Rándýr þorramatur

hrutspungar Jæja, þá er komið að fyrsta verðlagspistlinum á bloggævi minni - það er neytandinn sem nú lætur til sín heyra: Mér er nóg boðið. Þrettánhundruð krónur fyrir tvær sneiðar af hrútspungum og hvalspiki - samanlagt ein lófafylli af mat Angry Þegar við bætist lifrarpylsukeppur (350 kr), sneið af nýrri svínasultu (226 kr. - helmingi ódýrari en sviðasultan sem var að sjálfsögðu ekki keypt), pakki af flatkökum (108 kr) hálfur sviðakjammi (299 kr) og sletta af rófustöppu (566), þá kostaði þessi auma þorramáltið sem dugði rétt fyrir tvær fullorðnar manneskjur um þrjúþúsund krónur!

Til frekari upplýsingar þá er það verslunin Samkaup á Ísafirði sem verðleggur svona. Kallið mig nískupúka - en sú var tíðin að slátur og innmatur voru ódýrasti matur sem hægt var að fá, enda ekki mikið lagt í sviðasultu eða súran mat. Samanborði við Ora-fiskibollur eða annan unninn mat er þessi verðlagning fáránleg.

Og hvað gerð ég svo? Neytandinn sjálfur? Hundþreytt eftir leiðinlegan dag lét ég mig hafa það. Nennti ekki að keyra inn í Bónus til að gera ódýrari innkaup - vildi komast heim - nennti ekki að elda. Get því auðvitað sjálfri mér um kennt og er ósátt við bæði sjálfa mig og verslunina Angry


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Gott púst hjá þér - að vekja athygli á vandanum er fyrsta skrefið - þú getur verið sátt við það.

Svanur Sigurbjörnsson, 1.2.2008 kl. 14:54

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Gjörsamlega óþolandi dýr matur. Á þriðja þúsund krónur fyrir eystu og það súr, getur barasta ekki verið normal. Bölvað okur, sama hvar er.

Halldór Egill Guðnason, 1.2.2008 kl. 15:05

3 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Það næðir norðan fjúkið í dag, að vestan:-)

Heimir Lárusson Fjeldsted, 1.2.2008 kl. 15:30

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sannkallaður "Vestanvindur"

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 1.2.2008 kl. 15:32

5 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Við látum bjóða okkur þetta, alltaf, allstaðar. Þess vegna er okkur boðið upp á þetta. Nöldrum öll eins og við fáum borgað fyrir það, við alla afgreiðslukass í öllum búðum, á bensínstöðvunum, í sjoppunum, skyndibitastöðunum og veitingahúsunum. Nöldrum yfir verðlaginu hvar sem við komum því við og gerum það helst við þann sem mestu ræður á hverjum stað. Þá kannski - - -

Markús frá Djúpalæk, 1.2.2008 kl. 18:51

6 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Nei annars, við skulum ekki nöldra. Við skulum kvarta hástöfum!

Markús frá Djúpalæk, 1.2.2008 kl. 18:54

7 Smámynd: Blómið

Ég held að Jóhannes í Múlakaffi sé bara sanngjarn   Fer þangað hvern bóndadag og kaupi hjónabakka.   Þar er innifalið hangikjöt, flatkökur, rúgbrauð, síldarsalöt, baunasalat, harðfiskur, smjör, hákarl,  og úr súrudeildinni er sviðasulta, lifrapylsa, blóðmör, pungar og bringukollar.  Fyrir þessi herlegheit borgaði ég 3.990.  Fannst það nú nokkuð vel í lagt, en er mun ánægðari með þessi reifarakaup eftir þennan lestur .

Blómið, 1.2.2008 kl. 19:13

8 Smámynd: Þóra Sigurðardóttir

Óþolandi hvað þorramatur er dýr og líklega er ódýrara að kaupa sér þorrabakka hjá veitingahúsum landans

Þóra Sigurðardóttir, 1.2.2008 kl. 19:48

9 Smámynd: Magnús Paul Korntop

Versla ódýrt mín kæra,það er málið.

Magnús Paul Korntop, 1.2.2008 kl. 19:52

10 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Mikið er ég sammála þér Ólína mín.  Keypti mér hval, pung og sultu, þjófstartaði viku fyrir bóndadag, þetta var gott, en verðlagið mæ god, hér í Nóatúni á Selfossi. Skil ekki afhverju þetta er svona dýrt, en kannski er þetta eins og með Toyota meðan eftirspurnin er góð þá er hægt að hækka verðið upp úr öllu valdi.

Ásdís Sigurðardóttir, 1.2.2008 kl. 19:55

11 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ætlaði að bæta við, súrbolti vestur.

Ásdís Sigurðardóttir, 1.2.2008 kl. 19:56

12 identicon

já, það er þetta með dýrtíðina. Það eru margar vinnustundir á bak við hrútspungana og eins sviðasultuna.......rétt að innmatur og slátur er ódýr matur í innkaupum en dísús vinnan við að búa til allt gúmmulaðið.....því nenni ég ekki aftur. Eins finnst mér helv. mikill tími fari í rófustoppugerðina þannig að ég veit ekki hvort að mér finnist þetta svo voðalega dýrt. Ef þú hefðir pantað þér nauðaómerkilega pizzu hefðir þú borgað líklegast svipað verð. Er samt sammála að matur er almennt of dýr. Verði ykkur að góðu, vonandi smakkaðist maturinn vel.

Berglind (IP-tala skráð) 1.2.2008 kl. 19:56

13 identicon

Er svo sammála. Ég ætlaði að kaupa eina sneið af sviðasultu í Bónus en hún kostaði tæpar 600kr. hætti snarlega við þó mig dauðlangaði í sultuna. Múlakaffi hljómar vel ég arka þangað við tækifæri. Þorramatur er svo mikið æði einu sinni á ári að það er blóðugt hvað hann er dýr

Lísa Margrét Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 1.2.2008 kl. 19:59

14 Smámynd: Tiger

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mikill þorramatsmaður. Borða þó sitt lítið af þeim siðlausa mat eins og t.d. svið, harðfisk, sviðasultu og flatkökur með hangikjöti.

Ég svindla bara þegar svona er á boðstólnum og kaupi mér kjúkling eða pizzu, eða elda bara einhvern góðan mat sem ég svo borða með góðri lyst á meðan aðrir eru súrir á svipinn með punginn í munnvikinu ..

Tiger, 1.2.2008 kl. 20:12

15 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mér verður stundum hugsað til hennar móður minnar þegar ég sé verðið á súrmatnum.

Hún var ákaflega gestrisin og metnaðargjörn í tilliti góðgjörða þegar gesti bar að garði; fannst hún aldrei hafa neitt sem fólki væri bjóðandi. Gilti þá einu hvort um var að ræða förumenn eða fyrirmenn- allir voru þar jafnir.

Og ég minnist þess hvað óskaplega henni leið illa ef hún varð að bera á borð heimabakað rúgbrauð, reyktan rauðmaga, reykta rúllupylsu, harðfisk eða súrmat, þ.m.t. hrútspunga. Mikið bað hún afsökunar á því að eiga ekkert sem mönnum væri bjóðandi.

Árni Gunnarsson, 1.2.2008 kl. 21:10

16 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Þetta er hreint okur!  Hlakka ekki beint til að opna budduna heima í næstu viku.  Á örugglega eftir að fá margfalt sjokk.  Njóttu helgarinnar Ólína mín.

Ía Jóhannsdóttir, 1.2.2008 kl. 21:24

17 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Árni. Þetta er svona enn hjá henni móður minni nema hvað hún er ákaflega stolt af því að bjóða þennan mat. Að vísu voru ömmur mínar þannig að þær fyrirvörðu sig og afsökuðu í bak og fyrir að eiga ekki til ætan bita úr búrinu þó svo að borðin svignuðu undan trogum, brettum, bökkum og fötum.

Og þegar kom að því að bjóða bakkelsi með kaffinu þá var ekkert til sem orð væri á hafandi ef sortirnar voru færri en 12 til 13.

Ég er elska súrmat og get borðað hann með góðri lyst allt árið. Því meira súr þeim mun betra og hákarlinn, þeim mun kæstari og meira skyr þeim mun betri.

Ólína. Þegar kemur að því að kaupa súrmat og hákarl í búð þá verður löngunin ætíð verðinu yfirsterkari og því rennir mig ekki í grun hvað súrmatur má kosta.

Níels A. Ársælsson., 1.2.2008 kl. 21:57

18 Smámynd: Kári Tryggvason

Þetta er dýr matur, en ég er laus við að eyða í þessa vitleysu því mér finnst hann vondur . En nú er þetta ekki borðað árið um kring og framleiðslan óhagstæðari fyrir vikið, hlýtur því að hafa áhrif á verðið. Einnig er tilhlökkun landsmanna á þorranum svo mikil að þetta er keypt á nánast hvaða verði sem er og þar komið þið sterk inn .

Kári Tryggvason, 1.2.2008 kl. 23:29

19 Smámynd: Yngvi Högnason

Það er gustur á Salbjörgu sýnist mér. Var að koma úr þorrapartíi hjá systur minni,sviðin án lognunarbragðs,hákarl að vestan sem og harðfiskur,heimagert slátur og rófustappa. "Skítbillegt".

Yngvi Högnason, 1.2.2008 kl. 23:49

20 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Keypti x2 sviðakjamma, 1 sneið af sviðasultu og 1 dós af rófustöppu,  man ekki nákvæmlega upphæðina en það leið yfir mig við kassann, eða þannig.  Stofnum samtök, bloggaraneytendasamtökin og gefum þessum okrurum sviða og verk.

arg

Jenný Anna Baldursdóttir, 2.2.2008 kl. 00:06

21 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Er ekki bara best að borða hamborgara og franskar!

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.2.2008 kl. 00:38

22 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég hlakka til þess dags þegar landsmenn byrja að tjá sig með veskinu. Vonandi verð ég á lífi, en er ekki mjög bjartsýnn á það.

Theódór Norðkvist, 2.2.2008 kl. 01:08

23 Smámynd: Sigurjón

Ég er alveg sammála þér Ólína með verð á þorramat. Það er svívirða!

Hins vegar langar mig að benda þér á örlitla málfarsvillu hjá þér.  Þú segir: ,,Nennti ekki að keyra inn í Bónus til að gera ódýrari verslun".  Það er ekki hægt að segja: Að gera ódýrari verzlun.  Nær væri að skrifa: ,,...til að verzla ódýrar." eða ,,...til að kaupa ódýrari vörur."

Vinsamleg ábending. 

Sigurjón, 2.2.2008 kl. 02:07

24 identicon

......og svo fáum við bændur ekki neitt fyrir innmatinn þegar við sendum okkar fé í sláturhús, ekki heldur fyrir hausana......hvar liggur verðlagningin. ?????????                    Takk fyrir góð skrif um spaugstofuþáttinn Ólína, og kastljósþátt þar var ég sammála þér.

Sigríður Magnúsd. (IP-tala skráð) 2.2.2008 kl. 10:46

25 Smámynd: Turetta Stefanía Tuborg

Ekki er hráefnisverðinu um að kenna.Svo mikið er víst.Bringurnar og slögin eru ódýrustu bitarnir.Samt kosta súrir bringukollar og lundabaggar um og yfir 2000 kr kílóið.Ég sá saltaða síðubita í Bónus á 69 kr. Svínasultan er unnin úr skönkum og hausum,efni sem jafnvel er hent í kjötvinnslum þannig að tæplega er hægt að kalla það dýrt hráefni.Bændur fá lítið sem ekkert fyrir hausa og innmat og þannig mætti lengi telja.

Turetta Stefanía Tuborg, 2.2.2008 kl. 12:24

26 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Það gleður mig að finna samhug hér á síðunni  Svo þakka ég fyrir málfarsábendingu sem er auðvitað hárrétt - er búin að berja í brestinn, vonum seinna.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2.2.2008 kl. 12:56

27 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Sammála þér með verðið Ólína,en var þetta ekki sviðakjammi sem sagt hálfur haus ? man ekki eftir að hafa séð kjömmunum skipt,en það má vel vera... Þetta er samt rándýrt .

Kveðja

Ari Guðmar Hallgrímsson, 2.2.2008 kl. 21:54

28 Smámynd: Ragnheiður

Hef einmitt verið að sjá fólk kvarta yfir verðlagningu á þessum vörum víða. Ég verð ekki vör við þetta enda kaupi ég þetta ekki til heimilisins. Það verður samt farið á eitt þorrablót með vinnufélögunum.

Ragnheiður , 2.2.2008 kl. 22:25

29 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

aldrei dytti mér í hug að borga skemmda hluti fullu verði.

aldrei dytti mér í hug að borga skemmdan mat fullu verði.

Brjánn Guðjónsson, 3.2.2008 kl. 00:36

30 Smámynd: Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir

Já það er dýrt að vera til á Íslandi og ég er sammála Markúsi hér ofar á síðunni,við kvörtum og kvörtum yfir því hvað allt sé dýrt og það gerist ekkert. Það hækkar bara verðlagið í búðunum ef eitthvað er og minkar og minkar endalaust í buddunni. Bolludagurinn er á morgun mánudag og ég heyrði í fréttunum á Stöð 2 í hádeginu að ódýrasta rjómabollan í bakaríum sé rúmar 200.- kr. Síðan tekur Sprengidagur við og þá er það saltkjötið góða og hvað ætli saltkjötsbitinn kosti... í dag. Er ekki mál til komið að fara að mótmæla þessari geðveiki hér á landi ?

Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 3.2.2008 kl. 14:11

31 Smámynd: Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir

Brjánn minn, þú værir sennilega ekki til ef íslendingar hér áður fyrr hefðu ekki fundið uppá þeirri tækni sinni  að geyma allt sem hét matur yfir veturinn í súr,því ekki voru til ísskápar eða frystikistur þá. Svo er mysan okkar svo holl, styrkir öll bein og gerir tennurnar okkar heilbrigðar og skínandi hvítar !

Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 3.2.2008 kl. 14:26

32 Smámynd: Jens Guð

  Verð á þorramat hefur rokið upp síðustu ár.  Það eru varla nema 4 - 5 ár síðan ég borgaði 1100 - 1300 kall þegar ég keypti úr kjötborðum matvöruverslana sitt lítið af hverju því sem tilheyrir hefðbundnum þorrabakka.  Ég miða skammtinn við 2ja manna máltíð. 

  Á sama tíma kostaði þorrahlaðborð á Múlakaffi um 1500 kall.  Í dag er ég að borga hátt í 3000 kall fyrir þorrabakkann í matvörubúð og mig minnir að þorrahlaðborðið í Múlakaffi kosti 3700 kall núna.  

Jens Guð, 4.2.2008 kl. 03:04

33 Smámynd: corvus corax

Okkur er mikið niðri fyrir út af okrinu sem við látum yfir okkur ganga í allri verslun og viðskiptum en gerum aldrei neitt í málunum. Værum við til dæmis tilbúin til að láta okkur vanta þorramatinn einu sinni til að kenna þessum okrurum lexíu. Nei, ég held ekki. Við fjargviðrumst út af verðlaginu en látum okkur hafa það að kaupa vöruna einu sinni enn og ætlum svo að láta til okkar taka næst. Og hvað gerist næst? Jú við verðum búin að gleyma stóru orðunum og endurtökum þau næst og ætlum þá ekki að láta fífla okkur þarnæst, o.s.frv. Á meðan við borgum þótt það sé með ólund mun okrið halda áfram því það sem við borgum er jú rétta verðið þegar upp er staðið af því að við látum okkur hafa að borga það.

corvus corax, 4.2.2008 kl. 11:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband