Almenningi er nóg boðið

Ótrúlega er sorglegt að fylgjast með útsendingu frá borgarstjórnarsalnum núna - mínum gamla vinnustað. Og ekki get ég láð almenningi sem er mættur á pallana að láta tilfinningar sínar í ljós. Satt að segja líður mér ekki ósvipað. Hver hljóðbylgja sem berst frá áheyrendapöllunum er bylgja frá mínu eigin hjarta.

Dagur B. Eggertsson má vera stoltur af sinni hundrað daga borgarstjóratíð. Félagar hans í fráfarandi meirihluta mega vera stoltir af starfi sínu í þágu borgarbúa. Þetta fólk hefur staðið ölduna á forsendum málefnastöðu, það hefur staðið vörð um velferð borgarbúa, helgað sig almannaheill af ábyrgð og heilindum. 

Menn skulu ekki gleyma því hvernig þetta fólk forðaði mikilvægum verðmætum í almenningseigu frá því að vera sett í hendur einkaaðila.

dáð sem fráfarandi meirihluti drýgði síðastliðið haust mun lengi verða í minnum höfð. Hún verður enn stærri og glæstari í minningunni samanborið við starfsaðferðir þeirra sem nú eru aftur að taka við stjórnartaumum að afstöðnu valdaráni.

Já, það var framið valdarán í Reykjavík - og það er ekkert sem hægt er að gera við því. Í landsstjórninni er hægt að rjúfa þing og efna til kosninga - en ekki í sveitarstjórn. Það er enginn lagabókstafur sem verndar almenning fyrir atburðarás af því tagi sem nú hefur átt sér stað.

Það er umhugsunarefni.

Eina leiðin sem fólk á til þess að tjá álit sitt á því sem gerst hefur er að mæta á pallana og láta tilfinningar sínar í ljós. Og það hefur gerst núna.

Í þessum töluðu orðum er lögreglan mætt á staðinn - en áheyrendur halda áfram að klappa og stappa. Það er upplausnarástand og heitar tilfinningar.

Almenningi er augljóslega nóg boðið, eins og við mátti búast.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ótrúlegt að fylgjast með hægriblogginu þessa stundina. Það er eins og þeir hafi breyst í Farísea og rífa klæði sín í undrun yfir viðbrögðum fólks. Ég þarf að hemja mig svo ég skrifi ekki eitthvað ósæmandi inn á blogg þeirra. Munurinn á okkur og þeim: Hjá okkur eru stjórnmál hugsjón, hjá þeim blind trú án efa.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 13:21

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég er nú svokölluð hægri manneskja, en fylgi þeim ekki í þessu borgarupphlaupi, ég er ekki haldin blindri trú og þoli illa þessa framkomu Ólafs og Villa. Hef ekki trú að þessi meirihluti haldi. Þetta er ekki lengur pólitík heldur hefnd og græðgi.

Ásdís Sigurðardóttir, 24.1.2008 kl. 13:57

3 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Þetta eru bara skrílslæti og ef þetta hefði verið gert í Sal Menntaskólans hjá þér, hefðu verið önnur viðbrögð af þinni hálfu.

Einnig er svo með visntra liðið, að þeim finnst eitt í lagi, sem hentar þeim en hið sama ófært með öllu ef hluturinn snýr að þim sjálfum.

Sættið ykkur við það, að það er kominn á nýr og betri meirihluti í Rvíkurborg, laus við alla kommatitti.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 24.1.2008 kl. 14:04

4 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Ef að þið teljið fólkið á pöllunum vera fulltrúa almennings vil ég benda ykkur á að ég tel það ekki mína fulltrúa og það eru margir sömu skoðunar. Þarna voru á ferðinni stjórnarskipti eins og fyrir 100 dögum en þau læti sem urðu á pöllunum eru þeim sem að því stóðu ekki til sóma. Ég er hvorki hægri né vinstri maður Dags eða Ólafs maður en kurteisi og virðing eiga að vera aðalsmerki fólks ekki skrílslæti. Og miðað við þetta þá hallast ég til hægri í dag það virðist allavega vera kunnátta í einhverjum mannasiðum þeim megin .

Jón Aðalsteinn Jónsson, 24.1.2008 kl. 14:07

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Skrílslæti, segið þið - hver er skríllinn?

Skríll er hópur fólks sem gengur fram af blindum hvötum án tillits til þarfa samfélagsins og þeirra skráðu og óskráðu reglna sem þar gilda. Það er skríll.

Hópurinn sem nú tjáir tilfinningar sínar í réttlátri reiði á áheyrendapöllum er ekki skríll.

Skríllinn er hópurinn sem hefur fótumtroðið lýðræðisreglur og ábyrga stjórnarhætti með valdafíkn og hentistefnu: Hópurinn sem rændi völdum í Reykjavík.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 24.1.2008 kl. 14:17

6 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Ég er ekkert smá stoltur af unga fólkinu(og því eldra líka) sem mætti á pallana og lét heyra kröftulega í sér...vekur vonir um að loksins sé að koma upp kynslóð með smá meðvitund, þor og dug, hressandi eftir doða og firringu síðustu ára og áratuga að sjá og heyra...meira af þessu, af nógu rugli er að taka til að mótmæla.

Georg P Sveinbjörnsson, 24.1.2008 kl. 14:20

7 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Bara grátlegt alltsaman! 

Marta B Helgadóttir, 24.1.2008 kl. 14:36

8 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ólína, lestu yfir svar þitt.

Væri þetta svar þitt vegna soddan framferðis Skólapilta og stúkna úr þínum MÍ ??

EF svo er, biðst ég afsökunar á, að hafa nefnt ,,vinstri" í þessu sambandi, heldur ætti að standa þar óuppdregið og óvanið líð.

Dónar eru skríll og skrílslæti eru um leið dónalæti.  Ef þú ert þeim sammála um framferði, tel ég einsýnt, að eitthvað hefur skolast til  í uppeldinu hjá foreldrum þínum.

Það afsakar enginn ósvífni, brot á fundasköpum og tilraunir til að ryðja fundasali löglegum og réttkjörnum fulltrúum, það er óhelgun á fulltrúalýðræðinu. 

Svo er aftur umhugsunarefni, að Dagur taldi sér samboðið, að tala um nýjar kosningar, maður í stöðu borgarstjóra, sem hann var áður en Ólafur var korin.  Hann á að vita, að það standaEKKI lög til, né nokkrar heimildir í Sveitastjórnarlögum, að kjósa megi að nýju.

Lýðskrum og vísvitandi blekkingar eru við hafðar af þeim sem ,,héngu" á einum VARAMANNI se, að auki var genginn úr flokki þeim, sem viðkomandi var kjörinn fyrir og farin til liðs við Íslandshreyfinguna.

Skammarlegur málflutningur hefur verið viðhafður og ættir þú að vera upp fyrir slíkt hafin, þar sem þér var fólgin stjórn Menntastofnunar.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 24.1.2008 kl. 14:37

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég ráðlegg þér Bjarni að lesa sjálfur þínar eigin athugasemdir - þegar þú hefur róast. Og meta þá þinn eigin málflutning.

Viðbrögð áheyrenda í ráðhúsinu eiga sér skýringar - réttmætar skýringar. Stundum er svo fram af fólki gengið að það á engan annan kost en að fara út á götur og hrópa. Málfrelsið eigum við þó enn Íslendingar - þó engin lög verndi okkur fyrir yfirgangi og samsærum óvandaðra stjórnmálamanna.

Og þú skalt ekki halda að það sem nú hefur gerst í Reykjvík sé þóknanlegt öllum Sjálfstæðismönnum. Ég þekki þá ýmsa, þar á meðal sómakært fólk, sem á ekki orð yfir framkomu flokkssystkina sinna í borginni.

Sú reiði sem nú er að brjótast fram er ekki flokkspólitískl - hún er lýðræðisleg. Fólki er misboðið yfir því hvernig farið hefur verið með lýðræðislegar leikreglur. Og hananú.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 24.1.2008 kl. 15:43

10 Smámynd: Óskar Þorkelsson

tek undir með Ólínu. Gísli þú hittir naglann á höfuðið ;)

Óskar Þorkelsson, 24.1.2008 kl. 16:01

11 identicon

Til upprifjunar: Ólafur F. í Silfrinu 2. des. 07 Hér er slóð á viðtal við Ólaf F. Magnússon í Silfri Egils 2. desember síðastliðinn: http://http.ruv.straumar.is/static.ruv.is/geyma/olafurf.2007-12-02.wmv Kristján Þór Júlíusson um nýja meirihlutann í Reykjavík: http://www.visir.is/article/20080124/FRETTIR01/80124016 Hér er því haldið fram að sjálfstæðismenn hafi lekið upplýsingum um heilbrigðisvottorð Ólafs F,Magnússonar: http://eyjan.is/hux/2008/01/22/bjortu-hli%c3%b0arnar/ kv. gb

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 17:12

12 identicon

Fyrirgefðu Ólína en kerfið vildi ekki slóðirnar:

Til upprifjunar:

Ólafur F. í Silfrinu 2. des. 07
Hér er slóð á viðtal við Ólaf F. Magnússon í Silfri Egils 2. desember síðastliðinn:

http://http.ruv.straumar.is/static.ruv.is/geyma/olafurf.2007-12-02.wmv


Kristján Þór Júlíusson um nýja meirihlutann í Reykjavík:
http://www.visir.is/article/20080124/FRETTIR01/80124016


Hér er því haldið fram að sjálfstæðismenn hafi lekið upplýsingum um heilbrigðisvottorð

Ólafs F,Magnússonar:

http://eyjan.is/hux/2008/01/22/bjortu-hli%c3%b0arnar/


kv. gb

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 17:50

13 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Það er algert lykil atrið í þessu að meirihluti vinstrimanna var í raun aldrei til staðar því Margret S er varamaður Ólafs F og fyrst Ólafur vill ekki vera í þessu samstarfi þá er ljóst að núverandi meirihluti er það sem lýðræðið vill. Að réttlæta ólæti og múgæsingu í ráðhúsinu með því að segja að lýðræðislega kjörin meirihluti sé að fremja valdarán er dónaskapur við lýðræðið og ekki samboðið manneskju í þinni stöðu

Guðmundur Jónsson, 24.1.2008 kl. 19:08

14 Smámynd: Júlíus Valsson

Mér sýndist þetta vera svipuð skrílslæti og þegar við vorum að mótmæla Vietnam stríðinu í gamla daga. Þetta hefur ekkert breyst; hressir krakkar með ólæti og hávaða.  Þetta hefur ekkert með stjórnmál að gera.

Júlíus Valsson, 24.1.2008 kl. 19:27

15 identicon

Júlíus: Víetnam og Keflavíkurganga hafði með stjórnmál að gera! Ekki ertu kominn með minnisleysi strax?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 19:49

16 identicon

Það er merkilegt að lesa athugasemdir sumra hérna. Ef einhverjum finnst þetta allt í sómanum eins og sumir gefa í skyn hérna þá bið ég guð að forða þjóðinni frá að slíkt fólk komist í stjórnunarstöður eða jafnvel ali upp börn með slíka hugsun í farteskinu, að það sé í lagi að stela,svíkja,blekkja og klekkja á ímynduðum andstæðingum,þegar ástæðan er valdagræðgi og framapot.

Þeir sem halda því fram að þetta sé best fyrir borgarbúa eru svona álíka trúverðugir og þeir kirkjunnar menn sem hafa komið óorði á trú og siðferði á þeim bænum.

Hægt að heimfæra þetta á marga hluti og framhjáhald hefur aldrei verið til gæfu fyrir fjölskyldur og það má líkja þessu saman,allir að reyna við alla til að þjóna eigin duttlungum.Hver verður næsti fulltrúi í borgarmálunum til að ''halda framhjá''

Og Bjarni mér sýnist þér ekki veita af sáluhjálp í öllum mótbyrnum hérna.

Held að fólk ætti að hugleiða þegar að næsta ''tsunami'' ríður yfir þá verða allir uppteknir af að bjarga eigin skinni en ekki hvað ég þarf á að halda sem borgari.Og svo er eitt við getum sett heimsmet í hvað margir borgarstjórar fá borguð laun fyrir vinnu eins !!!!!! Menn myndu aldrei fá vinnu aftur í sama fyrirtæki fyrir að hegða sér svona og kominn tími til að ráða í stöður borgarfulltrúa og borgarstjóra.Kosningarnar eru algjör tíma og milljóna  sóun eins og þetta virkar í dag og til hvers að kjósa ef hvaða bjáni sem er getur bruggað launráð og lamað starfsemi borgarinnar með þessum hætti.Fer að líkjast  sögunum þar sem menn voru klofnir í herðar niður og brenndir inni vegna svikulsemi sinnar. 

Er ekki mál að linni ????????????

Ólafur (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 20:52

17 identicon

Tek undir með Bjarna, ég upplifði þetta sem skrílslega hegðun þessara ungmenna.  Þau hegðuðu sér á þann veg að mér leið illa að sjá og heyra til þeirra.  Og einnig tek ég undir:  "að Dagur taldi sér samboðið, að tala um nýjar kosningar, maður í stöðu borgarstjóra, sem hann var áður en Ólafur var korin.  Hann á að vita, að það standa EKKI lög til, né nokkrar heimildir í Sveitastjórnarlögum, að kjósa megi að nýju. "

Hins vegar lít ég  til Dags sem sérstaklega ljúfs og góðs manns ( og vafalaus er hann frábær læknir) en mér þykir hann ekki eiga erindi á svið stjórnmála. 

Auður (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 23:06

18 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Ég upplifði þetta sem skrílslega hegðun hjá skólakrökkum.

Husanlega mun einhver segja að ég sé of bláeygur en ég tel að hluti af þessu fólki hafi ekki vitað hvða það var að mótmæla. 

Brosandi mótmælendur sem reyna að ganga í augun á félögunum getur ekki talist trúverðugt, eða hvað?

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 24.1.2008 kl. 23:55

19 Smámynd: Janus Hafsteinn Engilbertsson

Tek undir hvert orð hjá þér, Ólína. Þetta voru ekki skrílslæti, heldur lýðræðisleg mótmæli þeirra sem misbýður óréttlætið. Og stendur ekki einhvers staðar, og við miklumst af því: "Vér mótmælum allir."

Ræða Dags B. blessaði mig, því hún var flutt í einlægni, með sannleikann að leiðarljósi.

Ég segi því, heyr! heyr!

Janus Hafsteinn Engilbertsson, 25.1.2008 kl. 02:10

20 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Til svars við því, að ég telji mótmæli ótæk, vil ég benda á, að ég hef hvergi og endurtek hvergi, vakið mál á því.  Þetta er helber útúrsnúningur.

Ég leyfi mér að segja hinnvegar, að þessi skrílslæti, sem heftu og spilltu fundafriði, þannig að ekki var hægt að ganaga til fundastarfa, er ekki einungis háttur dóna og því rakinn dónaskapur, heldur skýlaust brot á lögum.

Allir mega mótmæla að vild þar sem öllum er heimill aðgangur og ekki hefti umferð neyaðbíla (sem  gerðist fyrir Jolin hér niður í Miðbæ, þar sem mótmælaaðgerðir stuðluðu óbeint að láti sjúklings, sem ekki komst í tæka tíð undir læknishendur) það er ekker annað ne helber útúrsnúningur, að þeir sem höfðu sigí frammi, hefðu allir verið þarna af eigin frumkvæði og sannar tölvubre´f sem sveitungi þeinn birtir hér á bloggi sínu hvar fjölpóstur fór milli félagsmanna í Samfylkingunni um að mótmæla og la´ta heyra í sér ,,með pottum og pönnum".

Nei mín kæra, é tel algerlega einsýnt, að þeir sem telja sig siðaða, fari með mótmæli sín þannig, að eftir sé tekið en án þess, að brjóta lög og valda öðrum skaða.  Það er kennimark góðs uppeldis, sem er hvað beittasta vopnið gegn ofríki.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 25.1.2008 kl. 10:17

21 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Bjarni: "Einnig er svo með visntra liðið, að þeim finnst eitt í lagi, sem hentar þeim en hið sama ófært með öllu ef hluturinn snýr að þim sjálfum."

Mér sýnist þetta nú gilda um alla flokka, hérlendis sem erlendis.

"Nei mín kæra, é tel algerlega einsýnt, að þeir sem telja sig siðaða, fari með mótmæli sín þannig, að eftir sé tekið en án þess, að brjóta lög og valda öðrum skaða.  Það er kennimark góðs uppeldis, sem er hvað beittasta vopnið gegn ofríki."

Það er nákvæmlega það sem gerðist í gær, svo skv. þinni skilgreiningu voru þetta siðuð mótmæli. 

Páll Geir Bjarnason, 25.1.2008 kl. 11:00

22 identicon

Ég vil byrja á að taka það fram að ég er ekki búsettur í Reykjavík um þessar mundur.  Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að núverandi borgarstjóri, Ólafur F. Magnússon, sé vandaður prinsíppmaður og ég ber fullt traust til hans. 

Margt er broslegt í þessu máli.  Stjórnmálamenn íslenskir hafa á undanförnum árum farið þannig með völd sín að almenningi blöskrar sífellt meira.  Stjórnmál og stjórnmálabarátta einkennist af hrossakaupum og stólabraski.  Stöðuveitingavaldinu er beitt þannig að ættingja-, kunningja- og samherjaráðningar eru grímulausar og stjórnmálamenn skila útúrsnúningi sem rökstuðningi fyrir ómálefnanlegum embættisveitingu.   Almenningi er brugðið.

Svo endar með því að um þverbak keyrir og hópur fólks gerir hróp að þeim sem hafa breytt hinu lýðræðislega skipulagi í sirkus og oftekið til sín völd í skjóli kerfisins.  Þá rísa hinir barnalegu stjórnmálamenn, sem komið hafa málum í þessa stöðu, upp hver á fætur öðrum að "mótmælin hafi truflað hið lýðræðislega ferli"  og að þau hafi verið "aðför að lýðræðinu".   Þetta eru einhverjir þeir bestu brandarar sem ég hef heyrt.  En mönnunum er alvara.  Ég hallast að því að þeir haldi það virkilega að lýðræðið felist í því að almenningu kjósi þá á 4 ára fresti og síðan hafi þeir frjálst spil og almenningi sé skylt að láta þá í friði og leyfa þeim sjálfum að leika sér, hygla sér og tryggja framgang vina sinna.

Ég er stoltur af mótmælendunum í gær, bæði fyrir einarða baráttu og einnig fyrir að þessi barátta olli engu tjóni, hvorki á munum né mönnum.  Þannig einmitt eiga mótmæli að vera.

Hreiðar Eiríksson (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 16:38

23 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Mæltu manna heilastur, Hreiðar.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 25.1.2008 kl. 16:51

24 identicon

Já það er skrítið að það kallast valdrán þegar Ólafur yfirgefur Borgarstjórnina og fer yfir til Sjálfstæðisflokksins....þessi sami Ólafur sem var svo góður alveg frá því kosningar fóru fram,hann er úthrópaður sem Júdas og svikari núna.En það kallaðist ekki valdarán þegar Björn Ingi yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn í haust og felldi þar með Borgarstjórninia sem sat og myndaði meirhluta með honum.Þá fór Björn yfir til samkrullsins og það var myndaður ný meirihluti.Þetta kallast ekki valdarán.....Hver er þá munurinn á kúk og skít?

Júlíus Már Baldursson (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 03:47

25 identicon

Um leið og mótmæli eru færð fram þá er talað um vinstri hreyfingu. Ef á að fylgja þeirri rökfræði, þá er hægt að vorkenna hægrisinnum, þar sem að þeir láta bjóða sér hvað sem er án þess að segja nokkuð og mætti telja að um blint formannafylgi sé að ræða. Það þarf bara að líta til fyrri árhundraðs til að horfa á þær afleiðingar sem þannig stefna hafði. Þetta sýnir líka fram á að þörf fyrir lýðræðislegum aðgerðum eins og mótmælum.

En með því er ég ekki að verja "árásir á einstaklinga" þó svo að kosnir frambjóðendur megi reikna með umræðum þjóðarþegna.

Spurningin er, eftir að hafa lesið fréttir, hvort það var ekki "stefna" sjálfstæðisflokksins að pota Ólafi fram og láta hann sem einstakling sæta þeim viðbrögðum sem væntanleg voru við þessa umbyltingu og svo "vona" að hann myndi gefast upp, með þeim afleiðingum að Vilhjálmur þyrfti að taka við fyrr en ella, sbr. að hann átti að taka við embættinu seinna. Var dæmið reiknað þannig, ef það nú er ástæða til að ætla að "sjálfstæðisfylgisfólk" sá um að koma "trúnaðarupplýsingum" á framfæri.

ee (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 10:38

26 Smámynd: Sævar Einarsson

"Skríllinn er hópurinn sem hefur fótumtroðið lýðræðisreglur og ábyrga stjórnarhætti með valdafíkn og hentistefnu: Hópurinn sem rændi völdum í Reykjavík."

Ég get ekki verið meira sammála þér Ólína og fólk þarf að fara að láta í sér heyra í stað þess að mótmæla með einhverjum undirskriftalistum og kaffibollablaðri. Ég skrifaði þetta á öðru bloggi og smelli því hingað líka "Þetta kallast mótmæli, fólki er misboðið, og að lýðræðislega kosin borgarstjórn með 7 kjörnum fulltrúum sem myndar meirihluta með einum kjörnum fulltrúa með pilsner fylgi ef ekki minna sem segir sig úr flokki og kallar sig óháðan en var kosinn inní borgina sem frjálslyndur finnst mér móðgun við lýðræðið."

Sævar Einarsson, 26.1.2008 kl. 18:57

27 Smámynd: Tiger

Þessi svokölluðu skrílslæti í Ráðhúsi Reykjavíkur þegar borgarstjóraskiptin áttu sér stað, eru í mínum augum einu mögulegu mótmælin sem hægt er að nota til að tekið sé eftir því að einhver sé að mótmæla í raun og veru. Þá er ég kannski með það í huga að með því að láta almennilega í sér heyra dugar og það er sannarlega tekið eftir því. Aftur á móti eru t.d. undirskriftalistar að því er virðist ekki til eins eða neins, eins og t.d. sá sem innihélt hvað - 6000 undirskriftir - hvar er hann. Honum var ekki einu sinni sýnd sú virðing að einhver úr hópi þeirra sem var verið að mótmæla tæki á móti honum. Það voru allir svo uppteknir í valdagræðgi sinni og stólastuldi að engin hafði minnsta áhuga á að taka við þeim sem voru að reyna að mótmæla í ró og friðsemd, einmitt þeirri ró - "þvísemengintekureftir" - sem valdabröltararnir einmitt væla hæst um að sé "rétta" leiðin til að mótmæla.

Ég horfði á þetta sjónarspil, mótmæli ungliðanna, í beinni útsendingu sjónvarpsins og það fyrsta sem ég hugsaði - og allir þeir sem í kringum mig voru - var að loksins, loksins lætur einhver heyra í sér á eins hressilegan og háværan máta og þarna var gert. Loks komu í ljós nokkrir, af eflaust mjög stórum hluta borgarbúa, íslenskir einstaklingar sem þorðu að láta í sér heyra. Loksins fæ ég að sjá að við getum vel mótmælt þó ég hafi nú oftast verið þeirrar skoðunar að við Íslendingar kunnum/getum bara ekki staðið saman og gert eitthvað sem kallast að mótmælt almennilega þegar yfir okkur er vaðið á skítugum skónum.

Það eina sem vantar uppá til að gera mig glaðan, og að mínu mati, er að við hefðum vald og orku í að "neyða" þá sem virkilega brjóta af sér - til að taka afleiðingum gjörða sinna, taka hatt sinn - og hníf - og segja af sér með skömm í pokahorninu.

Það er skelfilegt að fylgjast með því hvernig hver á fætur öðrum í íslenskri pólitík fær að brjóta af sér í skjóli flokks síns. Þeir brjóta kannski ekki bein lög en gegn siðferðiskennd okkar og sumir meira segja mjög illilega, en ekkert er gert í málunum.

Virkilega slæmt þykir mér að þeir sem brjóta sannarlega af sér gagnvart trausti og tiltrú okkar sem kjósum þá, gerist uppvísir að þjófnaði eða tæknilegum mistökum - geti komið aftur eftir smá tíma - standa í hárinu á okkur með hroka, í sigurvímu, fullvissir um að gullfiskaminni okkar sé nú búið að kokgleypa alla þá sviksemi og græðgi sem áður varð til að sá hinn sami hvarf.  Og við leyfum það.

Það er jú mjög slæmt að við skulum ekki geta sett niður fótinn og séð til þess að t.d. stjórnmálamenn geti ekki snúið aftur á "vettvang glæpsins" þegar þeir standast ekki væntingar, brjóta af sér - siðferðislega eða gagnvart lögum - og upp um þá kemst.

Ég segi bara ekkert annað en "húrra fyrir mótmælendunum" og þakka ykkur fyrir, fyrir mína hönd. Vildi að ég hefði getað verið þarna með ykkur.

Tiger, 27.1.2008 kl. 00:48

28 Smámynd: Sævar Einarsson

Ég get ekki annað en verið stolltur af þessu, loksins lét fólk í sér heyra. Hvað ætli þeir sem blaðra bara útí horni gera ef fólk færi að mótmæla eins og t.d. frakkar ? svo skrifaði Tigercopper  á einu blogginu meðal annar þetta:

Þessi svokölluðu skrílslæti í Ráðhúsi Reykjavíkur þegar borgarstjóraskiptin áttu sér stað, eru í mínum augum einu mögulegu mótmælin sem hægt er að nota til að tekið sé eftir því að einhver sé að mótmæla í raun og veru. Þá er ég kannski með það í huga að með því að láta almennilega í sér heyra dugar og það er sannarlega tekið eftir því. Aftur á móti eru t.d. undirskriftalistar að því er virðist ekki til eins eða neins, eins og t.d. sá sem innihélt hvað - 6000 undirskriftir - hvar er hann. Honum var ekki einu sinni sýnd sú virðing að einhver úr hópi þeirra sem var verið að mótmæla tæki á móti honum. Það voru allir svo uppteknir í valdagræðgi sinni og stólastuldi að engin hafði minnsta áhuga á að taka við þeim sem voru að reyna að mótmæla í ró og friðsemd, einmitt þeirri ró - "þvísemengintekureftir" - sem valdabröltararnir einmitt væla hæst um að sé "rétta" leiðin til að mótmæla. 

Þetta segir allt sem segja þar um þessi mótmæli, punktur og basta ! 

Sævar Einarsson, 27.1.2008 kl. 12:54

29 Smámynd: Sævar Einarsson

haha þetta átti að fara á annað blogg, afsakið

Sævar Einarsson, 27.1.2008 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband