Hver er í rétti - stjarnan eða ljósmyndarinn?
14.1.2008 | 13:37
Æ, það nær bara engri átt þetta einelti sem frægt fólk þarf að þola af hálfu fjölmiðla og ljósmyndara. Fólk er hundelt allan sólarhringinn af ljósmyndurum sem skríða í húsagörðum og á húsþökum til að ná af því myndum við allar hugsanlegar aðstæður; þeysa um á mótorhjólum til að elta uppi einkabíla og ná myndum inn um myrkvaðar bílrúður - líkt og frægt varð þegar Díana prinsessa lét lífið.
Á fólk sem orðið hefur frægt fyrir einhverja hluti, bókstaflega engan rétt? Það virðist vera sem ljósmyndararnir séu alltaf í rétti . Svo kalla þeir á samúð (og virðast fá hana) í hvert sinn sem einhver missir stjórn á sér eitt augnablik og slæmir hendi eða eys úr sér fúkyrðum. Þá fyrst er gaman - eða hitt þó heldur - og almenningur lætur ekki standa á hneykslun sinni: Hún hefur bara enga stjórn á sér manneskjan!
Fólk mætti hugleiða hvað hefur gengið á áður en til þess kemur að "stjarnan" missir stjórn á sér - og það þarf ekki mikið ímyndunarafl til þess að sjá hversu ómanneskjulegt álag það getur verið að lifa við stöðugt áreiti af þessu tagi, eins og sumir gera.
Það veit sá sem allt veit að ég yrði BRJÁLUÐ ef ég fengi aldrei stundlegan frið fyrir einhverju fólki sem hefði það að atvinnu (og teldi það um leið mannréttindi sín) að ljósmynda mig við allar kringumstæður til þess að hagnast á því. Það getur engin manneskja þolað þetta álag til lengdar.
Ég stend með Björk - og held að alþjóðasamtök blaðamanna ættu að fara að setja alþjóðlegar siðareglur um samskipti fréttamanna og ljósmyndara við frægt fólk. Að öðrum kosti er kannski tímabært að fræga fólkiði bindist samtökum um að fá einhverskonar alþjóðlega lagavernd gegn ásóknum af þessu tagi.
Björk réðist á ljósmyndara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Tónlist | Facebook
Athugasemdir
Tek undir hvert einasta orð.
Annars varð ljósmyndarin sem Björk hitti í Bangkok frægur í heimalandi sínu eftir þeirra stuttu kynni!
Kolgrima, 14.1.2008 kl. 14:05
Gæti ekki verið meira sammála. Var rétt í þessu að horfa á Sky News þar sem verið er að rífa aftur upp Díönnu málið eftir tíu ár.
Ía Jóhannsdóttir, 14.1.2008 kl. 14:06
já ,mér er slett sama þó hún hafi togað í þennan ljósmyndara átti það skilið, þetta dreifir athyglinni á meðan meðal frægra.
Svona eiga konur að vera ekki láta vaða yfir sig.
Þ Þorsteinsson, 14.1.2008 kl. 14:46
Það getur verið erfitt að banna ljósmyndun af sér á opinberum vettvangi þar sem maður er hvort eð er á meðal fjölda fólks.
En ef stjarnan er búin að byðja um að vera látin í friði, þá finndist mér að fjölmiðlar ættu að virða það.
Síðan getur það verið sitthvort málið hvort myndirnar eru birtar opinberlega og í einhverjum annarlegum tilgangi eða ekki.
Er Bubbi ekki nýbúin að vinna mál gegn séð og heyrt þar sem teknar voru myndir af honum í sínum privat bíl að reykja.
Einhversstaðar verður að draga mörkin, er það ekki.
Jón Hönnuður (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 14:56
ÉG tek heilshugar undir þetta með þér. Það verða nú að vera einhver takmörk á yfirganginum.
Ásdís Sigurðardóttir, 14.1.2008 kl. 15:10
Þetta er góð spuring. Hliðar á þessu máli er að "almenningur" kallar eftir þessum myndum og "stjarnan" þrífst ekki nema á athyglinni sem "almenningur" veitir (borgar fyrir). Er ég sammáli því að það er ekki hægt að ganga eins langt og þarf til að taka myndir.
Með vinsemd og virðingu
Finnbogi Marinosson atvinnuljósmyndari
Finnbogi Marinosson (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 15:47
Satt er það Finnbogi - stjarnan þrífst á athygli og ljósmyndarinn á forvitni almennings. En öllu má ofgera. Og í raun erum við að tala um það þegar fólk fer út fyrir ásættanleg mörk.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 14.1.2008 kl. 16:08
Ég stend með manneskjunni Björk, enda er hún það fyrst og fremst. Óþolandi yfirgangur í pressunni og tilitsleysi við fólk. Björk hefur reyndar hagað sér óaðfinnanlega fyrir utan það að þeir veittust að drengnum hennar og svo núna. Ég myndi segja að hún hefði æðruleysi á við marga.
Jenný Anna Baldursdóttir, 14.1.2008 kl. 16:31
Finnbogi, hvenær var það sem "almenningur" kallaði eftir þessum myndum?
Vissulega kaupir almenningur sorpblöð sem eru uppfull af myndum frá ljósmyndurum sem ganga allt of langt, en ég leyfi mér að efast um að almenningur styðji hvað ljósmyndarar ganga langt innfyrir einkalíf fræga fólksins og jafnvel þó hann gerði það að þá hefur hann engan rétt til þess.
"Almenningur" er forvitinn og jafnvel þó ljósmyndari mundi brjótast inn og fela sig inni á baði til þess að ná nektarmyndum af nýjustu kærustu bresku eða dönsku prinsanna að þá mundi almenningur kaupa hvert það blað sem mundi birta myndirnar. En ég vona að þú teljir það ekki réttlæta athæfið.
Og varðandi það að stjörnurnar lifi á þessari athygli, að þá er ég viss um að það mundi stórbæta geðheilsu stjarnanna ef fjölmiðlar einbeittu sér meira af faglegum frama stjarnanna en einkalífinu.
Eftir að Alixandra skildi við danska prinsinn Jóakim að þá var hún framaná hverju einasta vikublaði mánuðum saman og meðal annars sem var verið að fjalla um hvers vegna hún væri orðin svona horuð, væri taugahrúa o.s.frv. Mér sýndist það augljóst að sjá öll hugsanleg vandamál sín (skálduð og óskálduð) framan á vikublöðunum mundi ekki bæta ástandið.
Ingólfur, 14.1.2008 kl. 17:15
Þetta þykir mér heldur ómakleg gagnrýni á stétt ljósmyndara og blaðamanna.
Manneskja sem nærist og þrífst á athygli fjölmiðla og hefur komið sér í þá stöðu sem hún er fyrir atbeina umfjöllunar fjölmiðla, getur hreinlega ekki valið og hafnað því hvenær fjölmiðlar sýna henni athygli. Hinna jákvæðu hliða þeirrar athygli sem frægar manneskjur njóta verður ekki notið eingöngu, án þess að neikvæðu hliðarnar fylgi sömuleiðis. Annað væri hreinlega ósanngjarnt gagnvart fjölmiðlum, sverðs og skjaldar tjáningarfrelsis, sem hið fræga fólk hefur jú notið og þrifist á - og flest allt haft sæmilega upp úr því.
Með öðrum orðum - þeir sem sækjast eftir frægð mega vita af því að frægðin verður ekki einungis tekin út með sældinni.
Þingmaður, 14.1.2008 kl. 17:18
Góðan daginn allir. ég vildi bara láta ykkur vita að Jafnréttindafélag Íslands verður stofnað í næstu viku.
Fyrsti fundurinn verður miðvikudagskvöldið 23. Janúar kl 20:00.
Nánari upplýsingar eru á síðunni minni.
Ólafur Hannesson (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 18:28
Ég verð að segja að manneskjan Björk Guðmundsdóttir og poppstjarnan Björk verða trauðla skildar að. Eins og fleiri hafa bent á þá eru stjörnurnar orðnar stjörnur með hjálp ljósmyndara og blaðamanna. Og eiga þær þá að ákveða hvenær nóg er komið af frægðinni?
Gísli Sigurðsson, 15.1.2008 kl. 16:09
Allir eru á móti ofbeldi - nema þegar frægir Íslendingar eiga í hlut! Annars er þetta algjört húmbúgg. En ég stend með ljósmyndaranum gegnum þykkt og þunnt og er tilbúinn til að æsa mig heilmikið upp fyrir það. Frægt fólk hlýtur að vita hverju það getur átt von á og geta haft stjórn á sér. Snúum þessu við: Hvað hefði verið sagt ef ljósmyndari hefði ráðist á sjálfa hana Björk. Auðvitað eru þetta bara stælar í Björk. Hluti af því láta frægðina rúlla - láta okkur blaðra!
Sigurður Þór Guðjónsson, 15.1.2008 kl. 20:49
Menn spyrja hvort fræga fólkið eigi sjálft að ákveða það hvenær nóg sé komið af frægðinni. Mitt svar er JÁ - fólk á alltaf rétt á því í sínu lífi að fá að setja skorður við áreiti og yfirgangi. Fræga fólkið ekki síður en aðrir.
Það á ekki að vera náttúrulögmál að einstaklingur missi stjórn á öllum aðstæðum í einkalífi sínu við það að verða frægur. Að honum sé bara kastað fyrir úlfana eins og ekkert sé. Auðvitað eiga allir rétt á því að eiga sér líf.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 16.1.2008 kl. 14:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.