði aftur. Í raun skiptir það engu máli. Aðalatriðið er að þeir sem nú eru rúnir trausti og vilja sitja áfram geri það þá með nýju umboði (sem ég efast reyndar um að VIlli myndi fá) - en það er eina sanna leiðin til þess að kanna hug kjósenda í borginni og hverjum þeir treysta til verka.

Magnús Geir: Góð limra.

Villi er svo sannarlega betri í að tala af sér en segja af sér. Vel að orði komist Emil.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 12.2.2008 kl. 09:34

19 identicon

Stjórnarkreppa ! Já það kann að vera. En það var líka stjórnarkreppa í þessa þrjá mánuði undir stjórn þessa dæmalausa Dags B. Eggertssonar sem talar og talar en framkvæmir aldrei neitt. Það litla sem var gert á þessum tíma var framkvæmt undir forystu Svandísar. Það er líka alveg klárt að ef þessi meirhluti springur þá verður Svandís næsti borgastjóri - ekki Dagur.

joihn (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 10:16

20 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Síðan D-listinn hafði hreinan meirihluta til að stjórna borginni, já og öðrum stöðum líka, hefur allt farið á verri veg. 

Kratar, kommar, Rauðsokkur og annar ó.rifnaður vaðið uppi með allskonar tilbrygði af ,,meirihlutum" allt frá Selfossi og að borgarhliðunum.  Allt í tómu tjóni, úgjöld nánast stjórnlaus, glundroði á öllu og nú síðast eru vinstra liðið farið að kvarta undan gundroða, vegna þess, að þau fá ekki að taka þátt í honum, sem sagt --utan valda.--gott á ykkur.

 Hættið þið svo að röfla, öll heimsins vandræði eru nánast beint frá ykkur komin. 

Villi er bara fórnarlamb aðstæðna, hvar vinstra liðið keypti Binga til fylgilags við sig og véluðu af honum stólinn.

Svo varð liðið gersamlega spinnigal, þegar Villi felldi þau á þeirra eigin meðulum og fékk lækinn til að vera memm.

Magga flokkaflakkari, flakkaði lengra til vinstri og er svo langt gengin, að hún finnur hvergi glætu í þeirri vinstrivilluþoku sem hún nú berst í .

Miðbæjaríhaldið

Ætíð í stuði

Bjarni Kjartansson, 12.2.2008 kl. 11:02

21 Smámynd: Sævar Helgason

Bakþankar Fréttablaðsins þ.12.02 fjalla um málið:

Þar er vitnað til staðfastar skoðunar Vilhjálms Þ. ,þar sem hann fjallar um mál Þórólfs Árnasonar  fv. borgarstjóra í tengslum við olíusamráðsmálið og segir :

,Það er mjög alvarlegt mál þegar stjórnmálamenn segja ekki satt og rétt frá. Ég get einfaldlega sagt það að ef ég væri staðinn að svona löguðu þá myndi ég segja af mér. Hann verður hins vegar að gera þetta þetta sjálfur upp við sína samvisku.”

Þannig að Vilhjálmi er alveg ljóst hvað honum beri að gera .. eða hvað ?

Sævar Helgason, 12.2.2008 kl. 11:15

22 Smámynd: Einar Jón

Alþingi Íslendinga ætti að sjá sóma sinn í því að höggva á þennan hnút og setja bráðabirgðalög 

Það er óþarfi fyrir alþingi að setja lög - þau eru til

26. gr. Sveitarstjórn óstarfhæf vegna neyðarástands.
Nú verður sveitarstjórn óstarfhæf tímabundið vegna neyðarástands í sveitarfélaginu, svo sem af völdum náttúruhamfara, og getur þá ráðuneytið að beiðni sveitarstjórnarinnar falið sveitarstjórn nágrannasveitarfélags að fara með stjórn sveitarfélagsins uns sveitarstjórnin verður starfhæf á ný.

Eru ekki allir að tala um hvað það er gott að búa í Kópavogi?

Einar Jón, 12.2.2008 kl. 12:09

23 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Ég held ég gæti ekki tekið þátt í borgarstjórnarkosningum í dag, þótt boðið yrði upp á það!  Er orðin leið á þessum flokkakosningum og myndi vilja kjósa um "menn" á þeirra eigin forsemdum.  En kannski mun mitt gullfiskaminni, sjá til þess að ég get valið "flokk" í næstu sveitarstjórnarkosningum eftir 2 ár eða svo!

Alltaf góðir pistlar hjá þér Ólína. 

Sigrún Jónsdóttir, 12.2.2008 kl. 14:33

24 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Sammála þér Ólína.

Edda Agnarsdóttir, 12.2.2008 kl. 14:39

25 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Vilhjálmur þarf að finna það hjá sjálfum sér hvað hann vill gera.

Hann áfram ætlar að þola við,
ákveðinn segist ei víkja.
Með Sjálfstæðisflokkinn, það einvalalið,
þau hann seint munu svíkja.
(KB)

Gefum honum og öllu þessu nú smá tíma og sjáum hvernig mál þróast. 

Kolbrún Baldursdóttir, 12.2.2008 kl. 21:30

26 Smámynd: J. Trausti Magnússon

Ég bendi öllum sem eru miklir áhugamenn um hvað Samfylkingin er æðislegur flokkur á síðustu færslu mína.

J. Trausti Magnússon, 12.2.2008 kl. 22:11

27 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Gæti ekki verið meira sammála, en það bara gerist ekkert nema að þeir skipta um kónga í hásætinu þjóðinni til ama! 

Ía Jóhannsdóttir, 13.2.2008 kl. 02:01

28 identicon

En gleyma menn ekki síðasta trompi Sjálfstæðismanna í Reykjavík Gunnari L. Birgissyni! Því 26 grein Sveitarstjórnarlaga frá 1998 er eftirfarandi:

26. gr. Sveitarstjórn óstarfhæf vegna neyðarástands.
Nú verður sveitarstjórn óstarfhæf tímabundið vegna neyðarástands í sveitarfélaginu, svo sem af völdum náttúruhamfara, og getur þá ráðuneytið að beiðni sveitarstjórnarinnar falið sveitarstjórn nágrannasveitarfélags að fara með stjórn sveitarfélagsins uns sveitarstjórnin verður starfhæf á ný.

Gætti þá ekki aftur orðið jafn gott að búa í Reykjavík og í Kópavogi?

Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 13.2.2008 kl. 11:11

29 Smámynd: Theódór Norðkvist

Borgarstjórn er óstarfhæf vegna náttúruhamfara af manna völdum.

Theódór Norðkvist, 13.2.2008 kl. 13:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband