Vel heppnuð helgaræfing Björgunarhundasveitar Íslands
13.1.2008 | 21:42
Ég er kúguppgefin. Var að koma heim af helgaræfingu á Snæfellsjökli með Björgunarhundasveit Íslands. Þar sem ég var stödd í borginni fékk ég far með Nick félaga mínum strax eftir Útsvarskeppnina á föstudagskvöld (já, hún hefði mátt fara betur árans spurningakeppnin ).
Við vorum komin á Gufuskála upp úr miðnætti og svo hófust æfingarnar morguninn eftir. Við ókum upp á jökulinn um tíuleytið, fjöldi björgunarsveitarbíla og jeppa í einni halarófu. Þar fundum við góð æfingasvæði, grófum holur fyrir "fígúrantana" fyrir hádegi, og svo var farið að æfa eftir hádegiskaffið.
Þarna var gríðarleg þátttaka, á sjötta tug manna og á fjórða tug hunda. Meðal annarra níu manna lið unglinga úr Grindavík sem kom gagngert til þess að liggja í snjóholum fyrir hundana. Það heitir að vera "fígúrant" og er sko ekki heiglum hent. Fólk er grafið niður í tveggja metra djúpar snjóhella þar sem það má dúsa - jafnvel tímunum saman - meðan hver hundurinn á fætur öðrum kemur að finna. Það er ekkert sérlega notaleg vist í kulda og þrengslum skal ég segja ykkur. Viðkomandi þarf að vera bæði þolinmóður og sérlega skemmtilegur í augum hundsins, tilbúinn að leika við hann, gefa honum bita og hrósa honum á allan hátt þegar hann hefur grafið sig niður til fígúrantsins.
Blíða (hundurinn minn) stóð sig með prýði. Á meðfylgjandi mynd er hún að skríða upp úr einni holunni sem hún gróf sig niður í til að finna mann - sjáið þið ekki hvað hún er hróðug á svipinn?
Blíða tók C-próf í snjóleitinni í fyrravor, og hefur ekki fengið nema tvær snjóleitaræfingar síðan. Þótt ótrúlega megi virðast þá hefur bara sama og ekkert snjóað fyrir vestan í vetur Ég bjóst því ekki við miklu af henni núna.
En leiðbeinandinn lét okkur byrja á því að leita að tveimur týndum í fyrsta rennslinu - og það er í fyrsta skipti sem okkur er falið svo "stórt "verkefni. Það vafðist þó ekkert fyrir henni, og í heild stóð hún sig ljómandi vel. Það átti raunar við um alla hundana á okkar æfingasvæði, ekki síst unghundana sem voru að spreyta sig í fyrsta sinn.
Nú er hún greyið í búrinu sínu um borð í björgunarsveitarbílnum á leið vestur - ég sendi hana á undan mér því sjálf fer ég með flugi í fyrramálið.
Já, við erum lúnar stöllurnar, hvor á sínum stað. Þetta var viðburðarík og skemmtileg helgi.
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkar: Bloggar, Ferðalög, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:08 | Facebook
Athugasemdir
Rosalega er Blíða falleg, átt þú hana?? gaman að heyra að allt gekk svona vel. Þið voruð flott í útsvarinu, einher verður að tapa.
Ásdís Sigurðardóttir, 13.1.2008 kl. 22:28
Já, ég á hana. Við Blíða erum "teymi" eins og það er kallað. Við þjálfun björgunarhunda er það alltaf eigandinn sem vinnur með hundinn, og á landsæfingum og námskeiðum vinna teymin undir stjórn leiðbeinanda.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 13.1.2008 kl. 22:47
Mikið hlýtur þetta að vera skemmtilegt viðfangsefni!
Lára Hanna Einarsdóttir, 13.1.2008 kl. 23:27
innlitskveðja frá öddu og kristófer litla.
Adda bloggar, 14.1.2008 kl. 00:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.