Stóra lifrarpylsumálið þingfest á mánudag!

Heimilislaus maður fór hungraður inn í verslun í Reykjavík síðastliðið vor. Hann ætlaði bara að kaupa sér harðfiskbita og smjörklípu - en sá þá lifrarpylsukepp sem hann langaði mikið í, enda svangur. Hann átti ekki fyrir honum - en stóðst ekki þá freistingu að stinga lifrarpylsunni á sig. Starfsmaður verslunarinnar stóð hann að verki.

Maðurinn skilaði lifrarpylsunni og baðst afsökunar. Starfsmaðurinn tók því vel en hringdi samt í lögreglu. Í Fréttablaðinu í dag er frá því sagt að ætlun starfsmannsins hafi verið sú að útvega manninum húsaskjól  yfir nótt þar sem hann var illa til reika. En þar með varð ekki aftur snúið - lögreglan var komin í málið. Stóra lifrarpylsumálið! 

Heimilisleysingjar skulu ekki halda að samfélagið taki létt á gripdeildum þeirra - ó nei. Lifrarpylsumálið verður þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur nú á mánudaginn.Shocking

Hvers konar samfélag er það sem ekki getur horft framhjá því þegar hungraður maður teygir sig  eftir lifrarpylsukeppi? Hefur lögreglan ekkert þarfara að gera en að eltast við heimilisleysingja sem REYNIR að stela sér matarbita - en tekst þó ekki? Og hvað með tíma og tilkostnað réttarkerfisins út af máli sem þessu. Gat virkilega ENGINN sparað bæði manninum og samfélaginu angur og fyrirhöfn með því að setja málið út af borðinu?

Hvað er að? 


Verst finnst mér - svona eftir á að hyggja  - að árans keppurinn skyldi aftur hafa lent á búðarhillunni. Hann hefur vafalaust endað á haugunum um síðir, með öðrum fyrningum. Angry

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Mér detta helst í hug orðin fíflagangur og bjánagangur. Að eyða tíma í þetta, þeir ættu bara að bjóða blessuðum manninum út að borða.

Ásdís Sigurðardóttir, 7.12.2007 kl. 15:30

2 Smámynd: Helena Leifsdóttir

Ég er hjartanlega sammál þér .Þetta mál minnir mig á söguna um Oliver Twist  eini munurinn er að sagan er daglegt líf á forríka Islandi á 21 öldunni. Við vorum einmitt að ræða þetta mál í hádeginu ég og ættmæðurnar í fjölsk. Þeim fannst sárast að sá umkomulausi fékk ekki að halda lifarpylsunni sem er full af bætiefnum. Enginn þurfalingur gekk svangur til hvlíu í Geiradalnum eða í Reykhólasveitinni  þegar við vorum yngri sögðu þær!! Ja,hérna svona er Island í dag !

Helena Leifsdóttir, 7.12.2007 kl. 16:57

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég brjálast úr reiði.  Hvað er að í þessu þjóðfélagi?  ARG! Eigum við ekki að fylgjast með?

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.12.2007 kl. 17:16

4 Smámynd: Heidi Strand

Mætum fyrir framan héraðsdóm og mótmælum! Við mótmælum öll!

Heidi Strand, 7.12.2007 kl. 17:23

5 Smámynd: Þórir Kjartansson

Ef hann hefði nauðgað kassadömunni, hefði örugglega ekki þótt taka því að gera neitt í málinu.

Þórir Kjartansson, 7.12.2007 kl. 17:32

6 Smámynd: Herbert Guðmundsson

"Hann ætlaði bara að kaupa sér harðfiskbita og smjörklípu -".

Varla blankur, því harðfiskur og smjör er með því dýrasta sem hægt er að finna í matvöruverslunum hér á klakanum.

Er þetta brandari eða satíra, eða eitthvað í hvora áttina fyrir sig? Ef maðurinn átti fyrir harðfiskbita og smjörklípu, hlýtur hann að hafa átt fyrir alla vega tveim eða þrem lifrarpylsukeppum. Borgaði hann ekkert? Hafði hann ef til vil ekki efni á neinu af því sem nefnt er? Ég spyr í anda Ragnars Reykáss: Hva hva hva ...?

Herbert Guðmundsson, 7.12.2007 kl. 18:31

7 Smámynd: Kristján Magnús Arason

Hvaða máli skiptir það hvort maðurinn var svangur?  Er þjófnaður ekki samt þjófnaður?  Á að skylda verslanir til að gefa fólki matvæli ef það segist vera svangt?  Á að bjóða öllum sem eru svangir upp á spena hjá ríkinu?

Ég er mjög hlynntur því að borgarar taki sig til og uppfylli þarfir náunga síns, en það á ekki að réttlæta lögbrot.  Það skiptir litlu máli að hnuplið hafi mistekist í þessu tilfelli.  Hvað ætli þessum sama manni hafi tekist slíkur þjófnaður áður?  Nei, við fáum engar upplýsingar um það.

Kristján Magnús Arason, 7.12.2007 kl. 19:39

8 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Keppurinn verður aldrei étinn, enda orðinn "sönnunargagn" í "glæpamáli". Vissulega sorglegt.

-En ég spyr þá lögfróðu; er ekki einhver gömul fátæktarklausa í íslenskum lögum sem heimilar sveltandi manni að taka það sér og börnum sínum til matar sem forðaði þeim frá bráðu hungri? Mig hálf rámar í þetta, en vel má vera að það sé vitleysa.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 7.12.2007 kl. 20:44

9 identicon

Hefði ég verið að vinna þarna, og hann hefði beðist afsökunar þá hefði ég bara gefið honum keppinn. Borgað hann bara úr eigin vasa...

Benni (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 21:11

10 identicon

Þjófnaður er þjófnaður, það er rétt,, en hvað stendur að baki þessum þjófnaði? Hungur. Hversu fljótt er dæmt í þjófnaðarmálum, yfir leitt?  Þetta er það lúalegasta mál sem að hefur verið þingfest að mínum dómi.  Það virðist ekki vera tekið mark á afsökunum eða fyrirgefningum í dag, hvað þá horft fram hjá neyð.  Ég tek undir með Þóri Kjartanssyni, ef þetta hefði verið nauðgun,, hvað þá. Ég held að hugsun þjóðarinnar sé komin út fyrir öll mörk, og  virðing fyrir einstaklingum fyrir bí, sér staklega þeim sem eru hjálpar þurfi, eins og mér skilst á fréttinni þá vildi afgreiðslu fólkið koma einstaklingnum til hjálpar, en ekki til sakfellingar.

Ja svei.

Sigríður Svavarsdóttir (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 21:25

11 Smámynd: Blómið

Þetta er til skammar   Vissi ekki hvort ég ætti að hlægja eða gráta þegar ég las þetta í dag.

Blómið, 7.12.2007 kl. 21:28

12 identicon

Við erum líklega á svipaðri línu í þessu efni, Ólína. Ég stóðst ekki mátið heldur skrifaði svolítið um þetta á bloggið mitt í morgun:

http://hlynur.eyjan.is/2007/12/lee-reynir-freer-og-lifrarpylsan.html

Hlynur Þór Magnússon (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 21:59

13 Smámynd: Hundshausinn

Hafa ber í huga að hlutaðeigandi er margdæmdur afbrotamaður. Hann telur sig vera utan "lagarammans" sem þegar hefur verið markaður af hinu háa Alþingi Íslendinga. Í þessu tilviki kallaði fulltrúi tiltekinnar verslunar lögregluna til, kærði atvikið og krafðist refsingar. Síðan, þegar hann er spurður, hneysklast stjórnandi verlsunarkeðjunnar á viðbrögðunum í viðtali við Fréttablaðið. Hverju á að trúa eða taka mark á; kröfunni um refsingu fulltrúa verslunarinnar eða afskiptaleysi stjórnanda verslunarkeðjunnar. Skv. fréttinni mætti ætla að fátækir megi koma inn verslanir 11-11 og gæða sér á matvörunni, en í bréflegum tilkynningum til lögreglu með tilheyrandi myndbandsupptökum eru þeir kærðir fyrir þjófnaði. Hér virðist vandi vera á ferðum...

Hundshausinn, 7.12.2007 kl. 23:08

14 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæl verið þið.

Já, það er þetta með réttlætið og fátæktina. Auðvitað er þjófnaður alltaf þjófnaður - en hvað er réttvísi? Ég held við ættum aðeins að spá í það. 

Vont er þeirra ranglæti, en verra er þeirra réttlæti sagði Jón Hreggviðsson í Íslandsklukkunni. Illt er til þess að hugsa ef þau orð eiga raunverulega við enn í dag.

Nú ætla ég ekki að dramatísera mjög mikið um lífshlutskipti þessa blessaða manns. En Kolbrún kveikti aðeins í mér með því að vitna í Einar Ben hér ofar. Og í framhaldi af bloggfærslu Hlyns Þórs - þar sem hann kemur inn á líf og harma gerandans - koma mér til hugar ljóðlínur Gests Pálssonar um betlikerlinguna - einkum þó lokaorðin sem mér finnast snilld.  Ljóðið er lengra en svo að ég birti það allt, en vona samt að ég fari rétt með þessi brot (hef ekki bókina við hendina): 

Hún hokin sat á tröppu en hörkufrost var á 

og hnipraði sig saman uns í kufung hún lá 

og kræklóttar hendurnar titra til og frá

um tötrana fálma, sér hlýju til að ná. 

 ....

Og augað var sljótt sem þess slokknað hefði ljós

í stormbylnum mikla við lífsins voðaós,

það hvarflaði starandi, stefnulaust og firrt

og staðnæmdist við ekkert, svo örvæntingarmyrkt.

 ...

Hún var kannski perla sem týnd í tímans haf

var töpuð og glötuð svo enginn vissi af,

eða gimsteinn sem forðum var greyptur láns í baug

en glerbrot var hún orðin á mannfélagsins haug.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.12.2007 kl. 01:05

15 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Það eru takmörk fyrir því í lögum hvað sektir eða aðrar fjárkröfur mega vera smáskitlegar til að hægt sé að áfrýja þeim til Hæstaréttar. Það eru hins vegar engar hömlur á því hvað hægt er að draga fólk fyrir dóm fyrir smáar sakir. 

Gyðja réttlætisins er með bundið fyrir augun svo hún geri ekki mannamun. Ég er svo guðlaus að ég bið menn að taka bindið frá augunum og horfa framan í fólk sem það ætlar að dæma.

Soffía Sigurðardóttir, 8.12.2007 kl. 01:33

16 identicon

Þetta er í sama anda og ráðamenn þessarar þjóðar hafa áratugum saman komið fram við utangarðsmenn og nú geta menn hneykslast, en ekki hafa raddir fólks verið ýkja háværar á síðustu árum þegar ríkisvaldið hefur verið að loka hverjum staðnum á fætur öðrum sem hafa hýst og hjálpað þessu umkomulausa fólki og er skemmst að minnast Gunnarsholts og Byrgisins. Mér hefur reyndar fundist upp á síðkastið eins og stjórnmálamenn og almenningur sé farinn að skammast sín fyir framkomuna. 

Jón Arnarr (IP-tala skráð) 8.12.2007 kl. 04:30

17 Smámynd: Þór Sigurðsson

Hvað er þetta... reynið að sjá hina hliðina á þessu máli líka.

Það er fimbulkuldi úti og hvergi verandi fyrir útigangsfólk.

Þegar dæmt er í málinu er hann þó kominn með húsaskjól og fæði í boði ríkisins í einhvern tíma.

Það er algengt erlendis þegar fer að harna í ári að útigangsfólk fremji einhvern ómerkilegan smáglæp í augsýn þeirra sem hafa eitthvað um málið að segja til að fá húsaskjól og súpudisk.

Chill people.

Þór Sigurðsson, 8.12.2007 kl. 11:27

18 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Lifrarpylsuþjófur lætur ekki hanka sig nema í þeim eina tilgangi að tryggja sér húsaskjól.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 8.12.2007 kl. 11:49

19 Smámynd: Haffi

Öll erum við vonandi rétthá fyrir lögum, hvort sem maður keyrir um á Range Rover eða labbar um á gömlum Nike. Það á ekki heldur að skipta máli hvort þú rændir banka eða baunadós. Óþarfi að henga réttarfarið hér á landi í þessu máli.  Það ætti frekar að spyrja sig um félagslega þáttinn í þessu máli.  Það er greinilega kominn tími til hér á landi að útdeila súpu og brauðskorpu til hungraða Íslendinga.

Svo að lokum, þá fer maður aldrei í 10-11, það er allt svo fjandi dýrt þar.

Haffi, 8.12.2007 kl. 12:17

20 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta mál er með ólíkindum, og hvað ætli margir lifrarpylsukeppir eða andvirði þeirra hafi farið í súginn fyrir peningana okkar við vinnslu á þessum málaferlum ?  Ætl hefði nú ekki verið nær að gefa svöngum mönnum einhverja næringu en að standa í svona vitleysu.  Þetta er þjóðarskömm hvorki meira né minna, sýnir svo vel hverslags gildismat við höfum í þessu þjóðfélagi. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.12.2007 kl. 14:37

21 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Samúð mín er með heimilislausa ólánsmanninum sem ætlaði að hnupla einum lifrapylsukepp til að seðja hungrið.

Auðvitað ætti dómarinn að vísa málinu frá án málalenginga. 

Ágúst H Bjarnason, 8.12.2007 kl. 20:26

22 identicon

Þetta mál er nátturulega bara fáranlegt, alveg frá upphafi, og endar þannig líka. Ég er búinn að lesa allt ofangreint og margir misvitrir....Misgóðir....Misúrræða góðir.....Missamúðarfullir....Hafa ritað skoðun sína á þessari frétt.....það er kannske bara spurning hvort maðurinn hafi ekki bara forgangsraðað vitlaust....Í stað þess að ákveða að stela keppnum sem kostar einhverjar 150 kr.,......Hefði hann þá ekki bara átt að stela harðfiskinum og smérinu sem kostar um 5 - 6.000 kr kg. Ef þetta hefði átt sér á Aðfangadag, velti ég fyrir mér í hvernig þetta mál hefði farið. En það einmitt þetta mál, og mál af samskonar toga sem hljóta svona meðferð í hámenntuð samfélagskerfi okkar, sem fá mig til að staldra aðeins við og hugsa.....Bíddu...Erum við við virkilega orðin svona steinrunnin, að við getum ekki lengur orðið þeim sem ekkert hafa, og þeirra sem minna eiga, að liðsinni, látið eitthvað af hendi rakna eða satt hungur illa setts samborgara.....Vissulega er þetta röng ákvörðun hjá þessum ágæfusama og hungraða manni að stela.....En hver dæmi fyrir sig, hvenær hann er reyðubúinn að stela fyrir málstað sin. Í skalanum um veigamikil mál, þar sem fituprósenta er reiknuð út frá mikilvæginu, fer þetta mál sennilega næst Baugsmálinu.

Þór Mýrdal (IP-tala skráð) 9.12.2007 kl. 03:22

23 Smámynd: Sigurður Hólmar Karlsson

finnst þetta mál ekki ólíkt máli Jóns Hreggviðssonar sem lýst er í Íslandsklukkunni átti hann ekki meðal annars að hafa stolið snærisspotta.

Í alvöru það er til fátækt fólk á Íslandi og hefði sá peningur sem fer í þetta mál verið betur varið í að hjálpa svöngu og þurfandi fólki.Efast um að þessi málsmeðferð sé kostnaðar laus fyrir samfélagið og ekki var það búðin sem kærði. 

kv Siggi 

Sigurður Hólmar Karlsson, 9.12.2007 kl. 10:54

24 Smámynd: Sigurður Hólmar Karlsson

P.s. það er í rauninni sama hvernig fátæktin er til kominn það þarf að útrýma henni hér á Íslandi

Sigurður Hólmar Karlsson, 9.12.2007 kl. 10:56

25 identicon

Hvað er málið eiginlega? Á ekki að taka á afbrotamönnum hvort sem þeir eru svangir, þyrstir, blankir eða bara hvað sem er. Yfirleitt getur maður fundið sér afsökun fyrir gjörðum sínum hvort sem hún er léleg eða góð og gild. Vafalaust er þessi maður einn af þessum svokölluðum "góðkunningjum" lögreglunnar. Allavegana þykir mér það ansi líklegt. En að afsaka þennan verknað útfrá einhverri fátækt er hreinlega fáránlegt. Ásköpuð vesöld og aumingjaskapur hefur ávalt verið til og ástæðulaust að afsaka slíkt eða mæla því bót. Ýmsar blaðafyrirsagnir í gegnum tíðina hafa hreinlega verið stórkostlegar. Man t.a.m. eftir einni þar sem einhver guðsvolaður auminginn var að væla yfir því að hafa verið atvinnulaus í 2 ár og látið líta svo út sem við samfélagið væri að sakast. Þetta er algjörlega útí hött og löngu tímabært að fólk axli ábyrgð á eigin vesaldóm en samfélagið sé ekki að verðlauna leti og aðra lesti. Velferðarkerfið á að vera til staðar fyrir þá sem að virkilega þurfa á því að halda en ekki atvinnu vesalinga sem að misnota það á allan hugsanlegan hátt. Að sjálfsögðu á að tukta þessa menn til. Hins vegar mætti nú líka taka aðeins á hvítflibba krimmunum sem vaða uppi í þessu þjóðfélagi en það er önnur ella.

eggert (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 04:53

26 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Það eru til kynlegir kvistir hér í bæ sem löngum hafa ekki fallið inn í þjóðfélagið og gera það nánast af gömlum vana að stinga smávegis inn á sig í leiðinni þegar þeir versla fyrir sínar smátt skömmtuðu krónur frá Tryggingastofnun ríkisins. - Ég sé meira að segja af matarvalinu einn vissan einstakling fyrir mér! - . Ég held ekki að 10-11 færi á hausinn þó það leyfði gömlum (fyrrverandi) útigangsmanni að gera slíkt, snéri verra auganu að og sleppti því að kalla til lögreglu.

En lögfræðingar og aðrir í skriffinnar þurfa náttúrulega að lifa og vinna fyrir launum sínum eins og aðrir og eins og mönnum er kunnugt þá ríkir skortur á verkefnum í dómskerfinu.

Greta Björg Úlfsdóttir, 10.12.2007 kl. 09:49

27 identicon

Talandi um að stela sér til matar, en fræg er sú saga úr Hagkaup þegar fullorðin hjón mættu fyrir jólin að versla í matinn, þau voru vel til höfð og maðurinn með flottann kúptann hatt. Hattur karlsins var með myndarlegann kúf, þannig að hægt var auðveldlega að setja eitthvað inn í hattinn án þess að tekið væri eftir og hefði kallinn eflaust sloppið ef hann hefði valið sér eitthvað annað.

En þegar þau hjón mæta að kassanum til að borga fyrir þær fáeinu vörur sem í körfunni voru, líður yfir kall og hann fellur í gólfið. Við fallið dettur hatturinn af honum og út úr hattinum vellur frosinn kjúklingur.

Þetta er gömul og fræg saga sem nánast allir starfsmenn Hagkaups er sögð þegar þeir hefja störf, en segja okkur líka að það eru ekki bara fátæklingarnir sem stela sér til matar. Vissulega er sorglegt að þessi maður hafi ætlað sér að taka þennan lifrapylsukepp ófrjálsri hendi og hefði hann eflaust fengið hann gefins ef hann hefði borið sig eftir því við eiganda búðarinnar.

Og ég er í raun hissa á að lögreglan hafi farið með málið alla leið, því ekki hafa þeir verið svo viljugir að keyra "smá þjófnaði" af eldsneyti í gegnum kerfið í gegnum tíðina. En svona getur lífið verið misskipt, því miður og finn ég til með útigangsmanninum.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 13:10

28 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Þrymur.

Ég sé líka tvær hliðar á málinu - en í þessu tilviki kostar það samfélagið meira að eltast við  málið (því ekki var lifrarpylsukeppnum stolið - hann hafnaði aftur á búðarhillunni, manstu) heldur en að ná fram "maklegum málagjöldum" gagnvart gerandanum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 10.12.2007 kl. 23:04

29 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég er hrædd um að þetta mál sýni okkur einmitt að það eru ekki allir jafnir fyrir lögum. Ef stelsjúk ráðherrafrú hefði átt í hlut hefði þetta mál verið látið niður falla. Vertu viss.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 11.12.2007 kl. 12:40

30 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

#37 "Nú veit ég ekkert hvort ráðherrafrúr eru stelsjúkari en annað fólk, amk man ég ekki eftir að slíkt dæmi hafi komið upp."

...nei, auðvitað ekki, vegna þess að því var haldið fyrir neðan yfirborðið...

Greta Björg Úlfsdóttir, 15.12.2007 kl. 22:41

31 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

...nema í því tilfelli sem þú nefnir, þar sem það, eins og þú nefnir réttilega, gaf góðan höggstað á viðkomandi stjórnmálamanni...

Mig minnir að málið hafi verið leyst með því að vinkona hennar hafi tekið á sig sökina. Væntanlega hefur frúin samt pungað út fyrir sektinni. 

Greta Björg Úlfsdóttir, 15.12.2007 kl. 22:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband