Böggull og skammrif: Olíuhreinsunarstöð og vegabætur.

Arnarfjordur2 Fylgjendur olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum vísa einatt til þess að slíku fyrirtæki muni fylgja svo miklar samgöngubætur að Vestfirðingar hafi einfaldlega ekki efni á að segja nei takk! Þá muni þjónusta og fjarskipti lagast svo um munar með tilkomu slíkrar stöðvar. 

Hverskonar röksemdir eru þetta eiginlega?  Íbúar annarra landshluta sem þannig tala sýna okkur lítilsvirðingu með því að tala svona. Ef Vestfirðingar sjálfir trúa þessu, þá er lítilþægni þeirra meiri en ég hefði trúað. Við eigum ekki að þurfa olíuhreinsunarstöð til þess að fá hingað sjálfsagða hluti.

Góð þjónusta og greiðar samgöngur eru sjálfsagður hlutur í öllum landshlutum - og eiga að vera það hér á Vestfjörðum líka, óháð því hvort hér verður sett niður olíuhreinsunarstöð eða ekki. Hér eru atvinnuvegir og mannlíf sem verðskulda aðstöðu, samgöngur og þjónustu sem eru sambærileg við það sem gerist í öðrum landshlutum.

Vestfirðingar eiga sjálfsagða kröfu á því að sitja við sama borð og aðrir landsmenn. Þeir greiða sína skatta. Atvinnuvegirnir hér  leggja drjúgan skerf inn í þjóðarbúið, ekki síst sjávarútvegurinn.

Við eigum ekki að vera svo lítilþæg að líta á úrbætur í vegamálum sem einhverskonar "gjöf" eða "ölmusu" frá samfélaginu, og að slíkar úrbætur þurfi að tengja við umdeildar aðgerðir, eins og þegar böggull fylgir skammrifi.

Við Vestfirðingar erum þegnar í þessu landi - þetta landsvæði leggur fram sinn skerf og á að fá sinn skerf. Það er kominn tími til að menn átti sig á því.

----- 

Annars vil ég benda áhugasömum á að lesa vel rökstudda grein eftir Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðing frá í vor, en þar fjallar hann sérstaklega um umhverfisáhrif og mengun frá fyrirhugaðir olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum mun særa ímynd þeirra umtalsvert hvar sem henni verður fenginn staður. Mér er alveg óskiljanlegt hversu langt er fyrirhugað að ganga í að eyðileggja sérstæða náttúru þessa lands. Mér er líka óskiljanlegt hve illa fólki gengur að skilja það hversu mikil virði hrein orka er, og þá er ég að tala um virði í fjármunum.

Erlend fyrirtæki, jafnvel með dökka ímynd í alþjóðlegu samhengi fá hér umyrðalaust kaupsamninga á vistvænni orku fyrir smánarverð. Og það eru fáfengileg rök að ástæðan sé atvinnusköpun! Eru þá einhver dæmi um að orka sé virkjuð án þess að ábati sé í farvatninu?

Ekki verður annað séð en að öll beislanleg orka Íslands sé föl fyrir hvern þann sem sýnt getur fram á að með því skapist störf.

Af hverju eru ekki boðnir umtalsverðir fjármunir í styrki fyrir hverja þá hugmynd sem sýnilega skapar störf tengd hugviti og viðskiptafærni? 

Einhvernveginn finnst mér hin svokallaða menntun þjóðarinnar seinvirk við atvinnusköpun. 

Árni Gunnarsson, 22.8.2007 kl. 17:01

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er svo erfitt að breyta því viðhorfi sem hefur þróast í 1100 ár að það eigi að þjóta til og "bjarga verðmætunum" um leið og eitthvað birtist sem gæti gefið fljótfenginn ávinning.

Af hverju er ekki gert neitt í því að gera aðra hluti en reisa verksmiðjur og virkjanir? er spurt hér að ofan.

Af því að það stríðir gegn fyrrnefndu gróðaviðhorfi sem byggir á því að ekkert sé verðmæti nema hægt sé að vigta það í einingum þunga eða orku. Og með þessu ójafnræði á milli valkosta er það tryggt að áfram verði haldið á sömu braut.

Hvað sagði ekkii Halldór Halldórsson á dögunum? Umhverfisverndarsinnar sköpuðu ekki þau mörg hundruð störf sem þeir lofuðu, sköffuðu ekki krónu. Íslensk stjórnvöld dældu hins vegar á annað hundrað milljörðum í Kárahnhjúkavirkjun.

Niðurstaða: Það eina sem getur leyst byggðavandann er ríkisstjórn sem "skaffar" peninga í verksmiðjur og virkjanir, þannig hefur það verið og þannig hlýtur það að verða áfram.

Ómar Ragnarsson, 22.8.2007 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband