Góð verslunarmannahelgi - flott unglingalandsmót á Höfn!

Jæja, þá erum við komin heim af unglingalandsmótinu á Höfn í Hornafirði, þar sem við eyddum helginni hjónin, með Hjörvari, yngsta syni okkar og Vésteini systursyni mínum.

 Frábært mót - vel skipulagt og skemmtilegt í fögru umhverfi og þokkalegasta veðri. Þangað mættum við á fimmtudagskvöld með tuttugu ára gamla tjaldvagninn okkar sem má nú muna sinn fífil fegurri en er alltaf jafn góður til síns brúks.

P1000216 (Small) Strákarnir kepptu í fótbolta - en við "gömlu" skelltum okkur á stórmót í Hornafjarðarmanna (sem ég hélt að ég kynni, en komst að raun um að er allt öðruvísi en ég hélt). Að vísu tókst ekki að setja heimsmet í fjölda þátttakenda, en það gerði ekkert til. Þetta var frábært framtak.

 Kvöldhimininn yfir Hornafirði á fimmtudagskvöldið var svo fagur að því lýsa engin orð. Öðrumegin sólarlagið og gulli sleginn jökullinn - hinumegin tungl í fyllingu - stafalogn og skyggður sjór. Það var engu líkt. Daginn eftir var komin svolítil súld, en annars var veður gott og góður andi yfir mótsgestum.

"Mínir" drengir tóku þriðja sætið í knattspyrnu 13 -14 ára fyrir HSV og mega vera stoltir af frammistöðu sinni. Stóðu sig frábærlega vel, börðust heiðarlega og sýndu fallega takta á köflum.

Það er ótrúlega gaman að sjá hvernig þessir guttar eru að þroskast og koma til sem efnilegir fótboltamenn - þó ungir séu að árum. Þeir hafa lifað og hrærst í fótbolta frá því þeir voru sex eða sjö ára gamlir. Ég man þegar þessi sami hópur keppti í fyrsta skipti á innanhússmóti fyrir svona eins og sex árum. Þá stóðu þeir varla út úr keppnistreyjunum. Hópurinn myndaði einhverskonar hnykil eða hnoðra sem barst um völlinn í sömu átt og boltinn. Á línunni skælbrosandi foreldrar sem sáu ekkert nema sitt eigið barn.

Mikið vatn er til sjávar runnið síðan þá. Nú spila þeir og leggja upp leikfléttur - á línunni er kröfuharður þjálfari sem heldur þeim við efnið - og foreldrar sem láta til sín heyra: Fagna óspart þegar skorað er, en um leið fljótir að hvetja og hugga þegar illa gengur, bera krem á auma vöðva og finna jákvæðu hliðarnar á hverjum leik, hver svo sem úrslit hafa orðið.

Smile

 Nú fer sumarleyfinu að ljúka svona hvað úr hverju. Ég ætla að vera nokkra daga í bænum að þrífa og laga eitt og annað í gamla húsinu okkar á Framnesveginum. Dugnaðarforkurinn hún Maddý dóttir mín og kærastinn hennar hann Eyþór voru þegar byrjuð áður en við komum. Búin að pússa upp eldhúsborðið og slípa trégólfið á loftherberginu, sem er nú eins og nýtt! Blessuð "börnin" Heart

Það verður í nógu að stússast næstu daga - og um að gera að nota þá vel áður en sumarleyfinu lýkur.

 P1000225 (Small)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband