"Ef marka má orð" utanríkisráðherra?
19.11.2007 | 22:50
Ekkert fangaflug hefur farið um Ísland "ef marka má orð utanríkisráðherra" sagði sjónvarpsfréttamaður RÚV í kvöld. Ég sperrti upp eyrun: Ef marka má orð utanríkisráðherra!? Hvaðan kemur fréttastofunni umboð til þess að draga í efa orð opinberra aðila - ráðherra?
Já - blogg dagsins er málfarspistill. Það hlaut að koma að því.
Reyndar efa ég að fréttamaðurinn hafi vísvitandi ætlað að bregða utanríkisráðherra um ósannindi. Ég held (vona að minnsta kosti) að hann hafi bara komist svona klaufalega að orði.
En þetta segir maður ekki nema um ótraustar heimildir sé að ræða - heimildir sem ekki er hægt að sannreyna að svo stöddu. Ef maður hefur traustar heimildir eða ummæli fyrir einhverju þá segir maður frekar "samkvæmt upplýsingum" heimildamanns eða einfaldlega "að sögn" heimildamanns (í þessu tilviki utanríkisráðherra).
Mig langar svosem ekkert til að vera eins og kennari með puttann á lofti - en þetta fór bara í mig. Kannski vegna þess að mér finnst óvenju mikið hafa verið um ambögur að undanförnu. Menn tala hiklaust um að ráðamenn "vermi sæti" í stjórnum og ráðum, og virðast ekki átta sig á niðrandi merkingu þessa orðatiltækis. Jafnvel á degi íslenskrar tungu læddist beygingarvilla inn í skrifaða ræðu menntamálaráðherra í kaflanum um málrækt "til viðgangs íslenskrar tungu".
Annars verða beygingarvillur æ algengari í fréttum - eins og menn gleymi því þegar þeir byrja setningu hvernig þeir ætla að enda hana. Á föstudag var sagt: Kjörstöðum lokaði klukkan sex. Og í dag var það: Heimasíðan Torrent.is var lokað í dag
Jæja - þetta átti nú ekki að verða neitt svartagallsraus. Okkur verður auðvitað öllum á, svona einstöku sinnum. Best þótti mér þó um árið þegar páfinn kom í Íslandsheimsókn og - að sögn ónefnds fréttamanns - "blessaði mannfjöldann og lagði hendur á börn".
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Menning og listir, Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 22:52 | Facebook
Athugasemdir
Já, og svo læddist eitt auka "um" inn í fyrstu málsgreinina hjá sjálfri mér - svo ég þurfti að leiðrétta mig eftir birtingu. Sem sýnir að allt er í heiminum hverfult - og svo bregðast krosstré sem önnur tré.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.11.2007 kl. 22:55
Getum við útilokað að þetta hafi bara ekki verið mismæli?
Minnir mig á það sem Páll Ólafsson skáld segir í bréfi til Jóns bróður síns sem líklega hefur þá verið ritstjóri Lögbergs og fjarri Íslandsströndum.
Páll segir honum frá merkilegum fundi sem hann sótti ásamt með fyrirmönnum víðs vegar að á þessu landi.
Hann nefndi þessa sveitarhöfðingja og gerði grein fyrir þeim hverjum fyrir sig.
-Þar var N. N. Dannebrogsmaður frá G....... heldur lítið gefinn maður ef trúa má hans eigin orðum!
En auðvitað var það ófyrirgefanlegt fólskuverk af páfanum að leggja hendur á blessuð börnin!
Líkt og hjá honum séra Erni Bárði forðum þegar hann var prestur í Grindavík. Málfríður kona hans er amma dóttursonar míns Orra Freys. Og eitt sinn er pilturinn kom heim úr orlofsferð til þeirra hjóna fjögra ára gamall spurði móðir hans hann að því hvað þau hjónin hefðu nú verið að gera? Ekki man ég að segja frá því hvað Fríða amma var að gera en séra Örn, "hann var að kirkja! gamla konu." Sem auðvitað merkti á máli fullorðinna að prestur var í kirkju að sinna útför þessarar gömlu konu.
Enda er ég sannfærður um að hann séra Örn Bárður léti sér ekki koma til hugar að kyrkja gamlar konur.
Árni Gunnarsson, 19.11.2007 kl. 23:58
Síðasta málsgreinin alveg brilljant. Góða nótt.
Jenný Anna Baldursdóttir, 20.11.2007 kl. 01:03
Þetta er bara skemmtilegt. (Á árlegum fundi félags latínuvina (eða hvað félagsskapurinn heitir) er eitt helsta skemmtiatriðið upplestur á rangri notkun latínufrasa sem fólk hefur notað til þess að slá um sig í ræðu og riti. Mare nostrum!)
Eitt sinn var auglýst í Morgunblaðinu að til sölu væri "góð þriggja herbergja íbúð, henni fylgir bílskúr í suðurhlíðum Kópavogs".
Fyrir nokkrum áratugum sagði þáverandi menntmálaráðherra í ræðustól að stefnt skyldi að "magnaukningu dagvistarplássa".
Hver er síðan þessi ungi sem dritar niður börnum um allt?
Magnús (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 08:44
Er ekki bara verið að gefa laumulega í skyn að ráðherrum er ekki treystandi? Á maður ekki alltaf að taka því sem stjórnmálamenn segja með fyrirvara?
Villi Asgeirsson, 20.11.2007 kl. 08:46
Stundum segir maður bara "óvart" það sem maður hugsar.
Minni á á ISG hefur oft orðað hluti á svipaðan hátt og fréttamaðurinn gerir, þá var hún reynar í stjórnarandstöðu.
Gísli Bergsveinn Ívarsson, 20.11.2007 kl. 09:05
Afskaplega þarft að ýta við fólki sem hefur af því vinnu að tala opinberlega eða birta skrif sín fyrir almenning. Heima hjá mér var einmitt verið að rifja upp málnotkun í gærkvöldi: að fara erlendis. Okkur verður ekki ljóst hversu kjánalegt þetta er fyrr en menn koma til baka úr ferð sinni, því þá hljóta þeir að koma hérlendis.
Látum vera þó menn fari út, í annarri merkingu en að fara frá Noregi til Íslands. En beina þýðingin á to go abroad er einfaldlega að fara til útlanda eða að fara utan. Undirstrika þarf að orðið erlendis er sama eðlis og úti og inni, það er að segja: táknar dvöl á stað en ekki hreyfingu til staðar.
Flosi Kristjánsson (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 10:44
Hehe, örugglega Freudian slip hjá fréttamanninum... :D
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 22.11.2007 kl. 12:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.