Löggæsla og virðing

 horseswatchtvNottingHill Á leið heim af Stones tónleikum um síðustu helgi  - já, og líka sem gestur á Notting Hill hátíðinni í London daginn áður - sá ég hve mikils virði það er að hafa vel sýnilega löggæslu og skipulagða mannfjöldastjórnun, þegar tugir og hundruð þúsundir manna streyma inn á eitt svæði eða út af því. 

Breska lögreglan er snillingur í þessu, og ég tek ofan fyrir henni. Lögregluþjónarnir eru bókstaflega allsstaðar, í áberandi endurskinsvestum með gjallarhorn að leiðbeina fólki, inni á lestarstöðvunum, við gatnamót, gangandi eða á hestbaki, og þar sem hætta er á að teppur myndist sveima þyrlur yfir og gefa löggæslunni á jörðu niðri fyrirmæli og upplýsingar um ástandið eins og það lítur út úr lofti. 

 Allt á þetta sér stað í mestu rólegheitum - mannfjöldinn líður áfram eins og lygn straumur. Laganna verðir leiðbeina og gefa kurteisleg fyrirmæli: "Ekki stöðva neðan við stigann, haldið áfram út á lestarpallinn. Það munu allir komast í lest - haldið áfram, ekki stöðva! Er Keith annars uppistandandi ennþá?" Þannig stjórna þeir með hægð og húmor, lauma út úr sér einni og einni athugasemd milli þess sem þeir stýra mannfjöldanum. Enginn æsingur, engar róstur - passað að hafa alla í góðu skapi, taka tillit til aðstæðna - og eftir hálftíma hefur mannmergðin leyst upp og allt er komið í fyrri skorður.

Íslenska lögreglan gæti margt af þeirri bresku lært - íslensk stjórnvöld gætu líka margt af Bretum lært, því það er auðséð á öllu að breska lögreglan er hvorki undirmönnuð né undirborguð. Það er íslenska lögreglan hinsvegar, og svo sannarlega ekki við hana sjálfa að sakast í því efni.

Síðast en ekki síst virðist breska lögreglan bera virðingu fyrir samborgurum sínum - og það skynjar almenningur úti þar.

Allir vita þó hvers breska lögreglan er megnug ef á þarf að halda; að á bak við kurteislegt fasið og rólyndið eru kraftar í kögglum, náungar sem eru harðir í horn að taka. Þeir eru bara ekkert að veifa því - gefa borgaranum séns, og beita ekki valdinu nema þeir þurfi. Flottir!

Ég held að ein helsta ástæða þess hve vel þeim gengur að hafa stjórn á aðstæðum þegar tugir þúsunda manna streyma út af fótboltaleikvangi eða tónleikahöll inn á eina neðanjarðarstöð sé eimmitt virðingin - kurteisin. Þeir þurfa ekki að sýna vald sitt.

Smærri lögregluumdæmi á sunnanverðu landinu ættu endilega að taka það viðhorf sér til fyrirmyndar.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þóra Sigurðardóttir

Sammála þér Ólína. Auðvitað er virðing og kurteisi númer 1, 2 og 3 hjá okkur öllum og lögreglan þarf að hafa það að leiðarljósi. Er breska lögreglan ekki vopnuð? Það viljum við ekki hér en samt er ég sannfærð um að íslenska lögreglan þarf betri þjálfun og kannski nýjar aðferðir. Það er ekki eðlilegt að 16% af þessari stétt hafi slasast í starfi á þessu ári.

En segðu mér, voru Stones ekki æðislegir

Þóra Sigurðardóttir, 1.9.2007 kl. 23:29

2 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Veistu að eftir að hafa búið hér í rúm 7 ár....tekur maður mjög eftir því hversu virðingu og kurteisi er ábótavant heima á íslandi. Þetta eru samt grunnelement í að láta samfélögin ganga vel fyrir sig.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 2.9.2007 kl. 01:14

3 Smámynd: Sævar Helgason

Hefur það ekki tekið Breta nokkur hundruð ár að móta samfélagið svona kynslóð eftir kynslóð og þar með öll samskipti svona almennt þ.a.m hina rómðu lögreglu.

Erum við ekki blaut á bak við bæði eyrun í mótun borgarsamfélags ?

Ég er ekki sanfærður um að það sé bara lögreglan hér hjá okkur sem er vandamálið. Eru uppeldismál og heildarstefna í þeim málum á traustum grunni ? Sjálfum finnst mér skorta æði mikið á í þeim efnum.

Þetta er svona innlegg í góðan pistil hjá þér ,Ólína 

Sævar Helgason, 2.9.2007 kl. 08:48

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæl verið þið og takk fyrir athugasemdir. Ég er sammála Sævari um að þjóðaruppeldi er grundvallaratriði varðandi það hvernig til tekst með grunnþjónustu og löggæslu í hverju samfélagi. Það er auðvitað helsta meinsemd okkar Íslendinga - einkum þeirrar kynslóðar sem fæddist og ólst upp á síðustu þrem áratugum síðustu aldar. Það eru börn kynslóðarinnar sem varð að vinna 14 klst á dag og allar helgar til þess að eiga fyrir daglegum nauðþurftum og afborgunum, sem ekki gat gengið að öruggri dagvistun eða samfelldum skóladegi fyrir börn sín. Lyklabörnin svokölluðu fengu ekki gott uppeldi, þótt mörg þeirra hafi  plumað sig vegna eigin verðleika. Þetta er hinsvegar þjóðarmeinsemd okkar Íslendinga, og satt að segja held ég að þarna hafi orðið ákveðinn brestur í þjóðarsálinni. Það er mín skoðun.

En Þóra, það var æðislegt að fara á Stones - er búin að setja inn færslu um þau herlegheit

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2.9.2007 kl. 09:23

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég er enn svo græn af öfund vegna Stonesferðarinnar þinnar, að ég má vart mæla og ég spyr eins og löggann; er Keit enn uppistandandi?  Híhí.  Ég fékk nærri því gæsahúð yfir lestri þessa pistils, mér finnst svo töff þegar hægt er að stjórna án hroka og yfirgangs.  Er ekki eitthvað að þegar maður þarf að lesa um svoleiðis fyrirkomulag og fara í tilfinningalegt fár yfir sama lestri?  Ég held það svei mér þá.

Góðan daginn annars, kæra bloggvinkona

Jenný Anna Baldursdóttir, 2.9.2007 kl. 09:58

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk kæra Jenný - fyrirgefðu hvað ég var sein til svars, en ég var bara að komast heim til mín (vestur á Ísafjörð þ.e.) - fórum keyrandi um hina afleitu akvegi Ísafjarðardjúps.

Góða nótt bloggvinkona - sjáumst á bloggi morgundagsins

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2.9.2007 kl. 23:35

7 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Segi nú bara eins og Jenný.: Grænn af öfund, en þó ekki svo rotinn að geta ekki samglaðst. Góður pistill hjá þér og vonandi að sem flestir taki hann til athugunar innan lögreglunnar hér heima.

Halldór Egill Guðnason, 3.9.2007 kl. 19:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband