Og svo er það jólaskapið ...

 Það sem í mínum huga einkennir jafnan jólin er eftirvæntingin sem fylgir þeim -- og það hvernig barnið í mér nær einatt að brjótast fram í aðdraganda jólanna. Mín eigin börn hafa ýtt undir þessar tilfinningar hjá mér, því á einhvern hátt samlagast ég tilhlökkun þeirra á þessum tíma.

hestarihöm En fyrir utan ilm af rjúpu, grenilykt, jólabakstur og jólalög þá man ég líka annan ilm og önnur hljóð -- nefnilega lyktina í hesthúsunum og ánægjukumrið við heystallinn. Á þessum árstíma vorum við vön að taka hrossin úr vetrarhaganum. Það var alltaf tilhlökkunarefni að hitta aftur þessa vini sína þegar þeir voru komnir í vetrarhárin, síðfextir, úfnir og jafnvel fannbarðir -- og finna fyrir þögulli vellíðan þeirra þegar þeir voru aftur komnir á stallinn sinn með hey í jötu og yl af öðrum hestum.  Einhvernveginn komst ég aldrei í almennilegt jólaskap fyrr en hestarnir voru komnir á hús.

Nú þarf ég að tala í þátíð, því hestarnir eru ekki hluti af daglegu lífi mínu lengur - ég lét þá frá mér fyrir þremur árum (eftir fjértíu ára samfellda hestamennsku, segi og skrifa). Minningin um lyktina af þeim, lágvær hljóðin og nálægðina fyrnist seint.

Já - og svo fæst rjúpan ekki lengur, þannig að rjúpuilmurinn er líka horfinn úr lífi mínu Blush Hvað er þá eftir? Minning - minning um hefðir. Er það ekki einmitt dæmigert fyrir jólin - þau eru ein stór nostalgía.

En eitt er það sem ekki breytist og það er himininn yfir höfðum okkar - svo fremi maður sjái hann fyrir skýjum Wink Og mér finnst mikilvægt að sjá heiðan stjörnuhimin um jólaleytið.

Mikilvægast er þó að vera með fólkinu sínu - og AÐ ÞESSU SINNI ætlum við Siggi suður til barnanna í stað þess að fá allan hópinn til okkar. Leggjum í hann seinnipartinn á morgun með troðfullan bíl af gjöfum, jólaskrauti, bakkelsi, mat og ég veit ekki hverju. Bíllinn er svo troðinn að Hjörvar blessaður verður sendur á undan með flugi. 

Bara að það verði nú ferðaveður og allt gangi upp ... ætli jólaskapið velti nú ekki svolítið á því þessu jólin. Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Já, maður á margar yndislegar jólaminningar. Mér dettur í hug þegar ég fór með afa að gefa kindunum um jól, það var einhvernvegin öðruvísi og svo fengu þær alltaf aukalega. Það verður aldeilis gaman fyrir börnin ykkar að fá ykkur í bæinn, hlaðin af jóla unaði.  Hafði það sem best.

Ásdís Sigurðardóttir, 20.12.2007 kl. 22:58

2 identicon

Já þær eru margar minningarnar um jólin. Jólin eru líka tími söknuðar, þó gleðin sé ríkjandi. Ég er í gríð og erg að skreyta svo allt verði nú tilbúið þegar börn og bóndi koma innan úr Vigur þar sem þau hafa lyktað af jóltuggunni kúnna og notið rólegheita sveitalífsins. Ég oska ykkur gleðilegra jóla fyrir sunnan með börnum og ættingjum og vitna í ágætan textasmið sem ég þekki, og syng hástöfum.
::Nú gleðileg jólahátíð:: er gengin í garð.  
Jólakveðja Ninna

Ingunn Ósk Sturludóttir (IP-tala skráð) 20.12.2007 kl. 23:41

3 Smámynd: Eyþór Árnason

Góða ferð suður - og gleðileg jól.  Kveðja.

Eyþór Árnason, 21.12.2007 kl. 00:00

4 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Farðu varlega á vegunum, Ólína mín. Góða ferð suður og gleðilega jólahátíð. Kærar þakkir fyrir Vestandininn sem hélt fyrir mér ánægjulegri vöku fram á nótt. Yndisleg ljóð.

Gleðileg jól.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 21.12.2007 kl. 11:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband