Fúkyrðaflaumur á fótboltavelli.

Oft er talað fjálglega um uppeldisgildi íþrótta fyrir ungmenni. Ég trúi því sjálf að íþróttaiðkun barna og unglinga geri þeim gott - enda hafa flestöll mín börn stundað íþróttir (aðallega fótbolta, bæði stelpurnar og strákarnir).

Á tveim leikjum sem sonur minn lék á móti ónefndum Reykvískum liðum nú um helgina varð ég hinsvegar vitni að framkomu og orðbragði hjá þjálfurum hinna liðanna sem fékk mig til að efast um ágæti þessa uppeldisstarfs.

Í fyrra tilvikinu stóð þjálfari reykvíska liðsins á hliðarlínunni og fór ókvæðisorðum um þjálfara ísfirska liðsins svo hátt að allir nærstaddir leikmenn beggja liða heyrðu. Skammirnar voru óverðskuldaðar og einungis settar fram í því skyni að niðurlægja og grafa undan virðingu hinna ungu leikmanna fyrir þjálfara sínum. Þetta eru þrettán ára guttar. Þeir horfðu stóreygir hver á annan. Ekki veit ég hvað þeir hugsuðu - en eitt er víst að þarna var ekki gefið gott fordæmi.

Í seinna tilvikinu stóð þjálfari reykvísks liðs á hliðarlínunni og hvatti sína menn með því að líkja þeim við feitar kellingar og viðhafði ófagurt orðbragð harðla kvenfjandsamlegt. Það var líka athyglisvert að leikmenn undir stjórn þess sama þjálfara notuðu hvert tækifæri sem gafst til þess að berja í gifsið á einum Ísfirðingnum sem handleggsbrotnaði fyrir nokkru, en fékk þó að vera inn á. Þegar móðir drengsins gerði við þetta athugasemd eftir leikinn svaraði þjálfarinn því til að sá handleggsbrotni hefði ekki mátt vera inn á hvort eð var. Það má rétt vera, en þá hefði einfaldlega átt að taka drenginn út af frekar en að skemmta sér við að pína hann inni á vellinum.

Mér líka ekki þessar uppeldisaðferðir - og vona að þær heyri til undantekninga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Orð í tíma töluð! Eitt er að hlusta á þjálfarana og annað á foreldrana. Og það læra börnin sem fyrir þeim er haft!

alla (IP-tala skráð) 3.9.2007 kl. 23:33

2 Smámynd: Björg Árnadóttir

Já þetta er alveg fáránleg hegðun. Svo skilur fólk ekkert í því af hverju börnin haga sér þegar þau apa þetta eftir. Verst er að þetta er mjög langt frá því að vera einstakt. Held reyndar að það sé undantekning að svona munnsöfnuður heyrist ekki á leikjum. Bæði hjá börnum og fullorðnum.

Björg Árnadóttir, 4.9.2007 kl. 09:00

3 identicon

Ævinlega sæl og blessuð! Ég sé enga ástæðu til að hlífa þessum Reykjavíkurfélögum og leyfa þeim að njóta nafnleyndar. Ef Víkingar eiga í hlut skal ég í það minnsta sjá til þess að þeir verði rassskelltir sem skilið eiga. Framkoma af þessu tagi er gjörsamlega óþolandi og til skammar viðkomandi einstaklingum/félögum. Dragðu sökudólgana því óhrædd út úr skápnum! kv. -arh

 PS. Bæti mér hér með á lista yfir þá sem grænir eru af öfund í þinn garð vegna Stones-tónleikanna í Lundúnum. Það sagðist góður maður geta dáið glaður af því hann hafði komist yfir að sjá bæði Rollingana og Paul McCartney á sviði. Ég verð að fresta því um óákveðinn tíma að deyja og ef rétt er að Stones hafi sagt sitt síðasta á tónleikum mun ég augljóslega aldrei geta dáið glaður - hvenær sem það nú dynur yfir....

Atli Rúnar Halldórsson (IP-tala skráð) 4.9.2007 kl. 11:07

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæl öll, og takk fyrir undirtektir.

Ég sýkna hér með Víkinga af þessu framferði, Atli Rúnar, en læt ekki meira uppi um það hverjir áttu hlut að máli - enda býst ég við að þeir taki til sín sem eiga.

En veistu, ég gæti vel trúað því að þú ættir eftir að komast á Stones - þeir virtust ekkert vera á fallanda fæti þarna í London

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 4.9.2007 kl. 16:31

5 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Einmitt Ólína, þetta eru fulltrúar við æskulýðsstarf og forvarnir.

Ég var svo heppinn að mín börn fóru frjálsíþrótta og badmintonleiðina þar varð ég aldrei var við þetta, reyndar var yngri sonur minn soldið í boltanum þá heyrði ég og sá þessa framkomu. 

Ps.Ég var aldrei stonesmaður og langar ekkert á öfundarlistann ég samgleðst ykkur að hafa séð goðin á svið.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 4.9.2007 kl. 18:37

6 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

i sviði

Högni Jóhann Sigurjónsson, 4.9.2007 kl. 18:37

7 identicon

Þetta er því miður ekki í fyrsta sinn sem ég heyri af svona framkomu knattspyrjuþjálfara. Auðvitað er þetta algjörlega óásættanleg hegðun yfirleitt og til háborinnar skammar þegar um börn er að ræða í þokkabót.

Forsvarsmenn íþróttafélaga ættu að hafa í huga að svona lagað getur hreint og beint fælt foreldra frá því að senda börn sín á æfingar. Og hver vill það? Ég held að ég sendi son minn bara í dansskóla  

Erla Rún (IP-tala skráð) 4.9.2007 kl. 21:56

8 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Noojj - hann sem er búinn að fá Liverpool-galla! Ekki dansskóla

Frekar skulum við skammast út í þjálfara sem kunna sig ekki, Erla mín

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 4.9.2007 kl. 23:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband